29.04.1965
Efri deild: 75. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

140. mál, umferðarlög

Frsm. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Allshn. hefur yfirfarið þetta frv. og rætt það við hlutaðeigandi aðila, fyrst og fremst lögreglustjórann í Reykjavík sem formann milliþn. í umferðarmálum og umferðarnefndar og við formann Félags íslenzkra bifreiðaeigenda. N. hefur rætt þetta mál á fjórum fundum. Eins og fram kom í ræðu hæstv. dómsmrh. við 1. umr. málsins hér í hv. þd., er hér aðeins um tvö atriði að ræða úr umferðarlögunum, sem lagt er til að breyting verði gerð á, en það er, að í fyrsta lagi verði nokkuð rýmkuð þau ákvæði, sem gilt hafa varðandi heyrn bifreiðastjóra og það talið réttlætanlegt með hliðsjón af reynslu nágrannalanda í þeim efnum, að það muni ekki vera um þá hættu að ræða, sem kannske í fljótu bragði virðist vera, að slíkir aðilar eða bifreiðastjórar yrðu til, þótt ekki hefðu fulla eða nægjanlega heyrn að dómi núgildandi lagaákvæða, eins og þau hafa verið.

Allshn. var sammála um, að í stað orðanna „nægjanleg heyrn“ væri eðlilegt, að um heyrnina yrði ekkert sagt, heldur yrði það á valdi hlutaðeigandi sérfræðinga að meta það, hvort um nægjanlega heyrn væri að ræða, þar sem það hugtak, „nægjanleg heyrn“, væri svo teygjanlegt, að erfitt mundi að marka það með lagasetningu. Þessi afstaða n. kemur fram í brtt., sem hún gerir á þskj. 526.

Í öðru lagi fjallar frv. þetta um all mikla hækkun og stórt stökk í hækkun fastatrygginga bifreiða og þótti mörgum, að þarna væri um allmikið stökk að ræða. En samkv. upplýsingum þeirra aðila, sem n. hefur rætt við, er talið, að það hafi sýnt sig í þeim óhöppum, sem hafa hent í umferðinni á undanförnum árum, að sízt muni þar ofgert, miðað við núgildandi verðlag, en eðlilega verður mönnum þá að hugsa, hvort ekki hafi verið þarna nokkuð lágt farið undanfarin ár, en um það atriði fjallar frv. að sjálfsögðu ekki.

Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til grg. frv. og eins og fram kemur í nál. á þskj. 525, þá mælir n. með samþykkt frv. með þeirri breyt., sem um ræðir á þskj. 526.