29.04.1966
Efri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

171. mál, vernd barna og ungmenna

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. síðasta ræðumanni hans orð. Þau sýna það ljóslega, að hann er maður, sem vill lita sanngjarnlega á málin, hvaðan sem þau berast. Ég get einnig verið ánægður með ræðu hv. frsm. menntmn. Það kom fram í orðum þm., að það ber ekki mikið á milli um skoðanir okkar í raun og veru um þau atriði, sem mínar brtt. fjalla um. Hv. frsm. tók fram, að sérfræðingar þeir, sem undirbjuggu frv,. í fyrra, hafi að vísu fært að því ýmis rök, að réttara væri, að þetta mál félli undir félmrn. en menntmrn., hins vegar hefði þessi n. ekki beinlínis lagt það til í sínu frv. Þetta er hárrétt. En þegar við leitum að skýringu á því, hvers vegna þeir leggja ekki til í frv. það, sem þeir telja málefnalega rétt, hlýtur skýringin eingöngu að vera sú, að þessir ágætu sérfræðingar eru skipaðir af hæstv. menntmrh. til þessara starfa. Þeim hefur fundizt það smekkleysi, jafnvel ódrengskapur gagnvart hæstv. ráðh. að vilja taka þessi mál út úr hans rn. og leggja undir annað. Þetta er mannlegt og skiljanlegt og að sumu leyti drengilegt. Öðru máli gegnir, þegar rætt er um þetta hér á Alþingi. Alþingi þarf ekki að taka slík sjónarmið með í reikninginn, því að það er Alþingi, sem er húsbóndi ráðherranna og rn. Þess vegna var það mjög eðlilegt, að hv. alþm. hefðu í þessu efni skilið hálfkveðna vísu, tekið röksemdirnar og breytt frv. í samræmi við þær.

Hv. frsm. menntmn. virtist mér mjög sammála um, að ýmsir gallar væru á þeirri tilhögun að skipa barnaverndarnefndir, eins og nú er gert, til þess að fara með þessi mál, og þar sem því yrði við komið, væri mjög til athugunar að dómi þm. að taka upp aðra tilhögun, eins og þá, að sérfróðir menn fjölluðu eingöngu um málin. Aðalgallinn í augum þessa hv. þm. virtist sá að telja ekki heppilegt, að embættismaður hefði yfirstjórn þess starfs. Í því sambandi vil ég minna á, að það yrði aldrei embættismaður í þeim skilningi, sem hefði yfirstjórn þessa máls, því að þessi deild í Heilsuverndarstöðinni lyti eftir sem áður yfirstjórn barnaverndarráðs, svo að hér á ekki að vera mikil hætta á ferðum. Auk þess hygg ég, að fólk almennt treysti miklu betur slíkri stofnun fyrir sínum einkamálum og úrlausn sinna vandamála en hinum og þessum borgurum, sem til eru tíndir á fjögurra ára fresti, til þess að vasast í þessum viðkvæmu málum.

Ég held ekki, að hv. frsm. hafi rakið efni eða talað um aðrar af mínum brtt. En ég segi enn, að ég get vel við unað ræðu hv. frsm. og þau sjónarmið, sem þar koma fram og falla að miklu leyti saman við mínar skoðanir. Það er rétt, að málið má ekki tefja til lengdar úr þessu, þar sem nú er mjög komið að þinglokum, en þó hygg ég, að vel mætti gera breyt. og koma frv. samt í gegn, ef um það væri ákveðinn vilji.