08.12.1964
Efri deild: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

89. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég hef síður en svo, nokkuð að athuga við þá breytingu, sem hér er ráðgerð og er henni meðmæltur. En í sambandi við þetta mál vildi ég aðeins benda á, hvort ekki geti komið til athugunar að skipta erfðafjársjóðnum niður í deildir, þannig að í hverri sýslu væri geymdur og ávaxtaður sá erfðafjársjóður, sem til félli í þeirri sýslu og hann væri síðan til ráðstöfunar í þeirri sýslu í þeim tilgangi, sem lögin greina. Ég skýt þessu aðeins fram hér til athugunar. Það má vel vera, að þetta sé óraunhæft, vegna þess að það sé talið svo lítið fé, sem kemur í heild í erfðafjárskatt og erfðafé, sem fellur til ríkisins, að það sé ekki til skiptanna og í annan stað má vera, að í sumum sýslum falli svo til ekkert erfðafé eða erfðafjárskattur til. Mér er þetta ekki ljóst. Ég þekki það ekki. Ég hef ekki veitt því athygli, hvort það er í einhverjum skýrslum, sem hér hafa verið lagðar fram eða þá að ég hef ekki eftir því tekið. Mér skildist þó á því, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að í erfðafjársjóði væri til talsvert handbært fé.

Nú má vel vera og ég efast ekki um það, að fé úr sjóðnum hafi að einhverju leyti verið lánað t.d. til elliheimila eða ellideilda úti á landi. Ég veit það ekki. En það er vitaskuld, að þar er á mörgum stað mikil þörf fyrir fé í þessu skyni, til þess að koma upp ellideildum og standa undir þeim í sambandi við sjúkrahús og til þess að koma upp öryrkjavinnustöðvum. Ég nefni þetta hér aðeins í því skyni, að nefnd sú, sem fær þetta frv. til meðferðar, gæti, ef hún vildi, tekið þessi atriði til athugunar. En ég get ekki neitað því, að ýmislegt finnst mér mæla með því, að þetta fé væri ekki dregið út úr þeim héruðum, sem það fellur til í. En ég bendi á þetta, af því að ég á ekki sæti í þeirri nefnd, sem fær þetta frv. til meðferðar, en tek aftur fram, að ég hef ekkert að athuga við þá breytingu, sem felst í þessu frv., álít hana stefna út af fyrir sig í rétta átt og vel má raunar vera, að finna mætti fleiri verðug verkefni fyrir erfðafjársjóðinn, sem setja mætti á bekk með þessum, sem þarna eru talin, þó að ég á engan hátt vilji gera lítið úr þeim, síður en svo.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri.