29.03.1966
Efri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

127. mál, umferðarlög

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Allshn. flytur nú við 3. umr. þessa máls brtt. á þskj. 391. Tillögurnar flytur n. eftir tilmælum dómsmrn., en að baki þeim stendur umferðarlaganefnd, sem komið hefur þeim á framfæri við ráðuneytið. Brtt. eru í því fólgnar í fyrsta lagi, að í stað þess að skv. núgildandi l. skulu ökuskírteini gilda í 5 ár frá útgáfudegi, er gert ráð fyrir í brtt. n., að fullnaðarskírteini skuli gilda í 10 ár frá útgáfudegi, aftur á móti með þeirri undantekningu, að fullnaðarskírteini þeirra, sem náð hafa 60 ára aldri, og ökuskírteini þeirra, sem hafa svokallað meira próf bifreiðarstjóra, skuli þó framvegis gilda í 5 ár eins og nú er í lögum. Þetta mundi verða skilið þannig, að maður, sem orðinn er 60 ára að aldri og þarf að fá nýtt ökuskírteini, mundi ekki fá það nema til 5 ára í senn. Aftur á móti yngri maður, þó að orðinn væri 59 ára, mundi fá 10 ára skírteini. Þannig skilur n. þetta, og þannig mun þetta vera hugsað af hálfu umferðarlaganefndar.

Þá er í öðru lagi gerð till. um það, að ákvæði 4. gr. frv. skuli ekki öðlast gildi fyrr en 1. júní 1966.

Rök fyrir þessum brtt. koma fram í grg. umferðarlaganefndar, og ég tel rétt að lesa meginkafla grg., sem um þetta fjallar, til þess að hv.dm. geti gert sér grein fyrir, hvernig þessi mál eru vaxin. Þar segir svo:

„Í 6. mgr. 27. gr. umferðarlaga, nr. 26 2. maí 1958, er gert ráð fyrir því sem aðalreglu, að ökuskírteini gildi í 5 ár frá útgáfudegi. Í frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, sem nú liggur fyrir Alþingi, er og miðað við 5 ár sem almennan gildistíma ökuskírteina. Það frv. felur hins vegar í sér, að aukið er eftirlit með ökumönnum fyrsta árið eftir að þeir fá ökuskírteíni útgefið. Einnig er í frv. heimild til að taka upp sérstök skrifleg próf við endurnýjun ökuskírteina. Umferðarlaganefnd hefur að gefnu tilefni tekið til athugunar, hvort ástæða sé til að lengja gildistíma ökuskírteina. Upplýst er, að reglur um gildistíma ökuskírteina eru mjög mismunandi eftir löndum. Í Svíþjóð, Þýzkalandi og Frakklandi gilda engin tímamörk um ökuskírteini. Í Englandi er gildistíminn 3 ár, en í Finnlandi, Hollandi og Ítalíu 5 ár. Í Danmörku og Noregi hefur gildistíminn verið 5 ár. Á síðasta ári var hins vegar samþ. í Noregi að lengja gildistímann í 10 ár, og í Danmörku hefur verið lagt fram stjfrv., þar sem gert er ráð fyrir því, að almenn ökuskírteini gildi til 70 ára aldurs hlutaðeigandi. Rök fyrir því að lengja gildistímann eru einkum þau, að endurnýjun hefur í för með sér bæði fjárútlát og umstang fyrir þann, sem þarf að endurnýja skírteini sitt. En áður en viðkomandi snýr sér til lögreglustjóra, þarf hann að fara til læknis og ljósmyndara, auk þess sem hann þarf að afla sér vottorðs úr sakaskrá. Endurnýjun hefur og í för með sér töluverða vinnu fyrir lögregluyfirvöld. Telja verður, að próf það, sem gert er ráð fyrir, að tekið verði upp skv. frv. því, sem liggur fyrir Alþingi, muni leiða til verulega aukins umferðaröryggis, enda verður með því gengið úr skugga um, að skírteinishafi kunni skil á meginreglum þeim, sem gilda í umferðinni. Þá er vitað, að mjög sjaldan er synjað um endurnýjun vegna þess, að læknisvottorð beri með sér, að heilsufari manns hafi hnignað. Með þetta í huga telur umferðarlaganefnd hægt að lengja gildistíma almennt.“

Þetta var úr grg. umferðarlaganefndar. Ástæðan fyrir því, að lagt er til, að ákvæði 4. gr. öðlist ekki gildi fyrr en 1. júní 1966, er einfaldlega sú, að nokkurn undirbúning þarf að sjálfsögðu til þess, að út verði gefin bráðabirgðaskírteini, þannig að ætla má, að ekki verði hægt að hefja útgáfu slíkra skírteina fyrr en eftir þann tíma, sem brtt. allshn. kveður á um.

N. hefur fallizt á þessi rök og þess vegna flutt brtt. á þskj. 391.