09.11.1965
Efri deild: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal taka það fram strax, að ég lít ekki svo á, að það sé neitt höfuðatriði málsins, hvort þessum umr. verður frestað nú eða þær till., sem um er rætt, ræddar á milli 2. og 3. umr. Ég get fyrir mitt leyti fallizt á, að umr. sé frestað, ef málið hlýtur ekki sérstakar tafir af þeim sökum, og læt ég svo útrætt um það atriði.

Hitt skal ég einnig viðurkenna með hv. 1. þm. Norðurl. e., að hin margnefnda 19 manna nefnd var ráðgjafarnefnd, og munurinn á því að beita sér fyrir því, sem þar var samþykkt, á Alþ. á vinstristjórnarárunum eða því samkomulagi, sem hér um ræðir, þar sem er sagt, að ríkisstj. muni beita sér fyrir eftirfarandi ákvæðum o.s.frv., sé ég ekki að sé í verki nokkur hlutur. Ég sé ekki annað en báðar þessar hæstv. ríkisstj. hafi rætt við þessa aðila með það fyrir augum að fá niðurstöður í viðræðurnar, og ég minnist ekki frá vinstristjórnarárunum annars en þáv. ríkisstj. hafi reynt að beita sér fyrir því, sem var ákveðið í margnefndri 19 manna nefnd. Ég átti þess nefnilega kost í báðum tilfellum að vera þátttakandi í þessum viðræðum og veit ósköp vel, hvernig þær gengu fyrir sig. Sá er munurinn á, að alþjóð er kunngert, strax og ríkisstj. hefur fallizt á að beita sér fyrir ákveðnum hlutum til lausnar deilu, sem ekki var gert í tíð vinstri stjórnarinnar. Það er sá munurinn einn á, og ég tel hann ekki til lasts núverandi ríkisstj., nema síður sé. Þar var alþjóð sagt frá því, um hvað var rætt og um hvað var samið. Ríkisstj. gat að sjálfsögðu ekki lofað lagasetningarákvæðum. Þess vegna hefst upphaf þessa samkomulags á því, að ríkisstj. muni beita sér fyrir o.s.frv.

Varðandi það atriði, sem hv. 9. þm. Reykv. (AG) hefur gert að höfuðatriði í andmælum sínum gegn ákveðnum atriðum frv., að það kunni í því að felast einhver brigðmæli við þetta margnefnda samkomulag um húsnæðismálin, vitnar hann til orðanna í 3. gr. frv., næstsíðustu mgr., þar sem segir: „Og er heimilt að veita meðlimum verkalýðsfélaga lán til kaupa á íbúðum, sem nemur 4/5 hlutum af verðmæti íbúða, og skal þá telja gatnagerðargjald með í verðmæti íbúðanna.“ Þetta segir hann, að sé brigð, gæti verið brigð, eins og hann stundum orðar það, á þessu ákvæði í c-lið samkomulagsins, þar sem segir: „Þeir meðlimir verkalýðsfélaganna, sem fá kost á að kaupa þær 200 íbúðir á ári, sem að framan greinir, skulu eiga kost á allt að 80% láni út á verðmæti íbúðanna að meðtöldu gatnagerðargjaldi.“ Ég hygg, að þeir, sem um lög hafa fjallað, sjái ekki þann eðlismun á þessu, sem neinu máli skiptir, enda er því margyfirlýst hér af mér f. h. ríkisstj., að þarna er um efndir að ræða á því loforði, sem um er að ræða í þessum c-lið, og þess vegna ætti ekki að þurfa að vera með neinar efasemdir um það. Það er fullkominn hugur ríkisstj., að við þessi ákvæði verði staðið í einu og öllu, svo sem í mannlegu valdi stendur. Hins vegar væri áreiðanlega hægt að hártoga mörg slík atriði úr samkomulaginu. Það er gert af mönnum, sem hafa ekki sérstaklega fjallað um uppsetningu laga, heldur er það meginhugmyndin að fá fram þær niðurstöður, sem menn telja málefnalega mest virði. Lagalega uppsetningu á þessu loforði tel ég vera rétta í 3. gr. frv. og ítreka það, sem ég hef áður margoft um það sagt, að það er fullur hugur til þess, að við það ákvæði verði staðið.