14.10.1965
Neðri deild: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

12. mál, iðnfræðsla

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég er sammála hv. 5. þm. Reykv. um það, að þetta frv., sem hér er til umr., sé til mikilla bóta, þegar miðað er við hina gildandi iðnfræðslulöggjöf í landinu. Allt fram á þennan dag hefur iðnfræðslan á Íslandi verið rekin eftir hinu steinrunna og löngu úr sér gengna meistarakerfi, sem byggist á því, að nemendur í iðngreinum skuli hljóta kennslu hjá meistara, þ.e.a.s. manni, sem tekið hefur sveinspróf, og svo að þremur árum líðnum, frá því að hann tók sveinspróf, öðlast hann „átómatískt“ réttindi til þess að teljast meistari í iðninni og fær þá réttindi til þess að taka nema, hvort sem hans aðstaða eða þekking er á þann veg, að hann sé á nokkurn hátt til þess fær að mennta hina nýju kynslóð í þeirri iðngrein, sem hann starfar í. Með frv. er stigið millispor í þá átt að hverfa frá þessu fyrirkomulagi við nám í hinum löggiltu iðngreinum og gert ráð fyrir, að koma skuli skólar í hinum ýmsu iðngreinum, verknámsskólar, og eigi þeir vissan hlut í því að tryggja menntun þeirra, sem ætla að gera iðnað á Íslandi að lífsstarfi sínu. Þetta er áreiðanlega til bóta. En þó verð ég að segja það, að ég er ákaflega mikið í efa um, að það fari vel á að blanda þessu saman: meistarakerfinu með sínum mörgu og miklu göllum, allt það kerfi fellur svo illa inn í nútíma stórrekstur i iðnaði, að það á þar lítt eða ekki við, og svo aftur að koma á nýtízku vinnubrögðum í námi við nútíma aðstæður í iðnaði með skólahaldi. Ég held, að þetta verði á millistiginu bæði kostnaðarsamt og svari illa tilgangi sínum, enda sé ég það strax í 2. gr. þessa frv., að skólafræðslan verður nokkuð margbrotin og í brotum með þessu móti, a.m.k. á þessu yfirgangsstigi.

Það er gert í 2. gr. ráð fyrir, að iðnfræðsluskólar skuli vera verknámsskólar iðnaðarins, iðnskólar með gamla sniðinu, sérskólar einstakra iðngreina og skólar fyrir meistarana til þess að betrumbæta þekkingu þeirra og aðstöðu til þess að hafa nemendur á sínum vegum. Þetta allt held ég að hljóti að falla illa saman, og það er von mín og ósk, að þetta millistig í íslenzkum iðnfræðslumálum verði sem skemmst. Og það skiptir vitanlega miklu máli, að fjárveitingavaldið geri sér það ljóst, að hér er ekki stigið spor nema til hálfs, ef það er þá það, því að það þarf vitanlega að vaxa algerlega frá hinu úrelta meistarakerfi og taka upp skólakennslu, vísindalega skólakennslu á flestum sviðum iðnaðarins, án þess að blanda því saman við hinar úreltu kennsluaðferðir meistarakerfisins. Ég er hins vegar ekkert viss um, að það hafi verið svo auðvelt að stíga þetta spor til fulls í einu, og við erum ekki mjög mikið bættari með því að fá löggjöf, sem ekki yrði svo framkvæmd fyrr en kannske eftir áratugi.

Ég er ekki hingað kominn til þess að lýsa yfir óánægju minni með það, að milliþn. skyldi ekki leggja til í frv: formi, að stigið væri til fulls, þó að nauðsyn kalli á það. Við höfum af því reynslu að hafa sett nýja skólalöggjöf hér, að því er mig minnir 1946, almenna skólalöggjöf. Hún er bara í veigamiklum atriðum ekki komin til framkvæmda enn, svo að það má vel vera, að það hefði farið öllu betur á því, að sú löggjöf hefði gert ráð fyrir breytingunum á lengra tímabili, í smærri skrefum, og ekki gert ráð fyrir því skólakerfi, sem a.m.k. í framkvæmd hefur ekki tekizt að koma á núna á árinu 1965. A.m.k. er það svo, að sveitirnar hafa lítt af því skólakerfi að segja enn í dag í framkvæmd. Og játa verður það, að jafnvel höfuðborg Íslands hefur ekki reynzt enn þá fær um það að búa því skólakerfi þann starfsstakk, sem gert er ráð fyrir með löggjöfinni frá 1946. Það má því sannarlega segja, að það sé álitamál, þó að menn vildu algerlega umsteypa iðnfræðsluna og móta hana upp á nýtt í nútímahorf með skólakennslu og þá vitanlega verkstæðis- og verknámsskóla og leggja meistarakerfið gamla alveg til hliðar, þá er vafasamt, að það sé framkvæmanlegt að gera það í einu skrefi, en það að gera það á löngu tímabili, mörgum árum, veldur áreiðanlega miklum erfiðleikum, því að það fellur illa saman að hafa að nokkru leyti iðnfræðsluna í verkstæðisskólum og verknámsskólum og að nokkru leyti á höndum meistara skv. gamla meistarakerfinu. Þetta er svo gerólíkt í grundvallaratriðum, að þetta verður aldrei barn í brók, fyrr en við höfum komizt alveg frá því gamla, sem ekki á lengur við í nútíma verksmiðju- og verkstæðisiðnaði, er leifar frá handverkstímanum og þarf því að vaxa frá sem fyrst.

Ég held, að nefndin hafi gert sér ljós einmitt þessi atriði, sem ég nú hef gert að umtalsefni, og þess vegna lagt til, að meistarakerfið sé að nokkru leyti látið vera enn um sinn, en bætt úr stórfelldustu ágöllum þess með sérstökum verknámsskólum annars vegar og viðbótar-menntunarmöguleikum fyrir meistarana með meistaraskólum hins vegar. En þetta eru bætur á gamalt fat, og þær bætur þurfa að hverfa og ný föt að koma í staðinn, ný föt, sem væru a.m.k. ekki síður raunveruleg en hin nýju föt, sem hæstv. ríkisstj. tilkynnti, að hún hefði klætt sig í hér í gær.

Þetta frv. var, þegar það kom frá mþn., borið undir ýmsa aðila, þ. á m. A.S.Í., og í umsögn A.S.Í. mun það hafa verið tekið fram, að A.S.Í. mælti með framgangi þessa frv. og teldi það stefna í meginatriðum í rétta átt, og þarf ég því ekki við þetta miklu að bæta. Það, sem fyrir A.S.Í. vakti með sinni umsögn, var, að með samþykkt svona frv. teldum við, að iðnfræðslunni væri komið í nokkru betra horf en hún hefur um sinn verið í undir hinu gamla meistarakerfi, en hins vegar væri sporið þar með ekki stigið til fulls og þess vegna nokkuð í land með það, að iðnfræðslunni væri komið í það horf, sem verkalýðssamtökin teldu æskilegt og nauðsynlegt. En hins vegar vildum við fella okkur við þetta frv. sem viðleitni í þá átt að umsteypa iðnfræðslumálunum á Íslandi í nútímahorf, og viðurkennum, að það verði varla gert í einu skrefi, en eins og málin horfa við í meginatriðum, mælir A.S.Í. ásamt fleiri aðilum, sem þetta frv. fengu til umsagnar, með frv. sem spori í rétta átt.