05.04.1966
Efri deild: 61. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

178. mál, alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta hv. þdm. og því síður hæstv. ráðh. á mjög langri ræðu í þetta skipti, enda kvartaði hann yfir því, að mín fyrri ræða hefði verið sundurlaus. Það er ekki mitt að dæma um það. En hitt er rétt, að það kom fram af hans svarræðu, að honum veittist heldur erfitt að svara þeim rökum, sem ég hafði borið fram í minni ræðu, og satt að segja held ég, að það hefði farið betur á því hjá ráðh., að efnið hefði verið öllu meira; en hávaðinn minni í hans ræðu.

Hann var undrandi á því, að við, sem teldum samninginn lítils virði, værum þó á móti honum, og hafði orð um það, að það hefði verið farið ósæmilegum orðum og niðrandi um þau ríki, sem þegar hefðu fullgilt. Nú tók ég það alveg sérstaklega fram í minni ræðu, að það væri síður en svo ástæða til fyrir okkur að líta niður á þessi Afríkuríki, en af þessu hefur ráðh. að sjálfsögðu misst vegna sinnar fjarveru.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að í þessum samningi fælist ekki nein skuldbinding til þess að leggja neinar deilur fyrir þann gerðardóm, sem settur verður upp með þeim samningi. En hann vildi samt telja, að hann væri mikils virði. Hann sagði : Það er vitað, að deilur hafa oft risið einmitt út af fjárfestingu erlendra aðila í ýmsum ríkjum og af því hafa stafað vandkvæði, en það hefur ekki verið til nein stofnun, sem leyst gæti úr þeim deilum. — Þetta er að nokkru leyti rétt, en ekki að öllu. Það er alveg rétt, að það hafa oft risið deilur út af slíkri fjárfestingu, og að sjálfsögðu hefur vandkvæði getað leitt af þeim deilum. Hins vegar er það ekki alls kostar rétt, að það hafi ekki verið til neinar stofnanir, sem hafi getað leyst úr þeim deilum. Fasti milliríkjagerðardómurinn hefur verið til aliar götur frá 1899. Til hans hafa auðvitað þau ríki, sem hafa verið aðilar að samþykktum, getað leitað um úrlausn á ágreiningi slíkum sem þessum, ef þau hafa komið sér saman um það. En þó að þessi samningur verði gerður og fái gildi um þennan gerðardóm, þá geta eftir sem áður alveg eins risið vandkvæði af deilum, sem stafa af slíkri fjárfestingu, vegna þess að það er eftir þessum samningi engin trygging fyrir því, að þau ríki sem hlut eiga að máli, og þeir aðilar, sem eiga hlut að fjárfestingardeilum, semji um það að leggja þá fjárfestingardeilu fyrir þennan gerðardóm. Það er álit eftir sem áður opið, það er allt undir framkvæmdinni komið. Þar erum við, ég og hæstv. viðskmrh., náttúrlega jafnófróðir og vitum ekki, hver framkvæmdin verður í því efni, og um það verður ekki sagt. En auk þess og i sambandi við það, sem hæstv. viðskmrh. var að tala um og gera mikið úr þeirri þýðingu, sem þessi gerðardómur mundi hafa umfram aðrar stofnanir, sem hingað til hafa verið til, er enn fremur þess að gæta, að vald þessa gerðardóms, jafnvel í þeim tilfellum, þar sem samið verður um að leggja fjárfestingardeilu fyrir hann, er takmarkað. Það er takmarkað aðeins við það, sem kallað er lagalegar deilur, en það er hugtak í þjóðarétti, og utan við þær lagalegu deilur, sem þar eru kallaðar og „defineraðar“ sem slíkar, getur verið um margvislegan ágreining að ræða, og ekki gæti sízt reynt á slíkan ágreining í sambandi við fjárfestingu. Sá ágreiningur liggur allur utan við valdsvið þessa gerðardóms, þó að til komi. Þó að þessi samningur verði fullgiltur, þá er allt opið í annan endann. Þessi stofnun er þá að vísu til, og það er nokkurs virði, og ríki geta þá, ef þau vilja, samið um það að leggja mál fyrir

hana. En þeim er það alveg frjálst. Aðilar, sem hafa fullgilt samninginn, eru ekki á neinn hátt skuldbundnir til þess. Það er því ekki mikil trygging fyrir því, að þessi stofnun beri mikinn árangur, en eins og ég sagði skal ég litlu spá um það. En það, sem ég lagði áherzlu á í mínu máli og rökstuddi það með, að þessi stofnun væri þarflaus fyrir Ísland, voru þær ástæður, að hér þyrftu útlendingar ekki á neinni sérstakri vernd að halda vegna fjárfestingar sinnar, af því að þeir nytu að öllu leyti í því tilliti sömu réttarverndar og Íslendingar, og á hinn bóginn, að það væru ekki minnstu líkur fyrir því, að Íslendingar færu að fjárfesta fé annars staðar. Það voru þessi atriði, sem ég lagði höfuðáherzluna á og gerðu samninginn þarflausan fyrir Ísland. Það er af því, að útlendingar njóta hér alveg fullrar réttarverndar, og það er ekki ástæða til að ætla, að Íslendingar fari að leggja í slíka fjárfestingu annars staðar, að þeir muni þurfa að halda á slíkri stofnun sem þessari.

Það er af þessum ástæðum fyrst og fremst, sem ég taldi þennan samning þarflausan fyrir Ísland. Ég legg engan dóm á það, hvort það er mikils virði eða lítils virði fyrir aðrar þjóðir, þær verða að gera það upp við sig. Ég læt það alveg eiga sig. Ég met málið aðeins út frá íslenzku sjónarmiði.

Þá sagði hæstv. ráðh., að úr því að við værum þessarar skoðunar, að samningurinn væri svona lítils virði fyrir Ísland, hvaða ástæða væri þá til þess að vera að amast við honum eða vara við honum? Ég vil snúa þessu alveg við. Ég vil segja: Þeir, sem halda því fram, að við eigum að gerast aðilar að slíkri stofnun, það er þeirra að sýna fram á ástæðurnar fyrir því og nauðsynina á því. Það er þeirra að sýna fram á það. Það hafa þeir ekki getað gert, því að hann hefur ekki hrakið eitt einasta atriði, sem ég sagði um þetta efni, um horf íslenzkra dómstóla gagnvart útlendingum.

Það er upplýst í málínu og viðurkennt af hæstv. ráðh., eins og vænta mátti, að það hafa ekki nema fjögur ríki fullgilt samninginn. Það er hins vegar upplýst, að hið rétta sé, að 35 ríki hafi undirskrifað, þar af séu að vísu ekki nema tvö Norðurlandaríkjanna. Þessar upplýsingar eru því rangar í álsamningsgreinargerðinni, og er það nú raunar furðulegt að geta ekki haft slíkar staðreyndir eða upplýsingar réttar, sérstaklega þegar tillit er tekið til þess, að þessu frv. var, að ég ætla, útbýtt á undan álsamningnum, þannig að það er mjög furðulegt.

Auðvitað varð hæstv. viðskmrh. að viðurkenna það, að undirskrift samnings skuldbindi ríki ekki að lögum til þess að fullgilda hann, enda er það vitað mál, að ríki er það algerlega í sjáifsvald sett, hvort það fullgildir þann samning, sem það hefur undirritað, t.d. í ráðstefnulok einhvers staðar eða því um líkt. Og það er alls ekki rétt, sem ráðh. vildi halda fram, að það heyrði undantekningum til, að ríki fullgiltu ekki samning, sem þau hefðu undirskrifað, a.m.k. nema stjórnarskipti hefðu orðið í því landi. Um þetta mætti miklu frekar segja, að það væri daglegur viðburður, að ríki, sem undirskrifað hafa samning, fullgildi hann ekki. Það eru margir alþjóðasamningar, sem hafa verið gerðir, samþykktir og undirskrifaðir á sínum tíma, en hafa aldrei verið fullgiltir af nægilegri tölu ríkja og þess vegna aldrei öðlazt gildi sem milliríkjasamningar. Ég get nefnt ótal dæmi um það, t.d. má nefna samning á Haagráðstefnu 1930 um ríkisborgararétt, hann hefur aldrei verið fullgiltur. Það má nefna samning, sem gerður var á Haagráðstefnu 1907 um alþjóðlegan áfrýjunardómstól í vissu máli. Hann hefur aldrei verið fullgiltur eða öðlazt gildi. Það má nefna samning, sem gerður var á Genfarráðstefnunni 1958, samning, sem snertir hagsmuni okkar Íslendinga varðandi vísindalega verndun fiskstofna utan við landhelgi. Mér er ekki kunnugt um, að við Íslendingar höfum t.d. fullgilt þann samning. Þannig mætti nefna mýmörg dæmi þess, alveg fjöldamörg dæmi.

Hins vegar er það náttúrlega út af fyrir sig ákaflega ófrjótt, að við séum að deila um það, við hæstv. viðskmrh., hvenær 20 ríki muni hafa fullgilt þennan samning eða ekki. Við vitum báðir jafnlítið um það, og úr því verður bara reynslan að skera. Ég hef þá trú, að það dragist kannske eitthvað, en hann heldur, að þetta muni ske fljótt. Ég tel það ekki í sjálfu sér miklu máli skipta. En eins og ég sagði áðan, þá gerði hann allt of mikið úr því í sínu máli, að hér væri eitthvað alveg nýtt, ríki hefðu ekki átt kost á neinum úrræðum áður til þess að jafna deilur um þessi efni. Þetta er alls ekki rétt. Það eru til margir sáttanefndarsamningar á milli ríkja. T.d. hafa Bandaríkin lagt á það mikla stund að gera slíka samninga við önnur ríki og í gildi eru margir sáttanefndarsamningar. Norðurlöndin beittu sér líka á sínum tíma fyrir gerð slíkra sáttanefndarsamninga og börðust meira að segja fyrir því í Þjóðabandalaginu gamla á sínum tíma, og þau eru aðilar að mörgum sáttanefndarsamningum, og slíkir sáttanefndarsamningar geta auðvitað tekið til deilna sem þessara.

Þar fyrir er það sjálfsagt svo, að Alþjóðabankinn hefur talið heppilegt af einhverjum ástæðum að setja þetta fyrirkomulag upp, og það getur vel verið, að það eigi við og sé heppilegt með tilliti til einhverra ríkja. En að því er Ísland varðar hef ég leyft mér að halda því fram, að það sé ekki þörf á því, og hæstv. ráðh. hefur ekki getað sýnt fram á, að það væri þörf á því. Hann var að leggja áherzlu á, að það væri eitthvert keppikefli, að mér skildist, að það væri um þessar deilur farið eftir alþjóðalögum og alþjóðavenjum. Það má kannske til sanns vegar færa. En eftir því sem mér hefur skilizt, þá hefur í umr. um álmálið verið lögð höfuðáherzla á það og verið talið þeim samningi sérstaklega til gildis, að þar væru í fyrstu röð nefnd íslenzk lög, að ágreiningsmálin ættu að úrskurðast eftir íslenzkum lögum, og það lagði ráðherrann raunar áherzlu á líka, og auðvitað hljótum við að leggja áherzlu á það, að mál séu úrskurðuð eftir íslenzkum lögum, þegar um er að tefla málefni, sem landsrétti lúta. En það geta svo verið allt önnur málefni, sem lúta reglum þjóðaréttar, og um þau málefni á auðvitað að fara eftir þjóðarétti. Það eru málefni, sem ríkin sem slík eru aðilar að.

Ég skal svo ekki lengja þetta miklu meira, en vil aðeins undirstrika það, að þeir eru staðnir að því, hæstv. ráðherrar, að hafa talað um þá aðeins, sem hafa undirritað samninginn, og með því að tala um þau ríki aðeins hafa þeir viljað gefa villandi hugmyndir um, hverjir væru aðilar að þessum samningi, í stað þess að tala um það, að aðeins eru 4 búnir að fullgilda þennan samning.

Ráðh. sagðist ekki skilja þá, sem vildu heldur hafa einfalt gerðardómsákvæði en þau ákvæði, sem í þessu frv. eru og samningnum. Ég verð að játa, að ég skil ekki almennilega, við hvað hann á, þegar hann talar um það, en geri þó ráð fyrir, að hann eigi við það, að hann taki almenna gerðardómssamninga fram yfir samning um gerðardóm í hvert eitt skipti. Ég er honum ekki sammála um þetta. Að vísu fer það eftir atvikum, hvort getur við átt, en oft og tíðum mun ríki telja það öruggara að gera gerðardómssamning um tiltekna deilu í stað þess að gera gerðardómssamninga um deilur fyrir fram.

Og svo er að lokum þetta eina haldreipi, sem ráðh. hélt sér í dauðahaldi frá sinni fyrri ræðu, það voru olíuviðskiptasamningarnir við Rússa. Hann heldur því fram, að þar sé ekki um milliríkjasamning að ræða. Ég verð nú enn og hvort sem þetta er undirritað af einhverri stofnun þar eða ekki að halda því fram, að þarna sé um milliríkjasamninga að ræða í raun. Það veit hvert mannsbarn, að utanríkisverzlun Rússlands er þjóðnýtt og að samningar um þau viðskipti eru gerðir í ríkisins nafni og ríkið stendur á bak við það, og að halda því fram, að samningar, sem þar eru gerðir, séu gerðir án atbeina ríkisvaldsins og viðskiptaráðuneytis o.s.frv. eða þess ráðuneytis, sem með það hefur að gera, held ég, að sé nokkuð mikið út í hött.

En hvað sem því líður, þá vil ég leggja áherzlu á, hversu slíkur árlegur viðskiptaolíusamningur er gerólíkur álsamningnum, og ég get ekki skilið, að hæstv. viðskmrh. vilji leggja slíka samninga að jöfnu. Ég hefði haldið, að hann teldi álsamninginn talsvert annars eðlis, og í öðru orðinu held ég, að þeir vilji svo vera láta, að hann sé nokkuð annars konar samningur en venjulegur viðskiptasamningur. En hvað um það, eftir stendur, að þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hefur ráðh. ekki getað bent á neitt annað gerðardómsákvæði, sem styðji eða sé fyrirmynd fyrir gerðardómsákvæði 47. gr. í fyrirhuguðum álsamningum, nema þetta ákvæði í olíuviðskiptasamningnum við Rússland. Án þess að ég vilji á nokkurn hátt gera lítið úr rússnesku réttarfari eða lögum í landi þar, þá hefur hingað til verið talið, að okkur hér á landi væri hentugra að sækja fyrirmyndir okkar í þeim efnum til annarra ríkja heldur en ríkja, sem eru fyrir austan tjald, og það verð ég að segja, að þá hljóta hæstv. ráðherrar að vera orðnir meira en lítið aðþrengdir, þegar þeir finna engin dæmi önnur til stuðnings sínu máli heldur en að fara í rússneska viðskiptasamninga. Þá má vera orðin mikil fátækt hjá þeim. En auk þess fer því náttúrlega fjarri, að þarna sé um nokkrar hliðstæður að tefla, og þeir geta aldrei rökstutt gerðardómsákvæði í álsamningunum með því að vitna í þessa olíusamninga. Það leynivopn er algerlega sprungið í höndunum á þeim, og það þýðir ekki fyrir þá að reyna að skjóta því aftur. Það er búið að vera. Það sér hver maður, að það er allt annars eðlis.

Nei, ég spurði um það í minni ræðu, hvort honum væri kunnugt um nokkur slík ákvæði, sem nágrannaríkin hefðu gert, og ég verð að álíta, að þögn hans um það bendi til þess, að honum sé ekki kunnugt um það, og ég spyr enn um það, um annað spyr ég ekki. Ég efast ekkert um, að það kunni að vera hægt að finna einhver dæmi úr fjarlægum heimsálfum, sem geti verið svipuð og þessi gerðardómsákvæði, og það væri miklu nær, finnst mér, að þeir nefndu þá þvílík ákvæði, heldur en að ætla að fara að leita fyrirmynda í viðskiptasamningum á milli ríkja.