25.04.1966
Neðri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

178. mál, alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég sakna þess, að viðskmrh. er ekki staddur hér, en ég hefði gjarnan viljað beina nokkrum orðum til hans í tilefni af þeirri framsöguræðu, sem hann flutti hér áðan. (Forseti: Því miður er hæstv. viðskmrh. ekki viðstaddur.) Liggur þessari umr. svo mikið á, að það megi ekki fresta málinu, þangað til hæstv. ráðh. sé viðstaddur. Mér finnst heldur leiðinlegra við 1. umr., að ráðh., sem mælir fyrir máli sem þessu, sé ekki viðstaddur til að svara þeim spurningum, sem maður vildi gjarnan beina til hans. Ég sé ekki, að það þurfi að hafa nein áhrif fyrir afdrif málsins, þó að því verði frestað einhverja stund. (Forseti: Eftir því sem hæstv. viðskmrh. tjáði mér, getur hann ekki verið viðstaddur í kvöld, a.m.k. ekki nema mjög stutt.) En er þá útilokað, að málinu verði frestað til morguns? Ekki skal ég tefja fyrir með löngum umr., en ég hefði hins vegar viljað nú við 1. umr. fá nokkrar upplýsingar hjá hæstv. ráðh. Ég vænti, að hæstv. forseti sjái, að sú meðferð á þessu, að málinu sé frestað t.d. í einn dag, á ekki að þurfa að tefja neitt afgreiðslu þess hér, og það er svo langur tími enn þá eftir af fundinum. Ég vildi heyra svör hæstv. forseta. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að þetta er 1. umr. og gert er ráð fyrir, að þingi muni — eða a.m.k. stefnt að því, að þingi ljúki í lok þessarar viku eða fyrstu dagana í næstu viku, þannig að forseti á mjög erfitt með að taka mál út af dagskrá, sem er til 1. umr. hér í deild, þótt í síðari d. sé. Ég vænti, að hv. þm. haldi áfram sinni ræðu, og forseti er reiðubúinn til þess að greiða fyrir því, að ráðh. fái hans fyrirspurnir, þannig að hann geti svarað fyrir 2. umr. málsins. Ég held, að ég taki heldur þann kost að fresta máli mínu núna og tala þá rækilega við 2. umr. eða 3. umr. um þetta mál.