24.02.1966
Neðri deild: 45. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

12. mál, iðnfræðsla

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft frv. til l. um iðnfræðslu til athugunar alllangan tíma. N. hefur rætt við höfunda frv., hún hefur rætt við menntmrh., og hún hefur leitað umsagna frá þeim aðilum, sem ekki höfðu látið í ljós álit sitt áður.

Nefndin mælir einróma með því, að þetta frv. verði samþ. Í því felast mjög mikilvægar breytingar á iðnfræðslunni í landinu og fyrstu skrefin í nýjungum, sem ætla má að muni í framtíðinni gjörbreyta öllu iðnnámi. Hins vegar hefur n. lagt til allmargar brtt., sem eru prentaðar á þskj. 255. Breytingar eru reyndar ekki eins margar og till., því að þær leiðir hverja af annarri, en helztu efnisbreytingar eru þær, sem ég skal nú greina:

Í frv. var gert ráð fyrir, að sett yrði upp nýtt embætti, iðnfræðslustjóri, og mundu að sjálfsögðu fljótlega fylgja honum skrifstofa og starfslið, eitthvað í áttina við það, sem er hjá fræðslumálastjóra, þó varla svo umfangsmikið. Eftir allmikla íhugun varð að samkomulagi að gera till. um að hverfa frá stofnun þessa embættis, en nota i þess stað annars vegar menntmrn., eins og hingað til hefur verið, og hins vegar iðnfræðsluráð, sem þegar er til. Allmargar af brtt, við frv. leiðir af þessari breytingu og fjalla um orðalag til samræmis við hana.

Þá leggur n. til, að breytt verði skipan iðnfræðsluráðs á þann hátt, að bætt verði í það 2 fulltrúum. Eindregnar óskir komu fram um það frá Iðnnemasambandi Íslands, að það fengi aðild að þessu ráði, og þótti réttmætt að verða við því, þar sem iðnfræðsluráð fjallar mjög ekki aðeins um nám, heldur og námskjör og þar af leiðandi lífskjör iðnnema. Þá kom einnig fram ósk um, að iðnverkafólk fengi nú fulltrúa í iðnfræðsluráði, þar sem nú koma inn í l. ákvæði um viðtæk námskeið fyrir starfsfólk í verksmiðjum. Benti Félag ísl. iðnrekenda m.a. á, að eðlilegt væri, að iðnverkafólkið fengi þarna líka fulltrúa. Í samræmi við þetta tvennt leggur n. til, að bætt verði 2 fulltrúum við iðnfræðsluráð.

Í 12. gr. er fjallað um það, hversu margir iðnskólar skuli vera í landinu. Í frv. er gert ráð fyrir, að þeir skuli í framtíðinni vera 8, einn í hverju kjördæmi. En þó er í gr. heimild fyrir menntmrh. til þess að leyfa fleiri skólum, sem þegar eru starfandi eða kunna að verða stofnaðir, að starfa til viðbótar. Aðalreglan átti sem sagt að vera 8 skólar, einn í hverju kjördæmi. Við nánari athugun kom í ljós, að í tveimur kjördæmum landsins eru fyrir 2 iðnskólar í hvoru það stórir, að fráleitt þótti að stöðva vöxt þeirra og tilveru. Þess vegna er gerð breyting, sem er á þá lund, að þeir skólar, sem í dag hafa minnst 60 nemendur, skuli vera iðnskólar áfram, en þó ekki færri en einn í hverju kjördæmi. Þessir umræddu skólar eru í Vestmannaeyjum og Keflavík. 60 nemenda reglan er ekki ný, hún hefur verið f lögum áður og var fyrir mörgum árum ákveðin frá Alþ. sem eðlilegt stærðarmark. En ég vil endurtaka það, að ráðherra hefur heimild til þess að ákveða, hverjir núverandi iðnskólar skuli starfa áfram til frambúðar eða fyrst um sinn.

Þessi skipting á skólunum hefur meginþýðingu í sambandi við næstu grein, þar sem fjallað er um höfuðnýjung þessa frv., stóraukið verknám, sem þegar fram líða stundir hlýtur að leiða til þess, að í mörgum iðngreinum verði hægt að ljúka öllu námi í skólunum, án þess að nemendur geri samninga við meistara til margra ára. Það, sem um er að ræða, er að takmarka fjölda þeirra skóla, sem fengju slíkar verknámsdeildir, vegna þess, hve þessar deildir hljóta að verða dýrar og umfangsmiklar. Er því ekkert vit í að byrja á þeim á of mörgum stöðum. Skynsamlegast væri, að tiltölulega fáir iðnskólar byrjuðu á slíkum deildum, en þeim væri dreift um landið, eftir því sem hentugast og skynsamlegast þykir.

N. gerir þá brtt. við 13. gr. að bæta þar inn í ákvæði, þar sem ráðh. er skylt að sjá svo um, að verknámsskólarnir einbeiti sér að kennslu í tilteknum greinum og skipti með sér verkum. Augljóst er, að það mundi vera lítil hagsýni að byrja á verknámsdeildum í skipasmíðum á 4—5 stöðum á landinu, svo að ég nefni dæmi, eða byrja á verknámskennslu í hárgreiðslu á 4—5 stöðum á landinu. Skynsamlegast væri, að iðnskólarnir skiptu með sér deildunum. Má búast við, að síðar meir verði verknámsdeildir í stærstu greinunum, trésmíðum og málmsmíðum t.d., á mörgum stöðum á landinu, en að öðru leyti er sjálfsagt, að skólarnir skiptist á og að þeir taki að sér að byggja hver upp sina deild sem sérgrein, til þess að þær geti orðið sem allra fullkomnastar.

Við 15. gr. er brtt., sem er raunar aðeins til þess að kveða nánar á um þá hugmynd, sem felst í frv., að halda skuli námskeið fyrir starfsfólk verksmiðjuiðnaðar og gera það að fengnum till. frá samtökum iðnrekenda og verksmiðjufólks. Þótti ástæða til að taka þetta skýrar fram, en grg. frv. ber greinilega með sér, að það hefur verið hugmynd höfunda frv. frá upphafi, að slík námskeið yrðu haldin.

Lítil breyting er við 20, gr., þar sem orðinu „og“ er breytt í „eða“. Í sambandi við það er rétt að taka fram, að það er skilningur menntmn., að iðnskólar eigi, eftir því sem kostur er, að vera opnir öllum þeim, sem vilja sækja þá, hvort sem viðkomandi nemendur hafa gert samninga um iðnnám við meistara eða ekki. Ef rúm er í skólunum og einhverjir vilja öðlast þá menntun, sem þeir bjóða, án þess að tengja það föstu iðnnámi þá er sjálfsagt, að þess sé kostur.

Þá er brtt. við 23. gr., sem kveður svo á, að iðnskóli, sem tekur nemanda í nám til sveinsprófs í ákveðinni grein, skuli hafa sömu skyldur gagnvart honum sem um meistara væri að ræða, að svo miklu leyti sem við getur átt. Hér er horft fram í tímann, þegar að því kemur, að iðnskólarnir veita nemendum allan þann undirbúning og alla þá fræðslu, sem þeir þurfa til þess að útskrifast í sinni grein. Og verður þá iðnskólinn að koma í stað meistara, sem áður var. Sennilega verður þetta þó ekki alvarlegt vandamál, því að búast má við, að námið verði mun styttra, þegar það fer allt fram innan veggja eins og sama skóla.

Fleira sé ég ekki ástæðu til að taka fram um brtt. menntmn. Ég vil ítreka það, að n. fagnar þessu frv., telur það vera stórt spor í rétta átt, til að gera iðnfræðsluna fullkomnari og opna sýn inn á nýjar leiðir á þessu mikilvæga fræðslusviði.

Með þeim breytingum, er ég hef lýst, sem n. stendur einhuga að, mælir hún með því, að frv. verði samþykkt.