29.04.1966
Neðri deild: 81. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

178. mál, alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna

Frsm. minni hl. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Nál. okkar minni hl. í allshn. varðandi þetta mál varð heldur síðborið, og þess er ekki getið á dagskránni í dag, en það er á þskj. 642.

Um þetta mál hafa í fyrri d. orðið allmiklar umr., og þar hafa komið við sögu gerðardómsákvæði í svokölluðum álsamningi. Ákvæðin í álsamningnum um hina umsömdu gerðardómsleið, sem ræðir um í 46. og 47. gr. samningsins, eru ákveðin og fylgja fullkomlega eftir samningstímabilinu og eru að því leyti ekki sambærileg við þau ákvæði, sem felast í samningi þeim, sem hér er á dagskrá. Það frv., sem hér ræðir um, fjallar um að veita ríkisstj. heimild til að gerast aðili að alþjóðasamningi um lausn fjárfestingardeilna milli ríkja og þegna annarra ríkja. Í nál. okkar minnihlutamanna er skýrt fram tekið, hver sé afstaða okkar. Fyrst og fremst ber þó að geta þess, að við teljum óþarft að svo stöddu a.m.k. fyrir okkur Íslendinga að fullgilda þennan samning. Hér á landi njóta erlendir menn fyllsta réttaröryggis um eignarréttindi sín, svo sem um önnur réttindi. Slíkur réttur er varinn af ákvæðum stjórnarskrár og engu síður varinn til hags fyrir erlenda menn, sem hér kunna að dveljast og hér kunna að eiga eignir. Þetta á okkur öllum að vera ljóst, og þetta er í raun og veru öðrum þjóðum ljóst, sem vilja athuga um þetta efni og hvernig réttarfari og dómstólamálefnum er farið hér hjá okkur. Þess vegna teljum við í minni hl., að það sé lítil sem engin ástæða til þess að láta eins og f það skína, að okkur megi setja á bekk með þjóðum þeim, sem búa við annað og óöruggara réttarfar. En því miður munu þær þjóðir vera til og þá helzt þær, sem nýfengið hafa frelsi sitt og búa við réttarfar, sem er í myndun og í fyrstu deiglu og fremur óstöðugt, og þar sem enn fremur má eiga von á því, að byltingar, stjórnarbyltingar, geti átt sér stað svo að segja hvenær sem er, þannig að allt sé á huldu um öryggi í réttarfarsmálum. Með ýmsum slíkum þjóðum, sem þannig eru enn á vegi staddar, er að sjálfsögðu réttarvernd fyrir erlenda menn og fjárfestingar þeirra reikul og óvís og eðlilegt að líta á svo sem hún þurfi að vera tryggð með gerðardómsákvæðum, og vafalítið er það slíkur ótti fyrst og fremst, sem hvetur fjárfestingaraðila til samningsgerðar líkrar þessari. En að erlendir aðilar geti ekki nokkurn veginn ótta- og áhyggjulaust rætt sín mál, sem þeir kunna að eiga við íslenzka aðila, geti ekki óttalaust lagt þau mál undir dómstólameðferð hér, finnst okkur vera út í hött. Og víst er um það, að mörg eru þau mál, sem hefur borið að íslenzkum dómstólum, þar sem erlendir aðilar hafa verið annars vegar gegn íslenzkum, og hef ég aldrei heyrt yfir því kvartað, að úrslit í dómsmálum, sem eru þessa eðlis og þannig á sig komin, hafi eigi verið eðlileg, heldur talið, að hér væri nægileg réttarvernd og réttaröryggi. Og ég þykist vera viss um það, að ég hafi í því fullkomlega rétt fyrir mér, að erlendir menn hafi hér á landi um sínar eignir og sín réttindi yfirleitt ekki lakari rétt eða réttarvernd en annars staðar.

Þá hefur verið um það rætt í sambandi við þessa samninga, hverjar leiðir okkur Íslendingum beri að fara í sambandi við fjárfestingarmál, að því er varðar erlent fjármagn. Ýmist má fara þá leið að sjálfsögðu, að við byggjum hér upp okkar mannvirki og fyrirtæki með lántökum, ef með þarf, erlendis frá, og það höfum við sannarlega oft gert og ekki óttazt. Öll stærri fyrirtæki okkar höfum við einmitt byggt upp með þeim hætti, svo sem raforkuver, áburðarverksmiðju, sementsverksmiðju o.fl. Hitt er líka leið, að veita erlendum fyrirtækjum leyfi og aðstöðu til að reisa hér fyrirtæki og byggja upp atvinnurekstur á sínum vegum fyrst og fremst, þar sem arður, ef um hann ræðir, ílendist ekki hér hjá okkur, heldur hverfi til annarra landa. Og þessa leið hafa ýmsar þjóðir farið og þá ekki sízt og þó öllu fremst þróunarþjóðir nú í seinni tíð. Við framsóknarmenn teljum lántökuleiðina farsælli heldur en þá, að erlendir einkaaðilar fái hér tækifæri til þess að reisa stór fyrirtæki og hafa hér atvinnurekstur á sinni hendi. En þó er það nú svo, að þessar leiðir ber að vega og meta hverju sinni, og getur verið eðlilegt eftir atvikum, þegar þannig stendur á, að einkafjármagni sé hleypt hingað inn í landið, en haft í böndum og þannig, að við höfum fyllstu tök á því, hvernig um það fer og hvernig það vinnur í landi okkar. Það má vel vera, að það þurfi að grípa til þess, og eins og ég segi, við eigum að athuga okkar gang, því að vissulega ber á það að lita og um það eru flestir sammála, að við verðum að auka á fjölbreytni sem mest má verða í atvinnuvegum okkar og beita allri hugsanlegri aukinni hagkvæmni og hagræðingu og notfæra okkur þá tækni, sem aðrar þjóðir búa yfir, og beita yfirleitt nútímaaðferðum við hvers konar störf okkur til framfara og eflingar á alla lund. En öll eru þessi mál mjög vandmeðfarin og þess vegna rétt að fara sem gætilegast í þau og hafa það fyrst og fremst fyrir augum, að við landsmenn sjálfir höfum full tök á.

Eins og ég vék að hér áður, er helzt að líta svo á, að þessi samningur, sem hér um ræðir, sé byggður fyrst og fremst á ótta þeim, sem fjárfestingaraðilar erlendir hafa um hag sinn og réttindi í því landi, þar sem þeir fjárfesta. Að því er okkur varðar sem fjárfestingaraðila með öðrum þjóðum, hygg ég, að ekki sé svo mjög um að ræða, við eigum sjálfsagt nóg með okkur í þeim efnum, a.m.k. fram eftir. En færi svo, að til þess kæmi, að íslenzkt fjármagn væri lagt í atvinnurekstur í stærri stíl annars staðar, yrði það vafalaust í þeim löndum, sem búa við líkt réttarfar og dómstólaskipan og við, stöðugt og eðlilegt og byggt á grunni vestræns réttar og réttarverndin því okkur hin sama þar og hér, þannig að við þyrftum ekki að búa við samninginn að því leyti til.

Við í minni hl. teljum, að samningur þessi sé líka of opin leið fyrir hæstv. ríkisstj., hún gæti samkv. samningnum, ef lagagildi fengi, í hvert skipti og henni sýndist og um það væri að ræða lagt deilumál af þessu tagi, sem hér gegnir, undir þann alþjóðlega gerðardóm, sem samningurinn greinir. Því miður getum við ekki í stjórnarandstöðunni veitt hæstv. ríkisstj. það traust, og mér skilst eða hefur fundizt, að þessi samningur, sem hér er fram lagður um líkt leyti og álsamningurinn, sé nokkurs konar afsökun fyrir hinum lítt þolanlegu eða réttara óbærilegu gerðardómsákvæðum álsamningsins, hann eigi að vera nokkurs konar skjól fyrir 46. og 47. gr. álsamningsins. Þess vegna m.a. álítum við í minni hl. allshn. ekki rétt að veita þær heimildir, sem um getur í 1. gr. þeirra laga, sem hér eru til athugunar, og viljum alls ekki, að hæstv. ríkisstj. fái heimild til að fullgilda þennan samning.

Það sýnist upplýst, að einungis 4 ríki innan Afríku hafi til þessa fullgilt samninginn, en mér skilst, og það eru víst ákvæði um það, að 20 ríki þurfi minnst til að fullgilda hann. Okkur í minni hl. finnst það ekki skipta neinu máli, þó að 35 ríki hafi til þessa undirritað samninginn, því að undirskrift af því tagi hefur út af fyrir sig sáralitið gildi og er alls ekki nein skuldbinding af hálfu þjóðanna, sem undirrituðu, um að fullgilda hann. Það er því allsendis óvíst, hvenær þessi 35 ríki munu fullgilda samninginn. Þau geta látið það eins vel vera, án þess yfirleitt að tilfæra fyrir þeirri ráðabreytni sinni nokkra ástæðu. Það er því með öllu óvist, hvenær samningur þessi öðlast gildi, ef það verður þá nokkurn tíma. Og þegar þannig stendur á, eins og ég hef rakið hér, þykir okkur ekki rétt að eiga nokkuð við þessa samningsgerð. Við Íslendingar getum ósköp vel beðið átekta og séð, hverju fram vindur. Og við sjáum ekki, að Ísland hafi neinn ávinning af því að fullgilda samninginn, en gæti ef til vill bakað sér skyldu til útgjalda, ef samningurinn öðlaðist gildi.

Ég hef leyft mér hér í fáum orðum að draga fram það helzta, sem við í minni hl. teljum, að liggi til þess, að við höfum tekið þessa afstöðu okkar, og við leggjum til, að frv. verði fellt.