18.04.1966
Efri deild: 65. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

178. mál, alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði í rauninni ekki ætlað mér að taka til máls við þessa umr., þar sem ég hafði gert nokkra grein fyrir afstöðu minni til málsins við 1. umr. þess og hef í rauninni ekki miklu við það að bæta, sem ég þá sagði. Ég vil aðeins rifja það upp í örstuttu máli, að það er upplýst, að í dag hafa einungis 4 ríki fullgilt þann samning, sem hér liggur nú fyrir Alþ. Það eru 4 fjarlæg ríki, Afríkuríki, sem hafa gert það. Það var reynt að snúa þannig út úr orðum mínum við 1. umr. þessa máls, að ég hefði á einhvern hátt farið lítilsvirðingarorðum um þessi 4 fjarlægu ríki. Það byggist á algerum misskilningi, að ég hafi gert það. Hitt sagði ég, og það vil ég gjarnan endurtaka, af því að það er atriði í þessu máli, að þarna er um að ræða ung ríki, sem eiga í margvíslegum erfiðleikum, og meðal erfiðleika þeirra er það, að ýmsar stofnanir og þá m.a. fjársterkir aðilar á vesturlöndum treysta ekki stjórnarfarslegu og réttarfarslegu öryggi í þessum ungu ríkjum meira en svo, að þeirra hluta vegna eiga þau í sérstökum erfiðleikum með það m.a. að afla fjár til nauðsynlegra framkvæmda sinna. Nú er það jafnframt upplýst í sambandi við þann álsamning, sem liggur fyrir hv. Nd. og þetta mál er að vissu leyti tengt, að viðsemjendur Íslendinga, hið svissneska fyrirtæki eða stjórnendur þess, þeir hafa ekki aðeins látið í það skína, heldur sagt það berum orðum, að meginástæðan til þess, að farið er fram á það eða ákveðið er í samningnum, að gerðardómur skuli fjalla um meiri háttar deilumál, — ástæðan sé sú, að slíkir hlutir sem hér er um samið séu svo nýir á Íslandi, að það sé ekki komin reynsla á slík mál að því er snertir afskipti íslenzkra dómstóla af þeim. Það er m.ö.o. verið að vefengja það, að íslenzkir dómstólar séu um það bærir að fjalla af öryggi um slík mál sem þessi, og síðan er þannig undir þetta tekið af hæstv. ríkisstj., að hún vill, að Ísland verði fimmta ríkið, sem fullgildir þennan samning, sem hér er um að ræða, og að mínu viti tekur hún í rauninni algerlega undir það, sem felst í orðum og frásögnum, útskýringum hins svissneska aðila um það, hvers vegna samið er í alúmínsamningnum um gerðardómsákvæði í deilumálum. Enn sem komið er hefur ekkert ríki á vesturlöndum fullgilt þennan samning, og ekkert liggur fyrir um það, hver komi til með að gera það á næstunni eða hvenær það verður. Okkur liggur því ekki nokkurn skapaðan hlut á að fullgilda slíkan samning sem þennan. Við eigum að sjá, hverju fram vindur í þeim efnum. Það eru í rauninni engir eðlilegir hlutir, sem á það knýja, að þetta sé gert nú, við þær aðstæður, sem eru í sambandi við slíkan samning.

Það, sem kom mér til að kveðja mér hljóðs nú við þessa umr., var í rauninni eitt sérstakt atriði í ræðu frsm. meiri hl. n., hv. 8. þm. Reykv. Hv. frsm. meiri hl. fór að ræða hér um sögulegan atburð, rúmlega 60 ára gamlan atburð, deiluna um símamálið og bændafundinn 1905. Hann taldi, að í sambandi við þetta gamla deilumál hefðu andstæðingar símasamningsins á þeim tímum farið með öfgar miklar og staðlausa stafi í sínum málflutningi og svipuð saga væri að gerast nú að því er varðar málflutning okkar, sem erum andvígir alúmínsamningnum og fylgimálum hans. Hv. frsm. meiri hl., 8. þm. Reykv., kallaði þá menn, sem stóðu gegn símasamningi Hannesar Hafsteins á sínum tíma, samningnum við Stóra norræna ritsímafélagið, kallaði þá nátttröll og hafði um þá fleiri heldur leiðinleg ummæli, og hv. þm. kom hér með sína sagnfræðilegu biblíu og las upp úr henni dálitla pistla. En hver var nú sú sagnfræðilega biblía? Það var ævisaga Hannesar Hafsteins eftir Kristján Albertsson, bók, sem kom út í þrem bindum fyrir fáum árum. Ég verð að segja, að þetta er heldur vond biblía. Þetta ævisagnarrit hefur á sér yfirskin sagnfræði, en er að mínu viti miklu nær því að teljast áróðursrit. Einkenni þess eru þau, að aðdáunin á aðalsöguhetjunni má heita takmarkalaus, en andúðin á öllum mótstöðumönnum hetjunnar er a hinn bóginn algerlega skefjalaus. Og þetta hvort tveggja leiðir höfundinn oft í ærnar ógöngur. Hitt skal ég svo viðurkenna, að þetta er hið læsilegasta rit, víða hressilega og vel skrifað út frá sínu sjónarmiði, en það er afskaplega vafasöm sagnfræði, svo að ekki sé meira sagt. En þar sem það er nú síður en svo í fyrsta sinn, sem túlkun þessa rithöfundar á símamálinu og bændafundinum 1905 er notuð m.a. til samanburðar við þá andstöðu, sem nú er uppi gegn alúmínsamningnum, þá langar mig til að fara um þetta gamla deilumál nokkrum orðum, en skal leitast við að stytta mál mitt.

Það var einhver, sem sjálfsagt þótti sögufróður, — ég held jafnvel, að það hafi verið höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins, kannske var það einhver annar, — sem tók fyrstur upp á því að bera andstæðinga alúmínsamninganna saman við þá menn, sem börðust gegn símamálinu, eins og hann orðaði það, fyrir röskum 60 árum, börðust gegn símasamningi Hannesar Hafsteins fyrir röskum 60 árum. Og síðan má segja, að hver skriffinnurinn, einkum í Morgunblaðinu og Vísi, og svo hver ræðugarpurinn á fætur öðrum hafi haldið þessu eða svipuðu fram sem algerlega sögulegum sannindum, haldið því fram, að fjöldi sunnlenzkra bænda hafi riðið til Reykjavíkur um hásláttinn sumarið 1905 til þess að mótmæla öðru eins þjóðþrifafyrirtæki og símanum, og þetta hefur verið talið jafnvel hámark þeirrar fáfræði og þeirrar afturhaldssemi, sem hægt var að vitna til í sambandi við sögu síðari tíma á Íslandi. Og nú síðast hefur hv. frsm. meiri hl., 8. þm. Reykv., haldið þessu sama fram og vitnað í Kristján Albertsson, eins og ég sagði, þessu til sönnunar. Ég er nú satt að segja hissa á svo skynsömum og sanngjörnum manni yfirleitt eins og hv. frsm. meiri hl. að vera að taka undir þetta á eins einstrengingslegan og ég vil segja afar ósagnfræðilegan hátt og hann gerði hér síðdegis í dag. Hann hafði, eins og þeir hafa gert fleiri, sem í þennan gamla atburð hafa vitnað, stór orð um þá mætu og mikilhæfu stjórnmálamenn, sem voru andvígir, — sannarlega voru þeir andvígir þeirri lausn símamálsins, sem Hannes Hafstein barðist fyrir, og þessum mönnum eru valin alls konar hrakyrði, vil ég segja, og jafnvel enn þá verri orð en hv. 8. þm. Reykv. notaði, þó talaði hann, eins og ég sagði áðan, um nátttröll og fleira nefndi hann í heldur leiðinlegum tón. Þetta er í sjálfu sér sami tónninn og er í hinu afar varasama riti Kristjáns Albertssonar. Ég vil nú byrja á því að spyrja: Hverjir voru þessir menn, sem eru nú kallaðir nátttröll og fleiri heldur leiðinlegum nöfnum? Ég skal aðeins nefna fáa: Björn Jónsson. Valtýr Guðmundsson. Skúli Thoroddsen. Benedikt Sveinsson yngri, Bjarni Jónsson frá Vogi. Þetta eru nokkur helztu nöfnin. Voru þetta einhverjir sérstakir afturhaldssegeir? Eiga þeir skilið að vera kallaðir nátttröll? Ég mótmæli því. Hér er að mínu viti um alveg ranga túlkun á afstöðu þeirra og málflutningi að ræða, og ég segi þetta ekki aðeins vegna ummæla hv. 8. þm. Reykv., heldur vegna þess, að ég hef tekið eftir því, að það er hver farinn að tyggja þetta upp eftir annan sem alveg fullkomna staðreynd og ágæta sagnfræði, og því mótmæli ég.

Hv. 8. þm. Reykv. las nokkra kafla úr bók Kristjáns Albertssonar, þar sem vitnað er í blaðagreinar, vitnað er í blaðið Ingólf, sem Benedikt Sveinsson ritstýrði, í blaðið Ísafold, sem Björn Jónsson ritstýrði, og fleiri blöð þess tíma. Og það er sú söguaðferð, sem Kristján Albertsson notar í sinni bók, sem þarna kemur fram. Annars vegar velur hann kjarnann, fallega kafla til að mynda úr ræðum Hannesar Hafsteins, hins vegar velur hann smákafla eða setningar úr stóryrtustu blaðagreinum andstæðinganna, oft slitnar úr rökréttu samhengi. Ef slíkri aðferð er beitt, má í rauninni varpa alröngu ljósi á svo að segja hvaða mál sem er. Hvernig yrði til að mynda sagan um ýmis deilumál, ef þannig væri farið að? Hvernig yrði sagan um deiluna um Sundhöll Reykjavíkur, um stofnun menntaskóla á Akureyri, um afurðasölulögin frá 1934, ef tekin væru svona ýmis ummæli úr Morgunblaðinu og Vísi, jafnvel slitin úr samhengi, og sagt, að svona hefði verið málstaður Jóns Þorlákssonar og Ólafs Thors, svo að maður nefni einhver dæmi? — Nei, með slíkum málflutningi er ekki verið að rekja sögu mála á sagnfræðilegum grundvelli.

Mér hefur satt að segja sárnað nú að undanförnu, hvernig ýmsir menn hafa verið að tyggja þetta hver á fætur öðrum, að mótmælin gegn símasamningi Hannesar Hafsteins séu eitthvert sígilt dæmi um alveg sérstaklega heimskulega andúð á nýjungum og talandi vottur um pólitíska starblindu þeirra manna, sem beittu sér gegn þessum samningi. Og satt að segja er ég sérstaklega hissa á því, þegar sessunautur minn, hv. 8. þm. Reykv., svo grandvar maður, lét það henda sig að bera þetta á borð. Ég veit, að hann hefur gert það að heldur lítið athuguðu máli, tekið það trúanlegt, sem það varhugaverða ævisögurit, sem hann vitnaði til, segir um þetta.

En þessu máli var engan veginn þannig varið eins og staðhæft er í umræddri bók og ýmsir gegnir menn hafa haft eftir nú upp á síðkastið og talið söguleg sannindi. Andstæðingar símasamningsins við Stóra norræna ritsímafélagið og forgöngumenn bændafundarins, sem margir hafa vitnað til, menn eins og Björn Jónsson, Benedikt Sveinsson og félagar þeirra, þeir voru ekki að berjast gegn fjarskiptasamningi við útlönd eða gegn símalagningu um landið, það var síður en svo. Afstaða þeirra mótaðist af því, að þeir vildu ekki veita dönsku félagi einokunaraðstöðu, sem þeir töldu vera, til ritsímarekstrar í marga áratugi. Þeir vildu taka öðru tilboði, sem þeir töldu Íslendingum hagstæðara, tilboði frá Marconi-félaginu enska, þar sem Íslendingum var gefinn kostur á að eignast fjarskiptakerfið eftir tiltölulega fá ár. Og við verðum að minnast þess, að á þessum tímum voru Íslendingar enn tengdir Dönum margvíslegum böndum. Þeir voru þá að berjast fyrir auknu sjálfstæði á öllum sviðum, og andstæðingarnir voru Danir. Þeir voru að berjast fyrir sínu stjórnarfarslega sjálfstæði, en þeir voru líka að berjast fyrir menningarlegu og efnahagslegu sjálfstæði. Það var þess vegna sérstaklega nauðsynlegt að fara varlega að því er snerti dönsk áhrif og dönsk yfirráð í sambandi við íslenzk mál. Varfærni í þeim efnum var þá eðlileg og sjálfsögð, og hún er það vitanlega alltaf, en var þá alveg sérstaklega sjálfsögð gagnvart Dönum. Og ég er ekki í neinum efa um það. að slík varfærni hefur auðveldað það, að við gátum losað um þau bönd, sem þurftu og urðu að rakna. Ég skal ekki þvertaka fyrir, að slík varfærni hafi í einstökum tilfellum gengið eitthvað lengra en nauðsyn bar til, en ég er viss um, að í höfuðatriðum var hún eðlileg og nauðsynleg á þessum tímum og þá einkum gagnvart Dönum. Og þeir menn eiga víssulega þakkir skilið, sem þá voru sérstaklega á verði gegn því, að við ánetjuðumst dönsku auðmagni um of.

Þess er náttúrlega enginn kostur hér, enda alveg þarflaust, að fara að rekja sögu símamálsins í smáatriðum. En ég greip hér með á fundinn tvö heimildarrit um þetta mál. sem varpa á það að mínum dómi nokkuð öðru og réttara ljósi heldur en það rit, sem hv. 8. þm. Reykv. vitnaði til hér á síðdegisfundinum. Ég tel, að heimildarmenn mínir séu báðir traustir og góðir. Þeir eru sinn úr hvorum herbúðum frá þeim tíma. Annar þeirra, Einar H. Kvaran, var að vísu andstæðingur Hannesar Hafsteins í þessum málum, en Einar var þó mikill vinur Hannesar og aðdáandi, og hann var það alla tíð, þótt þeir ættu ekki alltaf samleið í stjórnmálum. Það er einnig viðurkennt, ég held af öllum, að Einar Kvaran var, ekki sízt eftir að hann hætti að mestu eða öllu afskiptum af stjórnmálum, afar hófsamur maður í dómum um menn og málefni, málefnalegur maður í rökræðum og sanngjarn. Hinn heimildarmaðurinn, sem ég aðeins ætla að vitna til, er Þorsteinn Gíslason ritstjóri og skáld. Hann var einn eindregnasti fylgismaður Hannesar Hafsteins og einna skeleggastur stuðningsmaður hans í simamálinu og löngum síðar. Ég held, að báðir þessir heimildarmenn verði að teljast góðir og þá ekki sízt þegar þess er gætt, að ritgerðir þær, sem ég ætla að vitna til, eru skrifaðar löngu eftir að allar deilur um símann voru þagnaðar.

Einar Kvaran birti í Andvara 1913 prýðilega ævisögu Björns Jónssonar. Hann skrifar þar nokkurn kafla um símamálið, glöggan kafla og málefnalegan. Ég les dálitinn hluta hans, með leyfi hæstv. forseta. Þessi kafli bregður að mínu viti góðu ljósi á þetta gamla deilumál og leiðréttir ýmsar staðhæfingar, sem hafa verið hafðar uppi nú í seinni tíð og m.a. hér í þessum umr. um það mál. Í Andvaragrein sinni frá 1913 kemst Einar Kvaran m.a. þannig að orði:

„Ekki ætla ég hér að fara að gera grein alls þess, sem varð að ágreiningi með Birni Jónssyni og andstöðuflokknum á aðra hliðina og stjórninni á hina. Ég læt mér nægja að minnast lauslega á þrjú merkismál. . . . Annað var ritsímamálið 1905 Björn Jónsson veitti stjórninni afar snarpa mótspyrnu í því máli, kom m.a. á bændafundinum um þingtímann, sem lét undirskriftarmálið og ritsímamálið til sín taka. Björn Jónsson var framar öllu öðru óánægður með bandalagið við Dani um sæsímann og yfirráð þeirra yfir honum og öllu hugsanlegu hraðskeytasambandi Íslands við önnur lönd. Fyrir því vildi hann þiggja tilboð Marconi-félagsins um loftskeytasamband, sem oss var gerður kostur á að eignast að fullu eftir 20 ár.“

Og Einar Kvaran heldur áfram.

„Þegar menn líta á ritsímadeiluna rólega og hlutdrægnislaust nú, 8 árum eftir að hún var háð, finnst mér, að niðurstaðan muni hljóta að verða sú, að báðum málsaðilum hafi að nokkru skjátlazt og báðir hafi þeir að nokkru haft rétt að mæla. . . . En hitt virðist mér, að reynslan hafi sannað, að það hafi verið illa farið, að skoðanir stjórnarandstæðinga um sambandið við önnur lönd voru fyrir borð bornar.“

Síðan heldur Einar Kvaran áfram að rekja það, að hann telji, að þetta tilboð hafi verið hagstæðara okkur Íslendingum heldur en hitt tilboðið, sem Hannes Hafstein hafði fengið frá Stóra norræna ritsímafélaginu, og hann lýkur þessum kafla á þessum orðum:

„Auðvitað vissi enginn 1905 jafnmikið um þetta mál eins og menn vita 1913. Hvorki stjórnarmenn né stjórnarandstæðingar vissu að fullu, hve álitlegt það var, sem þingið hafnaði. En það virðist mér ekki verða út skafið, að í málinu um hraðskeytasamband við önnur lönd voru Björn Jónsson og samherjar hans á réttri leið 1905.“

Hitt vitnið, Þorsteinn Gíslason ritstjóri og skáld, flutti árið 1936 tólf ágæt útvarpserindi, sem síðar komu út í bók undir nafninu: Þættir úr stjórnmálasögu Íslands 1896—1918. Eitt erindið fjallaði aðallega um símamálið. Þar segir Þorsteinn Gíslason á þessa leið:

„Hannes Hafstein hefur að makleikum fengið mikið lof fyrir dugnað sinn í símamálinu. En til þess að sýna einnig, hvernig andstæðingar hans litu á málið, tek ég hér kafla úr bréfi, sem dr. Valtýr skrifaði mér um það löngu síðar. Það var eftir dauða Hannesar, þegar hann hafði lesið grein um hann eftir mig í Andvara. Bréfið er að því leyti merkilegt, að í því kemur fram dómur Valtýs um Hannes, sem verið hafði aðalmótstöðumaður hans, þegar mestu skipti. Valtýr segir:

Ég finn ástæðu til að þakka yður fyrir ritgerð yðar í Andvara um Hannes Hafstein. Hún var svo vel og ágætlega rituð, að mér fannst til um, og ég á þar við, hve hlutdrægnislaust og af hve mikilli réttsýni hún er skrifuð.

Hannes Hafstein . . . átti skilið mikið lof fyrir margt, en var vanþakkað einmitt það, sem hann gerði bezt. . . . En aftur var honum þakkað ofsalega fyrir sumt, sem hann átti minna lof skilið fyrir. Mér finnst þér hafið ratað furðuvel hinn gullna meðalveg, sem annars er svo vandrataður, og hér er í fyrsta sinn skýrt rétt og hlutdrægnislaust frá stjórnarskrárbreytingunni 1904 og aðdragandanum að henni. Það eina, sem ég hef að athuga, er, að mér finnst þér lofa hann um of fyrir afskipti hans af símamálinu. . . . Málið lá fullbúið, þegar hann tók við, og það var ég og minn flokkur, sem mest barðist fyrir því. Og það var persónulega mér að þakka, að við fengum síma yfir landið. Magnús Stephensen, Tryggvi Gunnarsson og Hannes Hafstein börðust af alefli fyrir, að síminn yrði lagður upp til Reykjavíkur eða í Þorlákshöfn, en við á móti og að hann yrði lagður til Seyðisfjarðar og línur yfir landið, sem ella mundu seint koma, ef hann kæmi fyrst til Reykjavíkur. Og okkur tókst að bjarga málinu með því að fá ríkisþingið til að setja það skilyrði fyrir styrk til Stóra norræna félagsins, að síminn yrði lagður til Austfjarða og það legði 300 þús. kr. fram til landssíma. Svo tók Hannes Hafstein við lögunum fullbúnum, en gerði afar dýra og óhentuga samninga. Þá vildum við hafa Marconi-þráðleysu milli landa, en þræði yfir landið. Móti því barðist Hannes Hafstein og sigraði. Mundi ekki mikið hafa sparazt við það á mörgum sviðum? Og reynslan hefur sýnt, að engin hætta var að byggja á þráðlausu sambandi.“

Þetta eru orð úr bréfi dr. Valtýs. Síðan fer Þorsteinn Gíslason ýmsum orðum um þetta bréf og telur, að Valtýr hafi þarna að allmiklu leyti rétt að mæla, þó að hann geri athugasemdir við einstök atriði. En það mál er svo langt, að ég sé ekki ástæðu til að fara að lesa lengra upp úr þessu.

Ég ætla að láta petta nægja um símamálið. Ég hef orðið dálítið langorður um þetta gamla deilumál, af því að mér hefur fundizt, að nú upp á síðkastið hafi svo oft og freklega að mínum dómi verið sögð saga þess á algerlega villandi og rangan hátt. En eins og ég sagði í upphafi, þá ætla ég ekki á þessu stigi máls að fara mörgum orðum um það frv., sem hér liggur fyrir. Það var fyrst og fremst að hinu gefna tilefni frá hv. 8. þm. Reykv., sem ég kvaddi mér hljóðs. En ég vil að lokum aðeins árétta, að það er ekkert að mínu viti, sem knýr okkur til þess að fullgilda þann samning, sem hér um ræðir, að svo komnu máli. Og þegar tillit er tekið til þess, sem fram er komið í sambandi við alúmínsamninginn, og þess vantrausts, sem er bæði í þeim samningi og ýmsum orðum, sem honum hafa fylgt frá viðsemjendum okkar, með tilliti til þess hvors tveggja tel ég það rangt, að við fullgildum nú slíkan samning sem þennan og tökum þá að vissu leyti undir þau ummælí, sem helzt er hægt að túlka á þá leið, að hinn erlendi viðsemjandi Íslendinga í álmálinu vantreysti algerlega íslenzkum dómstólum til þess að fjalla um slík mál á réttarfarslegan hátt.

Ég ítreka að lokum, að okkur liggur ekkert á að fullgilda slíkan samning sem þennan. Það er ekkert, sem knýr okkur til þess.