03.12.1964
Efri deild: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

5. mál, verðtrygging launa

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til frekari skýringar á því, sem ég átti við, er ég talaði um efnisbreytingu á frv., því að vel má vera, að ég hafi ekki notað heppilegt orðalag. En þegar ég talaði um efnisbreytingu, átti ég nú fyrst og fremst við það, að verðtrygging væri annað en greiðsla verðlagsuppbóta: Hitt held ég, að hafi ekki ríkt neinn misskilningur um á fundi n., að annað og meira felst ekki í frv. heldur en skuldbinding um það að heimila greiðslu vísitöluuppbóta. Enda býst ég við því, að ef hv. 4. þm. Norðurl. e., sem staddur var á fundinum, hefði lagt þann skilning í það, að í frv. fælist efnislega, að ríkisstj. ætlaði sér að verðtryggja laun, þá hefði hann ekki á þessa breytingu fallizt. Annars er það mjög gott, að þessar aths. komu hér fram hjá hæstv. forsrh., því að kynni svo að fara, að einhver ágreiningur yrði um þetta efni, þá á það að liggja ljóst fyrir af þeim umr., sem hér hafa orðið, hvað það er, sem hér er raunverulega um að ræða.