29.04.1966
Neðri deild: 82. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

113. mál, ríkisreikningurinn 1964

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi fyrst spyrja hæstv. forseta, hvort hann teldi ekki vel við eiga, að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur, þegar þetta mál er til umr. (Forseti: Forseti telur það vel við eiga, að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur, en vera má, að hann sé bundinn við umr. í hv. Ed., en er þó mættur hér.) Hann er mættur, já.

Mér er sagt, að frv. þetta hafi verið afgr, frá hv, fjhn. í gær, og í nál. meiri hl. í þeirri n., sem lýst var við 2. umr. fyrr í dag hér í d., segir, að einn nm., hv. 11. þm. Reykv. (EÁ), muni skila séráliti. En nú kom það fyrir, sem kunnugt er, að hann þurfti að hverfa af þingi þegar í morgun, og hafði honum ekki unnizt tími til að ganga frá nál., áður en hann hvarf af þingi.

Ég vildi leyfa mér, þótt það álit liggi ekki fyrir, að fara nokkrum orðum um ríkisreikninginn fyrir árið 1964. Hann ber það með sér, að enn hafa ríkisútgjöldin hækkað stórkostlega á því ári. Skv. reikningnum voru heildargjöldin á árinu 3267 millj. rúmlega, þar af eru rekstrargjöld skv. ríkisreikningnum 2919 millj., en voru 2177 millj. næsta ár á undan. Þetta er 34% gjaldahækkun á einu ári. Og greiðsluhallinn hjá ríkissjóði varð skv. reikningnum 220 millj., en skv. þeim reglum, sem Seðlabankinn fer eftir við útreikninga á greiðsluhallanum, varð hann 257 millj, kr. á árinu. Rekstrargjöldin fóru mjög fram úr áætlun fjárl. árið 1964, eða um nálægt 403 millj., sem er um 16%.

Fyrsta aths. yfirskoðunarmanna við ríkisreikninginn er um óinnheimtar ríkistekjur í árslok. Þær voru þá yfir 103 millj. kr., og er það miklu meira en árin á undan. Telja yfirskoðunarmenn áríðandi, að hert verði betur á innheimtu ríkisteknanna.

Sem svar við þessari aths. segir ríkisendurskoðandi m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Til mjög mikillar tafar á innheimtu tekju og eignarskatts er það, hve seint skattskrár berast til innheimtumanna, og því geta þeir ekki haldið manntalsþing fyrr en mjög seint á árinu, en á því þingi er gjalddagi skattanna.“

Hér kemur það fram, að nýja fyrirkomulagið við álagningu skattanna, sem ákveðið var með lögum 1962, hefur reynzt miklu seinvirkara en hið eldra. Skattstofurnar í stóru umdæmunum skila skattskránum yfirleitt miklu síðar en skattanefndirnar gerðu áður. Þetta veldur drætti á innheimtu skattanna. Þó er langtum meiri kostnaður við nýju skattstofurnar heldur en skattanefndirnar áður. Skv. ríkisreikningnum, sem hér liggur fyrir, hefur kostnaðurinn við ríkisskattanefnd og skattstofur orðið kr. 23 284 217.10 árið 1964. Fór þetta 50% fram úr áætlun fjárl. og hækkaði á einu ári um 4.7 millj. kr. Árið 1961 var kostnaður við álagningu skattanna hins vegar 11.2 millj., en það var síðasta heila árið, sem skattanefndirnar störfuðu.

Þegar þessi breyting á álagningu skattanna var gerð árið 1962, sagði þáv. fjmrh. í þingræðu, að talið væri, að með hinni nýju skipan mundi sparast verulegt fé. En hér hefur farið mjög á annan veg en hann spáði. Kostnaðurinn hefur langtum meir en tvöfaldazt, síðan nýju skattstofurnar komu til sögunnar.

Í annarri aths. yfirskoðunarmanna ræðir um innstæður ríkissjóðs hjá innheimtumönnum, og eru þar nefndir þrír sýslumenn, sem skulda mest í árslokin. Í svari ráðh. við þessari aths. segir, með leyfi forseta:

„Allir innheimtumenn ríkissjóðs gera full skil við ríkissjóð í árslok, og sama gildir með þá innheimtumenn, sem tilgreindir eru í aths.“ Síðan segir ráðh.: „Mismunir þeir, sem koma fram á viðskiptareikningum innheimtumanna, stafa af því, að kostnaðarreikningar, sem þeir hafa greitt fyrir ríkissjóð og þeir síðan framvísað sem greiðslum á ríkissjóðstekjum, hafa ekki verið endurgreiddir fyrir árslok.“

Þar sem ráðh. segir, að innheimtumenn geri full skil við ríkissjóð í árslok, hljóta þeir á þeim tíma að hafa framvísað greiddum reikningum, sem áttu að dragast frá innheimtufénu. Er því ástæða til þess að spyrja, hvers vegna þær fjárhæðir, sem þeir hafa þannig greitt fyrir ríkissjóð, eru ekki færðar þeim til tekna í viðskiptareikningum í árslokin.

Þá er það viðkomandi efnahagsreikningi ríkissjóðs. Enn er Reykjanesbrautin talin þar með ríkiseignum, og er upphæðin eitthvað um 130 millj., ef ég man rétt, eða nálægt því, og þá er talið á skuldahliðinni jafnmikil skuld vegna Reykjanesbrautar. En þetta var sú upphæð, sem búið var að taka að láni til hennar í árslok 1964.

Það er nýtt hjá núv. ríkisstj. að telja vegi með ríkiseignum. En þetta er ekki í fyrsta skipti, sem hún gerir það. Hún hefur talið síðustu árin Reykjanesbrautina með ríkiseignum. Auk þess er talinn þarna annar vegur með eignum og skuld einnig á móti, það er Ennisvegur, það eru rúmar 6 milljónir.

Áður var það aldrei venja að telja þjóðvegi með ríkiseignum á efnahagsreikningi ríkissjóðs. Vera má, að hæstv. stjórn segi út af þessu, að vegasjóður eigi að standa undir þessum lánum, sem fengin hafa verið til vegagerðanna, og þess vegna sé ekki þörf að telja með ríkisskuldum þessi lán, en ef það sé gert, þá megi telja eign á móti. Við þetta er það að athuga, að ég fæ ekki séð, að vegasjóður geti staðið undir vöxtum og afborgunum, t.d. af Reykjanesbrautarlánunum, nema hann fái mjög auknar tekjur frá því, sem hann fær nú. Skv. skýrslu vegamálastjóra voru föst lán vegna Reykjanesbrautar um síðustu áramót, þ.e.a.s. 31. des. 1965, rúmlega 229 millj. kr.

Eins og kunnugt er, var lagður á vegatollur á umferð um þennan veg. Ég hef fengið þær upplýsingar hjá vegamálaskrifstofunni, að tollurinn hafi numið nettó u.þ.b. einni milljón króna á mánuði þann tíma, sem liðinn er, síðan hann var á lagður, þ.e.a.s. áður en hann var lækkaður, sem gerðist núna fyrir skömmu, en hve miklu sú lækkun veldur, er ekki komið í dagsljósið enn þá. Af þessu sýnist mér það alveg ljóst, að þessi vegatollur getur ekki einu sinni borgað vexti af lánunum, hvað þá nokkrar afborganir. Mér sýnist því, eins og nú er ástatt a.m.k., að þá ætti ekki að telja þennan veg með eignum ríkissjóðs, a.m.k. ekki nema þá einhvern lítinn part af því, sem ætla mætti, að vegasjóður gæti endurgreitt, því að það er sjáanlegt, að ef ekki verður mjög aukið við tekjur vegasjóðs, þannig að honum verði gert kleift að standa undir þessum lánum til vegagerðanna, þá hljóta þau að lenda á ríkissjóði að verulegu leyti.

Ein af aths. yfirskoðunarmanna, sú 19., er um það, hve langt hafi verið komið endurskoðun reikningsins hjá endurskoðunardeild fjmrh., þegar þeir undirskrifuðu reikninginn 10. des. 1965, og þar segjast yfirskoðunarmenn hafa fengið skýrslu frá endurskoðunardeild fjmrn. um það, hve langt endurskoðuninni væri komið. Skv. þeirri skýrslu er nokkuð óendurskoðað frá árinu 1964, og til er það, að reikningsúrskurðum frá fyrri árum sé ekki lokið.

Mér finnst þetta mjög vægilega orðað hjá þeim hv. yfirskoðunarmönnum, að nokkuð sé óendurskoðað. Fjhn. hefur fengið þessa skýrslu endurskoðunardeildarinnar, og er hún dagsett 30. nóv. 1965, og þar kemur fram, að þeir reikningar ríkisstofnana og embætta margs konar, sem ekki var búið að ljúka endurskoðun á fyrir árið 1964, skipta mörgum tugum á þeim tíma.

Síðan fékk n. yfirlit yfir, hvernig þetta stæði nú, um það leyti sem reikningurinn var afgr. frá n., og liggur hér fyrir yfirlit um það frá ríkisendurskoðuninni, dags. 27. apríl 1966, og ég vil leyfa mér að lesa upp, fái ég til þess leyfi hæstv. forseta, þetta yfirlit frá ríkisendurskoðuninni, en þar segir m. a.:

„Óendurskoðað er nú af reikningum stofnana fyrir árið 1964 og eldri sem hér segir:

1. Hagstofa Íslands árið 1964.

2. Þjóðskráin, sama ár.

3. Embættiskostnaður sakadómara árið 1964.

4. Embættiskostnaður saksóknara sama ár.

5. Embættiskostnaður borgarfógeta sama ár.

6.Embættiskostnaður lögreglustjóra Keflavíkurflugvallar árið 1964 að nokkru.

7. Tollgæzla á Keflavíkurflugvelli árið 1964 að nokkru.

8. Vinnuhælið á Kvíabryggju árið 1964.

9. Fangahjálpin Vernd árin 1962, 1963 og 1964. 10. Skrifstofukostnaður tollstjóra árið 1964.

11. Tollgæzlan í Reykjavík árið 1964.

12. Vega- og brúargerðir árin 1963 og 1964, bæði árin.

13. Veðurstofan að nokkru fyrir árið 1963, en allt árið 1964.

14. Skipaskoðun ríkisins árið 1964. 15. Landmælingar sama ár.

16. Fræðslumálaskrifstofan sama ár.

17. Íþróttakennaraskólinn sama ár.

18. Bókaútgáfa menningarsjóðs sama ár.

19. Menningarsjóður árin 1963 og 1964.

20. Biskupsembættið árin 1962, 1963 og 1964 (þ.e.a.s. þrjú ár).

21. Jarðabótastyrkir árið 1964.

22. Síldarmat ríkisins árið 1964.

23. Löggildingarstofan sama ár.

24. Atvinnudeild háskólans árin 1961—1964 að nokkru.

25. Rannsóknaráð ríkisins árin 1961—1964 að nokkru.

26. Skipaútgerð ríkisins árið 1964.“

Í öðru lagi segir hann: „Endurskoðun tekna hjá embættum utan Reykjavíkur, annarra en tolla, er komið sem hér segir:

1. Lokið í öllum embættum til ársloka 1963 og nokkuð á veg komið með 1964.“ — Nokkuð á veg komið. Þarna virðist vera mikið óendurskoðað skv. þessu fyrir árið 1964. Síðan segir:

„Embættiseftirlit var framkvæmt í 18 embættum á árinu 1964 og í 20 embættum 1965.“ Þetta segir ríkisendurskoðunin í fyrradag, og skv. þessu kemur fram, að enn þann dag er allmikið óendurskoðað af reikningunum fyrir árið 1964 og þ. á m. reikningar hjá nokkrum stórum embættum og ríkisfyrirtækjum.

Ég hef áður haldið því fram í umr. um ríkisreikninga hér á hinu háa Alþ., að ég teldi, að yfirskoðunarmenn þeir, sem Alþ. kýs, ættu ekki að leggja reikningana fyrir Alþ., fyrr en endurskoðun í fjmrn. er að fullu lokið, og ég hef enn fremur talið það alveg fráleitt, að Alþ. eigi að samþykkja ríkisreikninga, fyrr en endurskoðuninni væri að fullu lokið. Enn er ég sömu skoðunar, að þetta eigi þingið ekki að gera, og því er það till. mín til hæstv. forseta, að hann taki nú þetta mál út af dagskrá og fresti frekari meðferð þess, þangað til Alþ. hefur borizt vitneskja um það, að endurskoðun reikningsins fyrir árið 1964, sem hér liggur fyrir, sé að fullu lokið.