01.03.1966
Efri deild: 44. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

127. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Till. þær til breyt. á umferðarlögum, sem felast í þessu frv., eru gerðar annars vegar af rannsóknarnefnd umferðarslysa og umferðarlaganefnd, sem hefur tjáð sig um álitsgerð rannsóknarnefndarinnar í sambandi við þessar brtt. Efni málsins er í aðalatriðum það að setja nokkur ný ákvæði og strangari um ökuskírteini, bifreiðaskírteini og þá þannig, að annars vegar sé um að ræða bráðabirgðaskírteini og hins vegar fullnaðarskírteini, og þá gert ráð fyrir því, að bráðabirgðaskírteinið sé gefið út til byrjenda og gildi í eitt ár frá útgáfudegi og fullnaðarskírteini gildi í 5 ár frá útgáfudegi. Hugsunin á bak við þetta er sú að fylgjast nokkuð með, hvernig þeir, sem fá bráðabirgðaskírteini, hafa staðið sig í umferðinni, ef svo má segja, og þetta aukna aðhald er að áliti þessara tveggja n. líklegt til þess að koma nokkuð betri skipan á þessi mál heldur en nú er. Sannast bezt að segja eru miklar breytingar í umferðinni og á umferðarreglum og þess vegna ekki ástæðulaust að fylgjast nokkurn veginn með því, að þeir, sem einu sinni hafa fengið ökuskírteini, geri sér fulla grein fyrir þeim breytingum, sem þarna eru á ferðinni, og þeim nýju reglum, sem á hverjum tíma eru settar í sambandi við umferðina.

Efni 2. gr. frv. er það, að í stað þess að nú er í þessari gr. umferðarlaga ákveðið, að bráðabirgðaökuleyfissvipting lögreglustjóra skuli alltaf borin undir dómara og hann skuli ákveða, hvort hún eigi að standa eða niður falla, er nú lagt til, að dómara sé ekki skylt að taka þessa ákvörðun lögreglustjóra til úrskurðar nema eftir kröfu sakbornings. Þetta er talið geta haft töluverð áhrif til þess að flýta meðferð þessara mála, og eins og ég vék hér að í sambandi við skylt mál. sem ég lagði fram varðandi breyt. á l. um meðferð opinberra mála, stefnir þetta að því að flýta og koma betri skipan á meðferð þessara mála, sem snerta umferðina. Því miður hefur það oft verið svo, að það tekur langan tíma, kannske ár eða meira, að þeir, sem hafa gert sig augljóslega brotlega við umferðarl., halda áfram sinum skírteinum og missa þau ekki, fyrr en þeir eru sviptir þeim með dómi, en líklegt er, að þetta muni stuðla að því, að annar og betri háttur komist á meðferð málanna að þessu leyti.

Ég hef látið fylgja þessu frv. sem tvö fskj. bráðabirgðaálit rannsóknarnefndar umferðarslysa og svo umsögn umferðarlaganefndar um þetta bráðabirgðaálit. Ég vænti þess, að það verði til þess að greiða fyrir meðferð málsins hjá þeirri n., sem fær málið til meðferðar. Eins og fram kemur, hefur rannsóknarnefnd umferðarslysa ekki verið reiðubúin til þess að skila endanlegu nál. En að ósk minni frá því í haust lagði hún fram þetta bráðabirgðaálit, sem hér er birt sem fskj. nr. 1, og til þess að flýta framkvæmd vissra atriða, sem telja mætti, að gætu orðið til bóta í sambandi við umferðina. Hún gerir hins vegar ráð fyrir því að þurfa nokkuð lengri tíma til þess að skila endanlegu áliti, og á ég ekki von á endanlegum niðurstöðum þessarar n. fyrr en síðar á árinu.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.