29.04.1966
Neðri deild: 81. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

178. mál, alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég álit, að þetta frv. og heimildir ríkisstj. til að undirskrifa þennan samning og gerast aðili að honum séu spor inn á nýlendubrautina aftur. Ég álít, að þetta sé einn þáttur í því, sem nú er að gerast um allan heim, að það er verið að reyna að læða þeim fjötrum nýlendnanna, sem þjóðirnar hafa verið að höggva af sér, á þær aftur undir öðruvísi gervi. Meðan nýlendukerfið var í fullum blóma um allan heim, þegar svo var ástatt eins og um síðustu aldamót, að stórveldin í Evrópu höfðu skipt öllum heiminum upp á milli sín, þá höfðu þau líka raunverulega dómsvaldið í öllum þessum löndum. Þau drottnuðu yfir auðlindum Afríku, Suður-Ameriku, Asíu og þessara landa á einn eða annan máta, og þau höfðu líka raunverulega valdið yfir því, hvernig þar skyldi vera dæmt, ýmist beint eða óbeint. Það, sem gerist nú á þessum síðasta áratug, er, að eftir að SuðurAmeríka fyrir nokkuð meira en öld hafði losað sig hvað snertir það pólitíska sjálfstæði, þá losar nú Afríka og meginhluti Asíu sig hvað snertir það pólitíska sjálfstæði, og þessi bylting nýlenduþjóðanna, hin pólitíska frelsisbylting þeirra, skapar þá aðstöðu, að þær gömlu yfir stéttir í Evrópu hafa ekki lengur dómsvald í þessum löndum. Það, sem er að gerast með frv. eins og þessu og með þeim tilraunum, sem Alþjóðabankinn er að gera í þessu sambandi, er, að það er verið að reyna að endurreisa á vissan máta dómsvald gömlu nýlenduveldanna í þeim stjórnarfarslega frjálsu löndum, sem þessar yfirstéttir hafa efnahagsleg tök á enn þá. Og sá aðili, sem hefur gengið fram fyrir skjöldu til þess að reyna að skipuleggja þetta, að læða nýlendustefnunni þannig aftur inn, er Alþjóðabankinn. Alþjóðabankinn er þegar þekktur fyrir það í heiminum, líka hér á Íslandi, að hafa mjög svívirðileg afskipti af innanlandsmálum þjóða, að reyna að skipta sér af því, hvers konar hagkerfi þessar þjóðir hafa hjá sér, hvernig þær skipa eignarréttinum á sínum fyrirtækjum og annað slíkt. Og Alþjóðabankinn hefur út um allan heim, ekki sízt hjá þeim bláfátæku þjóðum Afríku, sem nýlega eru orðnar stjórnarfarslega frjálsar, þá hefur hann verið að beita sér fyrir því að reyna að tryggja það fjármagn, sem auðvaldið í Evrópu og Norður-Ameríku setur fast í þessum löndum, með því að útvega gömlu yfirstéttunum í Evrópu eða Norður-Ameríku á einn eða annan máta aftur dómsvald yfir þessum þjóðum.

Þetta er aðeins eitt af mörgu, sem Alþjóðabankinn nú er að gera í sambandi við að reyna að ryðja erlendu auðmagni braut inn í þessi lönd eða að tryggja það auðmagn, sem þar er fyrir, vegna þess að það er vitanlegt, að eitt af því, sem þessar þjóðir sérstaklega hljóta að berjast fyrir, er að taka þetta auðmagn eignarnámi, ná í sínar hendur valdinu yfir þessum auðlindum og yfir þessum framleiðslutækjum, sem þetta útlenda auðvald á, alveg eins og við mundum berjast fyrir því hér á Íslandi nú af fullum krafti, ef það væru útlendingar, sem ættu allar jarðirnar hér á Íslandi, að taka þær af þeim og jafnvel ekki borga þeim neitt fyrir. En Þá er það einmitt hlutverk Alþjóðabankans að reyna að sjá um það, að þessar þjóðir fái ekki sjálfar að dæma í þessum málum og þar sem erlent auðvald hefur læst inn klónum, skuli það líka ná sér dómsvaldinu í hendur. Og af því að flestar þessar þjóðir svelta, á að nota sér neyð þeirra og þörf þeirra fyrir útlent fjármagn til þess að láta þær ganga að afarkostum, m.a. þeim afarkostum að farga hluta af sínu eigin sjálfstæði, hluta af sínu dómsvaldi út úr landinu og í hendurnar á öðrum aðilum. Það er ætlun Alþjóðabankans að knýja með þessum samningi þau lönd, sem eru nógu háð erlendu auðmagni enn þá, til þess að afsala sér þannig að einhverju leyti dómsvaldi. Með þessu móti er verið að koma nýlendustefnunni aftur inn um bakdyrnar, eftir að þessar þjóðir hafa rekið hana út um fordyrnar með því að taka sér pólitískt sjálfstæði.

Við Íslendingar áttum við tiltölulega góða nýlendudrottna, þegar við skildum við þá, þó að þeir væru okkur oft þungir í skauti, á meðan við heyrðum undir þá, og við gátum þess vegna skilið tiltölulega vel við þá. Við fengum eignarréttinn á öllum jörðum hér í landinu án þess að berjast til þess og án þess að þurfa kannske, eins og viðbúið er að sumar þjóðir þurfi nú, með blóðbaði að afla sér aftur réttar til síns eigin lands, til sinna eigin jarða. Hins vegar, eftir að við erum orðnir það vel stæðir Íslendingar, að við hvorki sveltum né erum upp á aðrar þjóðir komnir efnahagslega, er verið að byrja á því núna að reyna að hleypa erlendu auðvaldi inn í landið til þess að láta það klófesta þær auðlindir, sem við eigum enn þá beztar, og þetta erlenda auðvald gerir kröfu til þess, að við afsölum okkur að einhverju leyti okkar eigin dómsvaldi um leið, að við stígum að einhverju leyti um leið það spor, að gerast ekki aðeins efnahagsleg nýlenda, — það þýðir að láta útlenda aðila í staðinn fyrir innlenda græða á okkar auðlindum, — heldur að við förum líka að verða að einhverju leyti pólitísk nýlenda með því að afsala okkur að einhverju leyti dómsvaldi, sem við börðumst fyrir að fá inn í okkar eigið land.

Við Íslendingar höfum enga afsökun í þeim efnum að fallast á slíkt sem þetta. Það má vera, að Kamerún og þrjár aðrar af þeim gömlu, kúguðu nýlendum Frakka í Afríku hafi nokkra afsökun, í fyrsta lagi vegna þess, að þessi lönd eru mjög háð sínum gömlu drottnum, efnahagslega mjög háð þeim, og stjórnarfarsleg frelsisbarátta var raunar ekki allt of sterk í sumum þessum gömlu nýlendum, þegar t.d. Frakkar gáfu þeim frelsi. En ég er hræddur um, að það séu fáir aðrir en þær gömlu nýlendur, sem standa á lægsta stigi, erfiðast eiga, sem hafa neyðzt til þess að ganga að afarkostum Alþjóðabankans, sem í þessum samningi felast. Þær þjóðir eru ekki nema fjórar, eins og hér hefur verið upplýst, enn sem komið er. Það er látið að því liggja í athugasemdunum við þetta frv., að þeir, sem hafi undirritað það, séu m.a. Danmörk, Svíþjóð, Ítalía, Þýzkaland, Bretland og Bandaríkin. Það eru tvenns konar aðilar, sem koma til með, ef þetta kemst einhvern tíma í gildi, að undirrita þetta. Það eru annars vegar þeir gömlu drottnar, þau ríki, sem flytja út fjármagn og vilja tryggja sitt fjármagn og vilja reyna að tryggja sér og sínum, þeim sem eru svipaðir þeim, dómsvald yfir þessum fyrri nýlendum. Og það eru svo hins vegar þau ríki, sem eru nógu háð, sem eru nógu fátæk, sem eiga nógu bágt, þannig að hægt sé að misnota bágindi þeirra. Það eru þau hins vegar, sem koma til með að undirrita það. Ísland á ekki að vera í slíkri röð. Það er engin neyð, sem knýr okkur til þessa, ekki nokkur. Jafnvel þótt menn geri vitlausan alúmínsamning, þá er búið að setja inn í þann samning það, sem þarf í þessum efnum fyrir viðkomandi aðila. Það er engin þörf á að fara að gera almenna samþykkt, sem afsalar þessu almennt og skipar okkur á bekk með þeim gömlu nýlendum, sem erfiðast eiga. Það er engin þörf á því. Við erum ekki að fara í röð þeirra þjóða, sem sumir tala um, Danmörk, Svíþjóð, Bandaríkin eða slík. Þau eru að undirskrifa þetta sem lánardrottnar, og flest þessi ríki hafa slíkt samkomulag sín á milli um erlenda fjárfestingu, að þau óttast hana ekki sérstaklega og þurfa þess varla. Þó hafa þau viss takmörk á þessu. Danmörk hefur viss takmörk þarna á, vegna þess að hún er alltaf hrædd við uppkaupin á sínum jörðum. Þjóðverjar mundu kaupa upp alla Danmörku, ef þeir fengju aðstöðu til þess, nota hana fyrir sumarhús og annað slíkt. En við höfum enga ástæðu til þess að undirskrifa þennan samning. Með þessu móti værum við að niðurlægja okkur. Við værum að byrja á því að hleypa einum anga af nýlendustefnunni, sem við rákum burt á undanfarinni öld, inn um bakdyrnar, og við værum almennt að byrja að ryðja braut ekki aðeins því erlenda auðmagni, sem því miður er byrjað á, heldur líka þess beina valdi og þess beinu ítökum í okkar dómsvaldi.

Ég vildi aðeins segja þetta vegna þess, að þessi nýlendustefna í því nýja gervi, sem hún er að taka á sig, er að verða allumsvifamikil í heiminum og Alþjóðabankinn er aðalerindreki og frumkvöðull hennar og skipuleggjandi að öllu leyti. Hann er sá aðili, sem skipuleggur vald auðmagnsins í Norður-Ameríku og Evrópu yfir þessum gömlu nýlendum, sem áður voru og þeir eru að reyna að ná tökunum á, og ég álit ekki, að við eigum að setja Ísland í þann flokk. Þess vegna eigum við að fella þetta mál.