07.03.1966
Efri deild: 46. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

12. mál, iðnfræðsla

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Frv. þetta er samið af n., sem menntmrn. skipaði í október 1961 til þess að endurskoða gildandi lög um iðnskóla og iðnfræðslu. Í n. voru skipaðir þessir menn: Guðmundur Halldórsson þáv. formaður Landssambands iðnaðarmanna, Óskar Hallgrímsson formaður iðnfræðsluráðs, Snorri Tónsson framkvstj. A.S.Í., Þór Sandholt skólastjóri iðnskólans í Reykjavík og enn fremur Sigurður Ingimundarson verkfræðingur, sem jafnframt var skipaður formaður n. Í skipunarbréfi n. var kveðið svo á, að verkefni hennar skyldi vera í fyrsta lagi að rannsaka, hvort unnt sé að samræma eða sameina verknámsskóla gagnfræðastigsins og forskóla fyrir væntanlega iðnnema og þá með hvaða hætti. Í þessu sambandi skyldi m.a. athugað, hver þörfin væri fyrir skólabyggingar vegna verknáms annars vegar og forskóla hins vegar og hver sé líkleg þróun þessara mála í náinni framtíð. Kostnaðarhlið málsins átti að athuga sérstaklega. Í öðru lagi átti n. að rannsaka og gera till. um, hvaða breytingar væru æskilegar á núverandi tilhögun iðnfræðslunnar, bæði að því er tæki til verklega námsins og iðnskólanna, og skyldi þá höfð sérstök hliðsjón af þeim breytingum í þeim efnum, sem átt hafa sér stað í nálægum löndum. Sérstaklega var lagt fyrir n. að athuga, að hve miklu leyti væri æskilegt að auka verklegt nám í iðnskólum og þá í hvaða greinum og enn fremur hvort hagkvæmt virtist að kenna einhverjar iðngreinar að öllu leyti í skólum og þá hverjar. Í þessu sambandi skyldi n. sérstaklega reyna að gera sér grein fyrir hugsanlegum fjölda iðnnema á næstu árum, þannig að fá mætti nokkra hugmynd um þörfina fyrir nauðsynlegar verkstæðisbyggingar, staðsetningu þeirra og annað, er máli skipti í þessu sambandi. Og í þriðja lagi var n. falið í skipunarbréfi rn. að gera till. um framkvæmdaatriði á grundvelli álits og till. meistaraprófsnefndar, þ.e.a.s. n., sem rn. hafði skipað til þess að undirbúa meistarapróf og rannsaka, hvaða námskeið væri æskilegt að halda að staðaldri i iðnskóla fyrir iðnnema og e.t.v. aðra í þeim tilgangi, að þeim gefist kostur á að fylgjast sem bezt með tæknilegum framförum.

Þessi n., sem þannig var skipuð í októberlok 1961, vann hið ágætasta starf, sem fyllsta ástæða er til þess að þakka n. Hún lauk störfum í septembermánuði 1964. Skilaði hún ýtarlegu áliti og gerði till. um gagngera breytingu á iðnfræðslunni og þá jafnframt, að hafizt yrði handa um frekari undirbúning og framkvæmd þeirra breytinga í hinum fjölmennari iðngreinum, sem mesta þýðingu hafa fyrir almenna tækniþróun og þjóðarbúskapinn í heild. Breytingar þær, sem n. varð á einu máli um að leggja til, að gerðar yrðu með nýrri lagasetningu, tóku bæði til hins tæknilega og bóklega náms og þó einkum til verknámsins. N. lagði til, að iðnnámið byrjaði með 8 mánaða forskóla, svonefndum verkstæðisskóla, en síðan nokkurn veginn að jöfnu bóklegt og verklegt nám. Markmiðið skyldi vera að tryggja það, að iðnnemar fái þegar í upphafi kerfisbundna kennslu sérhæfðra kennara um verkfæri og meðferð þeirra, efni, vélar og vinnuaðferðir, þannig að þeir öðlist verkþjálfun og traustan grundvöll undir námið á vinnustað. N. taldi, að forskólinn gæti með góðu móti komið í stað 8 mánaða verknáms á vinnustað og tveggja fyrstu ára núverandi bóklegs iðnskólanáms og jafngilti því a.m.k. eins árs iðnnámi hvað tímalengd snertir. En jafnframt taldi n. forskólann vera mikla endurbót á iðnnáminu í heild. Taldi hún, að með samhæfðum inntökuskilyrðum og endurskipulagðri námsskrá mætti að mestu ljúka í forskóla öllu því almenna bóknámi, sem nú er aðalverkefni iðnskólanna, en tveim síðustu bekkjum iðnskólanna mætti þannig eingöngu verja til faglegs og tæknilegs bóknáms auk nokkurrar verklegrar kennslu eftir þörfum hverrar iðngreinar, þegar skólaverkstæði væri fyrir hendi. Að loknu forskólanámi ætti iðnneminn þá einnig að hafa haldbetri undirbúning til þess að hagnýta sér þá fjölþættu verkmenntun, sem fólgin er í verknámi atvinnulífsins, auk þess sem hann væri frá upphafi líðtækari verkmaður.

Í sambandi við þessar gagngeru breyt. á tilhögun sjálfs iðnnámsins lagði n. til, að iðnskólum yrði stórfækkað frá því, sem verið hefur, en þeir jafnframt stækkaðir, enda væri óhugsandi að framkvæma grundvallarhugmyndir n. með öðrum hætti. Lagði n. til, að iðnskólar yrðu 8 starfræktir í landinu, einn í hverju núverandi kjördæma.

Þegar n. hafði skilað hinni umfangsmiklu skýrslu sinni, en henni fylgdu athuganir og grg. um tilhögun þessara mála á Norðurlöndum, þar sem einmitt verknámsskólarnir hafa verið starfræktir um nokkurra ára skeið og gefið sérstaklega góða raun, einkum og sér í lagi í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi, þá lét rn. semja lagafrv. á grundvelli þessara till. iðnfræðslunefndar og í samráði við hana. Þetta lagafrv. var sent til umsagnar ýmsum aðilum, sem voru taldir eiga hlut að máli, og mæltu þeir yfirleitt með samþykkt frv., eins og það lá fyrir, og hafa umsagnir aðilanna verið prentaðar sem fskj. með frv., þegar það var fyrst lagt fyrir hið háa Alþ. Þetta frv., sem rn. lét semja í samræmi við till. iðnfræðslunefndar, var lagt fyrir síðasta Alþ., en þó ekki fyrr en svo, að þau hlaut ekki afgreiðslu þá. Síðan var málið enn lagt fyrir Alþ. í sama formi við upphaf þessa þings, og hefur frv. nú hlotið afgreiðslu hv. Nd. og samþykki d. með shlj. atkv. og með einróma meðmælum hv. menntmn. Nd. N. varð þó sammála um að gera nokkrar breytingar á frv., sem allar voru gerðar í samráði við mig eða menntmrn. eða ríkisstj.

Meginbreytingarnar, sem n. gerði á frv., eins og það hafði verið lagt fram, eru þær, að frv. eins og það er nú, heimilar að reka fleiri iðnskóla en 8, þ.e.a.s. fleiri en þá 8, sem iðnfræðslunefnd hafði lagt til, að starfræktir yrðu í landinu. Einnig var heimilað að reka iðnskóla, þar sem þeir nú væru starfandi og hefðu fleiri nemendur en 60, en það á við um iðnskólana í Keflavík og Vestmannaeyjum, sem þá að sjálfsögðu mundu starfa áfram, ef frv. verður afgreitt í því formi sem það nú er lagt fyrir hv. Ed. Enn fremur samþykkti hv. Nd. samkv. einróma till. hv. menntmn., að ákvæði upphaflega frv. og till. iðnfræðslunefndar um stofnun sérstaks embættis iðnfræðslustjóra skyldu felld úr frv. Iðnfræðslunefnd hafði gert till. um, að komið yrði upp sérstöku embætti og sérstakri skrifstofu iðnfræðslustjóra, sem hafa skyldi með höndum yfirstjórn iðnfræðslunnar, sem þannig skyldi ekki heyra undir fræðslumálastjóra, en hins vegar lúta yfirstjórn menntmrn. Ýmsum, sem um málið höfðu fjallað, þótti, að hér væri að ástæðulausu eða ástæðulitlu, enn sem komið er a.m.k., stofnað til skrifstofuhalds, sem komast mætti hjá, og að unnt væri að hafa þann hátt á, sem hingað til hefur verið og er um yfirstjórn iðnfræðslunnar, að hún heyri aumpart undir iðnfræðsluráð, sumpart undir fræðslumálastjóra og þá í heild undir yfirstjórn menntmrn. Ein af þeim breyt., sem gerðar voru á upphaflega frv., var fólgin í því, að öll yfirstjórn iðnfræðslunnar skyldi framvegis vera í höndum menntmrh., en ekki sumpart í höndum hans og iðnmrh., eins og er samkv. gildandi lögum. En allir aðilar höfðu verið sammála um það, að æskilegast væri, að öll yfirstjórn þessara mála væri á einni hendi. Sem sagt, menntmn. Nd. varð á einu máli um það að fella úr frv. öll ákvæðin um stofnun starfs og skrifstofu iðnfræðslustjóra og gera ráð fyrir því, að heildarstjórn þessara mála yrði í höndum iðnfræðsluráðs, fræðslumálastjóra og menntmrn.

Ég get hins vegar gjarnan getið þess hér, að nái þetta frv: fram að ganga, sem ég fastlega vona, mundi ég telja það skyldu mína að sjá til þess, að nægilegir starfskraftar yrðu fyrir hendi í menntmrn, til þess að geta helgað málefni iðnfræðslunnar sérstaklega krafta sína. Ein af höfuðástæðum þess, að iðnfræðslunefnd á sínum tíma gerði tili. um stofnun starfs iðnfræðslustjóra, var, að það þótti hæpið, að á fræðslumálaskrifstofunni yrðu fyrir hendi starfskraftar, sem hefðu nægilega sérþekkingu á málefnum iðnaðarins. En þeir eru fyrir hendi í iðnfræðsluráði og á skrifstofu þess, og ég endurtek, að ég mundi telja skylt og sjálfsagt að sjá til þess, að í sjálfu menntmrn. starfaði maður eða menn, sem hægt væri að treysta, að hefðu sérstaka þekkingu á málefnum iðnfræðslunnar og iðnskólanna.

Þriðja breytingin, sem máli skiptir og menntmn. í Nd. gerði á frv., var sú, að hún fjölgaði meðlimum iðnfræðsluráðs úr 7, eins og þeir höfðu verið í upphaflega stjfrv., upp í 9. Tveim aðilum var bætt við, þ.e. fulltrúa frá sambandi iðnnema annars vegar og frá iðnverkafólki hins vegar. Það þótti eðlilegt, að iðnnemar fengju fulltrúa í iðnfræðsluráði og enn fremur iðnverkafólk með sérstöku tilliti til þess, að eitt af nýmælum þessa frv. er það, að ætlazt er til þess, að iðnfræðslukerfið láti ekki aðeins faglærðum iðnaðarmönnum í té fræðslu og menntun, heldur einnig iðnverkafólki, þannig að samkv. þessu frv. yrði gert ráð fyrir því, að menntunarmál iðnverkafólks, menntunarmál verksmiðjuiðnaðarins séu einnig tekin mun fastari tökum en átt hefur sér stað hingað til og ekki aðeins menntunarmál eða fræðslumál handiðnaðarins.

Með þessum orðum vona ég, að mér hafi tekizt að gera grein fyrir aðalatriðum þess frv., sem hér liggur fyrir. Það var mér og ríkisstj. mikið ánægjuefni, að alger samstaða skyldi nást um þetta mál í hv. Nd. og í iðnn. hennar, og hið sama vona ég að verði upp á teningnum hér í hv. Ed. Það er bjargföst skoðun mín, að með samþykkt þessa frv. til l. um iðnfræðslu yrði stigið eitt stærsta sporið, sem stigið hefur verið um langan aldur, ekki aðeins i menntunar- og fræðslumálum íslenzkra iðnaðarmanna, heldur í íslenzkum mennta- og fræðslumálum yfirleitt.

Það er ekki þörf á að orðlengja um, í hve vaxandi mæli aukin framleiðni og aukin þjóðarframleiðsla er komin undir batnandi verkmenningu og aukinni menntun iðnaðarmanna og tæknimanna yfirleitt. En með þessu frv. tel ég einmitt vera stigin mjög stór spor í þá átt að stórbæta menntun og þar með verkkunnáttu íslenzkra iðnstétta og íslenzks iðnverkafólks. Þegar höfð er hliðsjón af því, að Alþ. hefur nýlega, einnig með shlj. atkv., komið á fót Tækniskóla Íslands, sem þegar hefur hafið starf með mikilli prýði og á eftir að láta mikið gott af sér leiða, og nú hefur verið lokið með margra ára undirbúningi gagngerðri endurskoðun iðnfræðslunnar, vona ég, að í kjölfar starfsemi hins nýja tækniskóla og starfs hinna nýju verknámsskóla, sem rísa munu af grunni, þegar þetta frv. hefur náð samþykki, — í kjölfar þessa tvenns muni sigla miklar framfarir í verkkunnáttu og tæknimenntun Íslendinga, sem hafa muni í för með sér stóraukna framleiðni, stóraukna þjóðarframleiðslu og þar með stórbætt lífskjör Íslendinga á næstu árum og áratugum.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. menntmn.