26.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Frsm. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. hefur gert grein fyrir, varð ekki samstaða í fjhn. um afgreiðslu þessa máls. Við í minni hl., hv. 1. þm. Norðurl. e., hv. 4, þm. Norðurl. e. og ég, teljum þetta frv. ekki nægilega undirbúið og leggjum til, að því verði visað frá og fái þá rækilegri athugun

Verðbólguvandamálin eru vissulega erfiðust vandamála í íslenzku efnahagslífi um þessar mundir, og sannleikurinn er sá, að það er næsta sjaldgæft og raunar allt of sjaldgæft, að þessi vandamál séu rædd hér á Alþ. Að vísu er oft komið inn á þessi mál með heldur leiðinlegum hætti. Þegar hæstv. ríkisstj. hefur borið fram eitthvert af sínum bráðabirgðaúrræðum gegn dýrtíðinni og þau koma hér til umr., ber þessi mái auðvitað á góma, en þá jafnan á þann hátt, að hv. liðsmenn ríkisstj. þurfa þá að berja sin mál í gegn, og gefur það heldur slæman grundvöll fyrir góðar, efnislegar umr. um þetta stórfellda vandamál. Það er vissulega sjaldgæft, að af hálfu hv. stjórnarliða séu fluttar jafnvandaðar ræður um þetta vandamál eins og nú hefur verið flutt af hv. 8. þm. Reykv., — ræða, sem ég get í ýmsum atriðum verið algerlega sammála, þó að mér þyki það að sjálfsögðu óprýði fyrir hana, að hann skyldi vera að sletta úr klaufunum í okkur framsóknarmenn á stöku stað.

Hæstv. fyrrv. forsrh., Ólafur Thors, sagði eitt sinn, að allt annað væri unnið fyrir gýg, ef ekki tækist að stöðva verðbólguna, svo mikið lagði hann upp úr úrlausn þessa vandamáls. Verðbólgan hefur í för með sér óeðlilega eignatilfærslu í þjóðfélaginu, leiðir til minni sparnaðar, og hún leiðir til mikillar ófullnægðrar lánaeftirspurnar, eins og hv. síðasti ræðumaður hefur gert glögglega grein fyrir. Vextirnir, jafnvel þeir háu vextir, sem hér hafa tíðkazt á undanförnum árum, nægja ekki allir einu sinni til þess að vega á móti verðfallinu oft og tíðum. Um það held ég varla, að séu skiptar skoðanir, að verðtrygging getur verið og á að vera gott vopn, ef henni er rétt beitt gegn þessum vanda. En ég er hins vegar sammála síðasta ræðumanni og öðrum um það, að hún ein út af fyrir sig er ekkert einhlítt vopn gegn þessum vanda. Með verðtryggingu fjárskuldbindinga er oft gerður munur á tvenns konar tilgangi hennar: Annars vegar að minnka fjárfestingu með því að minnka lánaeftirspurn og hins vegar með því að auka framboð sparifjár með þessum hætti, þar sem sparifjáreigandinn fær aukið öryggi um eignir sínar. Auðvitað eru bæði þessi atriði nátengd og eru að víssu leyti tvær hliðar á sama máli, en þó er það í þessu máli eins og í mörgum fleiri, að það er ekki alveg sama, hvernig að málinu er komið. Það er dálítil spurning um hugarfar, hvorri þessara tveggja hliða menn vilja leggja mest upp úr. Eins og hv. síðasti ræðumaður gerði ýtarlega og vel grein fyrir, eru þessar hugmyndir ekki nýjar hugmyndir um verðtryggingu fjárskuldbindinga, og eins og hann gerði grein fyrir — hefur m. a. af hálfu þm. Framsfl. og ekki sízt af hálfu þeirra verið fluttar hér till. um það, að kannað sé, með hverjum hætti megi verðtryggja sparifé. Auðvitað hefur okkur alltaf verið það ljóst, að sparifé er að sjálfsögðu ekki hægt að verðtryggja, nema einhverjar aðrar fjárskuldbindingar séu verðtryggðar á móti, en þarna er þá aftur spurningin um það, hvorum megin menn vilja fara í þetta mál, og þess vegna legg ég áherzlu á það, að við höfðum jafnan talið, að það ætti að skoða málið út frá því sjónarmiði, hvernig væri fært að verðtryggja spariféð.

Nú er það svo, að þessar till. hafa nú á seinni árum ekki fengið neinn hljómgrunn hjá hv. meiri hl. á Alþ. og hafa ekki verið afgreiddar. Af því hefur aftur leitt það, að sú athugun, sem þær hafa gert ráð fyrir að færi fram, hefur ekki farið fram, með þeim afleiðingum, að þegar svo á að afgreiða frv. hér af þessu tagi, er það svo illa undirbúið og óaðgengilegt, að ekki verður viðunandi talið. Það er sannast að segja alls ekki ljóst mér, eftir að hafa kannað þingskjöl þessa máls vandlega og þær umr., sem um það hafa farið fram í hv. Nd., nokkuð, hvað vakir fyrir mönnum með frv. þessu. Eins og því er lýst, hvernig það eigi að framkvæmast, verð ég því miður að segja, að það gefur mér ekki mikil fyrirheit um þann árangur, sem að átti að stefna. Dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri hefur gert grein fyrir því í hv. fjhn. Nd., að það, sem fyrir mönnum vaki með frv. þessu, sé í fyrsta lagi að koma á verðtryggingu á sjóði líftryggingafélaga og lífeyrissjóða, í öðru lagi að koma á verðtryggingu á lán opinberra fjárfestingarsjóða, í þriðja lagi að koma á verðtryggingu í fjárskuldbindingum manna á milli með sérstökum heimildum Seðlabankans og í fjórða lagi verði gerðar tilraunir til þess smám saman að koma á verðtryggingu á sparifé. Einhverjir af nm. f hv. fjhn. Nd. skildu þetta þannig, að seðlabankastjórinn hefði lagt áherzlu á þessa líði í þessari röð. Hins vegar hefur síðar borizt leiðrétting frá seðlabankastjóranum um það, að hann telji það ekki hafa neina þýðingu, í hvaða röð þessir hlutir voru nefndir, en það skiptir ekki neinu verulegu máli. Aðalatriðið, sem mér sýnist vera í þessu, er það, að það er ekki gert ráð fyrir öðru en að prófa sig áfram með það smátt og smátt að verðtryggja sparifé.

Það liggur alveg ljóst fyrir, að samkv. frv. þessu getur aðeins verið um það að ræða að verðtryggja mjög lítinn hluta sparifjárins. Í umsögn Seðlabankans um þetta frv. segir m. a. um þetta efni:

„Öruggt verður að telja, að meiri hluti þess fjár, sem til bankanna hefur leitað, verði áfram óbundið eða lítt bundið á venjulegum reikningum og hafi bankarnir þar fé til þeirra útlána, sem verðtrygging á ekki við“.

Þarna er fyllilega staðfest það, sem mér virðist af ýmsu, sem fram hefur komið í þessu máli, að aðeins geti verið um að ræða verðtryggingu óverulegs hluta sparifjárins. Það ber svo vott um ókúganlega bjartsýni hv. 8. þm. Reykv., að hann gerði ráð fyrir, að af þessari verðtryggingu mundi leiða jafnvægi á lánamarkaðinum, elns og hann orðaði það. Því miður get ég ekki verið honum sammála um það. Nú geri ég ráð fyrir því, að við getum verið sammála um, að ýmsar þær athafnir, sem þeir menn, sem hafa aðstöðu til að komast yfir lánsfé, framkvæma til þess að tryggja sér verðbólgugróða af þessu lánsfé, þ.e.a.s. það, sem ég hef stundum nefnt verðbólgufjárfestingu, — ég geri ráð fyrir, að við séum sammála um það, að hún eigi verulegan þátt í því að halda verðbólguskrúfunni gangandi. Og þar sem aðeins verður litið svo á, eins og ég hef gert grein fyrir, að lítill hluti lána verði með verðtryggingu eftir sem áður, er það ljóst, að það er ekki í þessu sambandi hægt að gera sér vonir um það, að verðbólgufjárfestingin sé úr sögunni. Verðbólgufjárfestingin er ekki byggð á lánum úr opinberum fjárfestingarsjóðum og raunar sjálfsagt ekki úr líftryggingafélagssjóðum eða lífeyrissjóðum heldur. En af þessu leiðir það, að þeir, sem verða að taka verðtryggð lán til þess að koma sínum framkvæmdum áfram, verða að borga fyrir þann verðbólgugróða, sem hinir hirða, sem hafa aðgang að óverðtryggðum lánum til sinnar fjárfestingar. Þess vegna leiðir mjög takmörkuð verðtrygging, eins og hér er gert ráð fyrir, til mismununar og ranglætis. Hún leiðir til hækkunar fjármagnskostnaðar hjá öllum almenningi, leiðir m. a. til hækkunar húsnæðiskostnaðar. Í þessu sambandi má minna á ummæli formanns verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar, hv. þm. Eðvarðs Sigurðssonar, í Nd., þar sem hann taldi, að verkalýðshreyfingin hefði samið af sér við það að semja um verðtryggingu á húsnæðismálastjórnarlánum í júní s.l., vegna þess að verðtryggingin varð ekki almenn, heldur náði aðeins til þessarar tegundar af lánum, og þess vegna koma þeir menn, sem þess konar lán byggja fyrir, til þess að borga þann verðbólgugróða, sem hinir hirða, sem byggja fyrir óverðtryggð lán. Það er víst ekki þetta, sem hv. 8. þm. Reykv. kallar að ræna lambi fátæka mannsins.

Seðlabankinn er höfundur þessara laga. Hann er líka eini aðilinn, sem hefur fengið þetta frv. til umsagnar, sem skilyrðislaust mælir með því. Tveir einkabankar, sem málið hafa fengið til umsagnar, Iðnaðarbankinn og Verzlunarbankinn, mæla að vísu með frv., en eru þó sýnilega hálfvolgir og gera við það ýmsar aths. En tveir aðalbankar landsins, ríkisbankarnir, Landsbankinn og Útvegsbankinn, leggja báðir til, að þessu máli sé frestað og ýtarlegri undirbúningur og athugun þess fari fram. Álit þeirra eru prentuð á þskj. 350, og ég skal ekki þess vegna fara ýtarlega út í að rekja þau, þar sem ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. hafi kynnt sér þau, en í áliti Landsbanka Íslands segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Oss virðist því, að töflurnar hér að framan sýni ótvírætt, að Landsbankanum væri alls ekki unnt að breyta svo miklu af lánum sínum í verðtryggð lán, að hann fengi staðið undir almennri verðtryggingu á því sparifé, sem hann varðveitir. Hálfdrættingsverðtryggingin, sem gert er ráð fyrir í brtt. við 5. gr., virðist oss ekki létta neitt undir með viðskiptabönkunum í þessu efni, heldur fyrst og fremst gera mörkin óskýrari um það, hvaða lán séu verðtryggingarhæf. En án skýrra og hlutlægra reglna um það, hvernig farið yrði inn á verðtrygginguna, mundi skapast kringum þessi lán úlfúð og illindi, samanburður eins viðskiptamanns við annan og eilífar ásakanir um hlutdrægni.“

Þetta segir Landsbankinn um þetta frv., og það ber einmitt að sama brunni og niðurstaða okkar í minni hl. fjhn., að hér skortir allar skýrar línur og allar reglur til þess að fara eftir. Hér er um að ræða galopnar heimildir fyrir Seðlabankann, sem upplýst er, að hann veit ekki. hvernig hann ætlar að nota.

Enn fremur segir Landsbanki Íslands í niðurlagi álits síns um þetta efni, sem undirritað er af öllum bankastjórum Landsbankans. Í niðurlaginu segir svo:

„Niðurstaðan af þessum athugunum er sú, að vér hljótum að ráða frá samþykkt þeirra ákvæða, er varða viðskiptabankana og verðbindingu sparifjár. Samþykkt þessara ákvæða, þótt aðeins sé í heimildarformi, getur aðeins vakið tálvonir um úrlausnir eftir ófærum leiðum og dregið athyglina frá aðalatriðinu, að til er ein örugg leið verðtryggingar á sparifé, sem sé að forðast það, sem verðrýrnuninni veldur, sjálfa verðbólguna. Um frv. að öðru leyti óskum vér, eins og segir í upphafi þessarar umsagnar, ekki að fara út í fræðilegar rökræður á einstökum atriðum, en viljum beina því til fjhn. og Alþ., hvort ekki væri réttast, að málið í heild væri athugað milli þinga af n. manna með sérþekkingu á þessu sviði og gengið frá nýjum till., m. a. á grundvelli þeirrar reynslu, sem fengizt hefur erlendis af löggjöf í þessa átt.“

Þetta var niðurlagið á umsögn Landsbanka Íslands, og þar er m. a. lagt til, að athugun fari fram milli þinga og þá ekki sízt á þeirri reynslu, sem fengizt hefur erlendis af löggjöf í þessa átt. Nú segir einhvers staðar hér í áliti Seðlabanka Íslands, að Seðlabankinn hafi kynnt sér þá reynslu, sem af þessu er fengin í öðrum löndum, en hitt er jafnvíst, að um þetta hefur okkur ekki tekizt að fá neina fullnægjandi grg. Útvegsbanki Íslands kemst að sömu niðurstöðu í sinni umsögn um þetta atriði, og skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa tvær síðustu setningar þess, en þær hljóða svo:

„Frv. það, sem nú liggur fyrir Alþ., var einnig flutt á Alþ, í fyrra, en var þá ekki afgr., að því er talið var til þess, að nánari athugun málsins gæti farið fram, áður en Alþ. það, sem nú situr, kæmi saman. Oss er ekki kunnugt um, að nein athugun hafi farið fram á þessu tímabili, a.m.k. hefur enginn haft forgöngu um slíka athugun í samráði við viðskiptabankana. Vér teljum því rétt með tilvísun til framanritaðs að leggja til, að málið í heild verði nú athugað milli þinga af sérstakri n., er hafi náið samráð við bankana, og n., ef hún telur ástæðu til, gangi frá nýjum till., þar sem meðal annars verði tekið tillit til vandamála viðskiptabankanna og innlánsstofnana yfirleitt, sem að framan eru rakin.“

Undir þetta álit Útvegsbanka Íslands skrifa tveir af bankastjórum bankans, þeir Jóhannes Elíasson og Finnbogi R. Valdimarsson. Það er hins vegar ástæða til þess að ætla, að þriðji bankastjóri þess banka sé þeim ekki sammála, þar sem hann á sæti í fjhn. Nd. og undirritar þar meirihlutaálit án fyrirvara.

Munurinn á afstöðu okkar í minni hl. og hinna í meiri hl. til þessa frv. byggist ekki á mismunandi viðhorfi til þess, hvort verðtrygging sem slík sé nothæft vopn í baráttunni við verðbólguna. Það byggist ekki á mismunandi skoðunum á þeim grundvallaratriðum, hvort slíkar aðgerðir gætu verið leið til þess að styrkja sparifjárstöðuna og draga úr lánsfjáreftirspurninni. Um þau atriði eru menn í meginatriðum sammála. Þessi mismunandi viðhorf byggjast hins vegar á því, að meiri hl. vill sætta sig við ófullkomna löggjöf, engar skýrar meginlínur, engar reglur, heldur aðeins heimild til þess að prófa sig áfram með tilraunum og þá væntanlega með álíka fálmkenndum ráðstöfunum og tíðkazt hafa í seinni tíð og hafa einkennt þá peningapólitík, sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir. Við á hinn bóginn viljum láta fara fram ýtarlegri rannsókn á þeim stórfelldu vandamálum, sem hér er við að fást. Við viljum láta undirbúa fyrir næsta þing ýtarlega löggjöf, svo að Alþ. geti vitað, að hverju það gengur í þessu máli, og þurfi ekki að veita opnar heimildir þeim aðilum, sem ljóst er að vita ekki, hvernig þeir ætla að nota þær. Þess vegna leggjum við í minni hl. fjhn. til, að þetta frv. verði afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Þar sem d. telur nauðsynlegt, að þetta mikilsverða mál fái rækilegri athugun en þegar hefur farið fram og að löggjöf um verðtryggingu, ef sett verður, feli í sér skýrari ákvæði um reglur þær, sem farið skuli eftir við framkvæmd l., og f trausti þess, að ríkisstj. skipi 5 manna n., 4 eftir tilnefningu þingflokkanna og einn án tilnefningar, til þess að athuga málið og gera tili. um það fyrir næsta þing, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.“