09.11.1965
Efri deild: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Frsm. 1. minni hl. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Þetta mikilsverða frv. var lítillega rætt í hv. heilbr.- og félmn. Það var tekið fyrir á tveimur fundum n., en í raun og veru lítið athugað af n. og lítið rætt. Í sambandi við ákvæði 2. gr. frv. fór ég t.d. fram á það við hv. meiri hl. n., að einhver reikningsfróður maður úr stjórnarráðinu mætti á fundi með n. til þess að gera nánari grein fyrir þeirri breytingu, sem felst í 2. gr., hækkun á eignarskatti. Þessari bón minni var þverneitað af hv. meiri hl., og yfirleitt fannst mér kenna þess meira nú en oft endranær, að meiri hl. virti að vettugi eðlilegar óskir minni hl. um sjálfsagða og eðlilega athugun málsins. Ég tel rétt, að þetta komi fram, því að þetta eru vinnubrögð í n., sem enginn meiri hl. á að leyfa sér.

Um flest í þessu frv. munu ekki vera skiptar skoðanir í hv. heilbr.- og félmn. Það eru aðeins nokkur atriði þess, sem ollu ágreiningi og gerðu það að verkum, að n. klofnaði í málinu. Ég hafði einkum við þrjú atriði frv. að athuga og geri í samræmi við það brtt. á þskj. 62. Ég vil nú lítillega gera grein fyrir þeim þrem brtt., sem ég geri við þetta frv.

Fyrsta brtt. snertir 2. gr. frv. Ég legg til, að þessi gr. sé felld niður. Í henni ræðir um það, að eignarskatt skuli ekki miða við fasteignamat þrefaldað, heldur við fasteignamat sexfaldað. Á s.l. vori, fyrir aðeins 6 mánuðum, samþykkti Alþ. að hækka eignarskatt á vissum hluta landsmanna með þeim hætti, að eignarskattur skyldi ekki miðaður við gildandi fasteignamat, heldur fasteignamat þrefaldað. Þessi nýi eignarskattsauki átti að gefa af sér 40 millj. kr. samkv. útreikningi ráðunauta hæstv. ríkisstj. og þær 40 milljónir króna skyldu renna til húsnæðismálasjóðs sem árlegt framlag. Þegar Alþingi kemur saman nú í haust, hafa menn komizt að þeirri niðurstöðu, að þessir útreikningar í vor eru mjög rangir, þessi skattauki muni ekki gefa 40 millj., eins og gert var ráð fyrir í byrjun, heldur aðeins 16–19 millj. eða tæpan helming. Þess vegna er farið fram á, að eignarskattur viss hluta landsmanna verði miðaður við fasteignamat sexfaldað. Þannig á að ná upp því, sem á vantar í 40 millj. kr. sem framlag til húsnæðismálasjóðs. Nú spyr ég: Er þessi síðari útreikningur réttur? Er hann nokkuð réttari en fyrri útreikningurinn? Það var ekki borið við að færa nein rök fyrir því, í hverju skekkjan frá s.l. vori lægi, ekki borið við að sýna þdm. fram á það reikningslega, að nauðsynlegt sé að hækka fasteignamatið í þessu skyni. Ef fasteignamat þrefaldað gefur af sér 16–19 millj. kr., er alveg einsætt að mínum dómi að fasteignamatið sexfaldað gefur af sér verulega meira en 40 millj. Það leiðir af því, að skattþegnarnir verða miklu fleiri, og það leiðir af þeirri stighækkun, sem þessum skatti fylgir. Ég er því ekki tilbúinn til þess að samþykkja það, sem í 2. gr. felst. Ég krefst þess a. m. k. fyrst að fá það betur rökstutt, að þetta sé nauðsynlegt. Ég er ekki andvígur því í sjálfu sér að hækka eignarskatt, en ég vil hvorki láta hækka eignarskatt né aðra skatta, nema rök séu færð fyrir þörf þess, og það finnst mér ekki hafa verið gert í þessu tilfelli.

Það var bent á það hér við 1. umr. rækilega, að þetta ákvæði um hækkun eignarskatts ætti ekki heima í þessum l., heldur í 1. um tekjuskatt og eignarskatt. Ég er alveg sammála þessu, og sérstaklega tel ég þess þörf, þegar haldið er áfram að vega í sama knérunn og hækka sama liðinn tvisvar á sama árinu. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að þegar miða á eignarskatt við fasteignamatið sexfaldað, raskar það þeim grundvelli, sem er undir öllum reglum um álagningu eignarskatts. Þess vegna þarf að endurskoða l. um eignarskatt, um leið og það er ákvarðað, sem í 2. gr. stendur. Þetta er önnur ástæða fyrir því, að ég get ekki að svo stöddu samþ. ákvæðið í 2. gr. og legg þess vegna til, á meðan ekki liggur annað fyrir til rökstuðnings þessari skattheimtu, að 2. gr. verði felld niður úr frv.

2. brtt. mín snertir 3. gr., 2. mgr. Í þeirri mgr. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Láglaunafólk í verkalýðsfélögum skal hafa forkaupsrétt að íbúðum þeim, sem byggðar eru samkv. 3. mgr. 3. gr. l. þessara, og er heimilt að velta meðlimum verkalýðsfélaga lán til kaupa á íbúðunum, sem nemur 4/5 hlutum af verðmæti íbúða, og skal þá telja gatnagerðargjald með verðmæti íbúðanna.“ Ég benti á það við 1. umr., að hér er orðalag, sem efnislega er annað en það, sem heitið var í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. í sumar. Í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. er það tiltekið, að láglaunafólk í verkalýðsfélögum skuli hafa forkaupsrétt að íbúðum, sem byggðar eru samkv. 3. gr. l., og að það skuli eiga kost á láni, sem nemur 4/5 hlutum af verðmæti íbúðanna. Hér er meiningarmunur. Samkv. yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. skyldi þetta láglaunafólk eiga rétt á 80% láni. En eins og það er orðað í frv., þá er húsnæðismálastjórn aðeins veitt heimild til að veita þeim 80% lán. Ég tel, að hér sé um verulegan meiningarmun að ræða, og legg sem sagt til, að það verði leiðrétt og það látið standa, sem segir í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. frá í sumar.

Þá kem ég að þriðju og síðustu brtt. minni, og hún snertir 6. gr. frv. Þar segir í 2. málslið: „Jafnframt eru úr gildi fallin lög nr. 30 4. febr. 1952.“ Hér er um að ræða afnám laga um hámark húsaleigu o. fl. frá 1952. Ég legg til, að þessum málsl. verði breytt á þann veg, að l. um hámark húsaleigu o. fl. skuli falla úr gildi, jafnskjótt og ný húsaleigulög hafa verið sett. Um þetta atriði þarf ég ekki að fjölyrða, ég ræddi um það hér áðan undir þeim dagskrárlið, sem var á undan þeim, sem nú er til umr. En í þessari brtt. minni felst það að sjálfsögðu, að ég vil ekki ganga inn á einhliða afnám húsaleigulaganna, þó að ég telji þau úrelt, heldur vil ég, að undinn sé bráður bugur að því, að ný húsaleigulög verði sett, þannig að þessi úreltu, gömlu lög geti þá um leið fallið úr gildi.

Á þskj. 72 eru brtt. frá Karli Kristjánssyni og Ásgeiri Bjarnasyni. Þar er það lagt til, að þessum málslið í 6. gr. sé sleppt, að hann sé felldur niður, og að í staðinn komi ákvæði til bráðabirgða þess efnis, að reglugerð sú, sem um ræðir í síðustu mgr. A-liðar 7. gr. laganna, er óbundin af hámarksleiguákvæðum laga nr. 30 4. febr. 1952, þar til þau lög hafi verið endurskoðuð. Þetta fellur nokkuð í sömu átt og ég hef um rætt, þ.e.a.s. í þessum till þeirra hv. þm. er lögð áherzla á nauðsyn á endurskoðun húsaleigulaganna og að gera allt til þess að flýta fyrir því, að sú endurskoðun fari fram.

Ég mæli ekki gegn þessum brtt. á þskj. 72, 2. og 3. brtt., en það kemur mér aðeins í hug, hvort samþykkt þeirra gæti haft í för með sér tafir á því, sem koma þarf, endurskoðun húsaleigulaganna. Að vísu er vandinn leystur með þessu að mínum dómi fyrir hæstv. ríkisstj., en ég hefði mjög gjarnan viljað nota það tækifæri, sem gefst í sambandi við umr. um frv., sérstaklega 6. gr. þess, til að þvinga hæstv. ríkisstj. til að koma á endurskoðun og fá samþykkt á nýjum húsaleigulögum hið allra fyrsta.