29.04.1966
Neðri deild: 82. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

113. mál, ríkisreikningurinn 1964

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég nenni nú ekkí að vera að karpa við hv. 1. þm. Norðurl. v. um þessi mál. Það voru aðeins tvö atriði.

Ég er auðvitað ekki að mælast undan því að bera ábyrgð á starfsmönnum rn., og vitanlega ber ég ábyrgð á því, sem ég undirrita. Og það kann vel að vera, ef hv. 1. þm. Norðurl. v. sæti i sæti fjmrh., að þá fylgdist hann nákvæmlega með öllum færslum í ríkisbókhaldinu, en ég hygg, að hann gerði þá ekki æðimiklu meira sem ráðh., þannig að það verður æði oft að skrifa undir ýmislegt, án þess að maður hafi sérstaklega sjálfur stúderað hvert atriði. Það var sögð saga af því einu sinni um einn ágætan danskan ráðh., sem heimtaði að fá til sín allan póstinn, og það endaði með því, að eftir nokkra daga var herbergið hans fullt. Þetta gildir ekki nú á dögum, að það sé hægt að hafa þessa afgreiðslu á málum, þannig að maður verður að treysta sinum trúnaðarmönnum, og í þessu efni á ég við það, að ég hefði ekki haft nein afskipti af því, hvernig bókhaldið hefur hagað þessu á einstakan hátt tæknilega séð. Það má kannske segja, að ég hafi þá ekki gegnt mínu starfi sem skyldi. En ég hygg nú ekki heldur, að neinn fjmrh. hafi litið svo á, sem hér hefur setið að undanförnu, að það væri stærsta vandamálið í þeirra starfi að elta ólar við það að afstýra því, að ríkisbókhaldið gerði ekki rétt. Ég held, að það yrði þá að fá sér nýtt starfslið í ríkisbókhaldið, og það tel ég ekki ástæðu til að gera.

Varðandi svo hitt atriðið, að það sé fráleitt að samþykkja reikning, sem lagður er fyrir Alþ., fyrr en þar séu endurskoðaðir reikningar allra þeirra sérstofnana, sem um er fjallað, vil ég aðeins vekja athygli á því, að Alþ. hefur sína yfirskoðunarmenn og þeir hafa gert sínar aths. við þennan reikning og þeir hafa ekki lagt það til, að reikningurinn væri ekki samþ. Þeir hafa að sjálfsögðu aðstöðu til og munu áfram fylgjast með því, sem er óendurskoðað, jafnóðum og það er endurskoðað, og geta þá komið sínum aths. að, þegar þar að kemur.