09.11.1965
Efri deild: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Frsm. meiri hl. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur tekið til meðferðar frv. það, sem hér er til umr. N. hefur rætt frv., en hún hefur ekki orðið sammála. Meiri hl. n. mælir með, að frv. verði samþ. óbreytt, og hefur lagt fram nál. á þskj. 63.

Efni þessa frv., sem hér um ræðir, er í meginatriðum afleiðing eða í beinu sambandi við yfirlýsingu ríkisstj. um húsnæðismál, sem gefin var í tilefni af samningum við verkalýðsfélögin í júlímánuði s.l. Í 1. gr. frv. 2. mgr. er ríkisstj. heimilað að láta byggja íbúðir í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög. Þar segir, að íbúðir þessar skuli vera vandaðar, hagkvæmar og staðlaðar, en án óþarfa íburðar. Með þessu er verið að gera tilraun til þess að sannreyna, hve mikið megi lækka byggingarkostnað með góðri skipulagningu og fullkomnustu tækni, sem við verður komið. Það er gert ráð fyrir, að framkvæmd bygginganna verði falin viðurkenndum verktaka eða verktökum á samkeppnisgrundvelli og með sem víðtækustu útboði. Gerðar verði sérstakar ráðstafanir til þess að greiða fyrir innflutningi tækja og byggingarhluta, eftir því sem æskilegt reynist. Það er gert ráð fyrir, að þessar íbúðir verði tveggja, þriggja og fjögurra herbergja og verði staðsettar í hverfum, þannig að við verði komið sem mestri hagkvæmni í byggingarframkvæmdum. Hér er um að ræða markvissa og merkilega tilraun til þess að lækka byggingarkostnaðinn í landinu.

Í 2. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að það verði hækkað fasteignamat til eignarskatts, sem samþ. var á síðasta þingi til fjáröflunar fyrir íbúðalán. Á síðasta þingi var fasteignamatið þrefaldað, en nú er gert ráð fyrir, að það verði sexfaldað. Það hefur komið í ljós, að þessi tekjustofn hefur ekki nægt til þess, að þar fáist það fjármagn, sem gert var ráð fyrir að ríkissjóður legði fram til íbúðarlána á hverju ári, eða um 40 millj. kr. Það mun ekki hafa náðst með þreföldun fasteignamatsins nema tæplega helmingur þessarar upphæðar. Það er mjög þýðingarmikið, að svo sé búið um hnútana, að tryggt sé, að þessi fjárhæð, sem ríkissjóði er ætlað að inna af hendi í þessum tilgangi, sé til.

Í 3. gr. frv. er um þá nýjung að ræða, að upphæð íbúðalánanna, sem er 280 þús. kr. á hverja íbúð, er miðuð við vísitölu byggingarkostnaðar 1. júlí 1964, og framvegis skal lánsupphæðin hækka eða lækka samkv. þeirri vísitölu. Frá því að l. um húsnæðismálastjórn voru fyrst sett árið 1955, hefur alltaf verið kveðið svo á, að lánsupphæðin skuli vera í ákveðnu hámarki. Af þessu hefur leitt, að hvenær sem hefur þótt rétt að hækka lánin, hefur reynzt nauðsynlegt að breyta l. Það má segja, að slíkt komi ekki að sök. Því verður samt ekki á móti mælt, að það er ýmislegt, sem mælir með því, að það þurfi ekki að breyta löggjöfinni í hvert sinn, sem hámarksupphæð lánanna er breytt, og þetta ákvæði, sem hér er sett inn, tryggir það, að svo þurfi ekki að gera. En í þessu sambandi er þess að geta, að í ákvæðum til bráðabirgða í frv. þessu er gert ráð fyrir, að á næstu 5 árum skuli hækkun lánsfjárhæða samkv. því ákvæði, sem ég áður gat um, eigi vera lægri fjárhæð á ári hverju en 15 þús. kr., þó að vísitala byggingarkostnaðar valdi ekki svo mikilli hækkun lánsfjárhæðar. Þetta ákvæði er í beinu samræmi og til staðfestingar á yfirlýsingu ríkisstj., en þar var kveðið svo á um þetta atriði.

Þá er í 2. mgr. 3. gr. ákvæði um það, að láglaunafólk í verkalýðsfélögum skuli hafa forkaupsrétt að íbúðum þeim, sem ríkisstj. lætur byggja í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög. Þar er enn fremur tekið fram, að það sé heimilt að veita meðlimum verkalýðsfélaganna lán til kaupa á þessum íbúðum, sem nemur 4/5 hlutum af verðmæti íbúða, og þá skal telja gatnagerðargjald með verðmæti íbúðanna. Hér er um verulega hækkun að ræða frá því, sem gildir um hin almennu lán húsnæðismálastjórnar. Gert er ráð fyrir, að hin almennu lán megi ekki nema hærri upphæð en 3/4 hlutum verðmætis íbúðar, og það hefur í framkvæmd ekki verið reiknað með gatnagerðargjaldinu.

Þá er í 4. gr. frv. ákvæði um það, að þessi sérstöku lán til meðlima verkalýðsfélaganna skuli vera til 33 ára, afborgunarlaus fyrstu 3 árin, en endurgreiðast síðan á 30 árum. Hér er sömuleiðis um hagkvæmari kjör að ræða en á hinum almennu lánum.

Þá er í 6. gr. frv. kveðið svo á, að um leið og frv. tekur gildi sem lög, falli úr gildi lög um húsaleigu. Það þótti eðlilegt og nauðsynlegt að setja þetta ákvæði inn í þetta frv., með því að ef það væri ekki gert, mundu núgildandi ákvæði um húsaleigu hamla eðlilegri framkvæmd á þeim fyrirætlunum sveitarfélaga að byggja sérstakar leiguíbúðir.

Þá vil ég að lokum minnast á ákvæði til bráðabirgða, sem eru á þá leið, að þeir, sem hófu byggingarframkvæmdir á tímabilinu 1. apríl til 31. des. 1964, skuli eiga kost á viðbótarláni hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem nemur 50 þús. kr. Nú er það svo, að samkv. núgildandi l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins er kveðið svo á, að hámark lánsupphæðar sé 280 þús. kr. Það mætti því segja, að þetta ákvæði væri óþarft, vegna þess að húsnæðismálastjórn hefur heimild til þess núna að veita allt að 280 þús. kr. lán. Hins vegar er ekki óeðlilegt að taka þetta ákvæði hér inn sem bráðabirgðaákvæði. Það er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstj. í sambandi við kaupgjaldssamningana á s.l. sumri, og það tekur skýrt fram, að húsnæðismálastjórn skuli veita þessi viðbótarlán.

Þetta atriði, að veita þessum aðilum, sem hér um ræðir, þessi viðbótarlán, hækka lánin úr 150 þús. upp í 200 þús., þýðir það, að húsnæðismálastjórn hefur þurft á auknu fjármagni að halda til þessara þarfa. Það er gert ráð fyrir, að til þess að fullnægja þessum ákvæðum þurfi húsnæðismálastjórn rúmar 30 millj. kr. Það er nú þessa dagana verið að vinna að þessum viðbótarlánveitingum, og ríkisstj. hefur þegar tryggt húsnæðismálastjórn viðbótarfjármagn í þessu skyni að upphæð 30 millj. kr.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja efni þessa frv. frekar, en vænti þess, að það fái góða afgreiðslu í hv. deild.