28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

127. mál, umferðarlög

Axel Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil eindregið hvetja hv. þd. til þess að samþykkja þessa till., sem hér er borin fram. Ég vil fullyrða sem maður, sem hef stundað akstur, — það hefur verið atvinna mín fyrst og fremst, og ég skammast mín ekki fyrir það, — að það er alger nauðsyn að breyta þarna til. Ef það hraðahámark, sem gildir um okkar almennu vegi í dag, er hæfilegt, er það alger fjarstæða að ætla, að sömu reglur gildi um þennan veg. Það er alger fjarstæða. Og þá stöndum við andspænis því, að þar erum við með ákvæði, sem allir, sem þarna eiga hlut að máli, finna með sjálfum sér, að ekki er réttlætanlegt, og löggjöf, sem almenningur finnur sig knúinn til þess að brjóta, vegna þess að það séu óeðlileg ákvæði. Þeirri löggjöf eigum við að breyta. Það liggur í hlutarins eðli, að um veg, sem er jafnöruggur og þarna er um að ræða, samanborið við aðra þjóðvegi landsins, hlýtur að mega láta gilda aðrar reglur. Þarna er leyfilegt í dag að aka á 70 km hraða. Það er einnig leyfilegt á okkar þjóðvegum annars staðar, sem eiga þó við að búa þá vankanta, sem við allir þekkjum. En þarna er öruggur vegur. Þetta er bundið við vissa árstíma.

Það er talað um ísingarhættuna. Jú, hún er fyrir hendi þarna og hlýtur ávallt að vera á öllum akbrautum, sem hafa varanlegt slitlag og sléttan flöt. En ég vil ekki viðurkenna, að það sé ísingarhætta að sumri til á Reykjanesbrautinni, ekki í venjulegu árferði, og það er áreiðanlegt og ég staðhæfi, að hraðatakmörkin kveða ekki á um í því efni, hvort þar verða umferðarslys eða ekki, því að umferðarslys í ísingu verða hér mjög tíð innan Reykjavíkur á götum, sem hafa allt niður í 25 eða 35 km hámarkshraða. Á Hafnarfjarðarveginum, sem hefur 45 km hámarkshraða, eru hvað tíðust umferðarslys af ísingarhættu, þannig að umferðarhraðahámarkið segir ekkert til um þetta. Þetta er óviðráðanlegt, ef svo má segja, og velflestir ökumenn gera sér grein fyrir ísingarhættunni.

En þar kemur til annað, sem ekki er hægt að ráða við. Of hæg umferð er hins vegar atriði, sem allt of lítið hefur verið gefinn gaumur að í okkar umferðarmálum, og á brautum eins og Reykjanesbrautinni væri miklu fremur ástæða til þess að setja ákvæði um lágmarkshraða heldur en hámarkshraða, — miklu fremur að mínu áliti. Það er eins og síðasti ræðumaður tók fram, einmitt eitt ökutæki, sem ekur kannske á Reykjanesbraut með 20—30—40 km hraða, það er miklu, miklu hættulegra þar heldur en það ökutæki, sem fer eitthvað yfir núverandi hámarkshraðamark á þeirri braut, — miklu hættulegra. Það skapar það, að verið er að aka fram úr, og það er einmitt framúraksturinn, sem veldur velflestum slysunum, þannig að við skulum hiklaust gera það upp við okkur, að þarna eru breyttar aðstæður frá okkar malarvegum. Við eigum að viðurkenna það. Annars væri gagnslitið að vera að keppa að því að setja upp vegakerfi eins og Reykjanesbrautina, ef við um leið viljum ekki viðurkenna, að það sé eðlilegt að leyfa þarna meiri hraða en á malarvegunum.

Ég vil eindregið skora á hv. þd. að samþykkja þessa brtt., því að annað er algerlega óraunhæft að dómi allra þeirra, sem vit hafa á þessum málum, fullyrði ég.