23.03.1965
Neðri deild: 58. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

140. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vestf. spurðist fyrir um það, hvort það tíðkaðist að veita mönnum ökuskírteini aftur, sem hefðu verið sviptir því ævilangt. En það mun vera svo, að í umferðarl. er heimild fyrir því, að hafi maður verið sviptur ökuskírteini ævilangt, megi þá veita honum það aftur eftir 3 ár, ef hann hefur verið reglusamur og ekki neinar sérstakar aðrar ástæður mæla gegn því og þá einu sinni. Þessi heimild hefur verið notuð um langan tíma og hún er sem sagt fyrir hendi í sjálfum lögunum.

Varðandi það atriði, sem hv. þm. vék að í sambandi við, að gert er ráð fyrir því eða sagt í frv., að það sé tilgangurinn að veita heyrnarlausu fólki rétt til þess að fá ökuskírteini, eru það ákvæðin í sjálfri 1. gr., sem skera úr um þetta og breytingin varðandi afstöðuna til þessa fólks er sú, eins og þar segir, að í stað orðanna, eins og nú er í umferðarl., að menn verði að hafa góða sjón og góða heyrn og vera nægjanlega hraustir andlega og líkamlega til þess að geta fengið ökuskírteini, komi nú, að viðkomandi hafi góða sjón, nægjanlega heyrn og sé að öðru leyti nógu hraustur andlega og líkamlega. Það kemur fram og er vikið að því, að bæði hjá nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum og reyndar annars staðar hefur á síðari árum verið farið inn á það og einnig að ég hygg í Bandaríkjunum, að menn, sem teljast í raun og veru heyrnarlausir eða með ákaflega skerta heyrn, hafa fengið ökuskírteini og það er mat manna, sem til þekkja, að þeir séu á engan hátt hættulegri í umferðinni, nema síður sé, heldur en aðrir, sem hafa fulla heyrn, og á grundvelli þessa er þetta frv. flutt og í samráði við umferðarlaganefndina, eins og vikið er að í frv.