04.04.1966
Neðri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Með þessu frv., sem nú liggur fyrir á þskj. 434, hefur hæstv. ríkisstj. lagt óvenjulegt mál og raunar mjög umrætt fyrir Alþingi. Samþykkt þessa frv., ef gerð yrði. mundi hafa í för með sér stórfelldar framkvæmdir í landinu á næstu árum og fjárfestingu, sem á sér engin fordæmi hjá þessari þjóð á svo skömmum tíma. Ef stofnað væri til svo mikilla framkvæmda og svo mikillar fjárfestingar með eðlilegum hætti og í samræmi við þjóðarþörf, með þeirri fyrirhyggju, sem í hag kemur, væri áslæða til að fagna þessu frv. Það hefur lengi verið margra draumur í þessu landi að beizla orku hinna stóru fallvatna á þann hátt, að betur yrði tryggð framtíð þjóðarinnar, velmegun og sjálfstæði, að létt yrði með því erfiði af þeim, sem beitt hafa kröftum sínum til að byggja þetta land og varðveita á þann hátt sjálfstæði þjóðarinnar. En þetta mál, eins og það er fram borið, sýnist mér heldur ógæfusamlegt, því miður, og vil ég þegar við þessa umr. leitast við að finna þeim orðum stað, um leið og ég rek nokkur söguleg atriði, sem mér eru minnistæð og ég tel, að hljóti að varða ýmsa hv. þm. a.m.k. í sambandi við afstöðu til þessa máls. Ekki dreg ég í efa, að unnið hafi verið að þessu máli í góðri trú, en illt er, þegar þeim, sem með völdin fara, missýnist svo eða eru svo mislagðar hendur sem hér er raun á orðin að margra dómi og þ. á m. mínum.

Við Íslendingar eigum, eins og aðrar þjóðir, við mörg vandamál eða viðfangsefni að glíma. Sum eru dægurmál, önnur tímabundin, þó að þau geti, meðan við þau er fengizt, sett sinn svip á þjóðmálasviðið. Loks eru svo þau vandamál, sem varða framtíð þjóðarinnar og hljóta að verða viðfangsefni hennar um ókomin ár, svo langt sem séð verður eða lengur. Það eru þessi mál, sem mestu skipta og ættu fyrst og fremst að móta viðhorf manna á hverjum tíma. Það eru slík mál, sem ættu að skipa mönnum í sveitir í þjóðmálabaráttunni. En það er önnur saga.

Ég held, að þeim fari nú fjölgandi, sem viðurkenna, a.m.k. í orði, að það sé lífsnauðsyn íslenzku þjóðarinnar að byggja land sitt. Hvers vegna? Vegna þess fyrst og fremst, að þeir líta svo á, að ef þjóðin lætur landið verða óbyggt eða svo til, að miklu eða mestu leyti, geti hún ekki haldið sjálfstæði sínu, ekki haldið þjóðmenningu sinni. En það kemur ekki af sjálfu sér, að landið haldist í byggð. Blind þróun atvinnulífs, tækni og tízku tryggir það ekki, að svo verði, þvert á móti, hér er ár hvert letruð aðvörun á vegginn, ekki á ókennilegri, framandi tungu, eins og í Babýlon forðum, heldur í talandi tölum. Hér á spildunni milli Kollafjarðar og Straumsvíkur er í þann veginn að myndast stórborg, sem sogar með vaxandi krafti til sín fólkið úr öðrum landshlutum og ekki sízt þeim landshlutum, sem henni eru fjarlægastir. Það er henni ekki hollt, og það er þjóðinni ekki hollt. En þessi straumur verður ekkí stöðvaður og þaðan af siður snúið við, nema þjóðfélagið geri það, ekki nema þjóðfélagið sé sjáandi, þar sem hin köldu lögmál eru blind, og rétti fram sína máttugu hönd til að afstýra slysi, — slysi, sem valda mundi ævilokum lítillar þjóðar, sem hafa þó verið mikil örlög sköpuð fram til þessa dags.

Það var nefnt hér í umr. á laugardaginn, að á höfuðborgarsvæðinu milli Kollafjarðar og Straumsvíkur ættu nú heima rúml. 100 þús. manna, en rúml. 90 þús. samtals í öllum öðrum byggðum um allt Ísland. Slíkt ójafnvægi milli höfuðborgarsvæðis og annarrar landsbyggðar er ekki bara einsdæmi á Norðurlöndum eða í Vestur-Evrópu, heldur einsdæmi í veröldinni, að ég ætla. Í Danmörku eru 4.7 millj. íbúa, en þessi tala og þær, sem ég nefni hér á eftir, eru miðaðar við manntöl 1963 og 1964, — í Danmörku eru 4.7 millj. íbúa, í Stór-Kaupmannahöfn með öllum hennar útborgum, sem eru sérstök sveitarfélög, eru 1.4 millj. íbúa, og mun þetta dæmi vera einna næst því, sem hér á sér stað, en í Stór-Kaupmannahöfn búa samkv. þessu 28,5% af dönsku þjóðinni, og ég endurtek, að það er ekki aðeins sveitarfélagið Kaupmannahöfn sjálf, sem hér er talið, heldur allar útborgirnar, sem til hennar teljast, með sérstökum nöfnum og eru sérstök sveitarfélög. Það hefur oft verið talað um Austurríki, sem í núverandi mynd er eins og gengið var frá því eftir fyrri heimsstyrjöldina, og það hefur verið talað um stærð Vínarborgar í hlutfalli við landið sem sérstakt dæmi þess, að höfuðborg gæti verið allt of stór. Hvernig er nú þetta samanborið við ástandið hér? Í Austurríki eru 7.2 millj., íbúar í Vínarborg 2 milljónir. Íbúar Vínarborgar eru m.ö.o. 27.7% af íbúum Austurríkis. Samsvarandi tala hér á okkar höfuðborgarsvæði er nokkuð yfir 50% eða meira en helmingur af þjóðinni. Og það er hér eins og með Kaupmannahöfn. Hér er ekki aðeins talin Vín sjálf, heldur einnig útborgir hennar, sem eru sérstök sveitarfélög, til þess að það sé sambærilegt við þá tölu, sem hér hefur verið nefnd í umr. um höfuðborgarsvæði okkar. Íbúar í Noregi eru 3.7 millj., íbúar í Osló 550 þús. eða 15% af norsku þjóðinni. Íbúar í Svíþjóð eru 7.6 millj., íbúar Stokkhólms með útborgum 1.2 millj. eða 15.8% af sænsku þjóðinni. Íbúar í Finnlandi eru 4.6 millj., íbúar í Helsingsfors eða Helsinki ca. 560 þús. manns eða 12.2% af finnsku þjóðinni. Í öllum þessum tilfellum eru, eins og ég sagði áðan, útborgimar meðtaldar, þó að þær séu sérstök sveitarfélög, og því borgarsvæðin sambærileg við það, sem kölluð hefur verið Stór-Reykjavík.

Ég er einn þeirra nokkuð mörgu a.m.k., sem eru þeirrar skoðunar, að hér sé um að ræða eitt þeirra viðfangsefna þjóðfélagsins, sem mestu skipta, svo að ekki sé meira sagt, landsbyggðarvandamálið eða byggðajafnvægismálið, að þarna sé mikil hætta á ferðum fyrir þjóðarsjálfstæðið, að þarna sé viðfangsefni, sem þjóðin hljóti að fást við um langan tíma. Þess vegna höfum við, sem þessa skoðun höfum, m.a. viljað koma á fól sérstakri byggðajafnvægisstofnun og byggðajafnvægissjóði að hætti Norðmanna og höfum beitt okkur fyrir því hér á Alþingi. Þess vegna varð líka sú hugmynd til, að nota hina óbeizluðu orku hinna stærri fallvatna til að jafna áhallann milli landshlutanna, að svo miklu leyti sem það væri hægt á þann hátt. Ég veit, að það er ekki hægt að hefja sum héruð eða landshluta, t.d. Vestfirði, á þann hátt, en þar hygg ég þó vera um aðra möguleika að ræða, sem ekki eru á dagskrá að sinni. En Norður- og Austurland eru auðug að fallvötnum, og í óbyggðinni milli þessara landsfjórðunga er sjálfur Dettifoss, sem ég hef heyrt kallaðan mesta foss Evrópu. Það var hugsjón Dettifoss-hreyfingarinnar, sem ég leyfi mér að nefna svo, þó að fleiri fallvötn norðan fjalla, t.d. Laxá í Þingeyjarsýslu, komi einnig til greina, — það var hugsjón þeirrar hreyfingar að beizla orkuna í Dettifossi til þess að skapa gnægð orku, gnægð raforku um Norður- og Austurland eða sem mestan hluta þessara víðlendu landsfjórðunga og ef til vill víðar og koma upp í því sambandi nýjum atvinnulífsmiðstöðvum, tæknivirkjum, iðjuverum, sem gætu í þessum landshlutum hamlað á móti hinni miklu kraftblökk, sem nú erfiðar ár og síð við að keyra alla Íslendinga saman í eina stórborg. Með virkjun norðan fjalla töldu menn sig hafa í huga a.m.k. nokkurn hluta af lausn hins mikla byggðajafnvægismáls, skref í átt til þess að bjarga sjálfstæði framtíðarinnar úr yfirvofandi hættu og jafnframt þjóðhagslega hagkvæmt verk, því að um áratugi hefur það þótt liggja í augum uppi, þótt sumir þykist hafa reiknað út annað nú, að Dettifoss væri hagkvæmasta virkjunarfallvatn hér á landi. Vitanlega voru fyrirætlanirnar um virkjun Dettifoss frá öndverðu að verulegu leyti tengdar þeim hugmyndum, sem uppi voru fyrir löngu hér í landi um að stofna til þess; sem kölluð hefur verið stóriðja hér á landi, t.d. áburðarvinnslu, síðar alúminíumvinnslu o.fl., sem nefnt hefur verið í því sambandi og út af fyrir sig þarf ekki að blanda saman við hugmyndir um beina erlenda fjárfestingu og samninga við erlend fyrirtæki um þá hluti. Ég kem að því síðar.

Nú bið ég hv. alþm. að virða fyrir sér í svipsýn þá þróun, sem forgöngumenn Dettifosshreyfingarinnar hafa hugsað sér í þessum málum, og gefa því efni gaum, ef þeim sýnist svo, í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir. Suðvesturland á sín fallvötn og mest þeirra er Þjórsá. Orka hennar er talin mikil og hagkvæm til virkjunar fyrr eða síðar, en þó ekki óþrjótandi. Þarna er sjálf höfuðborgin sem notandi orkunnar og nokkrir stærstu kaupstaðirnir, nokkrar fjölmennustu sýslurnar, yfirgnæfandi meiri hluti af núverandi orkumarkaði landsins í stöðugum, nokkuð reglubundnum vexti, tvöfaldast eða því sem næst á hverjum áratug, þ.e. þessi orkumarkaður hér á Suðvesturlandi. Það er engum vandkvæðum bundið að virkja á Suðvesturlandi til almennra nota, smátt eða stórt, og fá hagkvæmt orkuverð til neytenda. Það er mál út af fyrir sig, leysanlegt fyrir 30 árum við Sog, auðleysanlegt nú, og samir ekki að mæla því í gegn. Til þess þarf ekki neinar sérstakar stóriðjuráðstafanir nú, enda líklegt og líkur að því færðar af ýmsum fyrr og síðar, að Suðvesturlandi veiti ekki af sínu vatnsafli, þegar stundir liða, og hlálegt yrði þá óneitanlega, ef flytja þyrfti þangað aflið frá hnignandi byggðum norðan fjalla. En norðanlands og austan er öðru máli að gegna. Orkumarkaðurinn þar er nú ekki nema brot af því, sem hann er hér syðra, og hinar reglulegu vaxtarlíkur að sama skapi lágar. Hér gat iðjuver komið að liði, verið nauðsynlegt til að gera að veruleika stóræskilega, lífsnauðsynlega framkvæmd. Þetta sýndist bara heilbrigð skynsemi, að vísu ekki nákvæmlega útreiknað, en byggt á yfirgnæfandi náttúrlegum líkum. Þetta sjónarmið virtist okkur byggt á réttsýni. Menn eygðu þá von, að óheillaöflum yrði ekki látið haldast uppi að spilla þessu máli og eyða því.

Nú vilja menn kannske spyrja mig og aðra talsmenn norðlenzkrar stórvirkjunar, hvernig við höfum ætlað okkur að koma upp iðjuveri eða iðjuverum með raforku úr okkar virkjun og henni til stuðnings og hvenær? Við höfum ekki borið fram kröfur um, að slíkri virkjun yrði hraðað, að í því máli yrði farið á eins konar handahlaupum. Við vildum fá rannsókn og fullnaðaráætlun og að því yrði slegið föstu, að fyrsta stórvirkjun með iðjuver fyrir augum yrði norðan fjalla. Við vissum, að slík ákvörðun út af fyrir sig mundi hafa áhrif á framtíðarvonir manna og framtíðaráætlanir. Við höfðum mörg trú á því, að það mundi sýna sig, að hægt væri að byggja hér upp með útvegun erlends fjármagns á svipuðum grundvelli og hér hefur tíðkazt eða á svipuðum grundvelli og ráðgert er nú að byggja kísilgúrverksmiðju. Ég vil ekki gera allt að mínum orðum, sem sagt hefur verið um hættuna af beinni erlendri fjárfestingu, og ég hef ekki lokað augunum fyrir því, sem aðrar þjóðir, að vísu allar stærri en við Íslendingar, hafa gert í þessum efnum. Ég hef aldrei talið mér trú um, að hér yrði nein ös af útlendum fyrirtækjum, sem vildu byggja iðjuver, og við gætum svo valið einn úr af náð og sagt honum að ganga að öllu, sem okkur kynni að detta í hug að óska eftir. En þá varð mér ekki um sel, þegar ég heyrði, að við værum komnir í kapp við Norðmenn um að bjóða niður orkuverðið o.fl., eins og hér var minnzt á sérstaklega í umr. af hv. 5. þm. Vesturl., að gert hefði verið, og þar með staðfest. Ég held, að samningstíminn hafi ekki verið hagkvæmur. En sleppum því. Mín skoðun er sú, að komu útlends fyrirtækis inn í landið fylgi áhætta og hún ekki lítil, ef um stórfyrirtæki er að ræða. Ég þarf ekki að útlista það nánar, það hefur verið gert. Hin almenna regla á að mínum dómi að vera sú — og hún sjálfsögð — að taka ekki þessa áhættu. Íslenzkt spakmæli segir þó, að engin regla sé án undantekningar. Góður læknir hefur þá reglu að geta manni ekki inn lyf, sem vitað er, að getur teflt heilsu hans í hættu. En þegar lífið er í veði, eru einstaka sinnum gefin slík lyf, og algengt er, að þau bjargi því lífi, sem ella hefði slokknað. Það er gert með allri þeirri varúð, sem mannleg vizka, skulum við segja, ræður yfir. Ef framtíð landsbyggðarinnar og þar með tilvera þjóðarinnar er í veði, getur, ef ekki er annars kostur, komið til greina að taka áhættu, sem undir öllum öðrum kringumstæðum er ástæðulaust og óforsvaranlegt að taka. Og ég vil þá í þessu sambandi nota tækifærið til að segja það strax, að í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, er að mínum dómi engin frambærileg ástæða til að taka þessa áhættu. Þvert á móti, því að ef alúminíumverksmiðja verður byggð í Straumsvík, eykur það þann vanda, sem íslenzkt þjóðfélag á við að glíma í byggðajafnvægismálinu, en minnkar hann ekki. Hér er áhættan tekin, þó að hún auki þá hættu, sem yfir vofir. Sú læknislist er slæm, og betra væri þá þessu þjóðfélagi að vera læknislaust.**** 2 umf.

Ég talaði áðan um Dettifosshreyfinguna, sem ég nefndi svo. Vera má, að einhverjir hv. þm. átti sig ekki fullkomlega á því, hvað ég á hér við, að þeir séu búnir að gleyma ýmsu í því sambandi. Því mun ég nú fara nokkrum orðum um það mál og hverf þá nokkur ár aftur í tímann, áður en ég kem aftur að síðustu tíma þróun þess máls og samningunum við Swiss Aluminium um alúmín- eða álverksmiðju í Straumsvík.

Ég hef áður úr þessum ræðustól fyrir nokkrum árum rætt nokkuð um hið fræga fallvatn Jökulsá á Fjöllum. Ég skal ekki endurtaka neitt af því, sem ég sagði þá. En Þorvaldur Thoroddsen, sem manna bezt kunni á sínum tíma að lýsa landi sínu, ræðir í Íslandslýsingu sinni á þessa leið um Jökulsá:

„Því nær allt það vatn, sem fellur út í Axarfjörð, safnast saman í eina mikla móðu, Jökulsá á Fjöllum eða í Axarfirði. Hún er ein af helztu stórám landsins, sprettur upp í Vatnajökli, er 25 mílur á lengd“ (þ.e.a.s. danskar mílur, þetta er skrifað fyrir mörgum áratugum) „og rennur um jafnhallandi öræfaflatneskju og óbyggðir, unz hún fellur niður í gljúfrin fyrir neðan Dettifoss.

Jökulsá kemur upp í krikanum milli Kverkfjalla og Dyngjujökuls 2500 fet yfir sæ og er þar þegar vatnsmikil. Nokkru neðar á söndunum falla í hana smákvíslar undan Dyngjujökli. Fellur hún á einum stað hjá Kverkhnjúkarana í kvíslum. Síðan fellur Jökulsá norður og lítið eitt veslur á við, en rekur sig á fjallbungu þá, sem heitir Vaðalda, og beygir þá austur á bóginn. Þar fellur í hana Svartá, stutt, en vatnsmikil bergvatnslind. Á vorin í leysingum falla að öllum líkindum kvislar úr Dyngjuvatni í Jökulsá fyrir norðan Vaðöldu. Á móts við Herðubreið, þó heldur norðar, fellur Kreppa í ána. Er það mikið vatnsfall. hér um bil eins stórt og Jökulsá sjálf. Hún er 10 mílur á lengd, kemur undan vestanverðum Brúarjökli austan við Kverkfjöll, og rennur Kverká undan sama jökli í hana þar efra. Hjá Hvannalindum rennur Kreppa í mörgum kvíslum. Norður af Herðubreið renna vestan við Jökulsá Lindá og Grafarlandaá. Þær myndast af uppsprettum undan hraunum og renna sín hvorum megin við Ferjufjall og Jökulsá. Að austanverðu rennur í hana Skarðsá af Möðrudalsfjöllum og Hólselskill af Hólsfjöllum. Annars er ekki sýnilegt aðrennsli Jökulsár niður til ósa, en sjálfsagt rennur í hana mikið lindarvatn undir blágrýtis- og grágrýtishraunum þeim, sem að henni liggja.

Jökulsá rennur um jafnt hallandi hásléttu alla leið niður að Dettifossi. Þar er hæðin 970 fet yfir sjó. Áin steypist niður í 400 feta djúpt gljúfur, sem er um 3 mílur að lengd, og streymir hvítfyssandi á gljúfurbotninum með miklum hávaða og smáfossum, unz hún kemur fram úr hálendisröndinni hjá Ási í Kelduhverfi, og þar er hæðin rúm 100 fet yfir sjó.“

Í þessari náttúrulýsingu Þorvalds Thoroddsens kemur fram glögg mynd af hinu mikla fallvatni. Nú vil ég rifja það upp, að veturinn 1959–1960 var flutt hér á hinu háa Alþ. till. til þál. um fullnaðaráætlun um virkjun Jökulsár á Fjöllum og um athugun framleiðslumöguleika í sambandi við virkjunina. Að flutningi þessarar till. stóðum við í öndverðu, sem verið höfðum þm. þeirra héraða, sem eiga land að Jökulsá, og meðflm. okkar var þáv. hv. 4. þm. Norðurl. e., Garðar heitinn Halldórsson, sá mæti maður. Till. þessi var þá ekki flutt á vegum þess flokks, sem við teljumst til. En hún hljóðaði svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að gerð verði fullnaðaráætlun um virkjun Jökulsár á Fjöllum og í öðru lagi að láta athuga möguleika til þess að koma upp framleiðslu á útflutningsvörum í sambandi við virkjunina.“

Þessari till. var þá vísað til n. Skilað var nál., og mælti minni hl. n. með samþykkt till., en nokkurt andóf kom fram frá meiri hl., sem vildi láta vísa málinu til stjórnarinnar, eins og títt er, en málið varð ekki útrætt á því þingi. Á næsta þingi, 1960–1961, gerðist svo það, að flutt var önnur till. til þál. um þessi efni. Flm. hennar voru 7 talsins úr Norðurl. e., kjörnir þm. og landsk. þm., sem þaðan voru upprunnir. Auk mín voru þessir flm.: Jónas G. Rafnar, Karl Kristjánsson, Garðar Halldórsson, Björn Jónsson, Magnús Jónsson og Bjartmar Guðmundsson. Þessi till. var samþ. á Alþ. sem ályktun Alþ. hinn 22. marz 1961, um að „undirbúa virkjun Jökulsár á Fjöllum til stóriðju“ og hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta hraða gerð fullnaðaráætlunar um virkjun Jökulsár á Fjöllum og athugun á hagnýtingu orkunnar til framleiðslu á útflutningsvöru og úrræðum til fjáröflunar í því sambandi.“

Þetta voru þær till., sem fram komu á Alþ. varðandi Dettifossvirkjun á árunum 1959–1961, og þannig var ályktun Alþ. um það mál hinn 22. marz 1961. En ég talaði áðan um hreyfingu í sambandi við þetta mál, sem ég leyfði mér að kalla Dettifosshreyfingu. Sú hreyfing var nokkuð víðtæk um Norður- og Austurland og kom fram í fundarhöldum um þessi mál og ályktunum, sem ýmiss konar fundir, er kvaddir voru saman af öðrum tilefnum, gerðu einnig um málið.

Hin fyrsta ályktun, sem ég hef í höndum frá þessum tíma um þessi mál, var gerð á fjórðungsþingi Norðlendinga, sem haldið var á Húsavík dagana 11.–12. júní 1960, og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjórðungsþing Norðlendinga, haldið í Húsavík 11. og 12. júní 1960, leyfir sér að skora á yfirstjórn raforkumála ríkisins að láta svo fljótt sem verða má ljúka fullnaðaráætlun um virkjun Jökulsár á Fjöllum og jafnframt athuga möguleika á að koma upp stóriðju til framleiðslu á útflutningsvörum í sambandi við virkjunina. Telur fjórðungsþingið, að virkjun Jökulsár, ef fullnaðaráætlun leiðir í ljós, að hún sé hagfelld, svo sem líkur virðast benda til, eigi að ganga á undan virkjun sunnlenzkra vatna til stóriðju vegna nauðsynjar þeirrar, sem á því er að efla jafnvægi í byggð landsins.“

Sýslunefnd Norður-Þingeyjarsýslu gerði 20. júlí 1960 svo ályktun, með leyfi forseta: „Sýslunefnd Norður-Þingeyjarsýslu ályktar að lýsa yfir því, að hún telur mjög mikilsvert, að lokið verði sem fyrst áætlun um virkjun Jökulsár í Axarfirði og athugun á möguleikum til iðnaðar í því sambandi. Jafnframt fer hún þess á leit við alla fulltrúa Norðurlands á Alþ. að vinna að því af alefli, að virkjun Jökulsár verði næsta stórvirkjunin, sem ráðizt verður í hér á landi.“

Sýslunefnd Suður-Þingeyjarsýslu ályktaði á fundi sínum 25.—28. apríl 1961, með leyfi hæstv. forseta: „Sýslufundur Suður-Þingeyjarsýslu, haldinn í Húsavík dagana 25.—28. apríl 1961, lætur í Ijós ánægju sína yfir viðurkenningu Alþ. á nauðsyn skjótrar og fullkominnar áætlunar um virkjun Jökulsár á Fjöllum. Jafnframt lýsir fundurinn því yfir, að hann telur stórvirkjun Jökulsár og iðnaðarstöðvar í sambandi við hana þýðingarmesta umbótamál Norðausturlands og aðliggjandi héraða.“

Þá kom að því, að sameiginlegur fundur sveitarstjórna Norður- og Suður-Þingeyinga, sem haldinn var í Húsavík 24. sept. 1961 um þetta mál, gerði um það ályktun. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sameiginlegur fundur Norður- og Suður-Þingeyjarsýslna og bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar, boðaður af sýslumanni þessara héraða og bæjarstjóranum á Húsavík, haldinn í samkomuhúsi Húsavikur sunnudaginn 24. sept. 1961, lýsir yfir því, að hann telur eitt allra þýðingarmesta viðfangsefni og skyldu þjóðfélagsins að leitast við að koma í veg fyrir ósamræmi milli landshluta í afkomuskilyrðum þegnanna. Lítur fundurinn svo á, að miklir áframhaldandi flutningar fólks til búsetu í þéttbýlinu, sem myndazt hefur við Faxaflóa eða í grennd, stofni til þjóðhagslegra erfiðleika í stórum stíl og hlutfallslega því meiri erfiðleika, sem sú þróun á sér lengur stað. Þetta telur fundurinn, að hafa beri í huga við allar nýjar, stórar þjóðfélagslegar atvinnulífsframkvæmdir nú eftirleiðis og yfirleitt um hvers konar stuðning hins opinbera við alvinnulífið í landinu. Komi þá ekki sízt til greina, að framkvæmdir séu gerðar í þeirri röð, sem heppilegust er til jafnvægis, að því er búsetuna snertir. Fundurinn bendir á, að atvinnulíf á Norður- og Norðausturlandi vantar mótvægiskraft gegn aðdráttarafli atvinnustöðvanna syðra. Hefur þess vegna hugmyndinni um virkjun Jökulsár á Fjöllum fyrst íslenzkra fallvatna til stóriðju verið fagnað hér um slóðir sem heppilegri jafnvægisframkvæmd, er nauðsyn líðandi stundar kallar eftir. Út af því sjónarmiði, sem til mun vera, að virkjun Þjórsár eigi að ganga á undan virkjun Jökulsár á Fjöllum vegna fólksfjölda, sem þegar er búsettur syðra, og þeirra mörgu, sem þangað flytjast árlega, jafnvel þótt Þjórsárvirkjun yrði fyrirsjáanlega óhagkvæmari til stóriðju, leggur fundurinn áherzlu á, að sú skoðun er byggð á öfugum forsendum. Fundurinn telur hiklaust, að þegar á allt er litið, muni þjóðhagslega réttara, að virkjun Jökulsár verði gerð á undan virkjun Þjórsár til stóriðju, jafnvel þó að orka Þjórsár reynist samkv. áætlun ekki dýrari en Jökulsár.“ — Þegar þessi ályktun er gerð, er það sennilega álit manna, að ekki komi til greina að virkja Þjórsá til almennra nota hér á Suðurlandi, heldur muni önnur fallvötn og minni verða valin til þess. — „Með skírskotun til þess, er að framan greinir, tekur fundurinn einhuga undir ályktun síðasta Alþ., sem skoraði á ríkisstj. að láta hraða gerð fullnaðaráætlunar um virkjun Jökulsár á Fjöllum og athugunum á hagnýtingu orkunnar til framleiðslu á útflutningsvörum og úrræðum til fjáröflunar í því sambandi. Fundurinn lýsir yfir þakklæti til Alþ. fyrir þá ályktun og treystir, að þeir þm., sem fluttu þá till., fylgi málinu fast eftir.“

Hinn 19. febr. 1962 var fundur haldinn í Bændafélagi Fljótsdalshéraðs, og var sá fundur haldinn í Egilsstaðakauptúni. Þar er samþ. ályktun, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta; og þar með eru Austfirðingar komnir til sögunnar:

„Fundurinn telur það afgerandi nauðsyn fyrir fólk í öllum byggðum Norður- og Austurlands, að Jökulsá á Fjöllum verði valin til næstu stórvirkjunar í landinu, þegar til þess kemur. Telur fundurinn, að atvinna og stóriðnaður, sem fylgir slíkum framkvæmdum, mundi öðru fremur jafna aðstöðuna í byggðum landsins og flestu öðru fremur vinna á móti þeirri þróun, sem alþjóð hefur viðurkennt, að sé óheppileg, að meiri hluti þjóðarinnar safnist á eitt horn landsins, þar sem ein stórvirkjun á Suðurlandi mundi örva þá þróun. Fyrir því skorar fundurinn á alla þm. kjördæmanna á Norður- og Austurlandi að vinna að því að skapa órjúfandi samstöðu fólksins um þessi svæði til að standa vörð um þetta réttlætis- og hagsmunamál. Í þessu sambandi vill fundurinn benda á sem heppilega leið til að ná samstöðu í málinu, að komið verði á fulltrúafundi sveitarfélaganna á þessu svæði til að samræma sjónarmiðin, og beinir því til þm., að þeir gangist fyrir því, að slíkur fundur verði haldinn.“ Þetta gerðist á Egilsstöðum á Fljótsdalshéraði hinn 19. febr. 1962.

Þegar hér kom, fór að draga til nýrra tíðinda hér á hinu háa Alþ. af völdum þessarar hreyfingar, sem menn þá þóttust greinilega verða varir við. Það var boðað til fundar hér í alþingishúsinu hinn 17. apríl 1962 um virkjun Jökulsár á Fjöllum. Að þessum fundi stóð allur sá hluti þingheims, sem í þann tíð rakti þingsetu sína til atkv. í kjördæmunum þrem í þessum tveim landsfjórðungum. Fundinn hafa setið samkv. fundargerðinni, sem ég hef hér í höndum, þessir alþm.: Björn Jónsson, Eysteinn Jónsson, Friðjón Skarphéðinsson, Gísli Guðmundsson, Guðjón Jósefsson, Gunnar Jóhannsson, Halldór Ásgrímsson, Ingvar Gíslason, Jón Pálmason, Jónas G. Rafnar, Kari Kristjánsson, Magnús Jónsson, Ólafur Jóhannesson, Páll Þorsteinsson og Skúli Guðmundsson, en bókað er, að 5 þm. hafi verið fjarverandi vegna forfalla af 20, sem að þessum fundi stóðu. Þá var sú hreyfing. sem ég leyfi mér að kalla Dettifosshreyfingu, þó að það mætti kannske orða öðruvísi, komin á þetta stig. Á þessum fundi var ákveðið á vegum þessara 20 þm. á Norður- og Austurlandi að boða til fundar allra þessara þm. og fulltrúa frá öllum bæjarstjórnum og sýslunefndum á Norður- og Austurlandi. Sá fundur var haldinn á Akureyri, fundur 16 bæjarstjórna og sýslunefnda í Norðlendinga- og Austfirðingafjórðungi, hinn 8. júlí 1962. Til þessa fundar bárust orðsendingar enn til viðbótar við þær, sem ég hef áður lesið. Ein frá sýslunefnd Skagafjarðarsýslu hafði verið samþ. á sýslufundi þar 4.–12. maí um vorið og hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sýslunefnd Skagafjarðarsýslu telur háska búinn samfelldri byggð í landinu, ef fjárfrekar stofnframkvæmdir, sem ríkið stendur nú að, svo sem stórvirkjanir fallvatna til orkuvinnslu, eru staðsettar hlið við hlið í einum og sama landsfjórðungi, þar sem þéttbýlið er mest, enda bersýnilegt, að slíkar ráðstafanir muni enn auka stórum á það misræmi í byggð lands og notkun landsgæða, sem þegar er ærið orðið og kann að stefna til ófarnaðar, áður en varir. Fyrir því ályktar sýslunefndin að beina þeirri eindregnu áskorun til yfirstjórnar raforkumála, að hún taki þegar ákvörðun um, að virkjun Jökulsár á Fjöllum skuli ganga fyrir öðrum stórvirkjunum, jafnvel þótt nokkru meira þyrfti til að kosta, enda verði undirbúningur allur og áætlanir miðaðar við það.“

Aðalfundur Sambands austfirzkra kvenna, haldinn á Seyðisfirði 1.–2. júli eða rétt fyrir Akureyrarfundinn, sendi þessa ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Í tilefni fundar um væntanlega stórvirkjun á Íslandi, sem haldinn verður á Akureyri 8. júlí n.k., vill aðalfundur Sambands austfirzkra kvenna lýsa yfir, að hann styður þá skoðun og er samþykkur þeim rökum, sem færð hafa verið fyrir því, að slíka virkjun beri frekar að staðsetja við Jökulsá á Fjöllum en við Þjórsá. Fundurinn álítur þetta svo mikilsvert atriði fyrir framtið byggðanna á Norður- og Austurlandi, að hann telur sér skylt að vinna að því, að konur á Austurlandi ljái þessu máli lið eftir beztu getu.“

Svo kom að því, að Akureyrarfundurinn, fundur hinna 20 þm. og 16 bæjarstjórna og sýslunefna. gerði sína ályktun, og rétt er, að hún fylgi hinum. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundur fulltrúa frá sýslunefndum og bæjarstjórnum á Norður- og Austurlandi, þar sem einnig eru mættir alþm. þessara landsfjórðunga, haldinn á Akureyri 8. júlí 1962, lýsir yfir því, að hann treystir því og leggur á það áherzlu, að framkvæmdur verði á þessu ári yfirlýstur vilji Alþ. samkv. þál. 22. marz 1961, þar sem skorað var á ríkisstj. að láta hraða gerð fullnaðaráætlunar um virkjun Jökulsár á Fjöllum og athugun á hagnýtingu orkunnar til framleiðslu á útflutningsvörum og úrræðum til fjáröflunar í því sambandi. Krefst fundurinn þess, að framkvæmd þingviljans, sem kemur fram í þáltill., verði látin sitja fyrir undirbúningsathöfnum annars staðar af sama tagi, enda verði ekki tekin ákvörðun um staðsetningu slórvirkjunar í landinu, fyrr en þessar áætlanir eru fullgerðar. Fundurinn leggur ríka áherzlu á eftirfarandi: Að það er þjóðarnauðsyn að beizla sem fyrst fallvötn landsins til eflingar útflutningsframleiðslu þjóðarinnar. Það er hagsmunamál allrar þjóðarinnar, að hugsanleg stóriðjuver leiði ekki til enn meira ósamræmis í atvinnu- og framleiðsluaðstöðu einstakra landshluta, heldur verði til þess að jafna aðstöðu þeirra. Jafnframt telur fundurinn nauðsynlegt, að fram fari ýtarleg, sérfræðileg athugun á því, hver áhrif slik stórvirkjun og stóriðja tengd henni mundi hafa á þróun þeirra atvinnugreina, sem fyrir eru í landinu. Að virkjun Jökulsár á Fjöllum og bygging iðjuvera til hagnýtingar þeirri orku er í senn hin mikilvægasta ráðstöfun til atvinnu- og framleiðsluaukningar í landinu og áhrifamikið úrræði til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Að virkjun Jökulsár mundi jafnframt fullnægja raforkuþörf Norðurlands og Austurlands og verða ómetanleg lyftistöng fyrir ýmiss konar iðnað og framleiðslu, sem þarfnast raforku. Að bráðabirgðarannsóknir hafa ótvírætt bent til þess, að umrædd virkjun geti veitt raforku til stóriðju á samkeppnisfæru verði. Fundurinn skorar á Alþ. og ríkisstj. að taka til greina í þessu stórmáli rök þau, sem fram koma í ályktun þessari. Samhliða heitir fundurinn á fólk allt á Norður- og Austurlandi að mynda órjúfandi samstöðu í þessu máli og fylgja því fram til sigurs með fullri einurð og atorku“.

Þetta var sú ályktun, sem fundur sýslunefnda og bæjarstjórna og alþm. á Norður- og Austurlandi gerði á Akureyri hinn 8. júli 1962. Vera má, að ég komi aftur að þessu fundarhaldi og því, sem gerðist á þessum fundi, í öðru sambandi, en ályktun fundarins hef ég látið fylgja öðrum röddum um þetta mál, sem fram komu á sínum tíma.

Enn líður nokkur tími, og mikið vatn rennur til sjávar, eins og tízka er að orða það um þessar mundir. Þá kom bæjarstjórn Akureyrar saman á fund, og þar var flutt till. um þessi mál, stórvirkjun og stóriðjumál. Flm. þessarar till., eins og hún kom fram í öndverðu í bæjarstjórninni, voru tveir bæjarfulltrúar, kunnir menn þar um slóðir og víðar, Árni Jónsson og Bragi Sigurjónsson. Þessari till. þeirra vísaði bæjarstjórnin á Akureyri til bæjarráðsins, og var gerð nokkur breyting á till. þeirra, að ég ætla, en þegar hún kom þaðan aftur, var hún tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar 10. nóv. 1964 og samþ. svo hljóðandi með, að mig minnir, 10 atkv. af 11 í bæjarstjórninni:

„Bæjarstjórn Akureyrar lætur í ljós eindreginn áhuga sinn á því, að næsta stórvirkjun fallvatns hér á landi verði staðsett á Norðurlandi, og bendir í því sambandi á áætlanir þær, sem nú nýlega eru fram komnar um virkjun Laxár.“— Það hafði sem sé gerzt á þessum tíma, sem liðinn var, að allýtarlegar viðbótaráætlanir höfðu verið gerðar um virkjun Laxár, svo að hún var einnig komin í þessa mynd um virkjun norðan fjalla. — „Einnig verði stóriðja, sem stofnað verður til í sambandi við orku frá vatnsvirkjun, staðsett við Eyjafjörð. Telur bæjarstjórnin, að með slíkri staðsetningu stórvirkjunar og stóriðju væri unnið að nauðsynlegu jafnvægi í byggð landsins.“

Þetta var samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar um þessi mál hinn 10. nóv. 1964.

Nú mun ég ekki lesa fleiri af þessum till., ekki láta hér heyrast fleiri raddir frá þeirri hreyfingu, sem hér var um að ræða. En ég var síðast staddur við árið 1964, í nóvember, þegar bæjarstjórn Akureyrar gerði ályktun sína. Nú vil ég enn hverfa nokkuð aftur í tímann, til þess tíma, er ég nefndi áðan, þegar fundur alþm., sýslunefnda og bæjarstjórna var haldinn á Akureyri hinn 8. júlí 1962. Þessi fundur var, eins og ég gat um áðan, til þess boðaður að ræða um virkjun Jökulsár á Fjöllum. Sérstök undirbúningsnefnd vann að því að undirbúa fundinn, og með hennar vitund og í samráði við hana mættu á fundinum formaður stóriðjunefndar, sem ýmsir fréttu þá nú af í fyrsta sinn, þótt hún hefði reyndar verið skipuð árið áður, að ég ætla, og raforkumálastjóri. Þessir mætu menn fluttu mjög fróðleg erindi í upphafi þessa fundar, en efni þessara erinda kom þorra fundarmanna raunar nokkuð á óvart. Þess hafði verið vænzt, að raforkumálastjóri mundi útlista fyrir mönnum rannsóknir þær, er framkvæmdar höfðu verið samkv. þál. um virkjun Jökulsár á Fjöllum, og að stóriðjunefndarformaðurinn mundi gera mönnum grein fyrir þeim möguleikum, sennilega þó lauslega á þessu stigi, sem hugsanlegir kynnu að vera, a.m.k. fræðilega, til hagnýtingar á orkunni frá Jökulsá í sambandi við iðjuver. En þegar til kom, var efni þessara erinda raunar nokkuð annað. Það var ekki svo ákaflega mikið talað um Jökulsá út af fyrir sig, heldur var þar rætt allt annað og víðtækara mál. Það voru fluttar grg. og lesnar upp margar tölur um samanburð, sem hefði verið gerður af sérfræðingum á því, hvort hagkvæmara væri að virkja Þjórsá eða Jökulsá. Um þetta var raunar ekki verið að spyrja af þeim yfirleitt, sem þennan fund sóttu, þó að auðvitað væri mjög fróðlegt að fá þessar upplýsingar. En af ræðum og upplýsingum þessara fróðu manna kom fram í fyrsta sinn sú ja, nú er vandi að velja orðin, — sú aðferð, sem höfð hefur verið í þessum málum, að draga úr áhuga manna á virkjun á Norðurlandi með því að sýna fram á það með tölum, að einhver önnur virkjun einhvers staðar annars staðar á landinu væri ódýrari. Þessi erindi raforkumálastjórans og stóriðjunefndarformannsins voru flutt á fræðilegum grundvelli, og skal ég ekki setja út á þær tölur og upplýsingat, sem þar lágu fyrir. En á grundvelli þessara erinda og á grundvelli þessara talna hefur alla tíð, síðan þessi erindi voru flutt, verið rekinn af máttarvöldum í þessu máli áróður gegn Dettifossvirkjun eða norðlenzkri virkjun með samanburðarkenningunni, með því að halda því að mönnum, að hvað sem þessum fyrirætlunum um Dettifossvirkjun líði, komi hún ekki til greina, því að önnur virkjun sé ódýrari. Þannig hefur mikill áróður verið rekinn. Ég kem að því nánar síðar.

En var það þá svo, að við, sem stóðum að flutningi till. á Alþ. 1959–1961, og þeir, sem komu saman til funda viða norðanlands og austan á þessum árum til þess að gera ályktanir um virkjun Dettifoss, — var það þá svo, að við og þeir hefðum ástæðu til þess að álíta Dettifossvirkjun hagkvæma, aðra en þá, að Einar Benediktsson hafði ort um hana á sínum tíma frægt kvæði og að hann var talinn mesti foss Evrópu? Höfðum við þá ekki aðrar ástæður? Þær ætla ég, að við höfum haft.

Ég vil byrja á að segja frá því hér, að árið 1957, áður en menn fóru að togast á um þessi mál, deila um þessi mál, reikna það út, hvort eitt virkjunarfallvatnið væri ódýrara en annað, hafði verið gerð lausleg verkfræðileg athugun um virkjun nokkurra fallvatna hér á landi, af verkfræðingi, sem kunnur er fyrir þekkingu sína og störf, íslenzkum verkfræðingi á vegum raforkumálastjórnarinnar. Þessi áætlun, sem að sjálfsögðu var mjög lausleg og ekki lá mikil vinna á bak við, hafði þann kost, að hún var gerð fyrir þann tíma, er deilur hófust um þessi mál, sem e.t.v. mátti gera ráð fyrir, að hefðu einhver áhrif á það hugarfar, sem til staðar er, þegar að slíkum málum er unnið, á andrúmsloftið, ef svo mætti segja. Þessi athugun fjallaði um, að ég ætla, þrjár virkjanir í Þjórsá og þrjár virkjanir á Norðurlandi, á ákveðnum stöðum. Ein virkjunin var samkv. þessari að vísu svo mjög lauslegu athugun langódýrust á kw. Það var virkjun Dettifoss. Þetta var okkur nokkuð kunnugt um, þegar við fluttum till. okkar hér á Alþ. a.m.k.

Árið 1960, eftir að flutt hafði verið fyrri till. um virkjun Dettifoss og hún hafði verið send fjvn. til meðferðar, sendi n. hana, eins og lög gera ráð fyrir, til umsagnar raforkumálastjóra. Umsögn raforkumálastjóra er dags. 6. maí 1960. Um Jökulsá segir þar m.a., að þar hafi nokkur undanfarin ár verið unnið að rannsókn og áætlanagerðum um virkjun Dettifoss og Vigabergsfoss, og svo segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „l. áfanga þessarar áætlanagerðar er lokið og talið, að hann hafi leitt í ljós, að úr Jökulsá megi vinna raforku á svipuðu kostnaðarverði og stóriðjuver svo sem alúminíumverksmiðjur greiða fyrir orkuna viða erlendis.“ Þetta var umsögn raforkumálastjóra í skjali, sem hér er í vörzlu þingsins, á árinu 1960, þegar rannsóknir voru að vísu ekki orðnar eins miklar og nú, en þegar ágreiningur manna um þessi mál í sambandi við stóriðju var heldur ekki til staðar á sama hátt og siðar. En þær rannsóknir, sem raforkumálastjóri talar um og ég gat um áðan í sambandi við Dettifoss, voru athuganir, sem fram fóru á virkjunarskilyrðum Jökulsár snemma á 6. áratug þessarar aldar, þ.e.a.s. nokkru eftir 1950, og voru því í rauninni á undan þeim rannsóknum, sem gerðar voru við Þjórsá.

Hefur það þá komið fram síðar, að Dettifoss sé óhagkvæmur til stóriðju? Hefur það komið fram, að við, sem vorum talsmenn þessa máls innan þings og utan, höfum síðar haft ástæðu til þess að endurskoða afstöðu okkar til þessara mála eða réttara sagt, að telja, að leitt hafi verið í ljós, að það sé ekki rétt, sem raforkumálastjóri taldi líklegt hinn 6. maí 1960, að úr Jökulsá megi vinna raforku á svipuðu kostnaðarverði og stóriðjuver svo sem alúminíumverksmiðjur greiða fyrir orkuna víða erlendis? Hefur komið fram síðar, að þetta sé ekki rétt? Vel gæti það verið.

Ég segi og veit og segi það eitt, sem ég hygg, að rétt sé, að þetta hafi ekki komið fram. Ég tel ekki, að þetta hafi komið fram, þó að e.t.v. sé hægt að sýna fram á það með tölfræðilegum líkum, að eitthvert annað vatnsfall kunni að vera eitthvað ódýrara í virkjun. Um það hefur aldrei verið nauðsynlegt að spyrja í þessu sambandi, heldur hitt, hvort hið norðlenzka fallvatn væri hentugt til virkjunar. Það hefur lengi verið eitt og annað hugsanlegt, sem kynni að vera ódýrara. Það er ekki það, sem máli skiptir í þessu sambandi.

Nú vil ég þá í þessu sambandi nefna það, að í skýrslu stóriðjunefndar, sem birt er á prenti í þeirri skýrslu, sem hæstv. iðnmrh. gaf Alþ. á s.l. vori, er fjallað um þessi mál. Ég ætla að koma að því nánar síðar í öðru sambandi, en aðeins benda á það, að þarna í skýrslu stóriðjunefndarinnar eru reiknuð dæmi, þar sem útkoman er sú, að Dettifossvirkjun sé nokkru dýrari en Þjórsárvirkjun, — ég ætla, að það séu nefnd einhvers staðar 20%, — en jafnframt látið í ljós, að þau ráði ekki úrslitum um það eða þurfi ekki að ráða neinum úrslitum um það, hvar iðjuverið verði reist, — ég kem að því nánar síðar í öðru sambandi. En ég tel rétt og skylt að skýra frá því hér, af því að mér er ekki kunnugt um, að það hafi áður verið gert, að í skýrslu hins ameríska verkfræðifirma, sem raforkumálastjórnin hér hafði til ráðuneytis um þessi stórvirkjunarmál og venjulega er nefnt Harza, er mjög athyglisverð yfirlýsing um þessi mál. Ég hef hér fyrir framan mig — nokkuð stytta að vísu, en samt ekki neitt það stytt, sem hér verður sagt frá, — skýrslu um rannsóknir á virkjun Dettifoss, sem þessi erlendi ráðunautur hefur gert, dags. 1. febr. 1963. Hér hef ég það fyrir framan mig, sem nefnt er niðurstaða skýrslunnar, þar sem ekki eru tilgreindar tölur, — þær hafa verið tilgreindar áður, — heldur efnisleg niðurstaða. Þetta er nú hér á enskri tungu, en í íslenzkri þýðingu, sem mun vera nokkuð nærri lagi, er niðurstaðan sú endursögð í óbeinni ræðu, að hinir erlendu ráðunautar draga þá ályktun af rannsóknum sínum, að Dettifossvirkjun sé tæknilega framkvæmanleg og geti orðið eftirsóknarverð (attractive) frá fjárhagslegu sjónarmiði. Það er sagt, að þessi niðurstaða eigi við, hvort sem um sé að ræða virkjun með þrem eða fjórum vélasamstæðum, (þá er átt við 100 megawött eða 133 megawött) og sé þá gert ráð fyrir, að orkan gangi fyrst og fremst til fyrirhugaðrar stóriðju, og er kunnugt um það þá, við hvað er átt. Síðan segir, að hvorug rafstöðin, þriggja eða fjögurra samstæðna, noti vatnsaflið að fullu og auðvelt sé að auka stöðvaraflið upp úr 133 megawöttum, sem stærri áætlunin fjallar um. Síðan segir, að eftir að hafa kynnt sér vatnsvirkjunarmöguleika á Íslandi, áliti ráðunautamir, að ein eða fleiri virkjanir kunni að vera eitthvað hagstæðari fjárhagslega en Dettifoss þarna er notað orðið somewhat, — eitthvað hagstæðari fjárhagslega en Dettifossvirkjun, en á grundvelli þeirra upplýsinga, sem fyrir liggi, virðist Dettifossvirkjun vera eðlilegasta stórvirkjunarframkvæmd á Norðurlandi miðað við sölu á raforku til stóriðju á sanngjörnu verði — at reasonable rates.

Þetta er það, sem máli skiptir í sambandi við Dettifossmálið,og það er tími til kominn, að það komi fram og má þó fleiru við bæta. En ég kem að því síðar.

Við, sem stóðum að Dettifosstill. hér á Alþ. á sínum tíma, og þeir, er stóðu að fundarályktununum á Norður- og Austurl., voru ekki að spyrja um það, hvort hugsanleg kynni að vera einhver virkjun hér á Íslandi, sem gæti orðið ódýrari en Dettifossvirkjun. Við vorum að spyrja um það, hvort Dettifossvirkjun væri svo hagkvæm, að í hana ætti að ráðast, hvernig ætti að virkja og til hvers ætti að nota orkuna. Ég álít og kem þá beint að því máli, sem hér liggur fyrir, að af hálfu hæstv. ríkisstj. og stóriðjunefndar hafi frá öndverðu verið hér skakkt að farið, a.m.k. frá sjónarmiði þeirra, sem vildu nota orku fallvatnanna til að leysa að einhverju leyti hið mikla framtíðarvandamál okkar Íslendinga, byggða- og landshlutajafnvægismálið. Hér var snemma tekin upp af þessum aðilum sú stefna, hvort sem hún var rétt eða röng, — að leitast við að fá erlend fyrirtæki til að ráðast í stóriðju hér, og var þá fyrst og fremst hugsað um alúminíumverksmiðju, enda fordæmin frá nágrannaþjóðum, sérstaklega Norðmönnum, í því efni kunn. Hvað átti nú að gera? Hvað áttu nú íslenzk stjórnvöld eða Íslendingar að gera, ef slíkt var í ráði og er þeir höfðu jafnframt áhuga á því að nota vatnsafi sitt í þeim tilgangi, sem ég hef rætt um? Gera sér grein fyrir því, hvort slíkt vatnsafi væri til, og að því stefndi vitanlega rannsóknin á Dettifossi. Síðan,er svo reyndist, að ákveða, hvaða virkjun yrði framkvæmd af hálfu Íslendinga í þessu skyni með iðjuver fyrir augum og í hvaða landshluta iðjuverið yrði reist. Þetta var sú eina aðferð, sem vit var í, ef þannig átti að standa að málum. Þá kæmi það í ljós, hvort skilyrðin væru þannig hér á þeim grundvelli, sem við vildum framkvæma, að útlent fyrirtæki hefði áhuga á því að sinna þeim. Ef það var ekki, þá það. En það er engin aðferð til að koma slíku í kring að hafa sjálfa viðsemjendurna með í ráðum og spyrja þá: Hvar viljið þið helzt vera? Auðvitað segir hvaða alúminíumfyrirtæki sem er: Við viljum helzt vera í grennd við stórborg, stærstu borgina, stærsta þéttbýlisstaðinn, til þess að hafa aðgang að vinnuafli og til þess að þurfa síður að byggja yfir fólkið, sem vinnur í verksmiðjunum. Þannig var farið að hér, en þannig var ekki farið að í Noregi. Í Noregi hefur frá öndverðu verið litið á stofnun þessara iðjuvera, eins og iðjuveranna í Mo í Rana og alúminíumverksmiðjanna nú síðast á Húsnesi, sem aðferð — möguleika, sem sjálfsagt sé að nota til þess að vinna að skipulagningu byggðarinnar, til þess að vinna að því, sem við köllum jafnvægi í byggð landsins. Iðnmrh. Noregs, sem þá var Kjell Holler, að ég ætla, — nokkuð umdeildur maður síðar, — sagði í umr. um Húsnesmálið, með leyfi hæstv. forseta:

„Bygging alúminíumverksmiðjunnar er raunverulegur þáttur í viðleitni stjórnarvaldanna til að stuðla að því, að vandamál afskekktra byggðarlaga verði leyst.“

Þetta var, þegar hann lagði fyrir þingið till. um raforkusölusamninginn við Sör-Norge Aluminium. Í skýrslu um orkufrekan iðnað í Noregi, sem ríkisstj. norska lagði fyrir Stórþingið veturinn 1962—1963, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og nú hagar til í atvinnulífi landsins (þ.e.a.s. Noregs), verður að miða efnahagspólitíkina að mjög verulegu leyti við skipulagða uppbyggingu. Þetta er nauðsynlegt til þess að tryggja efnahagslegar framfarir í þeim landshlutum, sem nú standa höllum fæti efnahagslega.“

Á öðrum stað í þessari skýrslu segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Við staðsetningu nýrra iðnaðarfyrirtækja verður að taka eðlilegt tillit til þeirra hugmynda, sem uppi eru um framtíðarskipulag landsbyggðarinnar. –Hvordan man tænker sig, at den fremtidige bosetningsstruktur skal være í landet.“ — Og á enn öðrum stað í þessari sömu skýrslu er svo sérstaklega að því vikið, að nýjar alúminíumverksmiðjur og önnur slóriðjuver muni verða staðsett í fámennum og efnahagslega veikum héruðum.

Þetta hefur verið stefna Norðmanna í sambandi við þessi mái, og það er langt síðan þeir tóku þessa stefnu, það er langt síðan þeir tóku þá stefnu að vinna skipulega að því að auka jafnvægið milli landshlutanna. Norður-Noregs-áætlun þeirra er gerð skömmu eftir 1950, er orðin um 15 ára gömul, og í staðinn fyrir þau lög eru nú komin önnur lög, sem ná ekki aðeins til Norður-Noregs, heldur eru á breiðara grundvelli. Þannig fóru Norðmenn að og þó að í þeirra landi hafi ýmislegt verið fundið að því, hvernig Húsnesmálin voru rekin, var ekki hægt að segja, að norska stjórnin notaði sér ekki aðstöðu sína til þess að reyna að leysa sín byggðajafnvægismál. Þegar til greina kom að reisa verksmiðjuna í þessum landshluta, voru athugaðir sérstaklega þrír staðir, og Swiss Aluminium, sem þarna átti einnig hlut að máli ásamt frönsku fyrirtæki, sem að nokkru leyti fjármagnaði verksmiðjuna og virkjunina til hennar, þau reiknuðu ekki það út, að það væri ódýrast að byggja í Húsnesi. Nei! Það var miklu ódýrara að byggja annars staðar. En norska stjórnin setti þau skilyrði, að þarna yrði byggt, 100 km frá Bergen og 100 km frá Stavangri, en ekki í nágrenni við þessar borgir. Þau skilyrði settu þeir eða eins og það er orðað — eða því sem næst — í skýrslu um þessi mál í norskum þingtíðindum, að í viðræðum við norsk stjórnvöld féllust hinir erlendu aðilar á að taka tillit til norskra sjónarmiða við staðsetningu verksmiðjunnar. — Hérna er verið að tala um það, að verksmiðja í Straumsvík verði kannske 50 millj. kr. ódýrari heldur en verksmiðja norður á Gáseyri. Ég hygg, að það hafi munað meiru í Noregi.

Nú skal ég snúa mér að öðru efni, sem veit að því frv., sem hér liggur fyrir, sem sé því máli, hvernig að því var farið að komast að þeirri niðurstöðu að byggja ekki alúminíumverksmiðju á Norðurlandi, heldur hér í nágrenni við Reykjavík, hvernig það bar að og þá kem ég aftur að því merkilega plaggi, sem ég nefndi hér áðan, sem er skýrsla stóriðjunefndar til ríkisstj., dags. 14. nóv. 1964, sem prentuð er í skýrslu iðnmrh. til Alþ. á s.l. vori. Þar er á bls. 16 fjallað um hugsanlega alúminíumverksmiðju við Eyjafjörð, sem noti orku frá Dettifossi. Þar er gerð grein fyrir því, að gerður hafi verið samanburður á þessum virkjunum, sem birtur sé á fskj. 1 á tilteknum stað, og þar hafi komið í ljós, að orkan frá Dettifossvirkjun afhent við Eyjafjörð yrði dýrari en orkan frá Búrfellsvirkjun afhent við Faxaflóa. Síðan segir í þessari skýrslu stóriðjunefndar orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta þurfti út af fyrir sig ekki að þýða, að Dettifossvirkjun hentaði ekki fyrir alúminíumvinnslu. þó að Þjórsárvirkjun kynni að verða eitthvað ódýrari. Hitt var verra, að eina fyrirtækið, Swiss Aluminium, sem ræddi alúminíumverksmiðju hér af fullri alvöru, taldi sig ekki vilja ráðast í stærri verksmiðju en sem svaraði tæpum 60 megawöttum, þ.e.a.s. 30 þús. tonnum, og vildi ekki skuldbinda sig til að stækka hana innan ákveðins tíma.“ — Swiss Aluminium vildi ekki skuldbinda sig til að stækka verksmiðjuna úr 30 þús. tonnum, a.m.k. ekki innan tiltekins tíma. Síðan segir svo: „Raforkuverðinu frá Dettifossvirkjun, sem til umr. getur komið í þessu sambandi, verður hins vegar ekki náð, nema að virkjunin sé að minnsta kosti 100 megawött, og vegna smæðar hins almenna raforkumarkaðar fyrir norðan var hér um að ræða meira vandamál en talið var leysanlegt.“ Hér endar tilvilnunin. Sem sé, það, að raforkan frá Dettifossi væri eitthvað lítils háttar dýrari en frá Þjórsá, segir stóriðjunefnd sjálf, þurfti ekki að þýða það, að ekki væri hægt að staðsetja alúminíumverksmiðjuna við Eyjafjörð og nota orku frá Dettifossi. En „hitt var verra,“ og það var aðalatriðið, verksmiðjan mátti undir engum kringumstæðum vera stærri en 30 þús. tonn. Hún þurfti ekki nema 60 megawött. Þá voru afgangs 40—70 megawött frá Dettifossi eða rúm 70 megawött, ef framkvæmd var 133 megawatta virkjun. Það var enginn markaður fyrir þá orku norðanlands og austan, að dómi stóriðjunefndar, og má til sanns vegar færa, að það var ekki sjáanlegt á stundinni, að hann væri til staðar. Kannske væri hægt að finna þann markað, ef vel væri leitað. Nú, með þessari upplýsingu og þessari rökfærslu var norðlenzka virkjunin dæmd úr leik, 14. nóv. 1964. Ekki vegna mismunarins á orkuverðinu, heldur vegna þess, að verksmiðjan væri ekki nema 30 þús. tonn og að orkan úr Dettifossi væri svo mikil, — afgangsorkan frá verksmiðjunni svo mikil, að ekki væri hægt að koma henni út í þeim landshlutum.

Nú gerist nýr þáttur þessa máls, mjög svo fróðlegur þáttur. Mér þykir freistandi að rekja þann þátt frá öndverðu og hvenær þess fyrst varð vart, að sú hugmynd væri að fæðast, sem þessi þáttur fjallar um. Ég mun þó ekki gera það hér af ýmsum ástæðum. En það er skemmst frá því að segja, að upp kemur áhugi fyrir því, að þó að stjórnarvöldin neyðist til þess að virkja við Búrfell, af því að verksmiðjan sé ekki stærri en þetta, þá verði þau samt að gera eitthvað fyrir þessa hreyfingu, þessa norðlenzku og austfirzku hreyfingu, sem ég hef verið að gefa þm. tækifæri til að kynnast hér í kvöld, þó að raddirnar þaðan séu þriggja, fjögurra ára. — Raddir fortíðarinnar eru líka fróðlegar, ekki síður en okkar raddir. — Það varð sem sé þrátt fyrir allt að gera eitthvað fyrir þá, sem þessar raddir komu frá, þá er farið að ræða um að virkja við Búrfell, af því að hér syðra sé markaðurinn nægur fyrir orkuna. Þá er farið að tengja saman lausnina á raforkuskortinum hér fyrir sunnan og þetta stóriðjumál. En jafnframt eru ýmsir málsmetandi menn farnir að skrifa í blöðin og láta hafa eftir sér um það eitt og annað í blöðum og útvarpi, að það verði að vísu að virkja við Búrfell, en því miður ekki hægt að láta það ettir Norðlendingum og Austfirðingum að virkja Dettifoss, en til sé ný leið í þessu máli. Hún sé sú, að leggja háspennulínu, um 200 km langa að vísu, frá Búrfelli norður á milli jökla og um háfjöllin niður í botn Eyjafjarðar og svo út á Gáseyri og byggja alúminíumverksmiðjuna á Gáseyri eigi að síður, þó að virkjað sé við Búrfell. Tæknileg framför! Þetta hefði alls ekki verið mögulegt fyrir 5–10 árum, óhugsandi þá, sögðu menn, en nú var þetta sennilega hægt. Að þessu er vikið í skýrslu stóriðjunefndar á bls. 17. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ekki þarf þó þar með að slá því föstu, að verksmiðjan yrði að vera staðsett á Suðurlandi, og hefur n. látið rannsaka mjög rækilega, hver kostnaðurinn yrði af því að leggja háspennulínu með mikilli flutningsgetu til Eyjafjarðar og staðsetja verksmiðjuna þar. Því miður er niðurstaðan ekki hagstæð.“ Ekki var hún þó á þessum tíma talin þannig, að þetta mál væri lagt á hilluna. Ég hef ástæðu til þess að gera aths. við það orðalag, sem þarna kemur fram og ég reyndar las með athygli á sínum tíma, þar sem segir, að nefndin hafi látið rannsaka „mjög rækilega“, hver kostnaður yrði við þessa línu. Þegar ég tók sæti í svokallaðri þmn., spurðist ég fyrir um það hjá mönnum, sem það áttu að vita, hversu rækileg kostnaðaráætlunin mundi vera, spurðist sérstaklega fyrir um það, hvort gengið hefði verið á línustæðið og það athugað. Mér var þá tjáð, að þetta mundi hafa verið gert á korti, en þarna hefði nú kannske verið ofmælt og yrði að rannsaka línustæðið mjög rækilega. Svo var reiknað og reiknað af ýmsum aðilum. Það er búið að reikna gífurlega mikið á þessum árum og kemur sér sjálfsagt vel, að nú er farið að reikna í vélum hér á landi og með rafmagni. Það var reiknað og reiknað það sem eftir var af árinu 1964, þegar skýrsla stóriðjunefndar var gerð, óg fram á árið 1965. Og svo kom niðurstaðan: Að þessi leið væri of dýr. — Hún var of dýr og kom raunar ekki mjög á óvart. Hins vegar held ég, að ekki hafi farið fram neinar viðbótarrannsóknir á línustæðinu, heldur hafi þetta verið nánar rannsakað á kortinu. Mér fannst nú alltaf, að þessi leið væri athyglisverð, en ýmsum þar nyrðra fannst fátt um. Þeim þótti Dettifosshugmyndirnar fá kaldar viðtökur og kölluðu þessa fyrirhuguðu línu „náðarspena“ að sunnan, sem lýsir nokkuð hugarfari vonsvikinna manna, sem höfðu treyst því, að þeirra hagsmuna yrði gætt.

Þá var ekki eflir nema einn kostur. Verksmiðjan varð að vera sunnan fjalla. Einhverjir höfðu einhvern tíma stungið upp á því, að hún yrði í Þorlákshöfn. Það varð nú ekki, og henni var ákveðinn staður í Straumsvík, hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 100 þús. búa af þessum 190 þús., sem í landinu lifa. Þetta var búið og gert, þegar hæstv. iðnmrh. gaf sína skýrslu. Svo gerðust allt í einu mjög undarleg tíðindi. Allt í einu kom frétt um það, að Swiss Aluminium hefði sett það skilyrði fyrir samningum, að verksmiðjan yrði 60 þús. tonn. Já, svona getur margt breytzt á skömmum tíma. Hin rökrétta ályktun af þessari breytingu hefði kannske átt að vera sú, að hæstv. iðnmrh. hefði tekið upp nýja samninga við Swiss Aluminium um verksmiðju fyrir norðan, því að stærðin var þá orðin mátuleg fyrir Norðurlandsvirkjun. Í stað þess höfum við nú hér fyrir framan okkur þetta frv. Ég vil geta þess, af því að hv. þm. er kunnugt um það, að ég starfaði um tíma í svonefndri þmn. um þessi mál, sem tilnefnd var af þingflokkum skv. ósk. hæstv. iðnmrh., án þess að vera skipuð til þess. Hún starfaði sem viðræðunefnd, eins og það hefur verið skýrt. Vegna þess að ég starfaði nokkra mánuði í þessari nefnd, vil ég geta um það hér, að á þeim tíma lét ég koma fram í nefndinni mín sjónarmið á því, hvernig vinna ætti að þessum málum, sem, eins og á stóð, máttu kannske frekar teljast sjónarmið um það, hvernig í öndverðu hefði átt að taka upp þessi mál.

Ég endurtek það, sem ég hef áður sagt, að í mínum augum hefur öll þessi reikningskúnst undanfarinna ára til þess að sýna samanburð á kostnaðinum við að virkja Þjórsá við Búrfell og Dettifoss verið að ófyrirsynju, en þessir reikningar hafa verið notaðir af stjórnmálamönnum sem áróður gegn norðlenzkri virkjun. En það, sem máli skipti, var það, í sambandi við okkar mál fyrir norðan, hvort það var hagkvæmt að virkja Dettifoss og hvaða möguleikar voru í sambandi við hann. Ég geri ráð fyrir því, að hér syðra, eins og ég vék að áðan, hafi menn út af fyrir sig nóg með orkuna úr Þjórsá að gera, og ég er ekki einn um þá skoðun. Ég hef heyrt hana hjá ýmsum hér í þessum umr. Ég tel þess vegna ekki ómaksins vert, enda ekki stund né staður til þess nú að vera að rökræða þennan tölulega samanburð frá undanförnum árum, en hann er ekki aðeins að ófyrirsynju gerður, heldur hefur hann mjög takmarkað gildi. Ef síðar hér í umr. verður vikið að þessum samanburðartölum, vil ég leyfa mér að benda á það í því sambandi, að við Búrfell hefur, — og ég er ekki að setja neitt út á það, — allt fram á þennan dag verið unnið að því af kappi og fjármunum til þess varið að leita hinna ódýrustu virkjunarleiða. Dettifossáætlunin er gerð árið 1962 og dags., eins og ég sagði áðan, í byrjun ársins 1963. Síðan hafa þau viðfangsefni, sem þar eru til staðar, ekki verið skoðuð, svo að mér sé kunnugt, og engar nýjar áætlanir gerðar. Ég hef á sínum tíma blaðað dálítið í gegnum þau plögg, sem fyrir liggja um þá rannsókn og þá áætlunargerð, og hef þau nú í huga, þó að þau hafi ekki verið skoðuð sem skyldi. Ég endurtek það, sem ég sagði áðan og hef áður að vikið, og bið menn að minnast þess, sem áhuga hafa á þessari hlið málsins, hvernig áætluninni um Þjórsárvirkjun við Búrfell var beitt til að kveða niður áform manna og óskir í sambandi við norðlenzka virkjun til stuðnings jákvæðri stefnu í efnahagsmálum landshlutanna. Ég hef enga löngun til þess að gera lítið úr hinum miklu virkjunarmöguleikum í Þjórsá, enda væri það undarlegt að gera slíkt, og sannarlega óska ég þess, að þær virkjunarframkvæmdir megi blessast, sem þar eru á prjónunum. En það ætla ég, að muni koma í ljós, þó að síðar verði, að ekki hafa menn haft ráð á að gera samanburðinn svo nákvæman sem hann var gerður á sínum tíma, til að hnekkja áhugamáli Norðlendinga og Austfirðinga. Þó að ég viti það vel, að staða mín sé tæp sem leikmanns á þessu sviði og viðurkenni það að sjálfsögðu, þá hef ég leyft mér að hafa þá skoðun, að þar hafi verið reiknað og rannsakað meira af kappi en forsjá, en miklu skiptir í slíkum tilfellum, hvað tekið er til rannsóknar og hvaða reikningsdæmi til úrlausnar, þó að bæði rannsóknarefni og reikningsdæmi séu gerð rétt skil og samvizkusamlega, sem ég efast ekki um, að gert hafi verið. En ég kem að þessu aftur, hvers vegna ég tel samanburðinn á milli Búrfells og Dettifoss svo lítils virði. Það er af því, og ég vék að því áðan, að ég hefði blaðað nokkuð í gegnum gögn í þessu máli, að ég þykist geta fullyrt það, þó að ég hafi ekki sérþekkingu, að við Dettifoss hefði verið hægt að finna ódýrari virkjunarleið en þá, sem valin var, og það er ekkert undarlegt. Allar áætlanirnar við Dettifoss og rannsóknir í sambandi við þær eru gerðar skv. lauslegu plani, sem gert var af útlendum manni einhvern tíma fyrir 1960 og unnið í samræmi við það, að ég ætla, í aðalatriðum. Hér voru ekki kannaðir til hlítar allir möguleikar og það er ekkert óeðlilegt, t.d. er fallhæð Jökulsár á þessum stað ekki fullnýtt í Dettifossáætluninni af vissum ástæðum, sem ekki er tími til að skýra hér. Hv. þm. fara nærri um það, hvað slíkt getur þýtt. Það er tvennt, sem máli skiptir við virkjun vatnsfalls til að fá sem mest út úr aflinu, magn vatnsins og fallhæðin. Ég tel, að það hefði átt að halda áfram þessari rannsókn 1963 og síðar, og ég lét það koma fram á sínum tíma í þingmannanefndinni. Ég nefni þetta ekki vegna þess, að ég álíti, að þessi samanburður milli fallvatnanna skipti máli, heldur í sambandi við sjálft málið, sem ég hef varið nokkrum tíma til að ræða hér í kvöld, möguleikana á virkjun Dettifoss. En þess vegna hef ég rætt þennan þátt, að mér þykir hann eiga að koma inn í heildarmyndina, sem dregin er upp af því máli, sem fyrir liggur, áður en það fer í n. og afstaða verður tekin til þess hér á Alþ.

Mér þykir þarflaust að greina frá því hér í heild, hvað mér finnst athugavert við samninga við fyrirtækið Swiss Aluminium Ltd., sem undirritaðir hafa verið, eða að hve miklu leyti ég get tekið undir þá gagnrýni, sem fram hefur komið. En þó ekki hefði annað verið, þá nægir það mér til andstöðu við þetta frv., að með því, ef samþykkt yrði, væri verið að stórauka þann vanda í byggðajafnvægismálinu, sem fyrir var meiri en nógur. Jafnvel frá höfuðstað Norðurlands, Akureyri, er nú þau tíðindi að segja, sem ég ætla, að rétt séu, að árið sem leið er þessi næststærsti bær landsins fjarri því að halda sinni eðlilegu fólksfjölgun, þrátt fyrir innflutning úr hinum fámennu byggðum. Má vera, að hin yfirlýsta stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli hafi þegar á því ári verið farin að freista einhverra til suðurgöngu. Um það verður ekki dæmt hér. Menn verða við íhugun þessa máls að gera sér grein fyrir því, að aðdráttarafl hinnar fyrirhuguðu stóriðju, sem hér er um að ræða, og það, sem í kringum hana verður, mun reynast meira en fólksfjöldinn, sem þar vinnur, gefur tilefni til að álykta. Svo nýstárleg er þessi atvinnustofnun og hin sérstæða þörf hennar fyrir tæknimenntaða menn eða tækniþjálfaða á ýmsum sviðum og svo mörg tækifæri munu skapast í sambandi við tilveru hennar og starf. Enga nauðsyn ber til stofnunar slíks fyrirtækis á þessum stað, en víða mun það gera þröngt fyrir dyrum. Sumir kunna að segja: Þessi verksmiðja eða önnur slík hefði einnig getað skapað erfiðleika, þó að staðsett hefði verið á Norðurlandi. Einnig þar hefði hún dregið til sín fólk, munu menn segja. Veit ég það, Sveinki, var einu sinni sagt, og það get ég nú sagt við þessu. En við Norðlendingar erum margir þeirrar skoðunar, að heppilegra sé, að fólk, sem ella flytur suður í verðandi stórborg, staðnæmist á Akureyri eða einhverjum öðrum stað á Norðurlandi. Hitt hef ég svo alitaf álitið, að æskilegt væri, ef til kæmi, að um fleiri og minni nýjar atvinnustöðvar væri að ræða norðanlands og austan, sem hagnýttu orkuna frá norðlenzku fallvatni, ef virkjað væri, og þannig hefði ég viljað haga undirbúningi málsins, að stefnt væri að slíku, sem og almennri rafvæðingu og hagnýtingu margs konar almennra möguleika til orkunotkunar í þessum landshlutum. Ég veit, að það er búið að verja mikilli vinnu og nokkrum fjármunum til að undirbúa þá samninga, sem hér liggja fyrir um alúminíum- eða álverksmiðju í Straumsvík. Ég dreg ekki í efa, að hæstv. ráðh. og hans menn, sem hér hafa að unnið, telja sig hafa verið að vinna þarft verk, en sjá þar þó sennilega nokkur missmiði á. M.a. þau missmíði að hafa kvatt til samstarfs menn með önnur sjónarmið og varla sýnt lit á að virða þeirra vilja eða hafa þeirra ráð. Ég segi það enn, að þeir muni sennilega sjá þar einhver missmíði á, og á það bendir líka sú staðreynd, að hið nýja frv. um atvinnujöfnunarsjóð kemur fram hér á þingi samtímis þessu frv. Þetta frv. um atvinnujöfnunarsjóð, þó að gallað sé og skammt gangi, hefði verið til töluverðra bóta eitt út af fyrir sig. En séu þessi tvö frv., Straumsvíkurverksmiðjan og atvinnujöfnunarsjóðurinn, tekin saman, plús og mínus, var miklu betur heima setið en af stað farið í sambandi við hið mikilvæga byggðajafnvægísmál þjóðarinnar. Marga heyri ég nú segja: Miklu, miklu heldur engan atvinnujöfnunarsjóð á borð við þann, sem hér er boðinn, ef þessi böggull þarf að fylgja skammrifinu, sem eyðileggur áhrif hans og miklu meira en það, ef að líkum lætur.

Eins og ég hef áður sagt, ætla ég ekki að telja upp eða ræða að ráði þá ágalla, sem mér finnst vera á samningsgerðinni við Swiss Aluminium, aðra en þann megingalla, sem ég hef þegar gert að umtalsefni. Ég hef reynt eftir föngum að kynna mér þá samninga, sem Norðmenn hafa gert við sama fyrirtæki eða gerðu fyrir fáum árum, og sýnist mér þar vera allverulegur munur á, þó að sumt, sem frétzt hafði, að í norsku samningunum stæði, kunni að vera á misskilningi byggt. Það er að bera í bakkafullan lækinn, að ég ræði þau samningsatriði, sem aðrir munu einkum ræða.

Þó að ég hafi nefnt nokkrar tölur í þessari ræðu, að vísu ekki margar og færri en aðrir, geri ég ekki kröfu til þess að vera talinn til reikningsglöggra manna, og varðandi hina æðri talnafræði er ég vanur að taka reiknimeistara trúanlega og reiknivélar þeirra. En út af þeim reikningum ýmsum, sem hér koma fram í þessari grg., vil ég aðeins segja það, að síðan ég komst í kynni við útreikninga frá 19. öld um hinn ævintýralega vöxt einseyringsins, sem menn þá sýndu fram á, mjög reikningsglöggir menn, þegar ekki var verðbólga, — síðan ég komst í kynni við þetta, hef ég alltaf haft ótrú á því, sem kalla má reiknispár langt fram í tímann, að því er fjármuni varðar. Nú hef ég í þessum umræðum heyrt, að grundvöllur reiknispárinnar við Búrfell sé, eins og hraunin þar eystra, lekur nokkuð og ótraustur, og um það hafði ég þegar nokkurt hugboð, þegar mér voru fengnir slíkir reikningar í nefndinni í fyrra. Mér þykir orkuverðiðlágt,og mér þykja Þjórsárísar ískyggilegir eins og fleirum. Og þá verður mér ósjálfrátt hugsað til þess, að Jökulsá á Fjöllum er nú ísi lögð ofan fossa og streymir þar fram sem nokkurn veginn tær og jafnstreym lindá undir íshellunni. Samt var, að ég ætla, í áætluninni um Dettifoss gert ráð fyrir ísvandamálum þá, en þau voru þó órannsökuð. Nú er því mjög á lofti haldið og haft eftir hr. Meyer, forstjóra frá Sviss, sem hér var, að rafmagnsverð muni bráðum lækka vegna kjarnorkunnar. Þá minnist ég þess, að er ég var í þingmannanefndinni í fyrra, fengum við í hendur bók eina, mikla og vandaða, um starfsemi hins margnefnda alúmínfyrirtækis, sem hér er á dagskrá. Þetta var ný bók, samin á vegum fyrirtækisins sjálfs. Þar slóð það, að ég ælla, skýrum stöfum á tiltekinni blaðsíðu, sem ég man, að orkuverð muni verða hækkandi hjá þeim verksmiðjum, sem reistar verði. Og mun það ekki verða svo fyrst um sinn, að kjarnorkunni sé varlega treystandi til að þjóna atvinnulífi manna og örygginu verði þar að minnsta kosti nokkuð áfátt fyrst um sinn? Ég er svo raunar þeirrar skoðunar, að framkvæmdir af því tagi, sem hér er um að ræða í þessu frv., séu varla tímabærar hér á landi eins og nú stendur á um verðbólgu, stjórnarfar og fleira. Á þetta fyrst og fremst við hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem vinnuaflsskortur hefur þegar sagt til sín, en að líkindum einnig annars staðar í landinu.

Ég lýk nú máli mínu. En ég mun, þegar þar að kemur, stuðla að því með atkv. mínu, að frv. það, sem hér liggur fyrir, verði fellt, og í þeirri von, að þegar það er úr sögunni, verði hægt að taka upp nýja athugun á möguleikum til að hagnýta orku fallvatnanna í þágu þjóðarinnar með þeirri fyrirhyggju, sem í hag kemur um langa framtíð og á heilbrigðum grundvelli.