04.04.1966
Neðri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Eftir að hæstv. iðnmrh. hafði fylgt frv. um álbræðslu í Straumsvik úr hlaði, tóku til máls formenn beggja stjórnarandstöðuflokkanna og lýstu andstöðu sinni við málið í löngum ræðum. Ekki verður sagt, að ræður þessar hafi verið eins sannfærandi og þær voru langar og ýtarlegar. Geta þeir, sem á þær hlýddu, varla komizt að annarri niðurstöðu en að tregða þessara flokksforingja og flokka þeirra til að fylgja málinu hljóti að vera fyrst og fremst pólitísk hentistefna, enda er vitað, að þessi mótþrói er andstæður vilja fjölda manna í flokkum þeirra, og á það ekki síður við Framsfl.

Ræður beggja þessara flokksformanna voru í rauninni fullar af andstæðum, sem gera niðurstöður þeirra lítt skiljanlegar á öðrum grundvelli en að þeim þyki það henta frá pólitísku sjónarmiði að halda uppi andófi í þessu mikla máli.

Formaður þingflokks Alþb. lýsti því t.d. mjög réttilega, hvernig nálega öll ríki veraldar noti þessa aðferð, að fá erlent fjármagn til þess að byggja upp á skjótan hátt atvinnulíf sitt. Þrátt fyrir þessa viðurkenningu lagði formaður Alþb. til, að Ísland skyldi vera nálega eina landið, sem ekki notaði þessa aðferð og neitaði sér um þá viðbótarmöguleika við aðrar og þýðingarmeiri leiðir til uppbyggingar á atvinnulífi, sem við notum einnig. Svo var að skilja á ræðunni, að höfuðástæðan fyrir því, að Íslendingar megi ekki nota þessa leið, væri sú fyrir utan slæma reynslu í nokkrum Suður-Ameríkuríkjum, að núverandi yfirvöld landsins hefðu ekki réttan skilning á sjávarútvegi. Um það má að sjálfsögðu deila, en það er þröng og lítilfjörleg ástæða til að vera á móti öðrum atvinnugreinum.

Formaður þingflokks Framsfl. réðst mjög gegn þeirri aðferð, sem ætlunin er að taka upp í þessu máli, kallaði hana stórhættulega, óráð og fleira slíkt. En að því kom í ræðu hans, að hann tilkynnti þingheimi, að samt sem áður vildu framsóknarmenn ekki útiloka, að Íslendingar gætu hleypt hér inn útlendu fjármagni til að leysa einstök vandamál. Síðast, en ekki sízt, kom það fram af máli hans, eins og áður var vitað, að hversu stórhættulegt sem málið er, hversu mikið óráð sem það er, væri samt allt í lagi, ef verksmiðjan væri í öðrum landshluta. Með því falla flestallar mótbárur formannsins og framsóknarmanna um sjálfar sig. Hugmyndin um að hafa þessa verksmiðju í öðrum landshluta er mjög lofsverð, og ég efast ekki um, að því ráði hefði verið fylgt, ef þess hefði verið nokkur kostur. En það er ekki nægileg röksemd til þess að vera á móti málinu.

Andstaðan, sem fram kom hjá stjórnarandstöðunni, var í heild á veikum rökum reist. Hún var ekki sannfærandi, og er freistandi fyrir þá, sem vel hafa fylgzt með íslenzkum stjórnmálum, að draga þá ályktun, að ef stjórnarandstöðuflokkarnir og þá sérstaklega Framsfl. sætu í ríkisstj. og gætu meira ráðið en þeir gera í dag um þessi mál. mundu þeir samþykkja þá aðgerð, sem nú er ætlunin að staðfesta með því frv., sem hér er til umr. Af þessu verður ljóst, að andstaðan er slík, að ekki væri skynsamlegt fyrir þingið eða þjóðina að fylgja till. stjórnarandstöðuflokkanna.

Hv. 1. þm. Austf., formaður Framsfl., byrjaði á að gagnrýna meðferð þessa máls. Hann taldi rangt, að samningurinn skyldi lagður fyrir þingið fullbúinn, væri Alþ. með því misboðið. Ég verð að láta í ljós undrun mína yfir því, að slík gagnrýni skuli koma fram. Að sjálfsögðu verðum við að líta á samninga við útlenda aðila á sama hátt og samninga við önnur ríki í stjórnarskránni, en þar er eins og í stjórnarskrám flestra þeirra ríkja, sem næst okkur búa og eru okkur skyldust, gert ráð fyrir því, að framkvæmdavald geri samninga og suma samninga beri að staðfesta á þingi. Í samræmi við þetta er gerður fjöldi af samningum við útlenda aðila, og þeir eru aldrei fyrir Alþ. lagðir, en engum hefur dottið í hug að gagnrýna það. Ef hins vegar tiltekin ákvæði eru í samningum, ber að leggja þá til staðfestingar fyrir Alþ.

Hvort sem þessi samningur fellur undir það ákvæði eða ekki, er það vilji ríkisstj., að hann hljóti staðfestingu Alþ., og meðferð hans er í fullkomnu samræmi við viðteknar venjur, sem ekki hafa verið gagnrýndar hér á landi um langt árabil, og í samræmi við meðferð slíkra mála hjá öðrum þjóðum, sem við höfum haft til fyrirmyndar um margt í okkar löggjöf og stjórnarháttum. Í þetta skipti hefur hæstv. iðnmrh. um langt skeið lagt sig sérstaklega fram til þess að hafa samráð við Alþ. Það er meira en ár liðið síðan lögð var fram ýtarleg skýrsla á þingi um það, hvað gerzt hefði í málinu og hvernig það stæði.

Skömmu síðar var mynduð þmn., sem átti að hafa það hlutverk að verða tengiliður á milli ríkisstj. og starfsmanna hennar annars vegar og þingflokkanna hins vegar. Þessi þmn. hefur haldið fjölmarga fundi, og hún hefur fengið að sjá drög að samningum á hverju stigi á fætur öðru. Það var öllum ljóst, að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í þessari nefnd bundu sig engan veginn til fylgis við málið. Þrátt fyrir það fengu þeir allar upplýsingar, tóku þátt í umr., létu í ljós skoðanir og ég vil leyfa mér að fullyrða, að þær skoðanir hafi í ýmsum atriðum haft áhrif á meðferð málsins af Íslands hálfu. Ég gæti nefnt einstök dæmi um efnisatriði, sem tóku breytingum, sem ég hygg, að megi rekja til þmn. Að lokum fengu þm. endanleg málsskjöl óvenjulega tímanlega og allgott svigrúm til að kynna sér þau, og einnig það er öðruvísi en oft hefur verið áður um mál, sem segja mætti, að væru sambærileg.

Af öllu þessu tel ég, að aðeins sé hægt að draga þá ályktun, að ríkisstj. hafi lagt sig sérstaklega fram um það að gefa Alþ. kost á að taka þátt í undirbúningi þessa máls og fylgjast með því og í þeim efnum hafi nú verið gengið lengra en venja hefur verið hér á landi áður. Er því ekki ástæða til þess að gagnrýna meðferð málsins, heldur ástæða til hins gagnstæða og væri frekar ástæða til að benda á þetta mál til fyrirmyndar að því leyti, að ríkisstj. framtíðarinnar ættu að reyna, eins og nú hefur verið gert, að gefa Alþ. tækifæri til þess að fylgjast með og taka þátt í málum, sem eru þess eðlis, að útilokað er að hafa annan hátt á heldur en stjórnarskráin gerir ráð fyrir um meiri háttar milliríkjasamninga, — framkvæmdavaldið geri þá og Alþ. fái þá til staðfestingar eða synjunar.

Grundvallaratriðið í þessu máli er að gera upp við sig, hvort Íslendingar eigi að notfæra sér erlent fjármagn eða ekki. Hér er ekki deilt um það, að Íslendingar hafa fyrst og fremst notað þá leið að afla lána frá öðrum þjóðum og byggja þannig upp atvinnuvegi. Engum manni kemur til hugar að hverfa frá þeirri leið. Engum manni kemur til hugar annað en hún verði ríkjandi aðferð í þessum efnum í framtíðinni. En eigum við til viðbótar og að auki að notfæra okkur erlent fjármagn á þann hátt, sem nú er lagt til í einstökum tilvikum, þar sem það þykir henta? Um þetta hefur verið rætt í þessum umr. og er eðlilegt, því að það er grundvaliaratriði.

Talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt á það mikla áherzlu, að með þessu máli sé farið inn á algerlega nýja braut og megi við því búast, að á eftir umræddri álbræðslu muni koma hvert fyrirtækið á fætur öðru og erlend ítök mundu fara stórvaxandi. Alþfl. hefur í afstöðu sinni til þessa máls hafnað þessum skilningi algerlega og lýst yfir tvívegis í samþykktum, að hann telji, að þjóðin eigi að nota leið hins erlenda fjármagns í einstökum tilvikum, þar sem það þykir henta, en ekki gera það að almennri reglu. Alþfl. hefur hafnað þeirri hugmynd að setja eins konar rammalöggjöf, þannig að erlend fyrirtæki geti komið hingað til lands, án þess að gera þurfi sérstaka samninga hverju sinni, en slík löggjöf er til í mörgum löndum. Það er varla hægt að fletta útbreiddustu erlendum tímaritum án þess að sjá stórar auglýsingar frá löndum, sem falast eftir því, að alþjóðleg fyrirtæki stofni til atvinnurekstrar hjá þeim, og eru gerð þar hin girnilegustu boð um skattafríðindi og annað slíkt. Þessari leið eiga Íslendingar tvímælalaust að hafna, og það þýðir, að hvert atvik verður að vega og meta, þegar það býðst, og taka um það ákvarðanir. Að vissu leyti hefur þetta nú þegar verið gert. Álverksmiðjan er ekki eini innflutningur á fjármagni, sem til umr. hefur komið á síðustu árum. Öðrum atvikum hefur ýmist verið hafnað eða frestað. Framsóknarmenn segjast ekki útiloka það, að nota megi erlent fjármagn hér á landi. Hins vegar verður að skilja málflutning Alþb. svo, að það sé mótfallið þessari aðferð til þess að fá erlent fjármagn og erlenda tækni hingað til lands.

Ef Íslendingar eru mótfallnir þessari leið, ættu þeir að sjá sóma sinn í því að hafa algert samræmi í skoðunum og leita ekki sjálfir eftir því að setja upp fyrirtæki f öðrum löndum. Við skulum ekki gleyma, að það höfum við gert. Við höfum t.d. reist tvær verksmiðjur vestur í Bandaríkjunum til þess að fá meiri peninga fyrir fisk okkar. Og ef sú starfsemi væri athuguð með jafnóvæginni gagnrýni og hér er beitt, hygg ég, að málstaður okkar væri að ýmsu leyti ekki eins góður og við mundum vilja. Það er augljóst, að við höfum valið þessum verksmiðjum stað, þar sem við getum fengið ódýrt vinnuafl. Við erum að notfæra okkur erfiðleika amerískra blökkumanna í lífsbaráttu þeirra til að láta þá vinna fyrir okkur. Af hverju er slík verksmiðja sett á útkjálka suður í Nanticoce í Maryland? Það er engin önnur ástæða en þessi. Hvar er verksmiðja Sambandsins? Hún er í gamalli stáliðjuborg í Pennsylvaníu, þar sem atvinnuástand hefur verið erfitt, af því að stálhringunum þóknaðist ekki að reka þar verksmiðjur áfram. Þetta er það vinnuafl, sem við notum okkur, þegar við reisum verksmiðjur annars staðar til þess að þjóna okkar fjárhagslegu hagsmunum. Mér skilst, að það sé ekkert annað en fjárhagslegir hagsmunir, sem valda því, að við höfum ekki sams konar verksmiðjur í Bretlandi og Hollandi.

Á þetta má gjarnan minnast, þegar um tilflutning á fjármagni og stofnun fyrirtækja er að ræða. Í þessum efnum eru að vísu greinilegar framfarir hjá okkur. Annað fyrirtækið, sem rekur slíka verksmiðju af okkar hálfu í Bandaríkjunum, er nú að byggja nýja verksmiðju og miklu betri en það afdankaða bjórhús, sem starfsemin er nú rekin í, og hygg ég, að rekstur þar muni allur verða með því móti, að okkur sé meiri sómi að heldur en verið hefur.

Þegar við ræðum um það, hvort við eigum að hleypa erlendu fjármagni hingað til lands til lausnar á tilteknum verkefnum, er einnig rétt að gera okkur grein fyrir, hvort það sé eftirsótt fyrir erlend fyrirtæki að komast hingað til slíks rekstrar og hvort þau standi í röðum við dyr okkar og knýja á um inngöngu. Ég geri ráð fyrir, að svarið við þeirri spurningu muni verða mismunandi eftir því, hvaða atvinnugreinar er um að ræða. Í þeim efnum vil ég undanskilja sjávarútveginn, því að ég geri fastlega ráð fyrir, að erlendir aðilar mundu hafa áhuga á að komast þar inn, ef þess væri kostur.

Hins vegar blasir sú staðreynd við eftir margra ára reynslu, að aðstæður á Íslandi, þar með talið fossaflið, þar með talið ástand í efnahagsmálum, stjórnmálum og allt annað, sem til greina getur komið, er ekki betra en svo, að hvert erlenda fyrirtækið á fætur öðru, sem hefur kannað aðstæður til þess að reisa álbræðslu hér, hefur horfið frá og ekki sýnt frekari áhuga á því að reisa slíkt fyrirtæki á Íslandi.

Ég veit ekki betur en vinstri stjórnin hafi á sínum tíma fengið unga menn til að gera tilraunir til að fá ameríska alúminíumhringinn Reynolds International til að reisa verksmiðju hér á landi. Eftir miklar athuganir varð ekkert úr þeim ráðagerðum og Reynolds hringurinn sneri sér til annarra og grænni haga.

Mér er sagt, að stærsta álfyrirtæki veraldarinnar, kanadiski hringurinn Alcan, hafi athugað aðstæður hér vel, en hafi ekki talið þær svo girnilegar, að þeir kærðu sig um að fylgja málinu eftir.

Einhvers staðar las ég það í skjölum frá stóriðjunefnd, að ameríska fyrirtækið Kayser International hafi spurzt fyrir og athugað vel aðstæður hér á Íslandi, en þeir sneru frá, gerðu samning við hinn afdankaða Nkruma í Afríku og hafa reist stóra verksmiðju, sem þar mun vera tekin til starfa eða rétt að taka til starfa.

Mér er sagt, að brezki álhringurinn hafi athugað hér aðstæður, og einnig hann vék frá. Við vitum, að nú á allra síðustu árum hefur franska fyrirtækið Pechiney athugað hér aðstæður, og kom mjög til greina, að það yrði aðili að þeirri verksmiðjubyggingu, sem nú er um talað. En þeir sneru frá og töldu það ekki hagstætt eða hentugt. Þeir fóru til hins vatnslausa og þurra Grikklands, reistu þar verksmiðju með grískum aðilum og hafa átt þar í miklum erfiðleikum. Þeir vildu heldur borga yfir 3 mill í Grikklandi en reisa verksmiðju með þeim kjörum, sem um hefur verið rætt hér, og getur hver og einn íhugað fyrir sig, hvað kunni að valda því, að þeim þótti raforkuverðið ekki ráða úrslitum.

Aðlokum kom annað amerískt fyrirtæki, American Metal Climax Inc., mjög til greina hér og var þátttakandi í umr. um álbræðslu lengi vel. En þeir hurfu frá og ákváðu að festa fé sitt í álbræðslu á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna, þar sem raforka er fáanleg fyrir mun lægra verð en hún á að kosta hér.

Af þessari reynslu verðum við að draga þá ályktun, að ef við óskum eftir að fá erlenda aðila til að reisa álbræðslu eða aðra svipaða stóriðju, sem byggist á mikilli raforku, hér á Íslandi, verðum við að sækjast eftir þeim, keppa við aðra staði og vinna þá samkeppni. Þetta er grundvallaratriði, sem að sjálfsögðu skýrir sumt það í þeim samningum, sem nú liggja fyrir Alþ., sem stjórnarandstaðan með nokkrum rétti gagnrýnir.

Það liggur fyrir og er augljóst, að Svisslendingar, Frakkar og ameríska fyrirtækið, sem ég nefndi síðast, vildu fá raforku hér fyrir 2 mill, en fulltrúar ríkisstj. sögðu: Það kemur ekki til greina. — Þeir höfðu þá þegar verkfræðilegar athuganir, sem leiddu í ljós, að við gætum ekki framleitt orkuna fyrir það verð. Á þeirri stundu, er hinn erlendi aðili gekk inn á 2 1/2 mill, sem íslenzku samningamennirnir kröfðust, var fyrst farið að ræða í alvöru um málið. En munurinn á 2 1/2 mill, sem okkar sérfræðingar telja örugglega fyrir ofan framleiðslukostnað, og t.d. 3 mill, sem er raforkuverð á meginlandi Evrópu, er það verð, sem við greiðum fyrir að fá þessa verksmiðju reista hér og koma í veg fyrir, að svissneska fyrirtækið reisi aðra verksmiðju við hliðina á þeirri, sem er að rísa í Vestur-Noregi.

Ef slíkum aðila er hleypt inn í land okkar til þess að reisa atvinnufyrirtæki, vaknar sú spurning, hvort það sé eðlilegt, rétt og hagstætt fyrir okkur, að slíkur aðili eigi að öllu leyti að lúta sömu lögum og sitja við sama borð og íslenzk fyrirtæki. Á þetta hefur verið minnzt í umr., og þetta atriði vegur þungt í þeim samþykktum, sem Framsfl. hefur um málið gert.

Ég vil leyfa mér að draga mjög í efa, að skynsamlegt sé og hagstætt fyrir okkur að láta slíkan aðila lúta sömu reglum og venjuleg íslenzk fyrirtæki. Það gæti verið að sumu leyti stórhættulegt að hafa ekki fastari reglur um mörg atriði fyrir slíkt fyrirtæki heldur en við höfum fyrir okkar eigin fyrirtæki. Við skulum byrja á einu augljósu dæmi. Ef við ættum að fylgja bókstaflega þeirri kenningu, að útlent fyrirtæki, sem kæmi hingað til lands, ætti að lúta í öllu sömu lögum, aðstæðum og kjörum og íslenzkt fyrirtæki, þá mætti spyrja framsóknarmenn: Viljið þið skrifa undir það, að erlent fyrirtæki fái raforkuna fyrir sama verð og við höfum selt eina fyrirtækinu, sem við eigum á þessu sviði, sem er Áburðarverksmiðjan, jafnvel þótt aðeins væri það rafmagn, sem þeir nota að næturlagi? Hvert mannsbarn hlýtur að sjá, að þetta gæti ekki gengið. Þetta er aðeins augljósasta og grófasta dæmið um, að það sé skynsamlegt og sjálfsagt, þegar um slík atvik er að ræða, að gerðir séu sérstakir samningar og settar sérstakar reglur varðandi erlend fyrirtæki.

Nú hefur verið bent á, að ÍSAL, fyrirtækið, sem á að eiga og reka álbræðsluna, fái ýmiss konar hlunnindi, og það er rétt. Dettur engum manni í hug að neita því. En það má einnig benda á, að ÍSAL tekur á sig margvíslegar skuldbindingar, sem hía ekki á venjulegum íslenzkum fyrirtækjum. Sem dæmi má nefna, að þessu samkomulagi fylgir alger fjárhagsleg ábyrgð utanlands frá. Þessi ábyrgð er svo mikil, að það er samið um bankaábyrgð fyrir byggingartíma verksmiðjunnar, sem nemur hvorki meira né minna en 200 millj. ísl. kr., þegar hún er mest. Og nú skulum við taka eftir nokkrum atriðum varðandi þetta fyrirtæki, ÍSAL. Mega þeir auka framleiðslu sína án þess að fá leyfi frá ríkisstj.? Nei. Mega þeir gera framleiðslu sína fjölbreyttari, eins og er vel hugsanlegt? Nei, þeir mega það ekki án sérstakra leyfa. Mega þeir minnka framleiðsluna? Nei, þeir mega það ekki nema við sérstakar aðstæður, þ. e. að framleiðsla hafi dregizt jafnmikið saman hjá verksmiðjum, sem þeir eiga í 7—8 öðrum löndum. Mega þeir hækka eða lækka þá upphæð, sem þeir borga fyrir tæknilega þjónustu? Nei, þeir geta ekki breytt þeirri upphæð nema með leyfi Íslendinga. Mega þeir hækka eða lækka sölulaun þeirra, sem eiga að selja fyrir þá málminn? Nei, þeir mega það ekki. Mega þeir biðja um rekstrarlán í íslenzkum bönkum? Nei, þeir eru skyldir til þess að flytja með sér tiltekið magn af rekstrarfé og hafa það tiltækt. Þannig mætti nefna fjöldamörg atriði, sem í rekstri venjulegra fyrirtækja mundi verða talið sjálfsagt frelsi þeirra og ráðamanna þeirra, en er bundið bak og fyrir í samningunum um ÍSAL. Ég vil ekki meta, hvort hlunnindin annars vegar eða það, sem bundið er með samningunum, er meira virði. Er sjálfsagt ómögulegt að leggja það hvort á móti öðru. En ég tel þess virði, að á það sé bent, að þessi aðferð — að gera sérstaka samninga — er án efa skynsamleg frá íslenzku sjónarmiði, úr því að slíku fyrirtæki er hleypt inn í landið. Það kann að hljóma vel í íslenzkum eyrum og kitla þjóðernistilfinningu okkar að segja: Slíkt fyrirtæki á auðvitað að lúta sömu reglum og íslenzk fyrirtæki um stórt og smátt. Þegar málið er athugað, kemur í ljós, að það er langt frá því, að skynsamlegt sé fyrir okkur að hafa þau vinnubrögð.

Mikið er um það talað, hvort hið svissneska fyrirtæki muni seilast til einhvers konar áhrifa í landi okkar. Það er rétt athugað hjá hv. 1. þm. Austf., að miklum atvinnurekstri, eins og hér er um að ræða, fylgja að sjálfsögðu ýmiss konar áhrif, ef um það er talað í víðustu merkingu. Það hefur verið minnzt á slæma reynslu af erlendu fjármagni, t.d. í Mið-Ameríku, og er það raunar frægt í sögunni, að þar eru smáríki, sem almennt eru kölluð „bananalýðveldi“, af því að einn amerískur ávaxtahringur hefur verið þar svo valdamikill. Reynsla af fjármagni hefur í öðrum löndum verið betri. Ég hygg, að t.d. í Noregi séu aðstæður líkari því, sem hér eru, og andstaða gegn því, að við verðum gerðir að einhvers konar „bananalýðveldi“, ef einhver vildi reyna það, sé hér miklu meiri en í Ameríku.

Þegar þm.-nefndin var á ferð til að skoða verksmiðju í Vestur-Noregi, fékk hún tækifæri til þess að ræða við ýmsa Norðmenn, sem eru kunnugir þessum málum. Þm. spurðu þá m.a., hvort útlend fyrirtæki, sem hafa fjöldamörg starfað í Noregi síðan fyrir aldamót, hafi gert tilraunir til að seilast til pólitískra áhrifa. Þeir svöruðu yfirleitt með því að hrista höfuðið og könnuðust ekki við, að slíkt hefði komið til. Möguleikarnir eru að sjálfsögðu fyrir hendi. Við verðum að sýna þá árvekni að hindra erlend áhrif, ef einhverjum dytti í hug að beita þeim. Mín skoðun er sú, að þetta fyrirtæki frá hinu hlutlausa Sviss sé líklegt til að hafa hægt um sig og ólíklegt til þess að seilast til áhrifa af þessu tagi.

Hins vegar er það augljóst, að ef svona stór aðili gerðist félagi í t.d. atvinnurekenda- og iðnrekendasamtökum, mundi fljótlega um hann muna. Gjöld, sem fyrirtækið mundi greiða, mundu nema stórum upphæðum og verða til þess að styrkja þann aðila. Alþfl. hefur í afstöðu sinni til þessa máls tekið fram, að hann geri það að skilyrði, að ÍSAL verði ekki í atvinnurekenda- eða iðnrekendasamtökunum. Út af fsp. um framkvæmd á þessu get ég á þessu stigi aðeins svarað því, að í umr. innan Alþfl. var um það talað, að fengin yrði yfirlýsing frá hinu svissneska félagi um, að það mundi ekki í þessi samtök ganga. Slík yfirlýsing ætti að vera nægileg trygging fyrir því, að sú afstaða héldist, þegar ríkisstj. óskar eftir henni. Ef reynt yrði að brjóta í bága við þá yfirlýsingu síðar, höfum við ótal leiðir til þess á Alþ. að gera ráðstafanir í því sambandi, ef okkur sýnist svo.

Í sambandi við áhrif og eftirleik samninga er rétt að taka eftir, að í þetta skipti hefur verið samið um fleiri atriði málsins fyrir fram heldur en venja mun vera í slíkum tilvikum. Mér er tjáð, að þetta stafi af því, að Svisslendingar hafi sérstaklega óskað eftir að ræða um allar hliðar málsins fyrir fram og að allir samningarnir yrðu birtir í . upphafi, þannig að ekkert færi á milli mála. Þetta er sýnilega afleiðing af því, að þeir lentu í vandræðum í Noregi, því að þar voru hinir svokölluðu aðstoðarsamningar ekki birtir opinberlega. Menn töldu, að þeir væru viðskiptaatriði, sem sjálfsagt mundi leysast á venjulegan hátt. En það komu fram gallar á þeim, sem urðu til þess, að allmikið pólitískt óveður var af þessu gert í Noregi, og virðist svo sem slíkt ætti ekki að geta komið fyrir hér, því að samningar eru allir gerðir fyrir fram og birtir opinberlega strax í upphafi.

Mikið hefur verið um það rætt, hvort framkvæmdir þessar muni ekki auka þenslu í landinu svo mjög, að efnahagslífið biði við það alvarlegt tjón. Sjálfsagt er að gera sér grein fyrir, að telja verður líklegt, að slíkar framkvæmdir muni heldur auka á þensluna, nema verulegur samdráttur verði í einhverjum öðrum greinum íslenzkra atvinnuvega á næstu árum, sem við vonum sjálfsagt allir, að ekki verði. Hins vegar er ekki rétt að meta þessa hættu svo alvarlega, að hún geti verið ástæða til þess að hverfa frá þessu máli. Vert er að hafa í huga, að aðdragandi og undirbúningur að svo miklum framkvæmdum sem hér er um að ræða tekur mörg ár. Er afar erfitt að taka á síðustu stundu ákvarðanir um það, að nú frestum við öllu saman eða nú hættum við við þetta álit saman, vegna þess að afli hafi þau árin verið mikill og atvinna mikil. Er ekki hægt um vik að nota svo stóra hluti eins og virkjunina og álbræðsluna til þess að fylla í skörðin, þegar atvinna minnkar, eins og e.t.v. væri frá öðrum sjónarhól æskilegt að gera.

Í sambandi við vinnuafl er vert að íhuga, hvað verður af hinni miklu fjölgun íslenzku þjóðarinnar á þeim árum, sem eru að líða. Fjölgunin hefur aldrei verið meiri. Það er sjálfsagt á fjórða þús. manns, sem bætast við á hverju ári, og er því ástæða til að gera sér betri grein fyrir því en við höfum hingað til gert, hvað verður af þessu fólki, inn í hvaða atvinnugreinar það fer og í hvaða atvinnugreinar væri æskilegt, að hinir nýju Íslendingar fari þúsundum saman. Undanfarin ár hefur ekki fjölgað í landbúnaði. Það hefur sáralitið fjölgað mönnum, sem stunda fiskveiðar. Skipin eru stærri, tækin eru betri, afköstin eru meiri, en mannfjöldinn er ekki miklu meiri en áður. Það hefur fjölgað nokkuð fólki í fiskvinnslu og þó sérstaklega í sambandi við síldina nú á allra síðustu árum. Og hvert hefur þá mannfjöldinn farið?

Hann hefur, að því er virðist, farið fyrst og fremst í byggingarstarfsgreinar og í þjónustustarfsgreinar. Við þurfum ekki annað en benda á nokkur gistihús og veitingahús, sem hafa verið reist í Reykjavik á síðustu 3—4 árum. Hygg ég fljótt á litið, að mannfjöldinn, sem starfar þar, sé ekki miklu minni en sá mannfjöldi, sem á að starfa við álbræðsluna.

Nú er það viðurkennd staðreynd, að þegar lífskjör þjóða batna og tækni fer vaxandi, eins og hefur verið undanfarin ár, má búast við því, að mannfjöldi í undirstöðuframleiðslu aukist ekki og jafnvel minnki, þó að framleiðslan aukist, en hins vegar fjölgi verulega í ýmsum þjónustugreinum, því að hin bættu lífskjör, sem þjóðirnar óska eftir og fá margar hverjar, eru að verulegu leyti fólgin í aukinni og nýrri þjónustu. En við þurfum að gera okkur grein fyrir, hvort við getum látið tugi þus., sem bætast við þjóðina nú með nokkurra ára millibili, fara algerlega í þjónustuatvinnuvegi og hvort það sé ekki skynsamlegt af okkur að reyna að tryggja meiri fjölbreytni í undirstöðuframleiðslu. Engar hagfræðiformúlur eru til um það, hvaða hlutföll eigi að vera þarna á milli, og ég geri ráð fyrir því, að enginn mundi taka það alvarlega, þó að slíkar formúlur væru til. En við getum ekki gengið fram hjá því, að undirstöðuatvinnuvegir okkar eru háðir árferði, aflabrögðum að verulegu leyti og eru ekki eins ártryggir og t.d. iðnaðurinn getur verið. Ég tel því, að það sé tvímælalaust skynsamlegt af þjóðinni að koma sér upp nýjum framleiðslugreinum, þegar þess er kostur. Ég tel, að sá mannfjöldi, sem muni starfa við álbræðsluna, muni ekki skipta verulegu máli og hún muni falla inn í efnahagslífið alveg eins og áburðarverksmiðjan og sementsverksmiðjan hafa gert. Hins vegar er augljóst, að það geta orðið á vegi okkar alimiklir erfiðleikar, meðan á byggingartíma stendur. Þeir erfiðleikar eru aðallega bundnir við tvö ár. Við getum gert margt til þess að draga úr þessum erfiðleikum, en í heild tel ég fráleitt að halda fram, að þessir erfiðleikar á vinnumarkaði séu svo miklir, að þeir réttlæti andstöðu við málið eða frá því sé horfið.

Við höfum fjallað mikið um verðbólgu og þenslu undanfarin missiri, og í tilraunum manna til þess að komast að raun um, hvort Framsfl. hafi nokkra stefnu í þeim málum og hver hún kunni að vera, hefur aftur og aftur verið spurt: Hvað vill Framsfl. í þessum efnum? Stundum er eins og svörin leiði að nýjum höftum, að því, að nefndir og ráð eigi að segja okkur, hvort við megum byggja íbúðarhús, girða lóð eða ráðast í slíkar framkvæmdir. En svo er höftunum afneitað og birtar langar greinar um, að það séu eingöngu aðrir flokkar, sem hafi staðið að höftum. Þá kemur ný skýring á stefnunni. Hún er sú, að það þurfi að raða framkvæmdum. Ég hef verið þeirrar skoðunar, að eitt megininntak í öllum stjórnmálum, eitt megininntak í flestu því, sem þing og ríkisstj. er að gera, sé einmitt að raða þeim verkefnum, sem þjóðin getur ráðizt í. Ef framsóknarmönnum þykir ástæða til þess nú þegar, áður en álbræðsla eða Búrfellsvirkjun er komin til sögunnar, að raða framkvæmdum og verkefnum, er ástæða til að spyrja: Þýðir þetta, að þeir telji, að ekki hafi verið rétt raðað undanfarin ár? Ef svo er, er bezt að koma beint að kjarnanum og óska eftir því við framsóknarmenn, að þeir segi, hvaða framkvæmdir, sem ráðizt hefur verið í, hefðu átt að bíða. Það er ekki hægt að komast fram hjá að svara því og fá það greinilega í ljós.

Á þessu stigi liggur ekki fyrir, að það muni þurfa að gera sérstakar ráðstafanir til þess að fresta framkvæmdum vegna álbræðslunnar og Búrfellsvirkjunar. Alþfl. viðurkennir, að sú hætta sé fyrir hendi, og leggur áherzlu á, að ríkisstj. búi sig undir að mæta henni. Ef það verður óhjákvæmilegt að gera slíkar ráðstafanir, ná þær að sjálfsögðu aðeins til Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Kópavogs. Það er engin ástæða til þess, að þær nái til annarra landshluta, og verður það mál að athugast, þegar að því kemur. Það fer m.a. eftir því, hvaða framkvæmdir verða á döfinni og hvernig útlit vinnumarkaðsins verður. Ég tel, að það sé eðlilegt, að tvenns konar hugmyndir komi á þessu stigi upp hjá tveimur stjórnarflokkum. Málið hefur ekki verið rætt, af því að það er ekki að því komið, en það verður að sjálfsögðu afgreitt, þegar að því kemur.

Staðsetning álbræðslunnar hefur verið mikið rædd. Sagt er með miklum rétti, að þetta mál mundi hafa stóraukna þýðingu, ef hægt væri að nota það til þess að auka jafnvægi í byggð landsins og styrkja þau héruð, sem helzt þurfa á aukinni atvinnu að halda. Ég er persónulega þeirrar skoðunar, að ef þess hefði verið nokkur kostur að koma álbræðslunni fyrir t.d. á Norðurlandi, þá hefði það verið gert. Ég hefði verið reiðubúinn að styðja það. En menn þekkja gang þessa máls og vita, að annars vegar færðu Svisslendingar fram sannanir fyrir því, að fyrirtækið yrði mun dýrara á Norðurlandi og þeir yrðu þar af leiðandi annaðhvort að fá hagstæðari skatta eða lægra rafmagnsverð; hins vegar sögðu ráðunautar okkar í Alþjóðabankanum í Washington, sem væntanlega mun lána fé til virkjunarinnar, að það mundi verða mun dýrara fyrir Landsvirkjun að leiða rafmagn frá Búrfelli norður og þar af leiðandi þyrfti virkjunin að fá hærra rafmagnsverð. Þetta er afar einfalt dæmi, en það er ekki nokkur leið að láta það ganga upp. Þess vegna var það óhjákvæmilegt, að verksmiðjan yrði á sunnanverðu landinu.

Ríkisstj. hefur valið þá leið til þess að sýna hug sinn varðandi þetta atriði að láta 3/4 eða ríflega það af skatttekjum frá verksmiðjunni renna í atvinnuaukningarsjóð, sem á einmitt að styðja þessa landshluta. Ég verð að segja, að það var aumt að þurfa að hlusta á formann Framsfl. tala um þetta mál á þann hátt, sem hann gerði á laugardaginn, því að ekki var hægt að kalla orð hans um þetta atriði málsins annað en furðulegt óánægjupex. Framsóknarmenn hafa sýnt mikinn áhuga einmitt á þessum málum undanfarin ár og flutt frv. eftir frv. Og þegar loksins stórir hlutir gerast og miklar fjárhæðir á að færa yfir í slíka atvinnuaukningu, er ekkert að hafa annað en ónot úr formanni Framsfl. Og mótbárur hans eru satt að segja ekki svaraverðar. Það liggur fyrir, hvaða upphæðir er um að ræða. Menn geta kallað þetta stórar upphæðir eða litlar upphæðir, eins og þeir vilja. Menn geta reiknað þær út á hvaða hátt sem þeir vilja. En þeir, sem hugsa raunhæft um málið, sjá, að hér hefur óvenjulegt tækifæri verið notað til þess að gera óvenjulega stórt átak fyrir þau landssvæði, sem skortir atvinnu, stærra átak en unnt hefur verið að gera áður. Ég á ekki von á því, að formaður Framsfl. flytji neinar lofræður um ríkisstj., en hann gekk allt of langt í hina áttina. Varð ekki betur séð en hann væri fullur öfundar yfir því, að ríkisstj. skyldi auðnast að gera þetta fyrir dreifbýlið, þar sem við viljum auka atvinnu og bæta afkomu.

Það hefur mikið verið rætt um skattamál verksmiðjunnar. Ég tel ástæðu til að benda á, að sú formúla, sem hér verður notuð, mun vera ný af nálinni. En allir þeir, sem fulltrúar ríkisstj. hafa spurt ráða, bæði sérfræðingar í Noregi, sem hafa fengizt við fjármál erlendra fyrirtækja þar í landi um áratugi, og sérfræðingar í Englandi, sem hafa það að atvinnu að veita ráð í slíkum málum, hafa talið, að þessi formúla væri okkur mjög hagstæð. Með henni væri sneitt fram hjá vissum hættulegustu göllunum við fjárhags- og skattahlið þess, þegar hringar, sem ráða framleiðslu frá krýolítgrjóti til álpotta, hafa aðeins einn líð framleiðslunnar í tilteknu landi. Ég er sannfærður um, að við mundum með því að beita venjulegum skattreglum ekki fá nema brot af þeim skatttekjum frá verksmiðjunni, sem við fáum með þessari aðferð. Ég vil forðast að nota stór orð, en ég er hræddur um, að þegar þessir útlendingar átta sig og fara að ráða íslenzka endurskoðendur til að hjálpa sér við skattana, hefði þeim tekizt að hafa þá töluvert lægri en þeir verða samkv. þessari föstu formúlu. Það er mikill kostur við þessa skattaformúlu frá okkar sjónarmiði, að við fáum tiltölulega miklar skattgreiðslur svo að segja strax. Á pappírunum er sú formúla, sem gildir í Noregi, e.t.v. strangari en þetta virðist vera. Þeir eru með yfir 50% skatta. En þegar nánar er athugað, kemur í ljós, að afskriftarreglur eru með þeim hætti, að Norðmenn eiga ekki von á því, að sambærileg verksmiðja hjá þeim borgi teljandi skatta um langt árabil. Við erum að byggja upp okkar þjóðfélag. Okkur liggur á, og þess vegna er verulegt hagsmunaatriði fyrir okkur að fá tekjur fljótt og jafnt. Þetta kemur einnig til skjalanna í sambandi við þá ákvörðun að fá álbræðslu til að styrkja raforkuframkvæmdir, af því að álbræðslan tryggir, að við fáum miklar tekjur og fáum þær fljótt, reglulega og öruggt og getum þar af leiðandi fyrr ráðizt í enn nýjar framkvæmdir en ella mundi vera.

Í samanburði milli Noregs og Íslands er svipaða sögu að segja af tollfrelsi. Um það mun ekkí vera neitt í norska samkomulaginu. Þegar spurt er í Noregi, hvernig þessu máli sé háttað, kemur í ljós, að vélar og annað slíkt, sem ekki er hægt að fá keypt í Noregi, er hægt að flytja tollfrjálst inn til nýbygginga, sem þarna er um að ræða. Í raun og veru borgar þetta fyrirtæki enga tolla heldur í Noregi, og aðstaðan er svo að segja eins og hér.

Formenn beggja stjórnarandstöðuflokkanna voru að fárast yfir því, sem þeir kölluðu tollfrelsi á hráefnum. Mig minnir, að það sé nú þegar í íslenzkum lögum, að sé vara flutt út úr landinu, þá er hægt að fá endurgreiddan toll af hráefni, sem flutt var inn í þá vöru. Þetta hefur mér skilizt, að sé ekki ný regla, og er því ástæðulaust fyrir svo þrautreynda menn sem hér er um að ræða að bera slíkt fyrir sig.

Það er rétt, að íslenzkum fyrirtækjum væri mikill greiði gerður, ef þau gætu fengið að flytja inn vélar tollfrjálsar, eins og þetta fyrirtæki á að fá. Í því sambandi vil ég aðeins benda á, að ekki verður betur séð en stefnan sé einmitt í þá átt. Nú nýlega hefur verið ákveðið, að raforkuverin skuli ekki borga tolla af vélum sínum, og við höfum hér á Alþingi gefið eftir tolla af vélum í nýjar niðursuðuverksmiðjur. Ég vona, að á þessu verði beint áframhald, þannig að íslenzka ríkið sjái sér fært að lækka verulega og í sumum tilfellum afnema tolla af vélum, a.m.k. til ákveðinna atvinnugreina, sem hafa hér meiri þýðingu en aðrar, og það tollfrelsi á innfluttum vélum, sem veitt er fyrir þessa verksmiðju, eins og veitt var fyrir niðursuðuverksmiðjurnar og fyrir raforkuverin, verði fordæmi, en ekki einsdæmi.

Í samningunum eru ákvæði um vinnuafl. Ef bera má saman við norsku samningana, þá eru þau miklu strangari hér en í þeim norsku. Þar stendur aðeins, ef ég man rétt, að Svisslendingar skuli leitast við að nota norskt vinnuafl. Þótt ekki standi strangari ákvæði í samningum þar, held ég, að það hafi ekki verið nema tveir eða þrír útlendingar við framkvæmdirnar í Husnes, þýzkir og svissneskir verkfræðingar.

Það er að sjálfsögðu ástæða fyrir Íslendinga að fara með fullri gát í innflutning vinnuafls. Er í þessum samningum þannig um það mál búið, að stjórnarvöld verða að hafa samráð við verkalýðsfélögin. Þetta er eitt af mörgum ákvæðum, þar sem ég tel, að skoðanir, sem fram komu í þingmannanefndinni, hafi orðið til þess, að hert voru þessi ákvæði. Ég tel, að þau séu eins viðunandi og verið getur.

Það má segja almennt, að óráð sé að flytja inn erlent verkafólk. Ég mundi ekki mæla með, að það yrði gert að almennri stefnu eða gert í stórum stíl. En á hinn bóginn skulum við ekki gleyma því, að við höfum gert þetta á undanförnum árum, sjálfum okkur til mikils hags. Við fluttum inn mörg hundruð þýzkar stúlkur til að vinna í sveitunum, og ég hef ekki heyrt, að okkur hafi stafað stórkostlegur háski af því. Kann að vera, að lífshamingja hafi aukizt örlítið á bæ og bæ. Við höfum, þegar okkur hefur riðið á, flutt inn á vertíðum á annað þúsund færeyska sjómenn. Við erum með mörg hundruð manns frá ýmsum löndum á hverri vertíð í frystihúsum og í síld. Þetta er ekki allt fyrirmyndar vinnuafl, ekki kemur mér til hugar að halda því fram, en það hefur hins vegar enginn maður haldið því fram, að þetta hafi verið óráð eða þjóðarháski.

Við erum að byggja eitt stærsta hótel landsins hér á flugvellinum. Mér skilst, að það hefði varla verið hugsanlegt með þeim hraða, sem þar hefur verið, án þess að fá til erlenda verkamenn. Reynslan af þessu öllu er að sjálfsögðu misjöfn. Hún er í mörgum atvikum góð, hún er í öðrum atvikum ekki eins góð. Við eigum ekki að halda uppi hrópum um, að þetta megi alls ekki gera, þó að við gerum það ár eftir ár. Við eigum að fara með fullkominni gát, og ég tel, að við séum menn til þess að stýra þessum málefnum þannig, að okkur stafi enginn háski af því, en að við getum á hinn bóginn haft af því nokkurn hag, þegar nauðsyn krefst.

Ræða hv. 5. þm. Austf., formanns þingflokks Alþb., gekk að mestu leyti út á að sanna, að ástæðan til þess, að ríkisstj. hefur snúið sér að þessu máli, sé, að stjórnin vantreysti sjávarútveginum og hafi ekki skilning á honum og möguleikum hans. Ég vil í heild mótmæla þessum skoðunum algjörlega. Hv. þm. talaði um það, að við hefðum dregið að okkur höndina varðandi sjávarútveginn. Nýlega hafa verið birtar heildarupplýsingar um það, hvað gerzt hefur í framkvæmdum fyrir sjávarútveg og fiskiðnað, síðan núv. ríkisstj. tók við völdum eða siðan núv. stjórnarflokkar tóku við völdum. Á 6—7 ára tímabili hefur fjárfesting í sjávarútvegi, þ. e. fiskveiðum og fiskvinnslu, numið 3158 millj. kr. Ég held, að það sé varla hægt að segja, að þetta sé að draga að sér höndina.

Á þessum fáu árum hefur fiskiflotinn aukizt um 20 þús. tonn. Ég held, að það sé milli 30 og 40%. Það hefði einhvern tíma ekki verið kallað að draga að sér höndina. Þessi aukning er fyrst og fremst á sviði stórra báta, en á árunum 1959—1965 bættust okkur 123 bátar, sem eru 100 tonn eða stærri. Og þeir hafa komið margir siðan. Þetta er varla að draga að sér höndina. Afkastageta frystihúsanna hefur á þessu tímabili aukizt úr rúmlega 1900 í 2500 tonn á hverjum 18 tímum. Bræðslugeta síldarverksmiðjanna hefur aukizt úr 70 þús. upp í 120 þús. mál á sólarhring. Kalla þeir þetta að draga að sér höndina fyrir austan? Þróarrýmið hefur aukizt úr 400 þús. málum í 700 þús. mál. Og afleiðingarnar hafa komið í ljós. Það hafa verið góð aflabrögð, sérstaklega á síld, eins og margoft hefur komið fram. En hefðum við getað hagnýtt þá möguleika, ef þessi gífurlega fjárfesting hefði ekki komið til skjalanna? Hefðum við getað aukið aflann úr 400 þús. tonnum í meira en milljón tonn á ári, ef þessi gífurlega fjárfesting og alveg sérstaklega þessi miklu bátakaup hefðu ekki á undan gengið?

Ef til vill kann einhver að segja: Það er ekki stjórninni að þakka, þó að útgerðarmenn kaupi sér báta. Það er nokkuð til í því. Allt fer þetta þó eftir því, hvernig landinu er stjórnað, og víst er, að einhvern tíma hef ég heyrt sjútvmrh. vinstri stjórnarinnar þakka sér og sinni stjórn, að töluvert var keypt af fiskibátum þá. Ef sú stjórn getur þakkað sér framfarir í sjávarútvegi, þá er ekki erfiðara að þakka núv. stjórnarflokkum þær gífurlegu breytingar, sem orðið hafa. Það er því hreinn og beinn þvættingur að tala um, að íslenzk stjórnarvöld hafi dregið að sér höndina varðandi sjávarútveginn. Það hefur aldrei verið eins mikil uppbygging í honum og á undanförnum árum, og það eru engin áform uppi um að draga úr þessari sókn, heldur er ástæða til að halda henni áfram. Það er rétt að taka eftir því, að álmálið er alit þannig upp sett, að við þurfum ekki að nota stórar upphæðir af því fjármagni, sem við ráðum sjálfir yfir eða getum ráðið yfir, til þeirra hluta, heldur er það óskert og getur gengið til áframhaldandi uppbyggingar í þeim atvinnuvegum, sem fyrir eru í landinu, eða til þess að byggja upp enn nýja atvinnuvegi, ef okkur sýnist svo.

Ég tel augljóst, að álbræðslan muni gera Íslendingum stórum hagkvæmara að virkja Þjórsá en ella mundi verða; að hún muni opna leiðir til nýrra virkjunarframkvæmda á komandi árum; að hún gengistryggi erlendu lánin, sem við tökum til næstu framkvæmda, og muni gera okkur kleift annaðhvort að ráðast í nýjar stórar framkvæmdir eða lækka raforkuverðið, þegar árin líða. Ég tel, að álbræðslan verði þýðingarmikil ný atvinnugrein, sem muni treysta stoðir íslenzkrar framleiðslu, veita atvinnu, örva viðskipti og auka gjaldeyristekjur. Ég tel, að álbræðslan muni færa nýja tækni inn í landið og hún muni hafa örvandi áhrif á allan iðnað og opna nýjar leiðir í þeim efnum, eins og fyrri skref okkar í áttina til stóriðju, t.d. sementsverksmiðja og áburðarverksmiðja, hafa gert. Ég tel, að það sé miður farið, að það var ekki hægt að reisa þessa verksmiðju í þeim landshlutum, sem þurfa sérstaklega á eflingu byggðar og atvinnulífs að halda, en að næstbezti kosturinn — kann að vera, að hann reynist engu síðri, þegar frá líður, — sé sá að beina fjármagninu, sem þessi verksmiðja greiðir, til atvinnuaukningar í þessum landshlutum.

Eins og ég gat um fyrr í máli mínu, eru möguleikar til þess að byggja upp stóriðju á ódýrari raforku ekki eins stórkostlegir og við höfum stundum haldið, eins og sjá má af því, hversu margir aðilar hafa kynnt sér aðstæður hér, en farið annað. l;g tel því, að í þessu máli felist tækifæri, sem við eigum ekki að láta fram hjá okkur fara. Ef við gerum þetta ekki nú, þá verður það sennilega aldrei gert. Eftir 10 ár eða svo verður kjarnorka komin til skjalanna í svo ríkum mæli, að hún getur veitt iðnaði raforku á því verði, sem hann þarf að fá, f öðrum löndum. Þá verða þessar verksmiðjur byggðar á markaðssvæðunum, en ekki langt frá þeim. Ég tel, að það hafi verið gengið frá þessum samningum á eins hagstæðan hátt og hægt er að búast við fyrir okkur Íslendinga, miðað við þær aðstæður, sem fyrir hendi eru. Við höfum leitað til innlendra og erlendra sérfræðinga, við höfum beitt sérfræðingum Alþjóðabankans á móti viðsemjendum okkar til frekara öryggis, af því að bankinn hefur hagsmuni af því, að við semjum ekki af okkur. Ég tel, að þannig sé um þessa hnúta búið, sem bezt verður á kosið, eins og sakir standa. Við getum að sjálfsögðu búizt við því, að í framtíðinni komi í ljós, að eitthvað hefði mátt vera öðruvísi. En ég hef ekki heyrt röksemdir um það á þessu stigi, og við getum ekki dæmt eftir öðru en því, sem við augum blasir eins og ástandið er í dag.

Alþfl. hefur tvívegis gert samþykktir varðandi þetta mál. Þetta eru raunhæfar samþykktir, þar sem viðurkenndir eru kostir og gallar á málinu. En endanlegt mat Alþfl. er, að í þessar framkvæmdir eigi að ráðast. Þess vegna styður flokkurinn frv., sem hér er til umræðu.