03.12.1964
Efri deild: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

5. mál, verðtrygging launa

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft til meðferðar frv. það, sem hér liggur fyrir, og eins og nál. á þskj. 118 ber með sér, hefur n. orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Efnishlið þessa frv. er hv. þdm. kunn og sé ég ekki ástæðu til þess að ræða hana. En það er eitt atriði í sambandi við athugum n. á málinu, sem ég aðeins vildi drepa á, enda þótt n. hafi að öðru leyti orðið sammála um það, eins og ég nefndi, að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt En ég hafði hreyft því við 1. umr. málsins, að ég teldi betur fara á því, að fyrirsögn frv. væri: „frv. til l. um greiðslu verðlagsuppbóta á laun“ eða eitthvað þess háttar, í stað þess að frv. er kallað: „frv. til l. um verðtryggingu launa“. Þetta atriði var nokkuð rætt í n., og voru allir nm., sem viðstaddir voru á fundinum, en þar á meðal voru allir fulltrúar hv. stjórnarandstöðu, sem í n. eiga sæti, sammála um, að það væri til bóta að breyta fyrirsögn frv., og hafa sumir einstakir nm. meira að segja lagt á það áherzlu, að þetta kæmi fram í framsögn. En ástæðan til þess, að við flytjum þó ekki brtt. um þetta, er sú, að eins og kunnugt er, er frv. staðfesting á samkomulagi, sem gert var á s.l. vori milli atvinnurekenda og launþega, og eins og ég man að einn hv. nm. sagði á nefndarfundi, þá er hér í rauninni um meira en orðalagsbreytingu að ræða, það mundi verða um efnisbreytingu að ræða, því að greiðsla verðlagsuppbóta á laun er ekki það sama og verðtrygging launa. M.a. með tilliti til þess þótti okkur ekki rétt að gera þessa breytingu, nema áður væri borið undir aðilana að þessu samkomulagi. En með tilliti til þess, að lögð hefur verið talsverð áherzla á það, að afgreiðslu málsins yrði flýtt, töldum við ekki tíma til slíks, og þess vegna hefur ekki orðið úr því, að við flyttum slíka brtt. En ég vildi láta það koma fram, að þetta var sameiginleg skoðun nm., þeirra sem á fundinum voru, á þessu máli.

Það kynnu e.t.v. einhverjir að spyrja sem svo: Hvers vegna er ekki á sama hátt hægt að tala um verðtryggingu launa eins og talað er um verðtryggingu höfuðstóls, verðtryggingu sparifjár og fram eftir þeim götunum? En þetta er ekki það sama. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að hægt sé að tala um verðtryggingu höfuðstóls. Ef við hugsum okkur t.d., að maður kaupi nýútgefin skuldabréf ríkissjóðs, þá fær hann fjárhæðina eftir ákveðinn tíma greidda með verðlagsuppbótum, og sá hinn sami getur þegar í stað ráðstafað þessum peningum til kaupa á bil eða einhverju öðru. Hann þarf ekki að eiga nein eftirkaup við þjóðfélagið. Öðru máli gegnir um launþegann, sem fær greiddar vísitöluuppbætur. Það er í fyrsta lagi svo, að uppbætur eru miðaðar við vísitölu mánaðarins á undan því að þær koma til framkvæmda, svo að fyrsta skilyrðið fyrir því, að þarna sé um raunverulega verðtryggingu launa að ræða, mundi vera það, að verðlagið héldist óbreytt þennan mánuð, og ekki nóg með það, það þarf að haldast óbreytt næstu 3 mánuði, þangað til nýjar vísitöluuppbætur koma til framkvæmda. En ef verðbólguþróunin er ör, fer því auðvitað fjarri, að þessu skilyrði sé fullnægt, eins og reynsla undanfarinna ára sýnir líka í þessu efni. Hitt er svo annað mál, að auðvitað er tilgangur þessa frv. sá að stuðla að verðtryggingu launa.

Við 1. umr. þessa frv. bar allmikið á góma hina stjórnmálalegu hlið þessa máls, hvort viðreisnarstjórnin og þeir flokkar, sem hana styðja, hafi hlaupið frá þeirri stefnu, sem þá var haldið fram. Ég tel ekki rétt, þótt ekki væri nema vegna þess, að hér er um að ræða framsögu fyrir sameiginlegu nál., að ræða þessa hlið málsins frekar, par sem vitað er um, að um það er ágreiningur, enda var hún allýtarlega rædd við 1. umr., og þó að skoðanirnar hafi kannske ekki samrýmzt við þær umr., hygg ég, að flest þau sjónarmið, sem máli skipta, hafi þar komið fram, m.a. í ræðum hæstv. forsrh. og öðrum þeim ræðum, sem þá voru fluttar, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að rifja þann þátt upp.

Hins vegar tel ég rétt að fara örfáum orðum um eitt mikilvægt atriði í þessu sambandi, nefnilega spurninguna um það, hvort líklegt sé, að þetta frv., sem hefur þann tilgang að verðtryggja laun, nái þessum tilgangi. Mér skilst, að það sé það atriði málsins, sem í rauninni mestu máli skiptir, og mun ég þar leitast við að halda mig aðeins að almennum sannindum í þessu efni, sem eins og málið kemur fyrir sjónir a.m.k. ætti í rauninni ekki að vera ágreiningur um.

Eins og ég held að ég hafi minnzt á í þeim orðum, sem ég sagði hér við 1. umr., tel ég, að það hafi verið alveg réttilega til orða tekið og snert mjög kjarna málsins, þegar einn þm. Sjálfstfl., sem sæti átti hér á þingi á síðasta kjörtímabili, komst þannig að orði, að vísitölukerfið væri eins konar sjálfvirkur verðbólguhreyfill í hagkerfinu. Þetta tel ég engum vafa undirorpið, og hvað sem liður spurningunni um skoðanaskipti einstakra manna og einstakra flokka, þá á þetta atriði að mínu álíti jafnt við í dag eins og það átti við þá. En þó að þessi hreyfill sé fyrir hendi og megi segja, að hann sé endurreistur með þessu frv., þá er auðvitað ekki nauðsynlegt, að hann sé settur í gang. Það verður ekki nema einhverjar utanaðkomandi orsakir komi til, sem verðbólgunni valda. Og nú hygg ég í rauninni, að þessi sannindi séu flestum launþegum í sjálfu sér ljós, að vísitölukerfið er þeim engin kjaratrygging, nema því aðeins að verðbólgunni sé haldið í skefjum, enda sýndi reynslan þetta líka glöggt þann langa tíma, sem vísitölukerfið var hér við lýði. Ég hygg, að flestir launþegar finni í rauninni, að því er þetta snertir, hve feitt er á stykkinu. Nei, en þau skynsamlegu rök, sem að því hníga, að margir launþegar eru eftir sem áður þeirrar skoðunar, að vísitölufyrirkomulag í launagreiðslu sé þeim trygging, eru fólgin í því, að þeir telja, að með vísitölukerfinu sé stjórnarvöldunum veitt aðhald um það að halda verðbólgunni í skefjum. Nú er það vissulega svo, að stjórnarvöldin ráða yfir mjög þýðingarmiklum þáttum verðlagsins, eins og peningamálunum og fjármálunum, og skiptir það auðvitað miklu máli, hvernig þeim málum er stjórnað. Nú er það bæði það, að traust margra launþega á stjórnarvöldunum getur verið takmarkað, eins og gengur, en þar að auki kemur það til, að mikill þrýstingur er ávallt á stjórnarvöldin um það að ráðast í verklegar framkvæmdir af ýmsu tagi o.s.frv. En til slíkra framkvæmda þarf að afla fjár með sköttum eða á annan hátt. Þó að launþegunum sé Ijós nauðsyn verklegra framkvæmda eins og öðrum borgurum þjóðfélagsins, — ég hygg, að þar sé ekki neinn munur á, — þá er það þó mannlegt að vilja ekki gefa stjórnarvöldum algert sjálfdæmi í þessu efni, þannig að launþegarnir verði ófúsir á að semja til langs tíma, nema þeir hafi tryggingu af þessu tagi, þó að raunverulega sé hún ekki í öðru fólgin en því að gefa stjórnarvöldunum umrætt aðhald. Og takist að öðru leyti að halda verðbólgunni í skefjum, er vel hugsanlegt, að vísitölukerfið geti átt sinn þátt í því að efla vinnufriðinn í landinu og hafi að öðru leyti hagstæð áhrif.

En það er eitt, sem ekki má að mínu álíti gleymast í þessu sambandi, en það er, að þó að stjórnarvöldin að vísu ráði þannig ótvírætt yfir mjög mikilvægum þáttum verðlagsins, ráða þau ekki öllu í þeim málum. Verðbólgan getur orsakazt af öðru en því, að stjórnarvöldin hrindi henni af stað með mikilli fjárfestingu og of miklum útlánum af hálfu bankanna. Má þar nefna tvennt: Í fyrsta lagi, — og það á sér í lagi við um þjóðfélag, sem í svo ríkum mæli sem okkar þjóðfélag er háð utanríkisviðskiptum, — þá getur verið um að ræða verðhækkanir erlendis, sem hafa svo áhrif til hækkunar á verðlagið hér. Það má t.d. nefna sem dæmi, að fyrir tveimur eða þremur árum gekk fellibylur yfir Kúbu og jafnhliða því var uppskerubrestur á kaffi í Brasilíu. Þetta olli því, að nauðsynjavörur, eins og bæði sykur og kaffi, komu til að þrefaldast í verði á heimsmarkaðinum. Hér er auðvitað um utanaðkomandi orsakir að ræða. Þessar vörur verða dýrari en áður. Það þarf að fórna meiru til þess að geta haldið uppi neyzlu þeirra, og úr því verður út af fyrir sig ekki bætt með vísitölufyrirkomulagi. Þess vegna hefur það sjónarmið komið fram í þessu sambandi, að ef vísitölufyrirkomulag ætti að taka upp, væri eðlilegt að undanþiggja þær verðhækkanir, sem væru af erlendum uppruna. Nú er það hins vegar svo, að bæði mundi vera erfitt að fá launþegana til að fallast á slíkt, og í öðru lagi tel ég, jafnvel þó að launþegasamtökin fengjust til að fallast á slíkt, að allmiklir framkvæmdaörðugleikar væru á því fyrirkomulagi, en of langt mundi þó leiða hér að gera grein fyrir því. En annars má á það benda í þessu sambandi, að heimsmarkaðurinn er stór og á friðartímum er ekki svo mikil hætta á almennum, skyndilegum verðhækkunum þar, svo að ef rétt er af öðrum ástæðum talið að taka vísitölufyrirkomulagið upp, er það mín skoðun þrátt fyrir þetta, að þá áhættu beri að taka, sem ég nú hef minnzt á.

En þá vil ég að síðustu nefna annað atriði í þessu sambandi, sem ekki er það lítilvægasta, og það er sá þáttur verðlagsmálanna, sem launþegasamtökin sjálf geta ráðið eða haft mikil áhrif á, því að ekki getur það farið milli mála, að hið mikla kaupgjald og þróun þess er mikilvægur þáttur í verðlagsmálunum. Það er skiljanlegt, að launþegasamtökin vilji veita ríkisvaldinu aðhald um það að gera sitt til þess að koma í veg fyrir, að verðbólguskrúfan fari í gang, ef svo mætti segja. En til þess að svo megi verða og til þess að vísitölufyrirkomulagið geti orðið raunveruleg verðtrygging, þarf auðvitað því skilyrði líka að vera fullnægt, að verðbólgunni sé ekki ýtt af stað með öðrum aðgerðum. Þess vegna er það mjög eðlilegt og að mínu álíti meira að segja nauðsynlegt, eins og m.a. kom skýrt fram í seinni ræðu hæstv. forsrh. við 1. umr. málsins, að mjög náið samband hefur einmitt verið milli þess, að ríkisstj. léði máls á því að taka vísitölufyrirkomulag upp, og þeirra krafna um grunnkaupshækkanir, sem gerðar hafa verið af launþegasamtökunum. Launþegasamtökunum stóð til boða um s.l. áramót, að vísitölufyrirkomulag í einhverri mynd yrði tekið upp að nýju. Það varð þá ekki, vegna þess að kröfurnar um grunnkaupshækkanir voru svo miklar, að ef koma hefði átt að verulegu leyti til móts við þær, hefði verið sýnt, að það að taka jafnframt upp vísitölufyrirkomulag hefði leitt á skömmum tíma til meira eða minna óstöðvandi verðbólgu. Þess vegna varð ekki af því þá. En á s.l. vori voru aðstæður breyttar í þessu efni. Eins og kunnugt er, stilltu launþegasamtökin þá kröfum sínum um grunnkaupshækkanir í hóf gegn því að fá vísitölufyrirkomulagið. Nú er að vísu ekki svo, að þó að ekki yrði um miklar beinar grunnkaupshækkanir að ræða, fengu verkalýðsfélögin út úr þeim samningum verulegar kjarabætur, og má vel vera, að í því efni hafi verið teflt á tæpt vað. En það, sem var aðalatriðíð þá og hlýtur einnig að verða aðalatriðið í framtíðinni, er þetta, að málin voru þá a.m.k. rædd á þeim grundvelli, að hliðsjón væri fyrst og fremst höfð af því, hvaða grunnkaupshækkanir atvinnuvegirnir gætu borið, án þess að það þyrfti að leiða til almennra verðhækkana. En það er annað mál, að slíkt getur auðvitað verið álitamál á hverjum tíma, hvað þessar hækkanir megi verða miklar, og erfitt að samræma skoðanir aðila í því efni. En aðalatriðið er það, að málin séu þó rædd á þeim grundvelli, og ef framhald verður á þeirri stefnu, sem mörkuð var í þessu efni á s.l. vori, þá tel ég, að gera megi sér góðar vonir um, að þetta frv. nái þeim tilgangi, sem því er ætlað. Verði hins vegar stefnubreyting í því efni og reynslan sýni, að í sama far sæki, eins og því miður hefur verið oft áður, horfir þetta mál öðruvísi við. Þá mundi það vísitölufyrirkomulag, sem hér er lagt til að upp verði tekið, ekki veita launþegunum þá verðtryggingu, sem til er ætlazt, og þá er auðvitað hætta á því, þegar þessum verðbólguhreyfli er komið inn í hagkerfið, að það geti leitt til meiri eða minni vandræða. En úr því, hver framvindan verður í þeim efnum, getur reynslan ein auðvitað skorið.