29.04.1966
Neðri deild: 81. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

178. mál, alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þessu frv. um heimild fyrir ríkisstj. til að gerast aðili að alþjóðasamningi um lausn fjárfestingardeilna milli ríkja og þegna annarra ríkja var vísað til allshn. og er komið frá Ed., en þó verður að segja það, að þrátt fyrir að þetta mál hafi aðeins verið rætt við eina umr. hér í hv. d., má segja, að það sé allmikið búið að ræða um þennan samning í sambandi við þær umr., sem fóru hér fram um álbræðslufrv. fyrir nokkru.

Með þessu frv. er ríkisstj. heimilað að gerast aðili fyrir Íslands hönd að alþjóðasamningi um lausn fjárfestingardeilna milli ríkja og þegna annarra ríkja, og er, eins og þm. hafa séð, þessi samningur prentaður bæði á íslenzku og ensku sem fskj. með þessu frv. Eins og fram kemur í aths. um frv., hefur Alþjóðabankinn í Washington beitt sér fyrir milliríkjasamningi um lausn á fjárfestingardeilum milli ríkis og þegna annars ríkis, og undirbúningur að þessum samningi hefur tekið nokkur ár eða frá því árið 1962, að mig minnir, þangað til snemma árs 1965, að hann var tilbúinn til undirskriftar, og höfðu fyrir nokkru 35 ríki undirritað þennan samning og þar á meðal tvær Norðurlandaþjóðir, Danmörk og Svíþjóð.

N. varð ekki á eitt sátt um afstöðuna til þessa máls. Stjórnarsinnarnir í n., fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl., leggja til, að frv. verði samþ., en minni hl. n. er andvígur samþykkt frv. og hefur skilað séráliti. Við í meiri hl. n. teljum, að eftir því sem samskipti fara vaxandi á milli þjóða á efnahagslega sviðinu, þá sé eðlilegt, að við gerumst aðilar að slíkum alþjóðasamningi, því að við getum ávallt hugsað okkur það og haft það hugfast, að í sambandi við aukna samvinnu á sviði efnahagsmála geta alltaf risið deilur um slíka fjárfestingu á milli samningsríkja og þegna annarra samningsríkja og því mjög eðlilegt, að slíkur samningur sé í gildi. Við teljum því eðlilegt og sjálfsagt, að Ísland gerist aðili að þessum samningi, eins og fjölmargar aðrar þjóðir hafa þegar gert og koma til með að verða fleiri, og leggjum því til, að frv. verði samþ.