08.12.1964
Efri deild: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

89. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti, Í núgildandi l. um erfðafjársjóð er gert ráð fyrir, að honum skuli varið til lána og styrkveitinga til þess að koma upp vinnuheimilum, vinnustofum og til kaupa á vinnuvélum fyrir öryrkja og gamalmenni í því skyni, að starfsgeta þeirra geti komið að sem fyllstum notum. Þessi upptalning í l. er tæmandi og ekki heimilt að fara út fyrir hana: Hins vegar hefur verið komið upp nú stofnun til þess að reyna að þjálfa fólk, öryrkja og gamalmenni, til vinnu frá því sem áður var og þessi stofnun hefur þegar unnið talsvert mikið og gott starf í þessu skyni. Hins vegar hefur ekki verið heimilt samkv., eins og þau nú eru, að veita þessari stofnun styrk eða lán til starfsemi sinnar og til þess að koma upp þeirri aðstöðu, sem nauðsynleg er í þessu skyni. Hér er lagt til, að í staðinn fyrir, að sjóðurinn skuli lána og styrkja vinnuheimili og vinnustofur og til kaupa á vinnuvélum, skuli tekið upp í l. að koma upp vinnuheimilum og öðrum stofnunum fyrir öryrkja og gamalmenni í þessu sama skyni, þannið að í viðbót við vinnustofur og vinnuvélar er lagt til að koma upp öðrum stofnunum, sem hafi sama markmið.

Það er enginn vafi á því, að þetta starf, sem unnið hefur verið til þess að nota betur en áður var mögulegt, starfsgetu öryrkja og gamalmenna, er gott starf og það ber að styrkja. Og ríkisstj. telur, að þessi endurhæfingarstöð, sem verið er að koma upp í þessu skyni, sé í eðli sínu sams konar og vinnustofurnar og vinnuvélarnar, sem gert er ráð fyrir að styrkja vegna þess fólks. Það er því lagt til, að þessu verði breytt þannig, að opna möguleikana fyrir því að taka þessa endurhæfingarstöð inn sem styrkhafa og að það megi veita henni lán til starfseminnar. Um erfðafjársjóðinn má segja það, að hann hefur talsvert mikið handbært fé, svo að starf hans að öðru leyti til þess að styrkja þær eiginlegu vinnustofur ættu ekki að þurfa að skerðast neitt, þótt þessi endurhæfingarstöð verði tekin inn í kerfið.

Ég ætla, að ég þurfi ekki að hafa um þetta fleiri orð, en leyfi mér að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr: og félmn.