01.04.1965
Efri deild: 61. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

140. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mál þetta er búið að fara í gegnum Nd. og felur í sér tvær breytingar á umferðarlögunum, eins og gerð er grein fyrir í grg.: Annars vegar að veita fólki með skerta heyrn rétt til ökuskírteinis, hins vegar er lagt til, að hækkaðar verði fjárhæðir skyldutryggingar ökutækja.

Fyrra málið er þannig vaxið, að samkv. núgildandi ákvæðum í umferðarlögunum eru skilyrði til þess að fá ökuskírteini að hafa góða sjón og góða heyrn og þetta hefur að sjálfsögðu hindrað fólk með skerta heyrn og heyrnarleysingja frá því að fá ökuskírteini. Nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum og reyndar í Ameríku líka, svo að við vitum til, hafa átt við sömu vandamál að glíma í þessu sambandi, að meina þessu fólki að geta fengið ökuskírteini, en málið hefur nú hjá þessum þjóðum verið rannsakað og ýtarlegar rannsóknir hafa leitt í ljós, að fólk með skerta heyrn og jafnvel heyrnarleysingjar, séu síður en svo hættulegri í umferðinni, en þeir sem hafa fulla heyrn: Það er að vísu gert ráð fyrir því, að varðandi menn með skerta heyrn verði lögð áherzla á, að þeir hafi heyrnartæki og betri kannske speglaumbúnað á bílum, sem sett yrðu ákvæði um í reglugerð, heldur en ella væri. En það kann einnig svo að vera, að þeir sem við köllum heyrnarlaust fólk, sem eru kannske fáir í orðsins bókstaflegu merkingu, geti fengið ökuskírteini og í sumum tilfellum getur þetta verið mjög mikilsvert og skapað möguleika til atvinnu, sem ella væru ekki fyrir hendi, t.d. í mörgum tilfellum í sambandi við akstur vörubifreiða eða önnur sambærileg tilvik. Mér bárust óskir um þetta frá félagi heyrnleysingja, og Brandur Jónsson skólastjóri ræddi málið við mig og að öllum upplýsingum fengnum frá þessum aðilum, sem þeir lögðu fram, þá lagði ég málið fyrir umferðarlagan. og beiddist umsagnar hennar og hún féllst á með vísun til sambærilegra reglna í öðrum löndum, að rétt væri að gera þessa breytingu, sem í þessu frv. felst.

Hin breytingin er svo ekki annað en þar er lagt til, að hækkaðar verði fjárhæðir til skyldutrygginga ökutækja í samræmi við breytt verðlag, þar sem það er talið, að núgildandi ákvæði séu ekki nægileg til þess að veita þá tryggingu, sem nauðsynleg er.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. En hitt er annað mál, að það er mjög þýðingarmikið, að málið geti náð fram að ganga fljótt vegna trygginganna og mér er ekki kunnugt um, að neinn ágreiningur sé um málið og vildi mega mælast til þess við forseta, ef mögulegt væri, að hraða afgreiðslu málsins, þannig að það geti komizt úr d., það er kannske til of mikils mælzt, í dag, því að málið þarf að fara til n., en ef fundur yrði á morgun í Sþ., þá yrði kannske haldinn hér fundur um þetta, ef n. væri búin að ljúka störfum, þannig að málinu gæti þá verið lokið. Þetta vildi ég biðja hæstv. forseta og n., sem fær málið til meðferðar, að athuga. Að svo mæltu vil ég leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni og hv. allshn.