23.04.1966
Neðri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

127. mál, umferðarlög

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við það frv., sem hér er til umr., þannig að 50. gr. umferðarl. breytist, og sú breyting, sem hér er farið fram á að gerð verði, er, að dómsmrh, verði heimilað að hafa ökuhraða utan þéttbýlis allt að 90 km á klst. á einstökum vegum, þ.e.a.s. hraðbrautum, og hann geti jafnframt bundið þessa heimild við ákveðna árstíma. Eftir að nýja Reykjanesbrautin hefur verið tekin til notkunar, sýnist ekki ástæða til þess að hafa sama hámarkshraða þar og á öðrum vegum utan þéttbýlis, og þess vegna er þessi till. fram komin um það, að þar mundi verða möguleiki á því að heimila hámarkshraðann 90 km á klst. í stað 70 km.

Þar sem sú n., sem hefur haft þetta mál til meðferðar, hefur ekki haft aðstöðu til þess að fjalla um þessa till., er ég að sjálfsögðu reiðubúinn, ef ástæða þykir til, að draga hana til baka til 3. umr.