05.04.1966
Efri deild: 61. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

178. mál, alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það, sem kom mér til þess að kveðja mér hljóðs aftur, voru fyrst og fremst þau ummæli hæstv. viðskmrh., sem hann viðhafði um það, sem ég sagði varðandi hin fjögur nýfrjálsu ríki, sem nú er upplýst, að þegar hafa fullgilt samninginn. Hæstv. ráðh. hafði um það stór og þung orð, að ég hefði í ræðu minni hér áðan talað þannig um þessi ríki, að ég hefði farið um þau mjög niðrandi og ósæmilegum orðum. Þessu vil ég mótmæla og mótmæla harðlega. Ég tel, að hæstv. ráðh. hafi enga heimild til þess að álykta slíkt af þeim orðum, sem ég viðhafði. Hann vildi láta lita svo út sem ég hefði talað um þessi fjögur ríki, kallað þau nýfrjáls ríki í eitthvað niðrandi merkingu, en það sem ég átti við og það sem ég fullyrði, að ég hafi sagt, var þetta, að það kunna að vera sérstakar ástæður hjá þessum ríkjum, sem valda því, að þau hafa nú þegar fullgilt þennan samning. Það eru þær ástæður, að það er við margvíslega örðugleika að etja, og það er ekkert launungarmál, að m.a. er þar við þá erfiðleika að etja, að ýmsar vestrænar stofnanir, jafnvel vestrænar þjóðir, hafa vissa vantrú á réttarfarinu í þessum ríkjum, og það var ekkert annað, sem ég sagði. En það var síður en svo, að ég færi nokkrum óvinsamlegum eða niðrandi orðum um þau ríki, sem þarna var um að ræða. Það, sem ég sagði, var aðeins þetta, að vissir vestrænir aðilar hafa sýnt það bæði fyrr og síðar, að þeir hafa vantrú enn sem komið er á þessum ríkjum og vita, að þau eiga við mikla örðugleika og eðlilega örðugleika að stríða, meðan þau eru að rísa á legg, og að það var einmitt eitthvað svipuð vantrú, sem okkur finnst að hafi komið fram og komi fram að því er Ísland varðar og réttaröryggi á Íslandi m. a. í þeim ummælum, sem oft hefur verið til vitnað og formaður eða fulltrúi svissneska alúmínfélagsins lét falla hér í viðtali við blaðamenn á dögunum og í rauninni skín út úr þeim samningi, sem liggur nú fyrir hv. Nd. um álmálið.

Ég var satt að segja dálítið hissa á hæstv. ráðh., að hann skyldi hafa þau orð, sem hann hafði, um ummælí mín varðandi þau fjögur Afríkuríki, sem þegar hafa sótt um aðild að samningnum, því að ég gaf honum ekkert tilefni til þess. En mér sýnist, að þetta sé eitt með öðru dálitið sýnishorn af því, að hæstv. ráðherrar eru farnir að verða dálítið taugaveiklaðir þessa dagana. Það er ekki laust við það. Og annað dæmi um það er það, sem komið hefur fram hvað eftir annað hjá hæstv. ráðherrum, fleiri en einum, og hæstv. viðskmrh. heldur áfram að stagast á, það eru tilraunir til þess að láta líta svo út, að það sé eitthvert stórt atriði í þessum efnum, jafnvel meginatriði, hversu mörg ríki hafa nú þegar undirskrifað þennan samning, sem hér er um að ræða. Það er þrástagazt á því og jafnvel reynt að láta líta svo út, að það sé nokkurn veginn það sama eða jafnvel alveg það sama og að fullgilda samninginn, það hljóti að koma þegar á eftir. Þó að milli 30 og 40 ríki hafi þegar undirskrifað þennan samning og einhver séu að bætast við að því er það varðar þessar vikurnar, þá liggur það fyrir og er viðurkennt af hæstv. ráðh., að einungis fjögur ríki, tiltekin ríki, sem hann hefur nú nefnt, hafa fullgilt samninginn, og þess vegna segi ég: Hvað liggur okkur á að verða fimmta ríkið í því sambandi? Hvers vegna þurfum við að vera fyrsta ríkið á Norðurlöndum, sem fullgildir þennan samning? Hvers vegna fyrsta Evrópuríkið, sem gerir það? Er nokkur ástæða til þess að flýta sér svo mjög, að ekkí gefist gott tóm til þess að athuga þetta mál og þýða a.m.k. samninginn á sómasamlega íslenzku?