24.02.1966
Neðri deild: 45. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

12. mál, iðnfræðsla

Sigurður Ingimundarson:

Herra forseti. Ég er sannfærður um, að með afgreiðslu þessa máls, verða mörkuð tímamót í iðnfræðslu þjóðarinnar og lagður grundvöllur að örari tækniþróun en áður hefur verið. Það verður æ ljósara með vaxandi framförum í tækni, að það er fyrst og fremst tæknimenntun, verkkennsla og verkmenning, sem þróaðar þjóðir byggja á afkomu sina og batnandi lífskjör. Landkostir og náttúruauðæfi eru ekki lengur afgerandi í þessu efni, enda má nefna mörg dæmi þess, að þjóðir, þ. á m. smáþjóðir, sem byggja lönd, sem eru snauð af náttúruauðæfum, lifa góðu menningarlífi við góð og batnandi lífskjör, sem byggjast á verkmenningu þeirra og framleiðslutækni. Fyrir nokkrum áratugum var það ekki óalgengt, að 80 eða jafnvel 90% af vinnuafli þjóðanna starfaði að öflun hráefna og óbreyttra lífsnauðsynja úr skauti náttúrunnar, en aðeins 10—20% að verðmætaaukningu þeirra í iðnaði og þjónustu. Svo mun þetta t.d. hafa verið hjá Dönum um aldamótin. En nú munu þessi hlutföll nánast hafa snúizt við. Nú er það hinn mikli og vaxandi fjöldi iðnaðarmanna og verksmiðjufólks og annarra, sem starfa að verðmætaaukningu hráefnanna, vinnslu þeirra og dreifingu, sem í æ ríkari mæli hefur áhrif á framleiðni þjóðanna og efnahag. Hagkvæm þróun verkmenningar og þjónustu verður því sífellt mikilvægari. Framleiðni okkar í fiskveiðum er há, en öllum ætti að vera það ljóst, að hún leysir ekki allan vanda til frambúðar með vaxandi fólksfjölda. Þvert á móti má gera ráð fyrir því, að fiskveiðarnar eigi æ erfiðara uppdráttar, nema grundvöllur sé lagður að aukinni framleiðni í öðrum atvinnugreinum.

Fyrirtæki nokkurt, sem miklar vonir eru við bundnar, lýsti því nýlega opinberlega í dagblöðum, að afköst verksmiðju sinnar væru aðeins þriðjungur af áætlaðri afkastagetu, aðallega vegna vöntunar á þjálfun starfsfólksins. Þetta dæmi sýnir skýrt, hvar við stöndum í þessu efni. Það þýðir ekki að gera kröfur um bætt lífskjör, nema þessu sé kippt í lag.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er stigið veigamikið spor í þá átt að auka framleiðni iðnaðarins. Í frv. felst stórfelld endurbót á iðnfræðslunni í hinum löggiltu iðngreinum, og með framkvæmd þess opnast fljótlega nýir möguleikar til verkþjálfunar iðnverkafólks fyrir verksmiðjuiðnaðinn, a.m.k. í vissum starfsgreinum, og í því sambandi er Félagi ísl. iðnrekenda og samtökum iðnverkafólks veitt aðild að iðnfræðsluráði.

En við skulum gera okkur vel ljóst, að þetta er dýrt skólafyrirkomulag og mikið í fang færzt að taka verulega verkkennslu inn í iðnskólana, og ber að varast það að dreifa kröftunum um of í því efni. Kjarni þeirra breytinga, sem að er stefnt, er sá, að iðnnám hefjist ekki hjá meistara, eins og áður var, heldur með 8—9 mánaða verkstæðisskóla, er sé að hálfu leyti kerfisbundið verklegt nám undir handleiðslu sérmenntaðs fagkennara. Verður áherzla lögð á að kynna nemendum verkfæri og efni, notkun þeirra og meðferð og rétt vinnubrögð í grundvallaratriðum og leggja þannig haldgóðan grundvöll að frekara námi á vinnustað. Eftir það verður námið svipaðra því, sem nú er, undir handleiðslu meistara á vinnustað og bóklegur iðnskóli. Lögð verður meiri áherzla ú bóklega fagkennslu en tíðkazt hefur.

Það er þetta fyrsta ár, sem í frv. og áliti iðnfræðslunefndar er kallað forskóli eða verkstæðisskóli, sem fyrst og fremst veldur kostnaðaraukanum frá núgildandi kerfi. Og það er þetta fyrsta ár, verkkennsluárið, sem gerir það að verkum, að nauðsynlegt er að takmarka þá kennslu við mjög fáa og stóra skóla. Í áliti iðnfræðslunefndar og í frv. er gert ráð fyrir 8 kjördæmisskólum. Ég fullyrði, að ef skynsemisog hagræðingarsjónarmiðið eitt hefði verið látið ráða, hefðu þeir skólar, sem annast hefðu átt þessa verkkennslu fyrsta árs, ekki átt að vera fleiri en 4, þar af 2 fullkomnir heimavistarskólar í sveit. Iðnskólar með bóklegu námi mættu hins vegar vera fleiri, gjarnan 8—10, er nemendur sæktu að afloknu þessu eins árs námi í sérstökum verkstæðisskólum. Þessu til skýringar skal ég nefna dæmi.

Ef fullnýta ætti verkstæðin og hina sérþjálfuðu verkkennslukennara, þurfa nemendur í hverri iðngrein helzt að vera 50 á ári og tvö skólaverkstæði í hverri iðngrein. Í verklegu kennslunni má aðeins hafa 12—13 nemendur í einu. Það væri þá hægt að hafa t.d. 50 járniðnaðarnema með tvísetningu í tveimur verkstæðum, en sameina svo hópana, tvo og tvo, í tvær bóknámsdeildir með ca. 25 nemendum í hvorri. Þetta fyrirkomulag mundi gefa langbezta nýtingu, en því verður aðeins við komið í stórum skólum.

Brtt. hv. menntmn. um að fjölga skólunum úr 8—10 er því ekki til bóta frá hagræðingarsjónarmiði. Hún verður aðeins til að gera kerfið dýrara og seinka því, að það nái til tilætlaðs fjölda nemenda. Ég segi þetta ekki til þess að ráðast gegn brtt. nefndarinnar. Hún hefur vafalaust átt við sína erfiðleika og önnur viðkvæm sjónarmið að stríða. Þetta skil ég líka vel sjálfur, þegar ég á sök á því sem formaður iðnfræðslunefndar, að lagt var til í frv., að skólarnir yrðu fleiri en skynsamlegt má telja, og var það að sjálfsögðu gert til þess að koma til móts við þessi önnur sjónarmið. En ég vil alvarlega vara við því, að gengið verði enn lengra en brtt. n. gerir ráð fyrir í frekari meðferð þingsins. Til undirstrikunar þessari nauðsynlegu takmörkun á fjölda verkstæðisskólanna vil ég, með leyfi hæstv. forseta, vitna í ummæli forseta Landssambands iðnaðarmanna, Vigfúsar Sigurðssonar, við setningu iðnþings s.l. haust. Forseti Landssambandsins sagði m. a.:

„Frv. þetta, ef að l. verður, markar vissulega tímamót í iðnfræðslunni, fyrst og fremst með því, að komið verði með árunum upp fáum og stórum iðnfræðsluskólum, þar sem kennd yrðu bæði bókleg og verkleg fræði, í stað þeirra mörgu og á flestum stöðum smáu iðnskóla, sem nú eru dreifðir víðs vegar um landið. Það er þegar orðið nokkurt vandamál að kenna verklegt nám með þeirri aðferð, sem nú tíðkast, að nemar læri það eingöngu hjá meisturum. Störfin þróast í það að verða einhæf og því óvíst, að hægt sé að láta nemandann, á meðan á námstímanum stendur, vinna og kynnast öllum þeim störfum, sem krafizt er að hann kunni skil á að námi loknu. Þá er nauðsyn, að ungmenni fái í forskóla nokkra innsýn í þá iðngrein, sem þeir ætla að gera að lífsstarfi sínu. Of mörg eru þau tilfelli, að nemendur komast að þeirri staðreynd, þegar kemur fram á námstímann, að þeir hafa valíð rangt námsefni. Niðurstaðan verður sú, að þeir nemar, sem svo er ástatt með, hætta iðninni strax að loknu námi.

Í frv. er gert ráð fyrir að fækka iðnskólum úr um 20, sem þeir eru nú, niður í 8 sem lágmark, einn í hverju kjördæmi landsins, þó mega þeir vera fleiri, ef nauðsyn krefur að dómi ráðherra.“ Síðan segir forsetinn: „Margir munu af eðlilegum ástæðum sakna síns skóla, sem þeir hafa bundizt sérstökum tengslum og verið stofnað til með samtakamætti iðnaðarmanna af dugnaði þeirra og nauðsyn, en af litlum efnum. En staðreyndin er sú, að mjög erfiðlega gengur að reka alla þessa skóla þannig, að samræmi sé í kennslu og prófum. Kennarar við hæfi námsgreina eru litt fáanlegir á hinum ýmsu stöðum og nemar víða svo fáir í ýmsum námsgreinum, að óhóflega dýrt verður að veita þeim þá kennslu, sem nauðsynlegt er. Ef koma á upp góðum iðnfræðsluskólum, sem við iðnaðarmenn krefjumst að sé gert, bæði fyrir bókleg og verkleg fræði, verðum við að sætta okkur við, að það sé gert á fáum stöðum á landinu, annað yrði óframkvæmanlegt.“

Mér virðist nú líka, að hv. menntmn. hafi skilið þessa annmarka á fjölgun verknámsskólanna, því að með brtt. við 13. gr. gerir hún góða bragarbót með því að gera ráð fyrir, að skólarnir komi á verkaskiptingu, mér skilst þá þannig t.d., að verknám í járniðnaði væri í einum skólanna en kannske t.d. í tréiðnaði í öðrum o.s.frv.

N. gerir aðra stórfellda breytingu á frv., og er það varðandi yfirstjórn iðnfræðslunnar. Iðnfræðslunefndin og frv. gerðu ráð fyrir, að stofnað yrði embætti iðnfræðslustjóra til forustu um skipulag og uppbyggingu þessa þýðingarmikla fræðslukerfis og þeirrar miklu fjárfestingar og rekstrarkostnaðar, sem kerfið byggist á. N. gerir þá brtt., að iðnfræðsluráði verði falin flest þau störf, sem iðnfræðslunefndin hafði ætlað iðnfræðslustjóra. Ég hef víða orðið var við andstöðu gegn þessu ákvæði frv., bæði meðal stuðningsmanna stjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar, og er það að jafnaði rökstutt með þeim kostnaði, sem af embættinu mundi leiða. Þessi andstaða kom þó ekki fram við 1.umr. í hv. þd., nema hjá einum hv. þm., hv. 5. þm. Reykv. Ég hef til samkomulags sætt mig við þessa breytingu og skal því ekki gera hana að frekara umræðuefni. Ég vil þó láta koma fram, að ég tel, að hér sé verið að spara eyrinn, en henda krónunni, og svipta þessa uppbyggingu nauðsynlegri forustu af hálfu stjórnarvalda. Með allri virðingu fyrir iðnfræðsluráði, eru það þó fyrst og fremst fulltrúar þeirra stétta, sem að þessu kerfi eiga að búa, og er það gott, svo langt sem það nær. Iðnfræðslustjóri hefði þó vissulega haft hlutverki að gegna til uppbyggingar þessu kerfi af hálfu stjórnarvalda og til frumkvæðis um samstarf kjördæmisskólanna að hagkvæmri lausn þeirrar viðkvæmu verkaskiptingar, sem hv. menntmn. gerir ráð fyrir.

Þriðja stærsta brtt. n., að því er ókunnugum gæti virzt, er viðbót hennar við 15. gr. um aðild verksmiðjuiðnaðarins. Þessi brtt. er þó í fullu samræmi við till. iðnfræðslunefndarinnar og er aðelns fram komin vegna þess, að ákvæði frv. þóttu ekki nógu skýr. Ég er henni því fyllilega sammála og tel til bóta að taka af allan vafa um þetta atriði.

Aðrar brtt. eru, eins og hv. frsm. n. gat um áðan, nánast afleiðingar af þeirri breytingu, sem hún hefur gert á yfirstjórn iðnfræðslunnar, og ekkert um það að segja, ef menn vilja fallast á þá breytingu í grundvallaratriðum. Brtt. n. eru sem sagt minni en vænta hefði mátt í jafnstóru og viðkvæmu máli. Í því kemur fram samstarfsvilji um kjarna þýðingarmikils máls, og ég mun fylgja brtt. n., nema sérstök tilefni gefist til. Ég gat ekki búizt við meiri samstöðu eða meiri friði um þetta mál en fram hefur komið í meðferð hv. menntmn. Frv., sem jafnalmenn samstaða er um, getur varla verið gallalaust. Það er með nokkrum hætti eða a.m.k. um nokkur atriði málamiðlunarlausn. Málið er ekki flokksmál neins sérstaks flokks. Hörð átök um einstaka þætti þess mundu vafalaust skemma það meira en orðið er, ef þau mundu ekki stöðva afgreiðslu þess. Ég styð það því, eins og það nú liggur fyrir frá n., nema sérstök tilefni gefist til. Ég tel, að þegar á lengri tíma verður litið og dægurátökum er sleppt, verði þessi ákvörðun Alþ. happadrýgsta samþykkt þessa þings.