28.04.1966
Efri deild: 73. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

9. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um veitingu ríkisborgararéttar til handa 38 erlendum ríkisborgurum, sem sótt hafa um íslenzkan ríkisborgararétt.

Frv. kemur frá Nd., og hefur meðferð þess verið hagað með sama hætti og tíðkazt hefur undanfarin ár. Það er þannig, að 4 menn úr báðum allshn. þd. hafa rannsakað umsóknir þær, sem fyrir lágu um íslenzkan ríkisborgararétt, ásamt öllum fylgiskjölum. Hafa allshn. beggja þd, byggt till. sínar á þessari rannsókn.

Reglur þær, sem miðað er við í frv., eru hinar sömu og beitt hefur verið undanfarin ár, og eru þær prentaðar á þskj. 507 í nál. allshn. Nd.

Undantekning hefur þó verið gerð nú eins og áður um flóttamenn, ungverska og júgóslavneska, enn fremur um ungbarn, sem íslenzk hjón hafa ættleitt, og auk þess skólastjórahjón á Siglufirði, sem talsmenn bæjarstjórnar Siglufjarðar hafa lagt ríka áherzlu á að fengju nú ríkisborgararétt, en nokkuð vantaði upp á, að hjón þessi hefðu búið hér á landi 10 ár.

Allshn. þessarar hv. d. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það var samþ. við 3. umr. í Nd. og fram kemur á þskj. 549. Einn nm., Ólafur Björnsson, var fjarverandi, þegar n. afgreiddi málið.