22.04.1966
Efri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

171. mál, vernd barna og ungmenna

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða um þetta mál að sinni. Það var hér til umr. á síðasta þingi, og gerði ég þá grein fyrir skoðunum mínum á því í stórum dráttum.

Ég vil þó ekki láta hjá líða nú að fara örfáum orðum um það atriði í þessu frv., sem snertir vinnuvernd barna. Ég er gersamlega mótfallinn því, að nákvæm ákvæði um vinnuvernd verði ekki í lögum um vernd barna og ungmenna. Ég tel, að ákvæði um vinnuvernd barna eigi fyrst og fremst þar heima. Þau mega gjarnan vera í öðrum lögum, eins og l. um vinnuvernd almennt, en þau eiga fyrst og fremst heima í lögum sem þessum. Þaðan má ekki sleppa þeim, ekki undir neinum kringumstæðum, og það má ekki heldur gefast upp við að gera ákvæði um vinnuvernd barna sem bezt úr garði og í samræmi við kröfur tímanna. Auðvitað má ekki gefast upp við þá viðleitni að ná sem víðtækustu samkomulagi um það aðeins vegna þess, að það reynist erfitt. Við skulum hafa það í huga, að börn á Íslandi eru talin vinna mikið og miklu meira en gerist í nágrannalöndum okkar. Það hefur margsinnis komið fram, að útlendir gestir, sem hingað hafa komið, hafa undrazt það stórum, hve barnavinna í landinu er mikil, og fundizt það stinga í stúf við félagslegan þroska, sem þeir annars hafa orðið varir við hér á Íslandi. Við skulum líka hafa það í huga, að eins og ástandið er í atvinnumálum nú í landinu, þá sækjast atvinnufyrirtækin, sérstaklega af vissum tegundum, sérstaklega eftir börnum til vinnu, og freisting peninganna er mikil nú á tímum, eins og öllum er kunnugt.

Af þessum ástæðum er sérstök ástæða til þess, að hér á hinu háa Alþingi sé þetta mál tekið til alvarlegrar athugunar, og vinnuvernd barna á að mínum dómi ekki sérstaklega heima í lögum um vinnuvernd fullorðinna. Ákvæði um vinnuvernd barna eiga heima í barnaverndarlögum sérstaklega, og ég vil meina, að það sé eitt af mikilsverðustu atriðunum í barnaverndinni, að börnum sé ekki ofþjakað við vinnu. Við lesum um það með hryllingi, hvernig börnum var ofþjakað með vinnu á öldinni sem leið víðs vegar í heiminum, en við líðum það nú, að börnum er ofþjakað með vinnu, t.d. að börn hópum saman á sumum stöðum í landinu eru látin þræla í verksmiðjum, — ég tel frystihús verksmiðjur, — allt frá 8 ára aldri. Þetta getur ekki gengið, og hæstv. ráðh. ættu að íhuga það mál vandlega, áður en þeir sleppa þessu atriði, aðeins af því að það reynist eitthvað erfitt að ráða fram úr vandanum.

Ég tel það illa farið, ef togstreita á að verða hér innan veggja Alþingis, togstreita um vinnuvernd barna, bara vegna þess, að atvinnurekendur á víssum sviðum sækjast eftir börnum til vinnu, bara af því, að einstakir atvinnuvegir telja það ómissandi að láta 8, 9 og 10 ára börn þræla í verksmiðjum eða annars staðar. Þetta ætti ekki að koma til greina hér í þingsölunum, slík togstreita. Við eigum ekki að hugsa okkur að láta börn yfirleitt vinna, börn til 16 ára, vinnunnar vegna, afkomu þjóðarinnar vegna. Ef við látum börn vinna, þá er það þeirra sjálfra vegna, til þess að kenna þeim vinnubrögð, eins konar vinnuskólar. Það er það eina, sem við getum viðurkennt og eigum að viðurkenna, annað ekki.

Það er annað, sem mér finnst eiga heima líka í lögum eins og hér er um að ræða, og einmitt snertandi vinnuvernd. Það atriði verður aldrei sett inn í önnur lög um vinnuvernd, og það er, að börnum sé ekki ofþjakað í skólum, að börnum sé ekki ofþjakað við nám. Nám er þeirra vinna, og það er auðvelt að ofþjaka börnum við nám, og við höfum dæmi þess. Skólalæknar í Reykjavík hafa bent á það, að börnum á vissum aldri væri ofþjakað við nám. Ég tel, að ákvæði um eftirlit með slíku eigi einmitt heima í gr. eins og 41. gr. um vinnuvernd barna. Einhvers staðar verður slíkt ákvæði að koma í barnaverndarlög, og ég vil með þessum orðum, — ég skal ekki hafa þau miklu fleiri, — ég vil með þessum orðum serstaklega benda á það óviðurkvæmilega, það skammarlega í því, að Alþingi ráði ekki fram úr þessu vandamáli, svo mikilsvert sem það er, og það er ekki erfitt nema að einu leyti. Það eru til óheillaöfl, sem toga í skækilinn og koma í veg fyrir það, að barnavinna sé bönnuð.