02.04.1966
Neðri deild: 65. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég mun fylgja úr hlaði frv. því til l., sem hér liggur fyrir um lagagildi samnings milli ríkisstj. Íslands og Swiss Aluminium, um álbræðslu við Straumsvik, en þessi samningur var, eins og kunnugt er, undirritaður 28. marz s.l. af minni hálfu fyrir hönd ríkisstj. og af forstjórum hins svissneska fyrirtækis og með fyrirvara um staðfestingu Alþ. á samningnum. Þessi samningur fylgir frv. á íslenzku og ensku, en honum fylgja auk þess margir fylgisamningar, sem eru í belnum tengslum við hann. Er þar fyrst að nefna raforkusamning, sem ætlað er, að gerður verði milli Landsvirkjunar annars vegar og ÍSALs, þ.e. Íslenzka álfélagsins h.f., hafnar- og lóðarsamningur, sem gert er ráð fyrir, að gerður verði á milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og ÍSALs, aðstoðarsamningar á milli ÍSALs og Alusuisse og samningur um framkvæmdatryggingu milli ríkisstj. og Alusuisse, og auk þess fylgir í skjölunum stofnskrá og samþykktir Íslenzka álfélagsins h.f., sem kallað er í fskj. ÍSAL. Það er ekki ætlazt til, að þessir samningar, sem ég nú hef nefnt, öðlist lagagildi, og eru þeir aðeins í fskj. á íslenzku. Þm. hafa hins vegar fengið, að ég hygg, afhenta samninga á ensku máli, ef þeir vildu bera saman textana.

Menn hafa eflaust veitt því athygli, að ég og fleiri höfum notað í seinni tíð orðið ál fyrir alúminíum, og er nánar gerð grein fyrir því í aths. lagafrv. En 6. apríl 1965 barst stóriðjunefnd bréf frá íslenzkri málnefnd, Háskóla Íslands, þar sem segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Íslenzk málnefnd hefur á fundi sínum í dag ákveðið að leggja til við stóriðjunefnd, að í stað orðsins alúminíum eða alúmín, sem hvorugt fer vel í íslenzku máli, verði tekið upp orðið ál. Helztu rök n. fyrir till. eru þessi: 1) Ál minnir á orðið stál, sem einnig er efnisheiti, mikið notað í iðnaði. 2) Orðið fer vel í samsetningum, sbr. t.d. álgerð, áliðja, álverk, álverksmiðja. Engin hætta er á samblöndun við orð, samsett af áll, því að þau eru mynduð með eignarfalli, t.d. álshöfuð, álaveiðar. 3) Orðið er íslenzkulegt. 4) Sums staðar er orðin venja að stytta orð, sem mikið þarf að nota í samsetningum, t.d. í sænsku el fyrir elektricität.

Ef þessi till. þykir of róttæk“, segir n., „má benda á, að alúm færi betur í íslenzku en alúminíum og alúmín.“

Ríkisstj. féllst svo á fyrir sitt leyti að fara að till. n., og því er orðið „ál“ notað í öllum málsskjölunum fyrir „alúminíum“.

Ég skal nú víkja að aðalsamningi þessa máls. Hann er í sjö köflum. Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja einstakar greinar hans, en læt nægja að víkja að ýmsum meiri háttar atriðum.

Aðalsamningurinn, sem ráðgert er eða farið er fram á að löggiltur verði, felur í sér meginatriðin varðandi réttindi og skyldur aðila, sem eru ríkisstj. og Alusuisse, en tekur jafnframt til aðila fylgisamninganna, svo sem Landsvirkjunar, Hafnarfjarðar og ÍSALs.

Í II. kafla þessa samnings eru almenn fyrirheit og ábyrgðir af hálfu ríkisstj. og hins svissneska fyrirtækis. Ríkisstj. ábyrgist skuldbindingar Landsvirkjunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar samkv. aðalsamningi, rafmagnssamningi og hafnar- og lóðarsamningi. Á hinn bóginn ábyrgist Alusuisse skuldbindingar ÍSALs um byggingu á álbræðslu og annað í því sambandi. Þessi gagnkvæmu fyrirhelt í II. kafla hafa sína þýðingu í deilum, sem upp kunna að rísa, eins og fram kemur í 46. gr. En þar er að því vikið, að ef rísa upp deilur milli þessara aðila og þeir fá ekki jafnað þessar deilur, geta ríkisstj. annars vegar og Alusuisse hins vegar samið um að visa deilunni til íslenzkra dómstóla eða íslenzks gerðardóms til endanlegrar ákvörðunar, og náist ekki samkomulag, getur ríkisstj. eða Alusuisse, eftir því sem við á, vísað slíkri deilu til alþjóðlegs gerðardóms samkv. ákvörðun 46. gr. Í þessu felst, að ríkisstj. annars vegar og Alusuisse hins vegar koma fram í deilum milli þessara aðila, sem ég hef nefnt, enda hafa þessir tveir aðilar tekið á sig ábyrgðir og skuldbindingar fyrir þá, eins og II. kafli samningsins gerir ráð fyrir. Að gerðardómnum sjálfum skal ég koma síðar.

III. kafli aðalsamningsins fjallar um byggingu mannvirkja og skyld efni, þ.e. byggingu Búrfellsvirkjunar og varavirkja, skuldbindingu um að láta í té rafmagn til álbræðslunnar og skuldbindingu um greiðslu fyrir rafmagn og um byggingu hafnarmannvirkja. Þar segir, að Landsvirkjunin skuli byggja og setja upp Búrfellsvirkjun og byggja eða sjá á annan hátt fyrir varavirkjun, þannig að Landsvirkjun ásamt hinu samtengda kerfi sínu geti haft tiltækt samningsbundið rafmagn með því orkumagni og afli og á þeim tímum, sem krafizt er í samningi þessum og rafmagnssamningnum. Svo er gert ráð fyrir því, að Landsvirkjun skuli hafa samningsbundið rafmagn tiltækt fyrir bræðsluna á ákveðnum tímum, sem nánar er vikið að. Það er á þremur tímabilum, sem auðkennd eru AR I, AR II og AR III og skammstafast fyrir: afhendingardagur rafmagns fyrsti, afhendingardagur rafmagns annar og afhendingardagur rafmagns þriðji. Það er gert ráð fyrir því að svo stöddu, að 1. afhendingardagur rafmagns muni verða 1. júní 1969, en þá er gert ráð fyrir því, að bræðslan sé reiðubúin til þess að taka til starfa og Búrfellsvirkjun reiðubúin til þess að afhenda henni rafmagn. Í þessu er þó nokkurt hlaup til eða frá, sem síðar kann að verða ákveðið, og kynni þá afhendingardagur rafmagns nr. í að frestast nokkuð, eins og nánar er vikið að í þessari sömu gr., en um það þarf að hafa gefið tilkynningar áður með tilsettum fyrirvara.

Skuldbinding ÍSALs er svo að kaupa og greiða fyrir rafmagn frá Landsvirkjun, og ÍSAL á að greiða fyrir hið tilskilda lágmarksmagn, sem er nánar ákveðið í raforkusamningnum, frá afhendingardögum I, II og III, hvort sem það er notað eða ekki, allt eftir því, sem nánar er ákveðið í og með skilmálum og skilyrðum samnings þessa og rafmagnssamningnum. Þessar greiðslur eiga að fara fram í dollurum. En það er verulega mikils virði sú skuldbinding, sem ÍSAL tekur þarna á sig um stöðuga greiðslu rafmagns allan samningstímann í erlendri mynt.

Það er gert ráð fyrir, að Hafnarfjörður byggi og reki höfnina í Straumsvík og láti ÍSAL í té lóðarréttindi, en ÍSAL greiði höfnina á 25 árum með 6 1/2% ársvöxtum og jöfnum greiðslum vaxta og afborgana. Eftir þann tíma, 25 ára tímabilið, greiðir ÍSAL vörugjald af áli frá bræðslunni, sem gert er ráð fyrir að miðist við 0.1% af heimsmarkaðsverði áls á þeim tíma.

IV. kafli aðalsamningsins fjallar um rekstur bræðslunnar, framleiðsluafköst hennar, takmarkanir á rekstri, um ábyrgð ÍSALs af tjóni, sem af gastegundum og reyk frá bræðslunni kynni að hljótast, og reglur um öryggi, heilbrigði og hreinlæti. Það er gert ráð fyrir því, að bræðslan afkasti á fyrsta áfanga 30 þús. smál. af áli, á öðrum áfanga 45 þús. smál. og þegar hún hefur náð fullum afköstum 60 þús. smál. Rekstur álfélagsins ÍSALs er svo takmarkaður við álframleiðslu eingöngu, og nýtur það ekki neinna annarra atvinnuréttinda samkv. þessum samningi hér á landi.

Í 12. gr. IV. kafla er mikilvægt ákvæði um mengun, sem svo er kölluð. En þar eru samningsatriði um það, hvernig koma eigi fyrir ráðstöfunum til þess að forðast hættulegar gastegundir frá verksmiðjunni og hverjir bera ábyrgð á þeim. Um þetta hefur ríkt töluverður misskilningur hjá mönnum. Jafnvel hafa menn borið sér í munn, að vel gæti svo farið, að allur Reykjanesskaginn yrði eitraður af gastegundum frá verksmiðjunni. En um þetta segir, með leyfi hæstv. forseta, svo í 12. gr.:

„ÍSAL skal bera fulla ábyrgð á hverju því tjóni, sem hlýzt af gastegundum og reyk frá bræðslunni utan við svæði með ummáli reiknuðu frá miðju bræðslukerasalarins í fyrsta áfanga bræðslunnar, eins og sýnt er á uppdrætti II með bræðsluáætluninni (fskj. með hafnarog lóðasamningnum). ÍSAL tekst á hendur fulla ábyrgð á hverju því tjóni, sem hlýzt af gastegundum og reyk frá bræðslunni innan slíks svæðis, á eignum eða öðrum hagsmunum manna, sem nú búa þar eða eiga þar eignir, svo og gagnvart þeim, sem siðar kunna að öðlast framsal frá þeim, að svo miklu leyti sem um er að ræða núverandi afnot þess eða afnot í framtíðinni, önnur en búskap og garðyrkju. Aðrir þeir, sem héðan í frá taka sér bólfestu innan ofannefnds svæðis eða eignast þar eignir, taka með því á sig áhættu á hvers konar tjóni, að því er varðar búskap og garðyrkju, er hlýzt af gastegundum eða reyk frá bræðslunni, og ÍSAL telst ekki bera ábyrgð á því.“

Það eru þarna tvær tegundir ábyrgðar, full ábyrgð gagnvart þeim, sem búa innan þessa tiltekna svæðis, sem er 3 km á tvo vegu og 2 á þriðja veginn, en ef menn flytja inn á svæðið til þess að stunda garðyrkju eða búskap, eftir að verksmiðjan er byrjuð, taka þeir ábyrgð á þeim skaða, sem kann að verða á slíkum atvinnurekstri. Það hefur verið ekki alveg óalgengt í Evrópu, að menn hafa flutt í námunda við slíkar verksmiðjur eða fast að þeim, eftir að þær hafa verið byggðar, og komið svo fram með sínar skaðabótakröfur, þegar það hefur komið í ljós, að tiltekinn atvinnurekstur, eins og búskapur og garðyrkja, eru viðkvæm fyrir tilteknum gastegundum.

Í sömu gr. segir hins vegar, að ÍSAL muni gera allar eðlilegar ráðstafanir til þess að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði. Ef það kæmi í ljós, að hér væri einhver hætta á ferðinni, er þessi skuldbinding ÍSALs alveg ótvíræð að sporna við henni í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði. Það er nokkuð misjöfn aðstaða, þar sem slíkar verksmiðjur eru reistar. Í dölum eða dalverpi, þar sem skjólgott er, þykir óhjákvæmilegt að gera þegar í upphafi ráðstafanir til þess að hafa hreinsunartæki. En hins vegar gegnir nokkuð öðru máli við aðstæður eins og eru við Straumsvík og ekki af sérfræðingum talin veruleg hætta á því, að þar þurfi að grípa til hreinsunartækja.

Iðnmrn. hefur haft samband við Rannsóknastofnun iðnaðarins og hún beitt sér fyrir athugun á málinu, og niðurstöður hennar eru birtar í fskj. með frv. Þar segir í niðurstöðunum, að það sé ekki af þessu sérstök hætta og ályktun rannsóknastofnunarinnar að þessu leyti er miðuð við fyrsta þrep byggingarframkvæmdanna eða 30 þús. tonna bræðslu, vegna þess að þar er talið, að óvissan sé mest, en við rekstur þessa fyrsta þreps er aðstaða til þess að rannsaka nákvæmlega, hvar hin raunverulegu hættumörk liggja, og gera þær ráðstafanir, er reynslan sýnir, að nauðsynlegt sé. En í 13. gr. segir í framhaldi af því, sem ég hef nú til vitnað:

„Að tilskildum ákvæðum 12. gr. skal ÍSAL byggja, útbúa og reka bræðsluna og halda henni við í samræmi við núgildandi og síðari lög og reglur á Íslandi varðandi öryggi í atvinnurekstri, heilbrigði og hreinlæti og skal í þessum efnum vera háð eftirliti opinberra stofnana, sem ábyrgð bera á framkvæmd á slíkum reglum.“

Ég tel þess vegna, þegar menn kynna sér þessi atriði, að þau skeri alveg úr um það, að hér sé ekki tekin nein áhætta og öruggar ákvarðanir um það, hver beri ábyrgðina og hvernig skuli úr bæta.

Um tolla, aðflutnings- og útflutningsgjöld hefur jafnan verið ráðgert, að ÍSAL væri undanþegið slíkum gjöldum á efnivörum til byggingar bræðslunnar og einnig af útflutningi á áli. Er þetta í samræmi við sams konar rekstur, þar sem til þekkist. Um þetta fjallar 14. gr., sérstaklega að því er tekur til innflutnings á efnivörum til byggingarinnar og til rekstrar. Það hafa ýmsir haft á orði, að hér nyti fyrirtækið á Íslandi mikilla forréttinda, t.d. fram yfir hliðstæð fyrirtæki í Noregi, en eftir því sem ég hef fengið upplýst og liggur fyrir í samningagerð, þar sem Alusuisse er að meiri hluta eigandi að hlutabréfum í álbræðslu, þar eru og hafa ekki verið neinir tollar á þessum efnivörum til innflutnings við byggingu álbræðslanna og munu yfirleitt ekki vera annars staðar, og það var þess vegna í öndverðu, að stóriðjunefnd gerði grein fyrir því í áliti sínu og till. til ríkisstj. og Alþ., að það mundi verða vonlítið að ætlast til, að slíkt fyrirtæki bæri slíka tolla hér á landi, ef á annað borð væri áhugi á að fá þau til rekstrar hingað til Íslands. Það er hins vegar misskilningur, að fyrirtækið sé undanþegið öllum tollum, og kemur það fram í þessari sömu gr. Í 14.02 segir, að benzín og neyzluvörur til persónulegra nota, matvörur, skrifstofuvörur, fólksbifreiðar og önnur ökutæki, sem eru ekki notuð beint í byggingu og rekstri bræðslunnar, skuli ekki undanþegin aðflutningsgjöldum og efni, vistir, vörur og búnaður af sérhverri tegund, sem flutt er inn tollfrjálst til notkunar á bræðslulóðinni, en síðan er ráðstafað annars staðar á Íslandi, sé háð aðflutningsgjöldum eins og þau eru á þeim tíma þegar þeim er ráðstafað, miðað við sanngjarnt markaðsverð þeirra þá. Það er gert ráð fyrir fullkominni tollskoðun, að tollfrjáls inn- og útflutningur samkv. þessari gr. sé skoðaður og tollafgreiddur á inn- eða útflutningstað samkv. viðeigandi reglum, er almennt gilda á Íslandi og á ÍSAL að greiða hæfilega tollafgreiðslu- og skoðunargjöld miðað við tilkostnað. Ég tel þess vegna að það hafi verið gert miklu meira úr þessu tollfrelsi heldur en efni standa til, alveg sérstaklega ef hafður er í huga samanburður við hliðstæð fyrirtæki í nágrannalöndum sem við þekkjum. Ég vitnaði alveg sérstaklega til Noregs, og síðan sú vitneskja lá fyrir um tolla á þessum vörum þar, hafa einnig á margs konar öðrum iðnaðarvarningi verið afnumdir tollar í sívaxandi mæli eftir þátttöku Noregs í Fríverzlunarbandalaginu og ráðgert í samningunum á sínum tíma, sem gerðir voru við byggingu verksmiðjunnar í Húsnesi, að ef Norðmenn gengju í Efnahagsbandalagið, þá leiddi slíkt tollfrelsi af sjálfu sér, ef það væri ekki þegar fyrir hendi.

Ég skal þá víkja að ákvæðinu um starfslið fyrirtækisins. Um það hefur mönnum orðið nokkuð tíðrætt, bæði frá því sjónarmiði, að tekinn væri mannafli frá öðrum atvinnugreinum, og að öðru leyti, en um þetta eru mjög skýr ákvæði í 17. gr. Þau eru í aðalatriðum, að við byggingu bræðslunnar skuli ÍSAL og verktakar þess nota íslenzkt verkafólk og annað starfslið, að svo miklu leyti sem það er fyrir hendi. Þegar íslenzkt verkafólk og annað starfslið er ekki fyrir hendi til þeirra starfa, er ÍSAL og verktökum þess heimilt að nota erlent verkafólk og starfslíð eftir þörfum í þessu skyni í samræmi við lög nr. 39 frá 1951, eins og þeim er nú beitt í framkvæmd, eins og þar stendur.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að Alusuisse skuli þjálfa og ÍSAL ráða til sín íslenzkt verkafólk, faglært og ófaglært, svo og verkfræðinga, tæknifræðinga og aðra sérfræðinga af íslenzku þjóðerni við rekstur bræðslunnar. Með hliðsjón af því, að álframleiðsla er í eðli sínu tæknileg, sérhæfð og óslitin, er ÍSAL heimilt að ráða til sín sérþjálfað og reynt erlent starfslið, allt að 50 menn, til rekstrar bræðslunnar, eins lengi og að svo miklu leyti sem þess gerist þörf að dómi ÍSALs. Meðan verið er að setja bræðsluna í gang og á þeim tímabilum, er nægilega margir reyndir íslenzkir starfsmenn eru ekki fyrir hendi, er ÍSAL enn fremur heimilt að ráða til sín það sérþjálfaða og reynda starfslið, sem þörf er á við rekstur bræðslunnar, í samræmi við lög nr. 39 1951, eins og þeim er nú beitt í framkvæmd.

Hér er í raun og veru algerlega samið á grundvelli núgildandi íslenzkra laga, en í lögum nr. 39 frá 1951, um rétt erlendra manna til að starfa hér á landi, segir m.a. í 3. gr., að félmrh. veitir atvinnuleyfi skv. lögum þessum, að fengnum tillögum verkalýðsfélaga á staðnum í hlutaðeigandi starfsgrein, og skulu þau veitt vinnuveitanda, ef sérstakar ástæður þykja mæla með því, svo sem ef um erlenda sérfræðinga er að ræða eða aðra kunnáttumenn, sem ekki verða fengnir innanlands, eða ef atvinnuvegi landsins skortir vinnuafl, sem ekki er fáanlegt innanlands.

Það er í alveg ákveðnum tilgangi, sem sett er þarna í samninginn af okkar hálfu, „eins og þessum lögum er nú beitt í framkvæmd“, vegna þess að þeim hefur verið beitt þannig í framkvæmdinni, að farið hefur verið að tillögum verkalýðsfélaganna. Viðsemjendum hefur verið gerð grein fyrir því, og ríkir ekki um það neinn misskilningur. Hitt geta menn svo deilt um, hvort ástæða sé til á hverjum tíma að veita erlendu verkafólki aðstöðu til þess að vinna hér á landi. En ég hygg, að það komi einmitt fyrst og fremst til greina í svipuðum tilfellum og þessum, þegar um tímabundnar framkvæmdir er að ræða, en af skýrslum um vinnumarkaðinn frá Efnahagsstofnuninni, sem fylgja þessu þskj., má sjá það, að vinnuaflsþörfin er fyrst og fremst á tveimur árum, 1967—68, þegar mest mannaflaþörf fer saman við mesta mannaflaþörf Búrfellsvirkjunar. Það kemur auðvitað alveg eins til álita, ef menn kjósa heldur á þeim tíma að fá erlent vinnuafl til Búrfellsvirkjunar. Á þeim stað þarf að setja upp mannvirki eða húsnæði til þess að búa í, og að ýmsu leyti væri það að mínum dómi hentugra að leggja meiri áherzlu á það að fá þangað erlent vinnuafl til þess að forðast, umfram ýmsar aðrar ráðstafanir, sem gera þarf, að aðra atvinnuvegi skorti vinnuafl vegna þessara framkvæmda.

Um aðstoðarsamninga Alusuisse við ÍSAL eru ákvæði í aðalsamningi og í fylgisamningum C1—C3. Meginákvæðin eru um þóknun fyrir aðstoð Alusuisse við hönnun og verkfræðistörf við byggingu álbræðslunnar, 10% af raunverulegum byggingarkostnaði. Slíkur verkfræðikostnaður við byggingu áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi reyndist 11%, og læt ég þess getið í þessu sambandi. Alusuisse lætur ÍSAL í té tæknilega þjónustu og þekkingu við rekstur álbræðslunnar fyrir 2.2% af brúttótekjum og fær 1 1/2% umboðslaun fyrir sölu framleiðslunnar.

Við höfum reynt að gera okkur grein fyrir, hversu sanngjörn þessi ákvæði væru, eftir því sem venja gerist erlendis, og það má segja, að það sé nokkuð í samræmi við þær upplýsingar, sem við höfum fengið þar að lútandi, Í sambandi við þóknun þá, sem ÍSAL ber að greiða Alusuisse fyrir þá þjónustu, sem um er samið í aðstoðarsamningunum, leiðir þó af samanburði við greiðslu þá, sem gert var ráð fyrir að Alusuisse fengi frá norska dótturfyrirtækinu fyrir sams konar störf, að kjör þau, sem ÍSAL semur um, eru heldur hagstæðari. En þetta hefur auðvitað þýðingu í sambandi við skattgreiðslur og afkomu fyrirtækisins. Þó munar það ekki miklu. Öllu mikilvægara er, að í samningum ÍSALs eru strangari ákvæði um skyldur Alusuisse til þess að útvega hráefni til bræðslunnar og selja framleiðslu hennar með hagstæðum kjörum og heimildir fyrir ríkisstj. til þess að láta endurskoða reikningsuppgjör fyrir slík viðskipti. Auk þess er rétt að leggja áherzlu á mikilvægi þeirra ákvæða í samningunum á milli Alusuisse og dótturfyrirtækisins, að það er ekki heimilt að breyta þeim samningum án samþykkis ríkisstj.

V. kafli aðalsamningsins fjallar um dótturfyrirtæki Alusuisse hér, en stofnskrá þess og lög eru birt sem fskj. E með málsskjölunum, og læt ég nægja að vísa til þess.

Ég skal þá víkja að VI. kafla aðalsamningsins, sem fjallar um skattamál álbræðslunnar, sem töluvert hefur verið um rætt og að mínum dómi stundum af misskilningi, þegar vitnað er í, að hún eigi aðeins að greiða eitt framleiðslugjald og njóti skattfríðinda af þeim sökum. Hér kemur ýmislegt til álita, sem menn verða að gera sér grein fyrir. Þetta eina framleiðslugjald hefur verið við það miðað, að skattlagning álbræðslunnar verði ekki lægri en hún mundi vera skv. hæstu skattaálagningarreglum, er í gildi eru hér á landi í dag. Skv. þeim mundi skattlagning slíks fyrirtækis nema nálægt 1/3 af ágóða, áður en frá er dreginn útgreiddur arður og varasjóðstillög. Við þetta er skattgjaldið miðað, og má segja, að það hafi verið við þetta ákvarðað frá 20 dollurum og upp í 35 dollara, eftir að 15 ára afskriftatími er liðinn. Gerð var hins vegar tilslökun á framleiðslugjaldinu niður í 12 1/2 dollar fyrstu 6 árin, meðan bræðslan hefur ekki náð fullum afköstum, en þá verður raforkugjaldið til Búrfellsvirkjunar, sem þá er á byrjunarstigi, 3 mill í staðinn fyrir 2 1/2 mill, sem það gjald ákvarðast síðar af.

Það eru veigamikil atriði um endurskoðun á þessu framleiðslugjaldi. Það er augljóst mál, að ef heimsmarkaðsverð á áli hækkar, þá hækkar þetta gjald mjög mikið. Það getur einnig lækkað, það er alveg rétt, ef heimsmarkaðsverð á áli lækkaði eitthvað verulega frá því, sem það nú er. En það má þá segja að vísu, að enda þótt farið hefði verið að okkar venjulegu skattareglum, þá mundu skattgreiðslur að sjálfsögðu ekki hafa orðið miklar, ef verðið á framleiðslunni lækkaði verulega frá því, sem gert hefur verið ráð fyrir, og hagur verksmiðjunnar væri þar af leiðandi slæmur. En ef heimsmarkaðsverð á áli hækkar aðeins um 25%, þá mun framleiðslugjaldið hækka úr 20 dollurum í 45 dollara eða um 125%, og þetta er mjög mikil stighækkandi hækkun, og þess vegna var fallizt á að setja þann varnagla inn í, að ef slík hækkun ætti sér stað, þá gæti fyrirtækið fengið lækkun, ef gjaldið færi yfir 50% af nettótekjum fyrirtækisins, en það er auðvitað miklu hærra en okkar skattalöggjöf gerir ráð fyrir í dag, eins og ég sagði áðan.

Það eru mörg rök, sem að því hníga að hafa eitt framleiðslugjald eða slíkt skattafyrirkomulag. Með því hefur verið hægt að búa nokkuð örugglega um skattgreiðslur fyrirtækisins, og á það var lögð mikil áherzla í samningagerðinni, að um það ríkti sem minnst óvissa. Miðað við, að verðið verði óbreytt á áli, munu skatttekjur af bræðslunni fyrstu 25 árin nema rúmum 1400 millj. kr. í erlendum gjaldeyri, og miðað við þann atvinnurekstur, sem við nú höfum hér á landi, verður skattgjald miklu hærra á hvern einstakling, sem þar vinnur, heldur en annars staðar þekkist í okkar atvinnurekstri.

Því er svo ekki að leyna, að önnur ástæða fyrir þessu formi á skattgreiðslu er sú, að það var talið af sérfræðingum, bæði erlendum og íslenzkum, sem við höfðum samráð við, að það væri mjög erfitt að fylgjast með skattframtölum slíkra fyrirtækja, sem væru raunverulega hlekkur í langri framleiðslukeðju, sem öll er í höndum sama aðilans. Og ég get upplýst það, að bæði Norðmenn, sem við höfðum samband við, og eins ensk fyrirtæki töldu, að það væri mikið hagræði og meira öryggi fyrir okkur að hafa skattgjaldið í því formi, sem hér er um að ræða. Sjálfur hef ég heyrt gagnrýnda mjög samningana í sambandi við álbræðsluna í Húsnesi vegna þess, hve Alusuisse hefði þar óbundnar hendur um verð á hráefni til verksmiðjunnar og um söluverð á framleiðslu verksmiðjunnar.

Loks er svo það sjónarmið, að það var talið æskilegt af ríkisstj. hálfu að verja skatttekjum álbræðslunnar með öðrum hætti en skatttekjum fyrirtækja yfirleitt, og kemur það fram í frv. um atvinnujöfnunarsjóð, sem nú hefur verið lagt fyrir þingið, þar sem gert er ráð fyrir, að meginhluti af skattgjaldinu renni í jöfnunarsjóð til þess að stuðla að meira jafnvægi en ella væri um að ræða í byggð landsins, eins og nánar er tiltekið þar, og gerist ekki þörf að ræða það frekar nú.

Það er hins vegar misskilningur, að þetta sé eina skattgjaldið eða skatturinn, sem þessi álbræðsla greiðir, því að hún mun greiða margvisleg önnur gjöld, svo sem hvers konar félagsgjöld, launaskatt, söluskatt af vörum og þjónustu, er hún kaupir hér á landi, margvísleg leyfisgjöld o.fl. Þetta kemur greinilega fram í þar að lútandi ákvæðum kaflans um skatta og gjaldskyldu. Framleiðslugjaldið er talið taka til eða inn í það er talið falla tekjuskattur skv. lögum nr. 90 1965, tekjuútsvar skv. lögum nr. 51 1964 og 67 1965, eignarskattur skv. lögum nr. 90 1965, eignaútsvar skv. lögum nr. 51 1964 og 67 1965, fasteignaskattur skv. lögum nr. 51 1964, aðstöðugjald skv. lögum nr. 51 1964, iðnlánasjóðsgjald skv. lögum nr. 45 1963, kirkjugarðsgjald, sem lagt er á sem álag á skatta þá, sem taldir eru hér á undan, byggingarsjóðsgjald, sem lagt er á sem álag á skatta þá, sem taldir eru einnig á undan í stafliðum þessarar greinar. En skv. 31. gr. greiðir svo, eins og ég sagði áðan, ÍSAL ýmsa skatta auk framleiðslugjaldsins, þ.e. stimpilgjöld, þungaskatt, þinglýsingargjöld, ýmis skrásetningar- og leyfisgjöld, skoðunargjöld bifreiða skv. lögum, öryggiseftirlitsgjald skv. lögum, leyfisgjöld skv. lögum af innfluttum vörum, skipulagsgjald skv. lögum af öllum byggingum, byggingarleyfisgjald til kaupstaðarins vegna bræðslunnar, tiltekið gjald, og gatnagerðargjald til kaupstaðarins, einnig tiltekið gjald.

Svo er ÍSAL skylt að greiða eftirtalin félagsleg gjöld, sem heyra til hagsbóta á sviði félagslegs öryggis og íslenzkum vinnuveitendum ber nú að greiða: lífeyrisiðgjald atvinnurekenda skv. lögum nr. 40 1963 með áorðnum breytingum, slysatryggingagjald skv. lögum nr. 40 1963, atvinnuleysistryggingasjóðsgjald skv. lögum nr. 4 1959, og ÍSAL skal skylt að greiða öll þau félagsleg gjöld, sem framvegis kunna að verða lögleidd til hagsbóta eða velferðar fyrir starfsfólk og íslenzkum atvinnuveitendum ber almennt að greiða. Það skal hlíta lögum og reglum um lögskyldar ábyrgðartryggingar, þ. á m. greiðsluskyldu iðgjalda af þeim, á bifreiðum og öðrum ökutækjum. ÍSAL skal skylt að greiða iðnaðarrannsóknargjald skv. lögum nr. 64 1965 á laun verkamanna og fagmanna, miðað við þann taxta, sem nú er tiltekinn í lögum.

Með hliðsjón af þessum ákvæðum vil ég segja það, að ég tel, að það sé vel séð fyrir greiðslu skattgjaldsins í hinu eina framleiðslugjaldi, en þar fyrir utan greiðir ÍSAL margvísleg önnur gjöld, sem þá eru greidd í íslenzkum gjaldeyri, en framleiðslugjaldið er greitt, eins og ég hef áður sagt, í dollurum.

Er ég þá kominn að lokakafla samningsins, VII. kafla, sem inniheldur ýmis almenn ákvæði, sem ég tel ekki ástæðu til að reifa sérstaklega. Hins vegar eru ýmis lögfræðileg atriði varðandi óviðráðanleg öfl, „force majeure“, og áhrif þeirra á gildi samninganna, vanefndir, rétt til riftunar o.s.frv., skaðabætur og aðrar bætur. Um það læt ég nægja að vitna til grg. aðalsamningsins, þar sem nánar er gerð grein fyrir slíkum atriðum.

Ég vil hins vegar víkja að ákvæðum þessa kafla um deilur, alþjóðlega gerð og lög þau, sem fara skal eftir. Ég tel það fjarri sanni, að það sé lítilsvirðandi fyrir okkur að hafa í samningum ákvæði um alþjóðlega gerð, ef meiri háttar deilur rísa, sérstaklega þegar höfð eru í huga ákvæði 45. gr. um lög þau, sem fara skal eftir í sambandi við slíka gerð, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samning þennan ber að skýra, túlka og framkvæma skv. ákvæðum hans, aðalsamningsins og hinna fylgiskjalanna, eftir því sem unnt er, og að öðru leyti fer um skýringu, túlkun og framkvæmd, gildi og áhrif samnings þessa að íslenzkum lögum og þeim reglum þjóðaréttar, sem við kunna að eiga, þ. á m. þeim grundvallarreglum laga, sem almennt eru viðurkenndar af siðmenntuðum þjóðum.“

Fari málið m.ö.o. í hina alþjóðlegu gerð, þá á sá gerðardómur að úrskurða að íslenzkum lögum og þeim reglum þjóðaréttar, sem við kunna að eiga, þ. á m. þeim grundvallarreglum laga, sem almennt eru viðurkenndar af siðmenntuðum þjóðum. Ég tel ekki, að við Íslendingar fyrirgerum neinum sóma okkar, þó að við segjum, að við skulum jafnhliða íslenzkum lögum fara að grundvallarreglum laga, sem almennt eru viðurkenndar af siðmenntuðum þjóðum. Ég tek það alveg skýrt fram, að mér er ekki kunnugt um neinar grundvallarreglur íslenzkra laga, sem brjóta í bága við almennar grundvallarreglur, sem viðurkenndar eru af siðmenntuðum þjóðum.

Í þessu sambandi ber einnig að hafa í huga alþjóðasamning um lausn fjárfestingardeilna milli ríkja og þegna annarra ríkja, sem nú hefur verið lagt fyrir þingið frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til þess að gerast aðili að. En það er Alþjóðabankinn, eins og kunnugt er af því þskj., sem hefur beitt sér fyrir gerð þessa alþjóðasamnings um lausn á fjárfestingardeilum milli ríkja og þegna annars ríkis. Á því ári, sem liðið er nú síðan Alþjóðabankinn lagði samninginn til undirskriftar fyrir aðildarríkin að bankanum, hafa 35 ríki undirritað hann, þ. á m. bæði Danmörk og Svíþjóð (mér er ekki alveg fullkunnugt um, hvort Noregur hefur undirritað hann) og England og Bandaríkin. Þetta tel ég bera vott um það, sem að stefnir í hinum siðmenntaða heimi með stöðugt vaxandi alþjóðlegum samskiptum. Er vissulega ekki hægt að álita annað en hin 35 ríki stefni að því að fullgilda slíkan samning með tilheyrandi gerðardómi og telji sér ekki vansæmd í slíku. Meðan þess samþykkt, sem ég hef nú vitnað til, svokölluð SID-samþykkt, er ekki komin til framkvæmda eða fullgilt af Íslandi og Sviss, eru ákvæði um sérstakan gerðardóm, sem í grundvallaratriðum byggjast hins vegar á sömu forsendu og sömu reglum um íslenzk lög, sem fara skal eftir, og legg ég megináherzlu á það.

Í 48. gr. er ákvæði um lagagildi og gildistöku samningsins. Eins og kunnugt er, þá var hann undirritaður með fyrirvara um, að Alþingi staðfesti hann sem lög, og í þessari grein koma einnig fram önnur skilyrði fyrir því, að samningurinn geti öðlazt lagagildi, jafnvel eftir að Alþingi hefur samþykkt hann, en það leiðir af eðli málsins. Þau eru, að það fari fram fullgild stofnun ÍSALs sem íslenzks félags skv. ákvæðum samningsins, undirritun rafmagnssamningsins af hálfu Landsvirkjunar og ÍSALs, undirritun hafnar- og lóðarsamningsins af hálfu kaupstaðarins og ÍSALs, undirritun aðstoðarsamninganna af hálfu ÍSALs og Alusuisse og gildistaka lánssamnings milli Alþjóðabankans og Landsvirkjunar um lánsfé til Búrfellsvirkjunar, en gert hefur verið ráð fyrir því og talin er nokkur vissa á því, að hægt sé að fá lánsfé hjá Alþjóðabankanum til Búrfellsvirkjunar, en þó er eðlilega eftir að ganga frá því máli, en fulltrúar Alþjóðabankans hafa alltaf fylgzt með samningaviðræðum á hverju stigi málsins.

Samningstímabilið er ákveðið í 49 gr., og þar er gert ráð fyrir, að samningurinn skuli gilda til 25 ára, en þá geti hvor aðili sem er óskað eftir framlengingu, fyrst til 10 ára og síðar aftur til 10 ára, þannig að samningurinn gæti gilt frá fyrsta afhendingardegi rafmagns eða þegar verksmiðjan er farin að framleiða 30 þús. tonn eða hefur byrjað sina framleiðslu í 45 ár, en 39 ár væntanlega frá því að hún hefur náð fullum afköstum.

Í 51. gr. eru ákvæði um það, að þessum samningi verði ekki breytt nema með viðbótarsamningi, sem ríkisstj. og Alusuisse gera skriflega sín á milli og Alþingi staðfestir.

Ég hef nú þrætt nokkuð efni aðalsamnings þessa, sem lagt er til með þessu frv. til l. að lögfesta. Fylgisamningunum öllum fylgja ýtarlegar skýringar, sem ég get látið nægja að vitna til, meðan ekki gefast sérstök tilefni til frekari skilgreiningar. Ekki kemst ég þó hjá því við þessa umr. að hafa nokkra hliðsjón af þeim umr., sem fram fóru um vantrauststillöguna í síðustu viku hér í þingi, og því, sem fram hefur komið um málið í gagnrýni blaða. Koma þar einkum almenn sjónarmið til álita. Mönnum hefur orðið tíðrætt um rafmagnsverðið og skattana o.s.frv. Um rafmagnsverðið er deilt og sagt, að það sé hvergi lægra í öðrum löndum. Margt kemur þar til athugunar að sjálfsögðu um aðra aðstöðu í öðrum löndum, t.d. hvort hráefni eru til staðar í viðkomandi landi eða flytja þarf þau um hálfan hnöttinn, eins og hér er gert ráð fyrir, en á s.l. ári gerðist Alusuisse aðili að stofnun félags til þess að vinna hráefni til álbræðslu úr báxítnámum í Ástralíu og gerir ráð fyrir að þurfa að flytja þau hráefni hingað til lands til álbræðslunnar.

Það kemur einnig til álita, hvaða reglur gilda um skatta og tolla í öðrum löndum, þegar samanburð á að gera. En er ekki aðalatriðið hér, að okkur hafa ekki boðizt betri kjör og að þau kjör, sem okkur standa til boða, eru okkur mjög hagstæð? Það hefur ekki verið mikil ásókn á Íslendinga frá erlendum fyrirtækjum að setja hér upp álbræðslur, og hafa þó farið fram viðræður bæði við frönsk og amerísk og reyndar fleiri álbræðslufyrirtæki.

Ég vitna í þessu sambandi alveg sérstaklega til kaflans í grg. þessa máls: Þjóðhagsleg áhrif af byggingu álbræðslu. Þar er gerð ýtarleg og rökstudd grein fyrir áhrifum álbræðslu á þróun raforkumála með því tiltekna raforkugjaldi, sem um er samið, fyrir áhrifum á gjaldeyris- og þjóðartekjur, fyrir hagstæðri skattlagningu álbræðslunnar, fyrir áhrifum til aukinnar iðnvæðingar, fyrir áhrifum álbræðslu á öflun fjármagns, og allt er þetta hagstætt. Þær tölur, sem fram eru settar, hafa ekki verið hraktar og ekkí verið vefengdar. Það er gerð ýtarleg grein fyrir vinnuaflsþörfinni og birt nákvæmt yfirlit Efnahagsstofnunarinnar um áhrif Búrfellsvirkjunar og álbræðslu á jafnvægi vinnumarkaðarins. Kemur fram, að ekki er talið um alvarlegt vandamál að ræða að leysa úr því. Nokkur atriði úr þessum skýrslum mætti nefna. Miðað við óbreytt verð munu skatttekjur af bræðslunni fyrstu 25 árin nema rúmum 1400 millj. kr. í erlendum gjaldeyri. Samtals eru tekjur af raforkusölu og skattar fyrstu 25 árin í erlendum gjaldeyri 4100 millj. kr.

Það er sagt stundum, að norskar álbræðslur greiði hærri skatta, en eins og ég sagði áðan, þá hef ég haft upplýsingar, sem staðfesta það, að svo muni ekki vera. Skattstiginn er að vísu töluvert miklu hærri. Þegar við tölum um 33 1/3%, þá mun láta nærri, að hann sé 54% í Noregi, en afskriftareglur eru þar með þeim hætti, að álbræðslurnar eru að verulegu leyti skattfrjálsar fyrstu árin, og þær álbræðslur ríkisins, sem borga hæsta skatta og hafa borgað á undanförnum árum í Noregi, hafa ekki borgað 20 dollara á framleitt tonn, heldur aðeins 18 1/2 dollar, og aðrar verksmiðjur þaðan af minna. Og ég hef það fyrir satt, að það muni vera litlir skattar, sem Húsnesverksmiðjan greiði fyrstu árin, miðað við þær reglur, sem Norðmenn hafa um afskriftir. Tekur það alveg sérstaklega til þeirra bræðslna, sem staðsettar eru í strjálbýlinu, að þær eru í raun og veru skattfrjálsar með þeim reglum, sem þar um gilda, ef þær vilja staðsetja sig þar.

Það er sagt, að Norðmenn eignist slíkar álbræðslur að líðnum samningstíma. Þetta er að mínum dómi algerlega úr lausu lofti gripið, og veit ég ekki, hvar menn hafa fundið slíkan vísdóm. Í Noregi eru ekki nokkur ákvæði neins staðar um það, að þeir skuli eignast álbræðslur, sem útlendingar hafa lagt fé í, að þeim samningstíma liðnum, sem þeir mega nota rafmagn til þess að vinna ál. Eins og ég sagði, þá veit ég ekki, hvaðan þessi vísdómur er kominn, en það kynni að vera af misskilningi, vegna þess að áður fyrr a.m.k. var það, meðan erlend fyrirtæki virkjuðu fossa og náttúruauðlindir Norðmanna, að þá voru ákvæði í slíkum samningum, að að samningstímanum liðnum skyldu slik fyrirtæki falla til ríkisins. En þetta á auðvitað ekkert skylt við álbræðslur, þar sem útlendingar eru annaðhvort að meiri eða minni hluta hluthafar í venjulegum norskum hlutafélögum, en þannig háttar þessu til í Noregi.

Það er sagt, að raforkuverðið sé hærra í Noregi. Það er rétt, að því er tekur til nýjustu samninga. En það er mjög mikið af eldri samningum í Noregi, þar sem raforkuverð er töluvert miklu lægra en hér er um samið. Það standa einnig yfir töluverðar deilur um það í Noregi, hvort rétt stefna sé hjá þeim að halda uppi því raforkuverði, sem þeir nú halda uppi, og það er vegna þess, að flestir eða allir þar eru sammála um að kappkosta að virkja vatnsaflið og það á eins skömmum tíma og hægt er, áður en kjarnorka kemur til, sem ætlað er, að á tilteknum tíma muni verða miklu ódýrari en vatnsaflið til rafmagnsframleiðslu. Menn hafa tekið það eins og einhverja furðufrétt, að rafmagnið sé lægra hér en í Noregi, eins og forstjóri Alusuisse gerði grein fyrir í blaðaviðtali. En það er þess vegna, sem verksmiðjan er reist hér, en ekki í Noregi. Og Norðmenn hafa e.t.v. misst af þessari verksmiðju vegna þessa ákvæðis. En Norðmenn gera sér ljóst, og einnig okkar sérfræðingar, að það er engin orka, ekki einu sinni kjarnorka, sem getur keppt við afskrifaðar vatnsaflsvirkjanir. Þess vegna hafa Norðmenn lagt svo mikið kapp á að reyna að ljúka virkjun fallvatna sinna á mjög skömmum tíma. Og margir þar í landi telja, að það sé rétt að fórna til þess nokkru af raforkuverðinu, sem síðar muni borga sig að hafa gert.

Annars er aðstaðan í Noregi mjög ólík því, sem hér er um að ræða. Menn hafa talað um það mál af mikilli fákunnáttu. Það hefur um langan tíma verið yfirlýst pólitík Norðmanna að laða til sín erlent fjármagn. Og það mundi mörgum hér finnast nóg um og telja hættulegt þjóðfrelsi, afsal landsréttinda o.s.frv., ef þeir þekktu minnstu vitund til þeirra aðgerða og þeirrar stefnu, sem Norðmenn hafa fylgt í þessu sambandi. Alusuisse tekur ekki á sig neinar ábyrgðir í Noregi umfram þær, sem felast í hlutafé þeirra í norskum fyrirtækjum eða hálfnorskum fyrirtækjum eða minna en hálfnorskum fyrirtækjum. Hér er allt öðru máli að gegna, eins og samningarnir vitna um. Norsku fyrirtækin með meiri hluta erlends fjármagns geta hætt að kaupa rafmagnið eftir 10 ár, ef illa gengur rekstur á álbræðslunni. Hér er ábyrgð Alusuisse á kaupum rafmagns allan samningstímann, enda þótt loka yrði verksmiðjunni af einhverjum skakkaföllum, sem fram kæmu í sambandi við álframleiðslu, og það borgaði sig ekki að framleiða ál hér. Norsku fyrirtækin með erlendu hlutafé njóta beztu kjara. Þau njóta beztu kjararéttinda á við alnorsk fyrirtæki. Skattar og gjöld yrðu því ekki á þau erlendu fyrirtæki lögð nema á sama hátt og sambærileg við norsk fyrirtæki. Þetta er auðvitað allt annað hér, eins og þeir hafa vakið athygli á, Svisslendingarnir, í samningunum. Þeir benda á, að ef þeir hafi ekki samning hér, sem hefur sérstakt lagagildi, þá geti Íslendingar á hvaða tíma sem er lögfest hvaða skattalög sem eru og þeir hafi ekki þá vörn eins og í Noregi, að þetta sé ekki hægt nema setja sams konar lög um önnur fyrirtæki, því að ekkert sambærilegt fyrirtæki er hér á landinu.

Í fskj. þessa máls eru birtar töflur um fjárhagsafkomu mismunandi virkjana við Búrfell eftir því, hvort þær eru með álbræðslu eða án álbræðslu, og þessar töflur sýna, að mjög mikill munur er á framleiðslukostnaði raforku til almennra nota milli þessara tveggja leiða, sérstaklega fyrstu árin, og er kostnaðurinn mun lægri, ef raforka er seld til álbræðslu. Er samansafnaður mismunur á framleiðslukostnaðinum með 6% vöxtum orðinn 862 millj. í árslok 1985. Tafla sýnir það, að ef litið er á, hver áhrifin eru á framleiðslukostnað hverrar raforkueiningar með eða án álbræðslu, þá kemur í ljós, að á árunum 1969—1975 mundi viðbótarorkan kosta 62% meira, ef álbræðsla væri ekki byggð, 22% meira á árunum 1976—1980, en 12% á árunum 1981–1985, og yfir allt tímabilið frá 1969—1985 mundi raforkukostnaður verða 28% hærri, ef Búrfell væri eingöngu byggt fyrir almenningsnotkun og enginn sölusamningur gerður við álbræðslu. Þó að menn hafi gagnrýnt raforkuverðið, hef ég ekki enn þá heyrt neina gagnrýni á þessum tölum eða vefengingu á þeim.

Það hafa verið gerðar nákvæmar rekstraráætlanir fyrir Landsvirkjun í heild allt fram til ársins 1985, þar sem borin hefur verið saman rekstrarafkoma kerfisins með og án álbræðslu, og þær niðurstöður sýna, að nettóhagnaðurinn án vaxta væri 702 millj. kr. hærri fram til ársins 1985, ef um sölu til álbræðslu væri að ræða. Taflan sýnir einnig, að heildarraforkuverðið frá Landsvirkjun þyrfti að vera miklu hærra, ef Búrfell væri byggt án álbræðslu, og nemur sá mismunur allt að 39% sum árin. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að hagnaður Landsvirkjunar af sölusamningi við álbræðslu liggur fyrst og fremst í því, eins og komið hefur fram af þessum tölum, að hægt verður að ráðast í miklu stærri og hagkvæmari virkjun og tryggja sölu á orku frá henni frá upphafi. Þetta raforkuverð er í raun og veru mjög hagstætt fyrir Landsvirkjun og neytendur hennar, enda þótt það sé ekki nema lítið fyrir ofan meðalframleiðslukostnað, og munu umframtekjur Landsvirkjunar á tímabilinu fram til 1985 nema 700 millj. kr. Eftir 25 ár verður virkjunin að fullu niðurgreidd, svo að langmestur hluti tekna af sölu til álbræðslu, en þær eru yfir 110 millj. á ári, verður þá hreinn hagnaður.

Nú get ég spurt enn á ný: Er einhver hv. þm., sem vefengir þessar tölur, og það væri gott að heyra það í þeim umr., sem hér eiga eftir að fara fram? Og ég spyr enn: Þótti ekki rétt að selja afgangsrafmagn til áburðarverksmiðju, þó að það væri langt undir meðalkostnaðarverði, og hafði rafmagnskerfið nokkurt tjón af því? Þvert á móti, og það stuðlaði m.a. að því, að við eigum mjög góða og vel stæða áburðarverksmiðju. Áburðarverksmiðjan fær samtals um 18 MW afl, og af því eru 3 MW forgangsorka á 18 aura kwst., en 15 MW afl á 3 aura kwst. Það er m.ö.o. um 5—6 aurar að meðaltali fyrir kwst., sem hún greiðir fyrir rafmagn undir venjulegum kringumstæðum. En það er helmingi minna verð en hér er verið að tala um og langt undir kostnaðarverðinu. En samt er það svo vegna eðlis afgangsorkunnar, að það hefur ekki skaðað rafmagnskerfið, en gert fyrirtækinu, sem þarna nýtur góðs af, mögulegt að vera sterkt og uppbyggt fyrirtæki.

Hv. 1. þm. Austf. hefur verið talsmaður þess hér í þingsölunum, að það væri hægt að leysa vel raforkumálin án þess að fá útlendinga til að reisa stóriðju f sambandi við þau: Telur hann þá einskis virði umframtekjur Landsvirkjunar með álbræðslu um 700 millj. kr. án vaxta á 25 árum, eða telur hann, að þetta hafi engin hagstæð áhrif á þróun raforkumála í landinu? Telur hann það engu máli skipta um þróun raforkumála, að 22 árum eftir að Búrfellsvirkjun tæki til starfa með raforkusölu til álbræðslu verða öll lán hennar fullgreidd, svo að mestallar tekjur af álbræðslunni vegna raforkusölu mundu þá verða hreinn greiðsluafgangur fyrir raforkukerfið, en það væru um 100 millj. kr. á ári? Telur hann það engu skipta fyrir þróun raforkumála, að fyrstu 25 árin yrðu tekjur af raforkusölu til álbræðslu um 400 millj. kr. hærri en samanlagðar greiðslur vaxta og afborgana af Búrfellsvirkjuninni allri ásamt varastöðvunum? Telur hann, að lausn ísvandamálsins verði auðveldari með minni virkjun í Þjórsá, þ.e. án álbræðslu? Eða vill hann ef til vill láta ráðast í minni virkjanir, sem enginn vefengir að eru miklu óhagstæðari okkur Íslendingum? Svona má lengi spyrja hv. 1. þm. Austf. og aðra, sem honum hafa fylgt í hliðstæðum staðhæfingum um raforkuverðið og áhrif álbræðslu á afkomu okkar Íslendinga.

En þessum tölum, sem ég hef nú vikið að og hv. þm. hafa fyrir sér í skjölum málsins, er ekki hægt að svara bara með sleggjudómum og kokhreysti, að við getum gert alla þessa hluti betur án stóriðju. Það verður að koma eitthvað meira til.

Ég kemst svo ekki hjá því að víkja enn einu sinni að þeim furðulegu og algerlega órökstuddu staðhæfingum, að rökstutt mat á því hagræði að byggja hér álbræðslu í sambandi við stórvirkjun feli í sér vanmat á öðrum atvinnugreinum. Sjálfur formaður Framsfl. spurði hér í vantraustsumr. eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta: „Á að láta íslenzkan atvinnurekstur og framkvæmdir víkja fyrir atvinnurekstri útlendinga hér, sem tæki við af sjávarútvegi? Á að snúa sér frá sjávarútvegi og treysta í vaxandi mæli á stóriðju erlendra manna?“ Finnst mönnum ekki gáfulega spurt –og það af sjálfum formanni Framsfl. — eða hitt þó heldur?

Segja má, að slíkur málflutningur sé í raun og veru ekki svara verður, enda í sjálfu sér þegar hrakinn, þegar litið er til hinnar gífurlegu uppbyggingar í sjávarútvegi og öðrum atvinnugreinum, sem núverandi stjórnarflokkar hafa staðið að, eru á döfinni og mun verða staðið að í vaxandi mæli.

Sannleikurinn er sá, að bygging Búrfellsvirkjunarinnar fyrir íslenzkan markað einan mundi reynast mjög stórt og erfitt átak, sem hlyti að draga stórlega úr möguleikum til að afla lánsfjár erlendis til annarra nauðsynlegra framkvæmda og uppbyggingar í íslenzku atvinnulífi. Með samningi við álbræðsluna má segja, að hið erlenda fyrirtæki taki á sig allar byrðar vegna afborgana og vaxta af lánum til Búrfellsvirkjunarinnar í erlendum gjaldeyri, svo að þau mundu ekki þrengja að getu Íslendinga til þess að leggja fjármagn í aðrar framkvæmdir.

Að sjálfsögðu verður því ekki haldið fram og hefur aldrei verið haldið fram, að Íslendingar gætu ekki ráðið við það að byggja Búrfellsvirkjun án samninga við erlent fyrirtæki um nýjan iðnrekstur hér á landi. En sú framkvæmd mundi hins vegar verða þjóðinni geysilega dýr og neyða hana bæði til að taka á sig hærra raforkuverð og beina miklu fjármagni til virkjunarinnar frá öðrum framkvæmdum, frá öðrum atvinnuvegum. Frá fjárhagssjónarmiði er því samningur um álbræðslu Íslendingum hagkvæmur og mun sízt valda öðrum atvinnuvegum erfiðleikum, heldur létta fjáröflun til þeirra. Þetta ætti í raun og veru sérhverjum meðalgreindum manni að vera ljóst. Það hefur hins vegar verið svo, að íslenzkir atvinnuvegir hafa undanfarið verið í erfiðleikum vegna vinnuaflsskorts, og hefur þá þótt henta að slá því fram, að ef kæmi nú eitt nýtt fyrirtæki, þá mundi það taka allt vinnuaflið frá þessum atvinnugreinum og það væri bara skilningsskortur af mönnum og illvilji í garð þessara atvinnugreina að sjá þetta ekki. Ég skal ekki fara frekar út í þau mál. En meðan álbræðslan er í byggingu, þá er talið, að vinnandi fólki fjölgi um 17 þús. manns á vinnumarkaðnum, og aðrar aðstæður benda til þess, að þetta vandamál vinnuaflsins þurfi ekki að vera af þessum sökum, vegna álbræðslunnar, sérstakt vandamál. Þetta er vandamál í dag og hefur verið vandamál undanfarin ár, það er alveg rétt. Mér er vel kunnugt um, að atvinnurekendum, bæði í sjávarútvegi og öðrum greinum, er fyllilega ljóst, að hvort það vinna 450 manns í álbræðslu eftir 10 ár og hvort tveggja ára byggingartími tekur eitthvað af vinnuaflinu er ekki það, sem sker úr fyrir okkur. Hins vegar höfum við almennt miklar áhyggjur af vinnuaflsskortinum, meðan framkvæmdir eru svo gífurlegar sem raun ber vitni um í landinu.

Ég vil að lokum leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að vitna til þeirrar niðurstöðu, sem fram kemur í grg. með samningnum á bls. 107 og er í stórum dráttum þetta:

„Ef draga á saman niðurstöður þess mats, sem hér hefur farið fram á þjóðhagslegum áhrifum álbræðslu, eru þær í aðalatriðum sem hér segir:

Fjárhagslegur ávinningur Íslendinga af álbræðslu verður mjög verulegur og mun gera Íslendingum kleift að ráðast í Búrfellsvirkjun á fjárhagslega hagkvæmum grundvelli, og mun það geta komið fram bæði í lægra raforkuverði en ella og örari uppbyggingu raforkukerfisins. Auk þess munu Íslendingar hafa miklar beinar gjaldeyristekjur af rekstri álbræðslunnar, sem mun skapa svigrúm til enn aukinna þjóðartekna.

Það er mikilvægt, að á móti þessum ávinningi þurfa Íslendingar ekki að taka á sig fjárhagslegar skuldbindingar, heldur mun rafmagssamningurinn við álbræðsluna og gjaldeyristekjur af henni létta stórlega það átak, sem fyrsta stórvirkjunin verður fyrir þjóðarbúið. Einnig hefur verið reynt með öðrum ákvæðum samninganna að búa svo um hnútana, að tekjur og atvinna af álbræðslunni verði sem jafnastar og öruggastar.

Það, sem Íslendingar fyrst og fremst leggja álbræðslunni til, er vinnuafl, en á móti fá þeir meiri og öruggari gjaldeyristekjur á mann en dæmi eru til í öðrum atvinnugreinum landsmanna. Vinnuaflsþörfin hefur verið könnuð sérstaklega, og er ekki útlit fyrir, að hún muni valda þeim atvinnugreinum sérstökum erfiðleikum, sem fyrir eru í landinu.

Þegar þetta mál er skoðað í heild, er nauðsynlegt að sjá það í samhengi þróunar þjóðarbúskaparins almennt. Af álbræðslunni mun verða mikill þjóðhagslegur ávinningur í auknum þjóðartekjum og fjölbreyttari iðnaði. Engum mundi hins vegar detta í hug að halda því fram, að framlag álbræðslu til íslenzkra efnahagsmála sé svo stórt, að ekki sé eftir sem áður jafnmikil þörf á því að efla aðra atvinnuvegi landsmanna og þá ekki sízt útflutningsatvinnuvegina. Þess vegna er það sérstaklega mikilvægt, að álbræðslan mun ekki draga fjármagn frá uppbyggingu annarra atvinnuvega, heldur styrkja almennt gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og þar með vaxtarmöguleika allra annarra atvinnuvega.

Öllum ætti að geta verið ljóst, að í eflingu raforkuframleiðslunnar í landinu og nýjum arðbærum framleiðslugreinum felst á engan hátt vantraust eða vantrú á þeim atvinnuvegum,sem hingað til hafa borið uppi þjóðarbúskap Íslendinga og munu halda áfram að gera það um ókomna tíma. Aukin fjölbreytni í atvinnuháttum hefur reynzt þjóðarbúinu í heild og einstökum greinum þess til styrktar og örvunar. Svo mun og verða í þessu dæmi. Nýting þeirra stórkostlegu auðæfa, sem felast í fallvötnum Íslands, til nýrrar iðnvæðingar mun skapa þjóðinni betri og traustari efnahagsgrundvöll, sem öllum hlýtur að verða til góðs. Íslendingar eru vaxandi þjóð, þar sem nýjar hendur geta leyst ný verkefni, án þess að því sé fórnað, sem fyrir er.“

Ég skal svo láta málí mínu lokið að sinni. Herra forseti, ég leyfi mér að leggja til, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og sérstakrar sjö manna nefndar, sem kosin væri skv. þingsköpum og samráð hefur verið haft um milli þingflokkanna.