03.12.1964
Efri deild: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

5. mál, verðtrygging launa

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka n. fyrir skjóta og velviljaða afgreiðslu þessa máls. Það, sem veldur því, að ég kvaddi mér hljóðs, eru ummæli hv. frsm. um hugsanlega breytingu á fyrirsögn frv. Hv. frsm. sagði, að n. hefði verið sammála um, að eðlilegt væri að breyta fyrirsögninni, en fallið frá því vegna þess, að í þeirri breytingu að kalla frv. um verðlagsuppbót fælist efnisbreyting, sem n. vildi ekki gera nema með samþykki eða a.m.k. að fengnu áliti þeirra aðila, sem gerðu þá samninga í sumar, er liggja til grundvallar frv.

Nú viðurkenni ég aths. hv. frsm., þær er hann flutti fram við 1. umr. og mér skilst að nm. hafi fallizt á, að e.t.v. nái frv. ekki þeim tilgangi að veita fullkomna verðtryggingu launa, vegna þess að þar sýnast fleiri atriði koma til greina. Þetta skilst mér vera kjarni í því, sem hv. frsm. heldur fram. En það haggar ekki því, að tilgangurinn er að reyna að ná þessari verðtryggingu, og skuldbindingarnar til að ná þeim tilgangi eru ekki aðrar en þær, sem felast í 1.— 6. gr. frv., og um efni frv. er sagt í meginmáli þess, en út af fyrir sig ekki í fyrirsögninni, sem kann að lýsa frómum tilgangi að áliti hv. frsm. og n., en hefur ekki í sér fólgna neina efnisskuldbindingu umfram það, sem meginmál frv. kveður á um. Það er svo að vísu rétt, að í samningnum, sem gerður var í sumar, hét sá þáttur, sem hér skiptir máli, „verðtrygging kaupgjalds“, og fyrsta setningin í þeim kafla hljóðar:

Ríkisstj. beitir sér fyrir því, að verðtryggingu kaupgjalds sé komið á með lagasetningu.“

Þetta er að vísu sá tilgangur, sem menn eru að reyna að ná. En síðan er í samningnum í vor kveðið á um, hvernig þessari verðtryggingu eigi að ná, og frv. er byggt á þeim ákvæðum, sem þar eru sett fram, og engin aths. hefur komið fram um eða heyrzt, að efni frv. nái ekki því efni, sem í vor var um samið. Þess vegna skil ég í raun og veru ekki, að það mundi hafa nokkra efnisbreytingu í för með sér, þó að heiti frv. væri breytt. Mér er ofvaxið að skilja það. Hitt er svo annað mál, og það er rétt, eins og ég segi, að það getur verið, að heitið að nokkru leyti gefi meira í skyn en sjálfur samningurinn og frv. geti efnt. En það hefur mönnum verið ljóst frá fyrstu tíð, að hér er frekar um að ræða tilgang, viðleitni, heldur en formlega skuldbindingu. Ég held þess vegna, að það skipti sáralitlu máli, hvort menn breyti fyrirsögninni eða ekki. Hv. frsm. hefur vakið athygli á því, sem máli skiptir, að þarna er um að ræða tilgang og viðleitni, sem ekki er hægt að tryggja með slíkri lagasetningu, og það er ánægjulegt, að nefndin skuli öll hafa fallizt á þann skilning, og því er ég út af fyrir sig sammála. En ég held, að það hefði engu breytt um efni málsins, þó að menn vildu taka upp það heiti að kalla frumvarpið frv. til l. um verðlagsuppbót, þetta komi allt í einn stað niður. Það er efni frv., sem kveður á um þær skuldbindingar, sem í því felast, en ekki sjálft heiti þess, sem er of óákveðið til þess að geta falið í sér nokkra lagalega skuldbindingu.