29.03.1966
Neðri deild: 61. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

171. mál, vernd barna og ungmenna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Gildandi barnaverndarlög eru orðin næstum 20 ára gömul. Þess vegna skipaði menntmrn. fyrir nokkrum árum nefnd sérfróðra manna til þess að endurskoða þessi lög og semja nýtt lagafrv. um þessi efni. Þetta lagafrv. sérfræðinganefndarinnar lá fyrir hv. síðasta Alþ. og hafði verið lagt fyrir þessa hv. d. Menntmn. d. fjallaði mjög ýtarlega um málið og gerði ýmsar brtt. við frv., og síðan var frv. samþ. í þessari d. með öllum atkv. nema 1.

Hins vegar kom í ljós, þegar málið var rætt í hv. Ed. og þó einkum og sér í lagi menntmn. hennar, að menntmn.-mönnum Ed. sýndist nokkuð sitthvað um veigamikil atriði í frv., eins og Nd. hafði afgreitt það. Var það sérstaklega sú gr., sem er 41. gr., sem menntmn. Ed. hafði mjög ólíka skoðun á þeirri skoðun, sem menntmn. Nd. hafði haft og Nd. hafði staðfest með næstum shlj. atkv. En í 42. gr. er fjallað um vinnu barna og unglinga. Ákvæði frv., eins og það upphaflega hafði verið lagt fyrir, voru nokkru ýtarlegri en ákvæði gildandi laga. Síðan hafði menntmn. Nd. enn hert mjög á ákvæðum frv. um takmörkun á vinnu barna og unglinga. N. í Ed. sýndist hins vegar, að hér væri of langt gengið og mundu ákvæðin, eins og Nd. samþykkti þau, tæpast vera framkvæmanleg.

Þessi ágreiningur varð til þess, að frv. var ekki afgreitt á síðasta Alþ.

Þess vegna tók ég þann kost á s.l. vori að rita nokkrum menntmn: mönnum í Ed. og Nd. og skipa þá í n. til þess að fjalla um þann ágreining, sem orðið hafði milli d., og freista þess að ná samkomulagi um málið. Skipaði ég í n. þá frú Auði Auðuns, Benedikt Gröndal, Einar Olgeirsson, Ólaf Björnsson og Sigurvin Einarsson, og var Benedikt Gröndal skipaður formaður nefndarinnar. N. vann gott starf og gerði ýmsar breytingar á frv., sem hún varð sammála um, og hafa þær allar verið teknar til greina í því frv., sem hér er nú lagt fyrir.

Að því er snertir ágreininginn um 41. gr., þ.e.a.s. ákvæðin um vinnu barna og unglinga, gerðist það, meðan n. var að störfum, að forseti A.S.Í. sneri sér fyrir sambandsins hönd til forsrh. og lét í ljós þá skoðun, að æskilegt væri, að lagasetning um vinnu barna og ungmenna yrði látin vera í vinnuverndarfrv., sem væri verið að undirbúa í samræmi við júnísamkomulagið 1964. Ríkisstj. varð við þeirri ósk, og fól félmrh. vinnutímanefnd með bréfi að taka við þessu verkefni. En ágreiningurinn, sem orðið hafði á milli n. um innihald þessarar gr., hélzt í n., sem ég hafði skipað 24. maí. Ríkisstj. tók þess vegna þann kost að leiða þessa deilu hjá sér við flutning þessa frv. og hafa 41. gr. í þessu frv., sem nú er lagt fyrir, samhljóða gr., sem var í stjfrv. upphaflega, þ.e.a.s. hafa efni gr. eins og sérfræðinganefndin hafði gert till. um á sínum tíma, og þannig er gr. í þessu frv. Þess er hins vegar að vænta, að áfram verði haldið að vinna að ýtarlegri ákvæðum um vinnu barna og ungmenna en felast í þessu frv. á vegum þeirrar n., sem undirbýr vinnuverndarfrv., og Alþ. fái þetta sérstaka vandamál til meðferðar í till. þeirrar n., þ.e.a.s. þegar vinnuverndarfrv. verður lagt fyrir hið háa Alþ.

En í þessu frv. felast ýmsar breytingar, sem eru til ótvíræðra bóta á gildandi l. um vernd barna og ungmenna. Teldi ég mjög mikilsvert, ef hv. Alþ. treysti sér til að afgreiða þetta frv. nú á þessu þingi. Málið er þaulathugað og í raun og veru þrautrætt og óhætt að segja, að ekki sé ágreiningur um annað en lagaákvæðin um vinnu barna og ungmenna. En ég teldi mjög miður farið, ef áframhaldandi ágreiningur um þetta atriði þyrfti að verða til þess, að allt málið stöðvaðist enn og þær endurbætur, sem að öðru leyti felast í frv., kæmu þannig ekki til framkvæmda. Það eru þess vegna mjög eindregin tilmæli mín til hv. Nd., og sams konar tilmæli mun ég flytja til hv. Ed., ef málið kemst þangað, að sá ágreiningur, sem í fyrra kom fram um 41. gr., verði látinn niður falla að þessu sinni og úrslit í þeim ágreiningsefnum látin bíða, þangað til vinnuverndarfrv. kemur til meðferðar hins háa Alþ.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.