29.04.1966
Efri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

171. mál, vernd barna og ungmenna

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Eins og ég tók fram við 2. umr. þessa máls, hafði ég hug á að leggja fram brtt. við frv. við 3. umr., og nú liggja þessar brtt. fyrir á þskj. 636. Þessar brtt. eru að tölunni til nokkuð margar, en efnislega er ekki um að ræða nema fáar breytingar, því að sumar till. leiðir hverja af annarri. Ég vil nú í örfáum orðum gera grein fyrir meginefni brtt. á þskj. 636.

1. brtt. mín er við 2. gr. Í 2. gr. frv. segir, að menntmrn. skuli hafa yfirstjórn barnaverndarmála. Ég legg hér til, að það verði ekki menntmrn., heldur félmrn., sem hafi með barnaverndarmálin að gera. Í grg., sem fylgdi frv. til l. um vernd barna og ungmenna á síðasta þingi, voru færð ýtarleg rök fyrir því af þeim sérfræðingum, sem það frv. sömdu, að réttilega heyrðu þessi mál undir félmrn., en ekki menntmrn. Hér er um að ræða félagsmál, ef nokkurt mál má kalla því nafni, og þess vegna legg ég til, að um leið og gerð er breyting á gildandi l., verði þessu breytt í sitt eðlilega horf.

Í 4. gr. frv. segir, að barnaverndarnefnd skuli vera í hverjum kaupstað og í hverjum hreppi o.s.frv. Hér vil ég gera breytingu á að því er Reykjavíkurborg snertir. Þess vegna legg ég það til, að í Reykjavík skuli sérstök barnaverndardeild í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur annast vernd barna og ungmenna og fyrir þá deild skuli gilda ákvæði þessara l. um störf og starfsháttu barnaverndarnefnda. Ég gerði lítillega grein fyrir því hér í gær, að sú tilhögun að skipa barnaverndarnefndir, eins og nú tíðkast, hafi marga ókosti og þyki ekki góð, þótt á öðru sé óvíða völ. Ég tel, að barnaverndin verði bezt rækt af stofnun, sem hafi á að skipa sérfróðu starfsliði. Ég held, að hitt sé ekki heppilegt, að kjósa einhverja og einhverja góða borgara til þess að hafa með þessi mikilvægu mál að gera 4 ár í senn. Það verða allt of losaraleg tök á stjórn þessara mála með því móti. Hinu er ekki að neita, að í okkar fámenni og strjálbýli er ekki hægt að koma við þeirri tilhögun, sem æskilegust er, en það er auðvelt í Reykjavík. Ég tel ekki óhugsandi, að sama mætti segja um stærri kaupstaði okkar, og þess vegna hef ég látið vera með í brtt. minni heimild til handa kaupstöðum að fela heilsuverndarstöð þar vernd barna og ungmenna, þannig að stærri kaupstaðir geti þá tekið upp þetta fyrirkomulag, ef þeim svo sýnist.

3. brtt. mín er við 36. gr. Í þeirri gr. er ákvæði, sem e.t.v. er ekki í sjálfu sér veigamikið, en mér þykir ekki fallegt. Þar segir í síðustu mgr. 36. gr. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Barnaverndarnefnd er jafnan heimilt að úrskurða, að barn, sem er í fóstri, skuli vera kyrrt hjá fósturforeldrum, ef þar fer vel um það, þótt þeir, er foreldraráð hafa yfir barni, kalli eftir því.“

Hér finnst mér ekki fallega eða sanngjarnlega ákveðið. Við getum hugsað okkur foreldri eða foreldra, sem þannig stendur á fyrir, að þau geti ekki haft barn sitt eða börn hjá sér. Þessu barni eða börnum er komið fyrir hjá fósturforeldrum. Síðan breytist hagur foreldranna þannig, að þau geti og séu fær um að hafa barnið og kalli eftir því. Þá geta foreldrarnir undir þessum kringumstæðum ekki fengið barnið, ef vei fer um það hjá fósturforeldrum, — þ.e.a.s. í tilviki eins og þessu, þar sem jafnvel færi um barnið hjá fósturforeldrum sem hjá foreldrum, skal réttur fósturforeldranna meiri en foreldranna. Þetta tel ég óréttmætt og legg þess vegna til, að þessu sé breytt, og ég legg til, að orðalagið á þessari síðustu mgr. 36. gr. verði á þessa leið:

„Barnaverndarnefnd er heimilt að úrskurða, að barn, sem er í fóstri, skuli vera kyrrt hjá fósturforeldrum, þótt þeir, er foreldraráðin hafa, kalli eftir því, enda sé ástæða til að ætla, að betur fari um barnið hjá fósturforeldrum.“

Ég held, að engum sé gert rangt til með því, sem í þessari brtt. stendur. Hins vegar er hætta á því, að foreldrum í vissum tilvikum kunni að vera gert stórlega rangt til með ákvæðinu eins og það er nú í 36. gr.

Þá geri ég brtt. við 41. gr. frv., sem mikið hefur verið rædd hér, bæði á þinginu í fyrra og í ár, en þessi gr. fjallar um vinnuvernd barna. Ég skal ekki fara ýtarlega út í það, sem felst í brtt. minni frá því, sem er í frv. En meginefnið í brtt. minni er, að það sé gengið lengra í þá átt að takmarka barnavinnuna. Að sumu leyti er um svipuð ákvæði að ræða, en að öðru leyti er í brtt. minni gengið lengra í að ákveða, hve lengi börn megi vinna og hvað börn megi vinna. Ég vil sérstaklega leggja áherzlu á eða vekja athygli á, að ég segi í brtt. minni: „Eigi má ráða barn yngra en 15 ára til vinnu í frystihúsum eða öðrum verksmiðjum né til upp- og útskipunarvinnu eða byggingarvinnu, enda hafi það lokið fullnaðarprófi í barnafræðslu eða burtfararprófi.“

Ég legg hér með vilja að jöfnu frystihús og verksmiðjur. Ég tel raunar frystihúsin vera verksmiðjur, og því orða ég það á þá leið, að börn yngri en 15 ára megi ekki vinna í frystihúsum né öðrum verksmiðjum. Ég held, að enginn muni í sjálfu sér telja þetta ósanngjarnt, þegar um vernd barna er að ræða. Ég held, að enginn geti talið það ósanngjarnt, svo framarlega sem hann er hlutlægur eða óhlutdrægur í dómi sínum. Það kann að vera, að frystihúsaeigendur eða aðrir atvinnurekendur mótmæli ákvæði sem þessu, vegna þess að þá vantar vinnukraft, og þá þykir þeim betra að hafa vinnukraft barna en engan. En eins og ég tók fram, að ég hygg í gær við 2. umr. málsins, er það óverjandi að láta atvinnusjónarmið ráða miklu, þegar um vinnuvernd barna er að ræða. Þá er það og fram tekið í brtt. minni, hver skuli vera hámarksvinnutími barna. Alger hámarksvinnutími barna undir 14 ára aldri er 5 stundir á dag og 5 daga vinnuvika. Hámarksvinnutími barna 14—16 ára skal skv. till. vera 6 stundir og vinnuvikan 5 dagar. Hér held ég, að sé ekki tekið djúpt í árinni eða krafizt mikils, en ég tel nauðsynlegt, að löggjafinn ákveði atriði eins og þetta.

Í frv., eins og það er nú, er ráðh. heimilað að setja reglugerð. Honum er heimilað að setja reglugerðir, er taki yfir landið í heild eða einstök umdæmi, þar sem nánar verður kveðið á um aldur barna í vinnu í tiltekinni starfsgrein, hvíld, aðbúnað, orlof og önnur vinnuskilyrði barna og ungmenna í tilteknum starfsgreinum. Einnig er heimilt að setja ákvæði í reglugerð um bann við næturvinnu o.s.frv. Þetta hefur staðið í lögum í 30 ár og aldrei komizt til framkvæmda. Ráðh. hefur haft heimild til að setja reglugerð um þessi efni í 30 ár, en sú heimild hefur ekki verið notuð. Það hefur ekki verið hirt um að nota hana, ég vil segja með þeim afleiðingum, sem nú er komið í ljós, hreinni vinnuþrælkun barna á Íslandi. Þess vegna legg ég til, að ákvæði um þessar reglugerðir verði ekki heimildarákvæði, heldur skylduákvæði. Ég vil orða það þannig: „Ráðh. skal setja reglugerðir, er taka yfir landið í heild“ o.s.frv. og „þá skal einnig setja ákvæði í reglugerð um bann við næturvinnu og helgidagavinnu barna“ o.s.frv.

Ég held, að ég þurfi ekki að fjölyrða frekar um brtt. mína við þessa gr., 41. gr. Og þá kem ég að síðasta efnisatriðinu í brtt. mínum, en það snertir 56. gr. 56. gr. frv. hefst á þessum málsl., með leyfi hæstv. forseta: „Foreldrar eða aðrir forsjármenn barns, svo og aðrir þeir, sem hagsmuna eiga að gæta vegna ráðstafana barnaverndarnefndar, geta borið mál undir barnaverndarráð til fullnaðarúrskurðar.“ Hér er fram tekið, að ef foreldrar eða umráðamenn barna una ekki ráðstöfunum nefndanna, geti þeir skotið málinu til barnaverndarráðs og úrskurður þess skuli vera fullnaðarúrskurður. Þetta get ég ekki sætt mig við. Ég tel, að ef aðili leitar úrskurðar barnaverndarráðs um jafnviðkvæmt mál og hér er venjulega um að ræða, þurfi viðkomandi ekki að sætta sig við úrskurð barnaverndarráðs, ef honum líkar hann ekki, og eigi hann þess þá kost að skjóta úrskurðinum til æðra dómstóls. Þess vegna legg ég til, að gerðar séu smábreytingar tvær á þessari 56. gr., þannig, að í stað orðsins „fullnaðarúrskurðar“

komi „úrskurðar“ og við gr. þessa bætist ný mgr., svo hljóðandi: „Úrskurði barnaverndarráðs má áfrýja til dómstóla.“ Ég tel þetta vera rétt, ekki aðeins vegna þeirra aðila, sem þurfa að leita úrskurða barnaverndarráðs um viðkvæm efni, heldur einnig vegna barnaverndarráðs sjálfs. Það er of mikil ábyrgð á það lögð að mínum dómi með því ákvæði, sem felst í þessari 56. gr., að úrskurður þess í stórum og viðkvæmum málum skuli vera fullnaðarúrskurður. Mér finnst ótvírætt, að aðilar eigi undir þessum kringumstæðum að eiga þess kost að skjóta málinu til fullnaðarúrskurðar dómstólanna.

Þetta er, að ég hygg, í fáum orðum sagt meginefni brtt. minna á þskj. 636. Till. eru að vísu 13 talsins, en ef þær eru teknar samkv. efni, eru þær 5. Ég vænti þess, að hv. þdm. athugi þessar till. og greiði ekki um þær atkv. að óathuguðu máli.