28.04.1966
Efri deild: 73. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

171. mál, vernd barna og ungmenna

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós nokkur vonbrigði mín með niðurstöðuna af starfi hv. menntmn. í þessu máli. Ég hafði hálft í hvoru vænzt þess, að frá þessari hv. n. kæmu einhverjar brtt. við frv., því að brtt. við þetta frv. er sannarlega þörf .

Ég hafði orð á því eitt sinn í fyrra, þegar þetta mál var rætt hér, að gildandi lög um barnavernd væru í sjálfu sér góð lög. Það, sem vantaði á, væri, að þeim væri ekki framfylgt eins og efni stæðu til. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er í ýmsum smáatriðum betra en gildandi lög, — það skal ég viðurkenna, — en í öllum veigamiklum atriðum tekur það gildandi lögum ekki fram. Þetta er sannleikurinn um frv., sem hér er til umr.

Ég hafði hugsað mér að flytja nokkrar brtt. við frv. við þessa umr., en dró það of lengi að koma þeim brtt. á framfæri, einmitt vegna þess, að ég hafði gert mér nokkrar vonir um, að brtt. kæmu frá hv. menntmn. Nú sé ég, að svo er ekki, og því hef ég sent brtt. mínar í prentun nú í kvöld, en mun ekkí flytja þær eða gera grein fyrir þeim nánar fyrr en við 3. umr. málsins.

Ég vil þó, úr því að ég er staðinn upp, minna á þrjú veigamikil atriði, sem ég tel að þurfi að breyta í þessu frv.

Í fyrsta lagi á menntmrn. ekki að hafa yfirstjórn barnaverndarmála, heldur félmrn. Á þetta var bent af þeirri sérfræðinganefnd, sem samdi frv., sem lagt var fram hér á Alþ. í fyrra. Sú n. færði sterk rök fyrir því, að réttara væri, að barnaverndarmálin heyrðu undir félmrn., heldur en undir menntmrn. Þessu er ég algerlega sammála og mun flytja brtt. í þá átt.

Annað atriði, sem ég vil benda á, er það, að sú tilhögun að skipa barnaverndarnefndir í hverju sveitarfélagi er í sjálfu sér ekki góð. Ég vil segja: hún er miklu frekar neyðarúrræði, og kemur þar fyrst og fremst til greina strjálbýli og fámenni í sveitarfélögum hér á landi. Ég veit, að barnaverndarnefndir starfa í nágrannalöndum okkar, t.d. Danmörku, en þar er vaxandi gagnrýni á þessu fyrirkomulagi. Mér hefði fundizt tímabært nú, þegar þessi lög eru til endurskoðunar, að athugað hefði verið, hvort ekki væri rétt fyrst og fremst í Reykjavík og jafnvel í nokkrum stærri kaupstöðunum að taka upp annað fyrirkomulag í barnaverndarmálunum en þetta. Ég tel mjög eðlilegt t.d., að sérstök deild í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur hafi þessi mál með höndum, annist barna- og ungmennavernd, í stað þess að barnaeftirlitið sé undir umsjón eða undir stjórn ófaglærðs fólks, sem til þess er kosið til fjögurra ára í senn. Það er ekki gott fyrirkomulag. Hitt er eðlilegt og sjálfsagt, þar sem er hægt að koma því við, að með þessi mál fari, — bæði starfi að þessum málum og stjórni þessum málum, — sérfróðir menn. Þess vegna mun ég leggja það til, að hætt verði að skipa barnaverndarnefnd í Reykjavík og í þess stað verði sérstök deild í Heilsuverndarstöð Reykjavikur látin annast barnaeftirlitið eftir sömu reglum og barnaverndarnefndir.

Í þriðja lagi vil ég svo aðeins minnast á 41. gr. um vinnuvernd barna. Ég gerði hana að umtalsefni við 1. umr. málsins nú og skal ekki fjölyrða um það, En ég tel ófært að ganga frá endurskoðun þessara laga nú án þess að gera því máli, vinnuvernd barna, betri skil. Eins og gr. er nú, tel ég hana í höfuðatriðum engu betri en samsvarandi gr. í gildandi lögum. Sérstaklega er allt of mikið af heimildum, sem sennilega verða ekki frekar notaðar eftirleiðis en þær hafa verið hingað til. Hver ríkisstj. af annarri hefur gersamlega vanrækt að setja reglugerðir um barnaeftirlit, um barnavernd, eins og þó er gert ráð fyrir í gildandi lögum. Þetta skal vera algerlega óbreytt samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, og það tel ég með öllu ótækt. Hið háa Alþ. verður að ganga betur frá þessum málum, vinnuvernd barna, og það í þessu frv. Þörfin er brýn, eins og ég benti á og margir aðrir hafa bent á á undanförnum árum, — þörfin er sérstaklega brýn hér á landi.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta frv. að sinni, en endurtek, að ég mun leyfa mér að flytja nokkrar brtt. við þetta frv. við 3. umr. málsins.