22.04.1966
Efri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

171. mál, vernd barna og ungmenna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá hv. Nd. og var samþ. þar fyrir fáum dögum við 3. umr. með shlj. atkv., eftir að felld hafði verið brtt., sem ég skal nefna síðar.

Þetta mál var til meðferðar á síðasta Alþ. og var þá samþykkt næstum shlj. í hv. Nd., er hv. menntmn. þeirrar deildar hafði einróma mælt með samþykkt þess, eftir að hafa gert á frv. nokkrar breytingar.

Í menntmn. þessarar hv. deildar varð hins vegar ágreiningur um málið, og vildi menntmn. þessarar deildar ekki mæla með samþykkt frv. eins og hv. Nd. hafði gengið frá því. Dagaði málið þess vegna uppi á síðasta þingi. Þetta varð svo til þess, að eftir þinglok ritaði ég þm. úr menntmn. beggja deilda bréf, hinn 24. maí s.l., og óskaði þess, að þessir tilteknu menntmn.- menn fjölluðu um frv. milli þinga og freistuðu þess að ná samkomulagi um málið. Þessir menntmn -menn voru: frú Auður Auðuns. Benedikt Gröndal. Einar Olgeirsson, Ólafur Björnsson og Sigurvin Einarsson.

Skilaði þessi nefnd áliti til menntmrn., og er þetta frv. byggt á till. þeirrar nefndar. Hefur verið tekið tillit til allra brtt., sem þessir fimmmenningar urðu sammála um að gera á frv. Hins vegar varð enn ágreiningur um sama atriðið og valdið hafði ágreiningi milli menntmn. þessarar hv. deildar og Nd., þ.e.a.s. um 41. gr., en í henni eru ákvæði um vinnu barna og unglinga. Tveir nm. vildu halda fast við þá niðurstöðu, sem orðið hafði í menntmn. Nd., að því er þetta mál snertir. En meðan á nefndarstörfum stóð, gerðist það, að forseti Alþýðusambands Íslands fór þess á leit við forsrh., eða lét í ljós þá skoðun við forsrh., að eðlilegt væri, að lagasetning um vinnu barna og ungmenna yrði látin vera í vinnuverndarfrv., sem væri verið að undirbúa í samræmi við júnísamkomulagið milli ríkisstj., launþegasamtaka og vinnuveitendasamtaka í júní 1964. Ákvað ríkisstj. að verða við þessari ósk og fela þeirri n., sem er að undirbúa vinnuverndarfrv., að hafa í því frv. ákvæði um vinnu barna og unglinga.

Með hliðsjón af þessu ákvað ríkisstj. að flytja frv. um vernd barna og ungmenna aftur á þessu þingi og hafa 41. gr., þ.e.a.s. gr. um vinnu barna og ungmenna, eins og hún var í upphaflegu frv. ríkisstj., þ.e.a.s. eins og hún var áður en Nd. skv. till. menntmn. samþ. breyt. á þessari grein. Og þannig er frv. nú lagt fyrir þessa hv. d. Nokkrir þm. báru í hv. Nd. fram brtt. um 41. gr. í samræmi við samþykkt Nd. í fyrra, en sú brtt. var nú felld. Ég geri ráð fyrir því, þótt það hafi ekki komið skýrt fram í hv. Nd., að ástæðan til þess, að Nd. hefur þannig breytt um skoðun á 41. gr. og fellir nú brtt., sem d. samþ. í fyrra, sé sú, að augljóst sé, að málið mundi ekki ná fram að ganga, ef hv. Nd. héldi fast við skoðanir sínar á efni 41. gr., enda má segja, að ástæða sé til þess að breyta um afstöðu í þessu efni, þar eð vitað er, að verið er að fjalla um lagaákvæði um vinnu barna og unglinga á öðrum vettvangi, sem segja má að sé eðlilegri fyrir þessi efni en barnaverndarlöggjöfin, þ.e.a.s. vinnuverndarlöggjöfin.

Ég vil því mjög mega mælast til þess, að þetta frv. nái fram að ganga nú að þessu sinni þrátt fyrir þann ágreining, sem auðvitað er enn uppi og ég geri mér alveg ljóst að er enn uppi um barnavinnu- og unglingavinnuákvæðið. Ég teldi það mjög miður, ef þau viðtæku ákvæði til bóta frá barnaverndarlöggjöfinni, sem að öðru leyti felast í þessu frv., næðu ekki fram að ganga vegna ágreinings um barna- og unglingavinnuákvæðin, þegar vitað er, að verið er að vinna að lausn þess ágreinings, sem uppi er um það efni, á öðrum vettvangi, þ.e.a.s. í n. um vinnuvernd.

Sú virðist hafa orðið skoðun meiri hl. hv. Nd., að ekki væri ástæða til að láta ágreining um barnavinnuna verða til þess að stöðva algerlega framgang málsins, og sama vona ég, að verði niðurstaðan hér í þessari hv. d. Að öðru leyti er málið eflaust svo kunnugt, síðan það var til meðferðar hér í fyrra, að ég sé ekki ástæðu til þess að tefja tíma hv. þd. með því að rekja efni þess í einstökum atriðum.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.