21.10.1965
Efri deild: 5. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Út af orðum hv. síðasta ræðumanns vil ég segja það, að ég er honum sammála um, að húsaleiga er náttúrlega ákaflega há, eins og hún er, og húseigendur ganga ákaflega langt í því efni. En ég er hins vegar ekki eins sannfærður um það og hann, að sítrónan sé algerlega þurrpressuð, þannig að það sé ekki einhver möguleiki á því að bæta einhverju við það, sem húseigendur gætu tekið af leigutökum. En mér virtist hans röksemdir byggjast á því, að þessu væri ekki hægt að velta yfir á leigutaka, af því að húseigendur hefðu þegar tekið allt, sem leigutakar væru færir um að greiða. En hins vegar sagði hann réttilega, að um það, hvort þetta færi út í húsaleiguna eða ekki, væri ekki hægt að fullyrða á þessu stigi, og þar af leiðir, að menn geta haft á því mismunandi skoðanir. Hann hefur sína skoðun á því, að þetta muni ekki fara út í húsaleiguna, ég hef mína skoðun á því, að þetta muni fara þá leiðina. Reynslan, ef til kemur, verður þá að skera úr því, hvor hefur réttara fyrir sér að þessu leyti.

Hæstv. fjmrh. gat þess, að hann hefði eiginlega ekki ætlað að tala í þessu máli. Mín ræða varð þó til þess, að hann hélt hér tölu. Það verð ég að telja vel farið, því að ég álít raunar, að honum hafi borið skylda til þess að tala í þessu máli. Þetta mál, sem hér liggur fyrir til umr., er nefnilega tvíþætt. Annars vegar að efni til breytingar á húsnæðismálastofnunarlögum, hins vegar um tekjuöflun fyrir ríkissjóð, og er reglan sú, að fjmrh. mæli fyrir tekjuöflunarfrv., og ég verð að álíta, að hæstv. fjmrh. hefði getað varið sínum ræðutíma betur með því að reyna að rökstyðja þessa fjáröflunarleið, sem þarna er um að tefla, heldur en að eyða jafnmörgum orðum og hann gerði í það að tala almennt um skattsvik eða afsaka það, að ekki hefði tekizt að uppræta þau betur en raun er á.

Ég skal ekki fara langt út í ræðu hæstv. fjmrh. Ég get eiginlega sagt um hann alveg sömu hrósyrðin og hann var að reyna að segja um mig. Sá málflutningur, sem hann hafði hér, hefði sómt sér vel á síðum Morgunblaðsins, en hins vegar fór hann ekki jafnvel í munni jafnábyrgs og rökviss manns og hæstv. fjmrh. er að öllum jafnaði.

Hæstv. fjmrh. lét sér sæma að fara að halda því fram, að það væri stefna okkar framsóknarmanna, að við værum alltaf með öllum útgjöldum, en á móti allri tekjuöflun. Þetta veit hæstv. fjmrh. að er gersamlega rangt, og mætti sanna það með mörgum dæmum, og er óviðeigandi, að því sé haldið fram í sölum þessarar hv. deildar. Við framsóknarmenn höfum fylgt að undanförnu ýmsum tekjuöflunum fyrir ríkissjóð, ég get nefnt mýmörg dæmi þess, þannig að það er óþarfi af hæstv. fjmrh. að fara að taka upp þann söng, sem sunginn er í málgögnum stjórnarinnar um þetta atriði.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það hefði aldrei komið fyrir áður, að skattsektum hefði verið beitt. Og mér virtist hann eiginlega vilja afsaka, að ekki væri meira gert nú eða hefði ekki tekizt betur nú en raun er á, með því, að þetta hefði alltaf verið í ólestri áður. Það er auðvitað engin afsökun, þó að svo hefði verið, og það veit hæstv. fjmrh. bezt, að það er engin afsökun að bera það fram, að eitthvað hafi áður verið í ólagi. Það, sem máli skiptir, og það eitt, sem máli skiptir, er, hvort þetta er í ólagi nú eða ekki. Ég fullyrti alls ekkert um það, hvort skattsvik hefðu verið meiri eða minni áður en nú, alls ekki nokkurn hlut. Ég hef ekki rannsakað það, hvort skattsektum hafi verið beitt áður eða ekki. Ég skal þess vegna heldur ekkert fullyrða um það. En ég verð að segja, að mér þykir það heldur ótrúlegt. Og þá minnist ég þess, að skattsvikaviðurlögin í eldri lögum voru með tvennum hætti. Annars vegar skattsekt, sem var í því fólgin, að það mátti reikna allt að tífaldri skattupphæð þeirri, sem undan var dregin, og svo hins vegar lítilfjörleg refsisekt. Það kann að vera, að þeirri refsisekt, sem var eftir einhverri gr. í l., sem ég man ekki, hver var, hafi aldrei verið beitt. En hins vegar leyfi ég mér að óreyndu að draga það ákaflega mikið í efa, að aldrei hafi verið beitt hinum skattsektunum. Ég held þvert á móti og vil hafa það fyrir satt, þangað til annað er sannað, að það hafi oft komið til þess, að vanreiknaður skattur hafi verið tvöfaldaður eða þrefaldaður eða eitthvað því um líkt, og það var vitaskuld skattsekt sú, sem þá tíðkaðist.

Hæstv. fjmrh. var með mikla vandlætingu út af því, að ég hefði talað hér almennt um sparnað án þess að benda á nokkra sérstaka sparnaðarliði. Ég sagði ekkert mjög mikið um sparnað, lýsti aðeins þeirri skoðun minni, að það mætti spara eitthvað í rekstri ríkisins, ef gætt væri fullrar ráðdeildar. Ég held, að hæstv. fjmrh. hafi látið svipaða skoðun uppi í sinni fjárlagaræðu. En hann ásakaði mig fyrir að hafa ekki bent á neina sérstaka liði. Það er rétt, ég benti ekki á neina sérstaka liði. Ég gæti kannske gert það, ef það færu fram sérstakar umr. um sparnað í ríkisrekstri, en annars álit ég það ekki hlutverk stjórnarandstöðunnar að benda á þá liði, sem spara á, heldur álit ég það vera verkefni stjórnarinnar að koma með till. í því efni og sjá svo til, hvernig stjórnarandstaðan tekur undir þær. Það er hlutverk stjórnarinnar í þessu landi, eins og stjórnar í hvaða landi sem er, að hafa forustuna, að stjórna, en ekki láta stjórna sér. Hann sagði, að það hefði verið margsýnt fram á það, m.a. nefndi hann eitthvað fyrrv. fjmrh. í því sambandi, að það væri ekki hægt að spara stórar upphæðir í útgjöldum ríkisins. Ég hef ekki haldið því fram, að það væri hægt að spara stórar upphæðir, — það getur vel verið, að það sé ekki hægt að spara neinar óskaplega stórar upphæðir, — en ég held hinu fram, að það sé hægt að spara á ýmsum liðum. Og þó að um smáar upphæðir sé að ræða, sem sparaðar eru, þá hefur það sín áhrif, hefur sín sálfræðilegu áhrif, að þegnarnir sjái, að ríkið gengur þar á undan með góðu eftirdæmi. Bruðl á litlum liðum, þó að það séu ekki stórar upphæðir, sem um er að ræða í hvert skipti, hefur sína miklu þýðingu.

Hæstv. fjmrh. gerði í raun og veru litla tilraun til að rökstyðja þessa fjáröflun, sem hér er um að ræða. Hann sagði réttilega, að fasteignamatinu væri ekki lokið, og sagði: „Hvaða vit er í því að fara að breyta fasteignamatinu með einu pennastriki?“ Ég segi það líka: Hvaða vit er í því? En hvað er gert með þessu? Er ekki fasteignamati breytt með einu pennastriki með þessu frv.? Það hefði ég nú haldið. En það er bara sá munur á, að því er breytt almennt, í öllum tilfellum, hvernig sem á stendur. Ég hef ekki haldið því fram, að fasteignamati ætti að breyta með einu pennastriki, heldur hef ég haldið því fram, að fasteignamatinu ætti að ljúka sem allra fyrst og svo fljótt sem tök eru á, og þá ætti að miða fasteignaskatta, ef þá á að nota, við það fasteignamat, vegna þess að það er í raun og veru alveg villandi, sem hæstv. fjmrh. var að tala um verðlag hér í Reykjavík, að fasteignir væru seldar á margföldu fasteignamatsverði. Það er alveg rétt. En það er óskaplega mismunandi eftir því, um hvaða fasteignir er að tefla. Þess vegna er ekkert vit að leggja sama mælikvarða á fasteignir, hvort sem það er t.d. einhver íbúð hér í úthverfi borgarinnar eða verzlunarlóð á bezta stað í bænum. Þetta veit hver maður. Það er allt annað verðlag á þessu. Og auðvitað á að taka tillit til þessara mismunandi kringumstæðna, þegar fasteignamat fer fram, en ekki hækka það með einu pennastriki, eins og hér á sér stað.

Þá vil ég benda á það, að hann var að tala um nauðsyn á fjáröflun og framsóknarmenn vildu sem sagt alltaf samþ. útgjöldin, en þeir vildu ekki afla fjár á móti. Nú vil ég benda á það, að í þessu frv., sem hér er um að tefla, er ekki um nein sérstök útgjöld að ræða, að ég hygg. Það er ekki gert ráð fyrir í þessu frv., sem hér liggur fyrir, að framlag ríkisins hækki um eina krónu. Það er alveg það sama og það var ákveðið í lögunum í fyrra, 40 millj. kr. Það eina, sem er að þessu leyti nýtt í þessu frv., er þetta, að það er hækkuð tekjuöflun í ríkissjóð. Framlag ríkissjóðs er alveg nákvæmlega það sama og það var. Þess vegna þarf ekki að vera að ræða um nein útgjöld í þessu sambandi. Það er ekki um það að ræða, að það sé verið að hækka þetta framlag núna úr 40 millj. í 60 millj., ekki aldeilis. Það á að vera 40 millj. áfram. Og það var samþ. í fyrra, að til að mæta því skyldi eignarskatturinn miðaður við þrefalt fasteignamat. Þegar svo einhverjir reikningsspekingar finna það upp, sem þó ómögulegt er auðvitað að reikna út, að þetta hafi ekki numið nema 16 eða 19 millj., þá á bara allt í einu að hækka svo sem hér er gert.

Hæstv. fjmrh. sagði, að sveitarfélögunum hefði aldrei verið lofað hluta af eignarskatti. Ég sagði það áreiðanlega ekki í minni ræðu, að sveitarfélögunum hefði nokkru sinni verið lofað hluta af eignarskatti. En ég sagði það, sem rétt var, að þróunin í þessum málum varðandi fasteignagjöldin hefði verið þessi, að upphaflega runnu þessi gjöld í ríkissjóð, en síðan var því breytt og það ákveðið, að þau skyldu renna til sveitarfélaga. Ég held því ekki einu sinni fram, að sveitarfélögunum hafi verið gefin berum orðum bein loforð um það, að þau skildu sitja að þessum tekjustofni ein, fasteignagjöldum. En ég lít hins vegar svo á, að af þessari framkvæmd megi draga þá ályktun, að það hafi verið gert ráð fyrir því, að þau ættu að sitja að þessum tekjustofni. En það er náttúrlega orðaleikur eða verra en það, þegar hæstv. fjmrh. er að segja, að sveitarfélögum hafi ekki verið lofað hluta af eignarskatti, vegna þess að það, sem hér er um að ræða, er í raun og veru fasteignaskattur, þó að hann sé á lagður með þessum undarlega hætti. Auðvitað ræður nafnið hér ekki eitt úrslitum. Það er lagður á fasteignaskattur, og sá fasteignaskattur er lagður á allar fasteignir með þessum sérstaka hætti, að fasteignamatið er sexfaldað og þannig reiknað inn í eignarskattinn. Það breytir náttúrlega engu um það, þó að allur skatturinn sé á eftir kallaður eignarskattur í stað þess að vera kallaður eignar- og fasteignaskattur, þannig að það er alveg ljóst, að það er verið að fara í kringum hið raunverulega, þegar hæstv. fjmrh. ætlar að verja sig á þeim grundvelli, að hér sé ekki um fasteignaskatt að ræða, heldur eignarskatt.

Ég skal svo láta þetta nægja, vil aðeins endurtaka það þó, sem ég var raunar búinn að segja, að ég álit ákaflega óeðlilegt, að þetta sé lagt á allar fasteignir án tillits til þess, hvar þær eru og hvernig á stendur hverju sinni, t.d. jafnt á íbúðir og húsnæði, sem notað er til annarrar starfsemi, jafnt á þurftaríbúðir og á stærri íbúðir og sem sagt ekki tekið tillit til neinna atvika í þessu sambandi. Ég held, að það sé ákaflega óeðlilegt og það eigi eftir að sýna sig, að þetta verði til þess að ýta undir dýrtíð og leggjast á þá, sem sízt skyldi. Hæstv. fjmrh. vildi láta það í veðri vaka í öðru orðinu, að hér væri um bráðabirgðafjáröflun að tefla. En það er ekkert í þessu frv., sem bendir til þess. Þegar nýtt fasteignamat er komið. 1967 eða hvenær sem það verður, sem væntanlega verður þá mun hærra en það, sem nú er, þá mundi það vera margfaldað sex sinnum, ef þessi lög stæðu þá óbreytt. Ef hæstv. fjmrh. meinti eitthvað með þessu, sem hann var að segja um þetta atriði, finnst mér, að hann ætti að setja það í lögin, að þau skyldu falla úr gildi að þessu leyti til, um leið og nýtt fasteignamat kæmi í gildi. En annars gæti það verið, ef krónurnar yrðu eitthvað færri næsta ár, sem reikningsmenn teldu að kæmu af þessum sökum, þá kæmu fram tilmæli um að 12-falda fasteignamatið. Hver veit? Það er ómögulegt að segja um það.