29.04.1966
Neðri deild: 82. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

113. mál, ríkisreikningurinn 1964

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur flutt hér nokkra tölu í tilefni af ríkisreikningnum, og ég tek það vissulega ekkert illa upp, því að frá því að ég man fyrst eftir mér að hafa hlýtt á umr. um það mál hér á Alþ., raunar áður en ég tók setu hér, hefur þessi hv. þm. haldið uppi ýmiss konar gagnrýni á ríkisreikning, þannig að ég mundi ekki segja, að hann hafi gert það með neitt óbilgjarnari hætti nú en áður fyrr. Ég skal ekki fara að lengja þessar umr. mikið. Niðurstaða hans var sú, að hann lagði til, að ríkisreikningurinn yrði ekki afgreiddur og sá háttur yrði á hafður, að ríkisreikningar yrðu ekki afgreiddir, fyrr en lokið hefði verið allri endurskoðun. Það liggur nú ljóst fyrir og hefur verið upplýst, að endurskoðuninni hefur mjög verið flýtt á undanförnum árum og mjög mikið þokazt í þá átt, að það væri búið að ljúka hinni umboðslegu endurskoðun, þegar ríkisreikningur er lagður fram. En hins vegar hefur sá háttur verið tekinn upp síðustu árin, sem rétt er, að ríkisreikningur hefur verið lagður miklum mun fyrr fram en áður. Það hefur verið fylgt þeirri reglu, og skal ég játa, að ég er nokkur eftirbátur fyrirrennara míns um það, að fá ríkisreikning afgreiddan fyrir áramót árið eftir að honum er lokað, og hefur svo verið nokkur undanfarin ár. Þetta hefur að vísu leitt til þess, að nokkuð hefur verið óendurskoðað, en hinu er alls ekki að leyna, og hygg ég, að jafnvel hv. 1. þm. Norðurl. v. geti verið mér sammála um það, að þessi háttur hefur valdið því, að ríkisreikningur hefur jafnan verið lesinn með mun meiri athygli fyrir þá sök, að við erum ekki að fást við 3—4 ára gamla reikninga, sem enginn hefur orðið áhuga á nema þeir, sem hafa einhvern sögulegan áhuga, svo sem e.t.v. hv. 1. þm. Norðurl. v., að stúdera gamlar tölur, þannig að ég efa það ekki, að fyrir þm. er það til mikilla bóta, að þeir fái reikninginn sem fyrst í hendur, enda þótt ekki sé lokið allri endurskoðun, vegna þess að það ræður auðvitað engu um efni málsins þó að eitthvað sé óendurskoðað og kunni að koma fram einhverjar leiðréttingar. Það kemur þá fram síðar hjá ríkisbókhaldinu sem leiðrétting við seinni reikninga. Ég held, að það sé alger undantekning, að endurskoðun út af fyrir sig leiði til nokkurra breytinga á ríkisreikningi, sem efnislega þýðingu hafa, þannig að ef ætti að fara að taka upp þann hátt, sem hv. þm. fer hér fram á, að fresta afgreiðslu ríkisreiknings þangað til sé búið að ljúka endurskoðun í öllum stofnunum ríkisins, er það ljóst, að það yrði að hverfa frá þeirri venju, sem hér hefur verið tíðkuð síðustu árin, að hv. þm. fengju reikninginn sem skjótast í hendur og meðan má segja, að sé enn þá í fersku minni, hvað gerðist í meginefnum í efnahagsmálum á því tiltekna ári, sem ríkisreikningurinn á við. Ég er naumast þeirrar trúar, að hv. þm. séu þeirrar skoðunar, að það ætti að taka upp þennan hátt, enda hefur það enga efnislega þýðingu varðandi endurskoðunina sem slíka.

Ég skal svo ekki fara að gagnrýna neitt einstök atriði, sem hv. þm. minntist hér á, eins og um það, hvernig ætti að uppfæra vegi sem eign eða ekki eign. Þetta er bókhaldslegt atriði sem ráðh. hefur ekki haft minnstu afskipti af og ég efast ekkert um það, að þeir, sem með þetta mál fara, ríkisbókari og hans fólk og ríkisendurskoðun geri þetta með réttum hætti.

Ég vil svo vekja athygli á því, að fyrir Alþ. nú liggur frv. um endurskipulagningu ríkisreikninga eða uppsetningu ríkisreiknings og fjárl., sem er skoðun manna að verði til þess að koma þessum málum í enn fastara skipulag, og ég vonast til þess, að það frv. verði afgreitt sem lög á þessu þingi.

Ég vil svo að lokum aðeins segja það um almennar aths. hv. þm. varðandi þau stórauknu útgjöld, sem þessi ríkisreikningur sýndi umfram fjárlög, að hv. þm. er það áreiðanlega í fersku minni, að á árinu 1964 var utan fjárl. samþ. af Alþ. stórkostlegur útgjaldaauki fyrir ríkissjóð með ráðstöfunum vegna sjávarútvegsins, sem afgreitt var eftir árslok 1963, og eins og menn sjá á ríkisreikningi þeim, sem nú liggur fyrir, hafa útgjöld samkv. þessum lögum numið 190 millj. kr. þetta ár, og annar útgjaldapóstur, sem er nær 200 millj. kr., er útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir og niðurgreiðslur á vöruverði. Niðurgreiðslur voru auknar mjög á árinu umfram það, sem áætlað hafði verið í fjárl., m.a. í sambandi við júnísamkomulagið, til þess að halda niðri vöruverði, eftir að vísitalan hafði verið tengd við kaupgjaldið á ný. Skal ég ekki rekja þá sögu, en þarna er skýring á nær 400 millj. kr. af þeim hækkunum, sem orðið hafa á ríkisreikningi samanborið við fjárlög.

Ég held svo ekki, herra forseti að ég hafi ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta, þó að það væri vissulega hægt að ræða ýmis önnur atriði, sem hv. þingmaður gerði hér athugasemdir við.