05.04.1966
Neðri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal aðeins að litlu leyti svara hinum almennu, pólitísku hugleiðingum, sem að miklu leyti voru meginpartar ræðna beggja hv. 1. og 5. þm. Austf., Eysteins Jónssonar og Lúðvíks Jósefssonar, við upphaf þessarar umr. s.I. laugardag og þó alveg sérstaklega langmestur hluti ræðu hv. 1. þm. Austf., þegar frá eru skildar ræður tveggja Ed.-þm. frá vantraustsumr., sem hv. þm. hafði þann óvenjulega hátt á að endurlesa nú við þessar umr., en ég vík að því síðar. — Þessir forustumenn stjórnarandstöðunnar voru í sínum almennu, pólitísku hugleiðingum að miklu leyti á sömu nótunum, sem hendir þá nú oft og í vaxandi mæli í seinni tíð á yfirborðinu, þó að vitað sé, að undir niðri býr nokkuð sitt hvað í huga þeirra. Ég skal ekki dæma um, hvor þeirra er á þeim slóðum sleipari eða skýtur hinum ref fyrir rass, en enginn frýr þeim vits, en e.t.v. eru báðir grunaðir nokkuð um græsku. Þó vil ég segja, að þegar betur er að gáð, kemur ljóslega fram í hinum almennu pólitísku hugleiðingum þeirra eðlismunur, sem ekki er ógaman að, að dreginn sé fram í dagsljósið. Hv. 5. þm. Austf. var nokkuð afdráttarlaust andstæður erlendu áhættufé í atvinnurekstri hérlendis eða lýsti a.m.k. afstöðu flokks sins eindregið þannig, en eitt sagði hann þó, sem ég hjó eftir: „fordæmið er verst.“ Hér er verið að opna dyrnar, orðaði hann svo. Nú liggur að vísu ekkert fyrir um það, en látum það vera. En leynist ekki þarna dálítil viðurkenning í sjálfu sér, svolitið smáblóm frá þessum hv. þm., sem við forsvarsmenn þessa máls getum stungið í hnappagatið, þ.e., að þetta mál sé út af fyrir sig og m.a. í hans augum gott mál og hagkvæmt fyrir okkur, hvað svo sem látið er í veðri vaka?

Fyrirvarar hv. I. þm. Austf. voru miklu fleiri og margslungnari. Hann segir, að Framsfl. vilji aðallega erlent fjármagn í formi lána til íslenzkra framkvæmda. Í þessu felst engin speki, þarna erum við víst allir á sama báti, enda er þetta sú leið, sem allir flokkar hafa farið. Vinstri stjórnin tók meira að segja erlend lán með alveg sérstökum hætti um leið og hún lagði á hilluna kosningastefnuskrá sína um að láta varnarliðið hverfa úr landi. Framsókn hefur líka gert meira en að taka erlend lán, þegar svo bar undir, ekki klígjað við að þiggja erlent gjafafé og styrki og hælt sér svo af að hafa hafi forustu um þær framkvæmdir, sem slíkt fé var notað til, eins og áburðarverksmiðju, sementsverksmiðju og rafvirkjanir, og þetta fengum við m.a. að heyra í ræðu hv. 1. þm. Austf. í þessum umr.

En svo kemur það, sem loðnara er. Jú, Framsfl. hefur líka viljað athuga möguleikana á því að fá erlent áhrifafé inn í landið í atvinnurekstur hér. Fyrrv. formaður Framsfl. var þar fremstur í flokki og hafði sérstakan áhuga á því og lét kanna, hvort hægt væri að fá amerísk risafyrirtæki til að reisa hér álbræðslu. Og hvað sagði ekki þingflokkur framsóknarmanna í bréfi sínu til iðnmrh. í desember 1964, eftir að hafa kynnt sér ýtarlegar skýrslur frá ríkisstj., einmitt um samningsmöguleika við það erlenda fyrirtæki, sem nú er ráðgert, að reisi hér álbræðslu? Í þessu bréfi segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi í þingflokki framsóknarmanna í gær, 7. desember (1964) var gerð eftirfarandi samþykkt:

Í tilefni af bréfi iðnmrh., dags. 23. nóvember s.l., með skýrslum og grg. þeim, er því fylgdu, tekur þingflokkur framsóknarmanna fram, að flokkurinn telur rétt, að athugaðir séu í sambandi við stórvirkjun möguleikar á því að koma upp alúminíumverksmiðju. Eysteinn Jónsson, Skúli Guðmundsson.“

Í framhaldi af þessu tóku svo tveir þm. Framsfl. sæti í n. eftir áramótin til þess, ásamt þm. frá stjórnarflokkunum, að undirbúa fyrir þingið till. um, að þessi alúminíumverksmiðja yrði byggð hér, eða undirbúa málið fyrir þingið. Seinna komu tveir þm. Alþb. í þessa n., eftir að ríkisstj. hafði lagt fram og rædd hafði verið skýrsla hennar um málið í maí 1965. En það fór ekkert dult, að Alþb. var samt í grundvallaratriðum gegn málinu. Þessu var alls ekki svona varið um Framsfl. eða einstaka þm. hans. Það var mjög á huldu og raunar miklu meiri ástæða til þess að ætla, að ýmsir þm. flokksins mundu fylgja málinu eða a.m.k. ekki vera því andsnúnir, og svo er haldið og jafnvel vitað um suma þm. flokksins enn. Það voru að vísu fyrirvarar, — ekki að flýta sér, fresta málinu, en þangað til hvenær? Staðsetning var gerð að fyrirvara og kannske eitthvað fleira. Svo leið að jólum, þá fór það einn daginn að kvisast hér í þinghúsinu, að nú væri Eysteinn Jónsson að leggja beizli við gæðinga sína, nú ætti liðið að standa eitt og óskipt gegn samningum um álbræðslu. Sá þm. Framsfl., sem flest orð hafði um aðfarirnar, — enda hafði hann lýst yfir með stærstum orðum fylgi sínu við málið, bæði fyrir sunnan í kjördæmi sínu og fyrir norðan á framsóknarfundum, — hældist af því stórvirki að hafa síðastur látið kúgast! Það hefur frétzt af þessum fundi, að formaðurinn hafi lagt á það megináherzlu, að enginn væri á móti, svo að hann gæti tilkynnt, að flokkurinn hefði einum rómi samþ. að vera gegn málinu, en sagt er, að 7 menn hafi setið hjá. Ræða hv. 1. þm. Austf. í þessum umr. var rétt spegilmynd af svona vinnubrögðum. Um leið og einni hurð er lokað, er önnur opnuð. Það eru taldir upp fyrirvarar og aftur fyrirvarar, haltu mér, slepptu mér, haltu mér bæði og slepptu mér í senn. Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en þetta er engin ný Framsóknarbóla, sérstaklega í seinni tíð undir formennsku Eysteins Jónssonar.

Ég kem þá að því að svara einstökum atriðum og aðfinnslum, sem fram hafa komið í sambandi við þetta mál í umr„ og ég skal þar fyrst víkja að gerðardómnum eða þeim aðfinnslum, sem þar hefur borið á góma. Gerðardómsmeðferð er oft beinasta, sanngjarnasta og fljótvirkasta leiðin til þess að leysa úr þeim deilum, sem upp kunna að koma milli tveggja eða fleiri samningsaðila. Gildir þetta jafnt um þessa samninga sem aðra samninga. Í þessu landi eru starfandi hundruð gerðardóma. Sumir eru stofnaðir með samningum milli einkaaðila eða t.d. með samþykktum félaga. Aðrir eru beinlínis stofnaðir með 1., og eru þeir varla færri en hinir. Í síðari flokknum er einmitt fjöldi gerðardóma, sem stofnaðir hafa verið til að fjalla um samskipti ríkisins og einkaaðila og þá stundum í hinum vandasömustu efnum. Enginn þessara gerðardóma hefur verið settur á stofn vegna þess, að dómstólunum hafði ekki verið treyst til að fjalla um þau mál, sem til gerðardómanna er skotið. Forsendur þeirra eru einfaldlega þær, að samningsaðilar eða löggjafarvaldið hafa talið það geta stuðlað að skjótari og réttlátari úrlausn mála, að þeim yrði skotið til gerðardóms. Óþarft er að rekja þá kosti, sem almennt eru taldir gerðardómnum til ágætis. Hins vegar virðist nokkur ástæða til þess að minna hv. alþm. á það, að að því leyti, sem þá kosti er að finna í gerðardómsákvæðum þeim, sem um er fjallað í 47. gr. aðalsamningsins, mundi ríkisstj. njóta þeirra ekki síður en Alusuisse. Það er fyllsta ástæða til þess að ætla, að þessi gerðardómsákvæði geti orðið Íslendingum til mikilla hagsbóla, að því er varðar skjóta og örugga málsmeðferð. Það er svo siður en svo nokkurt einsdæmi, að gerðardómsákvæði séu sett í samninga milli ríkja og einstaklinga, innlendra eða erlendra, eins og sumir hafa haldið fram. Og sumir tala ekki einu sinni um einsdæmi, heldur tvö einsdæmi, eins og við sjáum á forsíðu Tímans, og hvenær einsdæmin verða 3–4 veit ég ekki. — Dæmi þessi eru mörg, bæði fyrr og síðar. Að því er fjárfestingar varðar, hefur þeim fjölgað að mun á síðari árum, eftir því sem beinar fjárfestingar milli landa hafa færzt í aukana. Tilraun Alþjóðabankans til þess að koma á fót gerðardómsstofnun, er sérstaklega sé ætlað að fjalla um fjárfestingardeilur milli ríkja og erlendra aðila, sbr. mgr. 47.01 í aðalsamningnum, er að sjálfsögðu bezta dæmið um þá þróun, sem að undanförnu hefur átt sér stað í þessum efnum. Fleira hefur þó gerzt, sem vekja má athygli á. T.d. var á árinu 1962 gerð ýtarleg endurskoðun á gerðardómsreglum fasta gerðardómstólsins í Haag, the Permanent Court of Arbitration, og þeim m.a. breytt í það horf, að dómurinn gæti úrskurðað um deilur milli ríkja og einkaaðila, en áður hafði honum einungis verið ætlað að leysa úr milliríkjadeilum. Er fróðlegt að bera þetta saman við það, sem átt hefur sér stað um gerðardóm þann, sem starfað hefur undanfarin ár á vegum International Chamber of Commerce í París, en þessum gerðardómi var aðallega ætlað að leysa úr viðskiptadeilum milli einkaaðila í mismunandi löndum. Það hefur þó ekki orðið því til fyrirstöðu, að hann þætti hentugur til þess að leysa úr deilum milli ríkja og einkaaðila. T.d. hefur þessum gerðardómi verið falið að leysa úr deilum út af samningum þeim, sem Nkruma, hinn stolti forseti og lausnari Ghana, gerði víð bandarísk álfélög um byggingu álbræðslu í Ghana á árinu 1961. Gerðardómsákvæði aðalsamningsins er ekki einu sinni hið fyrsta, sem ríkisstj. Íslands hefur undirritað í samningum við erlend fyrirtæki, m.ö.o. ekkert einsdæmi. þannig er svo ákveðið í samningum viðskmrn., þ.e. ríkisins, við hið rússneska fyrirtæki, sem er sjálfstæður réttaraðili, er sér Íslendingum fyrir olíum og benzíni, að deilur milli aðilanna út af þeim skuli lagður fyrir gerðardóm, þ.e. rússneskan gerðardóm, sem hefur aðsetur í Moskvu. Hefur því aldrei heyrzt fleygt, að íslenzka ríkið þætti vanhaldið af því að hlíta lögsögu þessa gerðardóms. Þó virðist svo sem stofnun þessi hafi beðið talsverðan álitshnekki, t.d. árið 1958 fyrir úrskurð, sem kveðinn var upp á hennar vegum í deilu út af olíukaupum milli Ísraelsmanna og Sojusnaftaexport og þótti mörgum sem dómurinn væri bersýnilega vilhallur Sovétmönnum. En í því sambandi er rétt að geta þess, að þetta er ekki eini gerðardómurinn, sem Sovétstjórnin og stofnanir hennar hafa talið sér fært að leita til um millilandaviðskipti sín. Þess eru dæmi, að bandarísk og vesturevrópsk einkafyrirtæki hafa samið svo við sovézka aðila, að deilumál þeirra út af viðskiptasamningum skyldu fara fyrir gerðardóm í heimalandi fyrirtækisins eða í óháðu ríki, t.d. í Svíþjóð. Sömuleiðis má geta þess, að Sovétstjórnin sjálf var á sínum tíma aðili að einu þekktasta gerðardómsmáli, sem upp hefur komið í skiptum ríkja og erlendra einkaaðila á síðari árum, Lena Goldfieldsmálinu 1930. Var þar um að ræða deilu út af samningi, sem enskt fyrirtæki hafði gert við Sovétstjórnina um gullgröft þar í landi, og var úrskurðað í henni af gerðardómi, sem sal í London.

Dæmi þess, að önnur ríki hafi samið svo við erlenda fjárfestingaraðila eða viðskiptamenn,aðdeilur þeirra skyldu fara fyrir gerðardóm fremur en þá dómstóla, sem lögsögu kunna að hafa eftir almennum reglum, eru fleiri en svo, að hönd verði á fest, jafnvel þó einungis verði talin þau tilfelli, þar sem gerðardómurinn hefur verið erlendur eða alþjóðlegur, þ.e.a.s. alþjóðlegur í þeirri merkingu, að oddamaður hans sé frá hlutlausu ríki eða tilnefndur af hlutlausum aðila. Sem dæmi um úrskurð erlendra gerðardóma um málefni ríkja má nefna það, að ríki eins og Frakkland, Holland og Indland hafa háð gerðardóm við bandarísk fyrirlæki samkv. reglum bandaríska gerðardómssambandsins, American Arbitration Association. Franska stjórnin varð og ekki alls fyrir löngu að hlíta úrskurði ensks gerðardóms um skipti sín við grískt skipafélag gegn vilja sínum,að boði eigin dómstóls 1957. Dæmi þess, að oddamenn í gerðardómi séu tilnefndir utanlands frá eða af hlutlausum erlendum aðila, er t.d. að finna í fjárfestingarlögum Grikkja og samningum þeirra við erlend fyrirtæki. Eins mun það vera regla fremur en undantekning um fjárfestingarsamninga bandarískra og evrópskra olíufélaga í Austurlöndum og Norður-Afríku, að um þá fjalli gerðardómur, þar sem oddamaður sé tilnefndur með þessum hætti. Algengt er, að tilnefning oddamanns sé falin forseta Alþjóðadómstólsins, eins og gert er ráð fyrir í mgr. 47.02 í aðalsamningnum, en einnig tíðkast að leita um hana til dómstóla í hlutlaus

um löndum, t.d. forseta hæstaréttar í Sviss eða Svíþjóð. Yfirleitt má segja, að líkurnar fyrir því að hitta fyrir ákvæði um alþjóðlegan gerðardóm í sambandi við fjárfestingar vaxi í beinu hlutfalli við umfang þeirra samninga, sem gera þarf við hina erlendu fjárfestingaraðila hverju sinni. Í löndum eins og Grikklandi, þar sem hver fjárfesting vegur stórt í efnahagslífi landsins, eru yfirleitt gerðir yfirgripsmiklir samningar við hvern einstakan aðila á grundvelli fjárfestingarlaga landsins og þá með gerðardómsákvæðum. Í hinum auðugri löndum Vestur-Evrópu mun það hins vegar fátitt, að samið sé þannig um gerðardóm, enda sjaldgæft og óþekkt nú orðið, að yfirleitt séu gerðir nokkrir sérsamningar við erlenda fjárfestingaraðila í þessum löndum. Þetta gengur bara af sjálfu sér, menn verða óafvitandi aðilar. Áður en þeir vita af, eru þeir orðnir aðilar, erlendir aðilar í inniendum fyrirtækjum o.s.frv. Það má segja, að þar sé erlenda fjárfestingin daglegt brauð og ekki annað en venjulegur þáttur í rekstri þjóðarbúsins. Í þessum löndum getur það t.d. komið fyrir, að erlendir aðilar kaupi upp innlend fyrirtæki og haldi áfram rekstri þeirra, eins og ekkert hafi í skorizt, sbr. t.d. það, þegar ameríska álfélagið Reynolds náði undirtökum í brezka álfélaginu fyrir nokkrum árum. Um þessi lönd er það annars að segja, að auk þess, sem erlent fjármagn á þar yfirleitt greiðan aðgang, hafa þau gert fjölmargt til að styrkja rétt hinna erlendu fjárfestingaraðila, sem þykja mundi alvarleg fullveldisskerðing í hópi þeirra, sem gagnrýnt hafa samninginn, sem við ræðum nú hér um. T.d. hafa flest þessi ríki gert gagnkvæma vináttu- og viðskiptasamninga við Bandaríkin, þar sem fjárfestingu bandarískra aðila er heitið fyrirgreiðslu og vernd gegn eignarnámi og öðrum harðræðum og það lagt á vald Alþjóðadómstólsins í Haag að meta, hvort út af því hafi verið brugðið. Af Norðurlöndum hefur t.d. Danmörk gert slíkan samning. Sum þessara ríkja hafa og komið á víðtækri efnahagssamvinnu sín á milli, þar sem fjárfesting úr einu landi í annað skiptir miklu máli, svo sem aðildarríki Efnahagsbandalags Evrópu. Þau ríki hafa m.a. komið upp sérstökum dómstóli innan bandalagsins, þar sem einkafyrirtækin geta rekið mál sín í tilteknum tilfellum gegn aðildarríkjunum sjálfum.

Það getur vel verið, að viðsemjendur okkar, Alusuisse, hafi ekki áður samið um gerðardóm á borð við þann, sem hér eru ákvæði um í 47. gr., en ástæðan til þess er einfaldlega sú, að allur þorrinn af erlendum fjárfestingum þeirra er í löndum af því tagi, sem ég áðan var að lýsa, löndum eins og Þýzkalandi, Austurríki, Ítalíu, Bretlandi og Bandaríkjunum. Mun óhætt að fullyrða, að Alusuisse hafi aldrei áður þurft að undirrita svo margbrotna og ýtarlega fjárfestingarsamninga, sem hér er um að ræða. T.d. er samningur þeirra við Norðmenn um álbræðsluna í Húsnesi ólíkt einfaldari í sniðum en samningur þeirra við okkur og í raun og veru alls ekki sambærilegur við það, sem félagið þarf að ganga að hér. Þessu hef ég áður vikið að og m.a. rakið þetta vegna þess eðlismunar, að Alusuisse á að ábyrgjast hér allar skuldbindingar álfyrirtækis. Í raun og veru fær Alusuisse leyfi til þess að reisa álbræðslu hér í Straumsvík. Það er gert í því formi, að samkv. þessum samningi er stofnað félagið ÍSAL, sem Alusuisse á. Í hínum tilfellunum kaupir Alusuisse hlutabréf í innlendum fyrirtækjum, annaðhvort er það minni hl.-aðili eða meiri hl.-aðili og málin algerlega ósambærileg og einnig að því er tekur til ákvæða eins og hér er um að ræða, varðandi gerðardóm. Eins og eðli þess samnings er, sem við ræðum hér um, er ekki nema eðlilegt, að aðilar málsins, — sem eru ríkisstj. og Alusuisse, ýmist fyrir hönd ÍSAL að forminu til og ríkisstj. fyrir hönd Landsvirkjunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar, — að þeir hafi orðið ásáttir um sérstaka meðferð þeirra mála, sem deilur kunna að rísa út af og mikilvæg eru í sambandi við samninginn. Það er hverju fullvalda ríki í sjálfsvald sett að semja um meðferð á málum sínum fyrir gerðardómi eða með öðrum sérstökum hætti, og er slíkt á engan hátt ósamboðið sjálfstæði þess, eins og látið hefur verið í veðri vaka, heldur þvert á móti staðfesting á sjálfstæði þess. Hér er ekki um það að ræða, að einhverjum sé sagt fyrir verkum, heldur einungis hitt að tryggja skjóta og örugga lausn þeirra deilumála, sem upp kunna að koma á þessu afmarkaða sviði. Ég get því ekki látið hjá liða að segja, að mig hefur stórfurðað á þeim fullyrðingum, sem hver þm. á fætur öðrum hefur komið hér með um þá lítilsvirðingu og vansæmd, sem fælist í því að hafa þetta gerðardómsákvæði í aðalsamningnum, og alveg sérstaklega furðaði mig þó á þeim ummælum, sem prófessor Ólafur Jóhannesson hafði í vantraustsumr. í þessu sambandi. Ég hafði hugsað mér að ræða það nánar við hann, þegar mál þetta kæmi til meðferðar í Ed., en þar sem hv. I. þm. Austf. tók það ráð að lesa ræðu hans hér að þessu leyti, er rétt að gera það nú þegar.

Hann furðar sig á því, að slíkur gerðardómur sé settur, en það væri þó ekkert við því að segja, ef það væri á milli tveggja ríkja. En hér er um að ræða samning á milli ríkisstjórnar og einkafyrirtækis og eftír öllum venjulegum reglum heyra ágreiningsmál út af slíkum samningum undir almenna dómstóla, segir prófessorinn. Þó að þetta sé að vísu sú almenna regla, eru mörg frávik frá því, þar setn samið er á milli ríkja og einkaaðila um gerðardóma. Þessi hv. þm. sagði: „Ég efast um, að í nágrannalöndum okkar séu fordæmi fyrir því, að ríkisstj. semji hliðstæð mál undan eigindómstólum.“ Ég segi bara, prófessorinn á að lesa betur. Hann segir, að krafa einkafyrirtækis um að taka þessi ágreiningsmál undan lögsögu íslenzkra dómstóla hljóti að byggjast á vantrausti á íslenzku réttartari og tortryggni í garð íslenzkra dómstóla. Það er ekkert hæft í þessu. En þar við bætist það, að þessi hv. þm. veit, að það var ekki krafa einkafyrirtækisins, að gerðardómsákvæðin voru sett inn í þennan samning. Upphaflega uppkastið, fyrsta samningsuppkastið eða frumdrögin frá Íslendingum gerðu ráð fyrir gerðardómi, og það er meira en ár liðið síðan þau voru sýnd Ólafi Jóhannessyni prófessor sem fræðimanni á þessu sviði og hann hafði ekkert við þessar hugmyndir að athuga á því stigi málsins og ekki síðar, sem ég skal koma betur að.

Hv. þm. segir, að hann efist ekkert um, að ráðh. hafi lagt sig allan fram við þessa samningagerð og hann efist ekkert um, að ráðherra hafi ýmsu fengíð breytt til batnaðar í þessum samningum. Hann veit þetta, af því hann hefur alltaf fylgzt með breytingum, sem orðið hafa á þessum ákvæðum. Þingmenn í flokkum stjórnarandstöðunnar hafa á hverjum tíma fengið upplýsingar hjá fulltrúum stjórnarandstöðunnar um samningagerðina. Prófessor Ólafur Jóhannesson veit, þegar hann er að tala um, að hann efist ekkert um, að ýmsu góðu hafi verið komið til leiðar, að vissulega breyttust þessi ákvæði mikið undir meðferð málsins og alltaf stig af stigi okkur í hag. En svo segir þessi háttv. þm., að þegar hafi ekki tekizt fyrir ráðh. að koma málinu í betra horf en þetta, þá hefði hann að sínum dómi átt að setja hnefann í borðið og segja: Hingað og ekki lengra. Því setti ekki prófessorinn hnefann í borðið og sagði: Hingað og ekki lengra? Hann sá þessa samninga, meðan verið var að semja þá. Hans flokksbræður í þingmannanefndinni höfðu þá undir höndum og sýndu þá flokksbræðrum sínum. Þeir gerðu aldrei aths. við gerðardómsákvæðin, enga fyrirvara, engar aths., engar bókanir, og ekkert barst mér frá þessum hv. prófessor í þessu sambandi. En þegar verið er að líkja þessu við vanmat á íslenzkum dómstólum og þetta sé eiginlega svívirða við sjálfstæði þjóðarinnar, því í ósköpunum gera þá ekki þeir menn athugasemdir, sem hafa aðstöðu til þess, því gera þeir ekki fyrirvara um, að ekki sé verið að vanmeta íslenzkt sjálfstæði og íslenzka dómstóla? Til þess var þeim gefið tækifæri í þingmannanefndinni.

Þeir gerðu margar aths. í þingmannanefndinni, þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem þar sátu, og margar bókanir, sumar, sem hægt var að taka til greina, athugasemdir, sem varða fjölda mála, sérstaklega staðsetningu álbræðslunnar, sem fyrirvarar voru sérstaklega gerðir um af hálfu fulltrúa Framsfl., um raforkuverðið, sem sérstakar bókanir voru gerðar um af hálfu fulltrúa Alþb., og mörg önnur atriði slík, en aldrei þótti ástæða til þess að gera neina aths. eða bókun við það, að við værum að semja af okkur sjálfstæðið, afsala okkur sjálfstæðinu með því að hafa ákvæði um gerðardóm við einkafyrirtæki, né heldur nokkur aths. um, að þau ákvæði þyrftu að vera öðruvísi heldur en þau endanlega urðu. Það kemur fram á 17. fundi í þmn., 27. ágúst, að þá kvaðst Helgi Bergs ekki hafa sérstakar aths. að gera við fyrirliggjandi uppkast, en taldi orðalag sums staðar fullveikt, t.d. þar sem rætt er um íslenzkt réttarfar neðst á bls. 4 og efst á bls. 5. En á þessum fundi lagði ég fyrir n. greinargerð, sem við ætluðum að senda Alusuisse um viðhorf okkar til samningsuppkasta, sem við höfðum farið yfir með þingmannanefndinni og til undirbúnings fundi, sem stóð fyrir dyrum hér á Íslandi á eftir. Í bókuninni stendur: „lðnmrh. tók fram, að hann hefði sjálfur nokkrar aths. að gera við grg. uppkastsins og m.a. við það atriði varðandi íslenzkt réttarfar, sem Helgi Bergs hefði vikið að,“ og allt var það leiðrétt og sett í það form, sem menn fundu ekki að og sem síðar leiddi til miklu sterkari og betri niðurstöðu heldur en áður hafði verið í þeim greinum, sem fjalla um deilumál og gerðardóm í aðalsamningnum.

Á 10. fundi nefndarinnar, 28. október 1965, voru rædd gerðardómsákvæði, sem talið var æskilegt, að hægt væri að takmarka, enda væru íslenzkir dómstólar nægileg trygging fyrir Alusuisse. Ég man vel á þessum fundi, að það var sérstaklega hv. 5. þm. Austf., sem fannst gerðardómsákvæðin óþarfi og vildi takmarka þau sem allra mest. Samt sem áður komu ekki fram neinar till. um að taka þau úr uppkastinu. Ég efast þó ekkert um, að honum hefði kannske verið kærara að taka ákvæðin um gerðardóm alveg úr, og það kann vel að vera, að hann hafi látið í ljós skoðun sina um, að það væri æskilegra. Það má segja, að við höfum kannske allir verið á þeirri skoðun. Samt sem áður var nú þessi hugmynd í upphafi sett fram af okkar hálfu. En þó að menn hefðu þá skoðun, að menn vildu breyta þessum ákvæðum, takmarka þau meira, eða annað slíkt, kom hins vegar engin aths. fram um það, að hér væri neitt óvanalegt á ferðinni eða nokkuð vansæmandi fyrir íslenzka dómstóla, eða sérstaklega fyrir Hæstarétt Íslands. Um þetta atriði er búið að segja svo miklar villur og ranghermi, að það tekur ekki tali. Það er eitt þeirra atriða í umr. hér, þar sem farið hefur langt út fyrir almennt velsæmi, hvað þm. hafa leyft sér að bera á borð, vitandi allan tímann, að þeir vissu um þessi ákvæði, allir, allir þm. stjórnarandstöðunnar, eða gátu a.m.k. vitað um þau. Ég geri ekki ráð fyrir, að fulltrúar þeirra í þingmannanefndinni hafi vanrækt að láta þá vita um þessi mál. Auk þess fengu þeir allir send samningsuppköstin, áður en undirskriflir fóru fram og höfðu þá a.m.k. tækifæri til þess að bera fram aths., ef þeim fannst, að verið væri að fyrirgera sjálfstæði landsins eða sóma þess.

Ég skal láta þetta nægja um þetta atriði að svo stöddu. Ég hef gerzt fjölorðari um það heldur en ég gerði ráð fyrir í upphafi, vegna þess að það hefur komið hér maður eftir mann fram og talað á sama hátt, að þetta væri eitt af því ómögulegasta og svívirðilegasta og fyrir neðan allar hellur í samningsuppkastinu.

Ég skal þá koma að einstökum atriðum málsins, og þá kem ég að annarri ræðu Edþm., sem flutt var hér í Nd. af hv. 1. þm. Austf. Það er ræða hv. 6. þm. Sunnl., Helga Bergs. Hv. I. þm. Austf. sagði, að ég hefði bara látið eins og ég hefði ekki séð þessa merku ræðu. En það er alveg eins og með ræðu Ólafs Jóhannessonar, að ég hefði átt tækifæri síðar til þess að ræða við þennan hv. þm. um þessa ræðu hans, en ég skal gera það nú af sömu ástæðum og áður. Í ræðu sinni við vantraustsumr. sagði þessi hv. 6. þm. Sunnl., Helgi Bergs, og vitnaði þá í grein mína í Morgunblaðinu 24. febrúar, að ég hefði sagt þar: „Sé munurinn á rekstrargjöldum frá ári til árs lagður á 6% vöxtu, safnast í sjóð, sem árið 1976 er orðinn rúmar 300 millj. kr., og á árinu 1985 rúmar 600 millj. kr., ef bræðsluleiðin er farin.“ Svo bætir hv. þm. við: „og nú í kvöld er ráðh. kominn í 860 millj.“ — Það varð að segja útvarpshlustendum það, að nú væri ég að segja eitthvað allt annað heldur en ég sagði í Morgunblaðinu 24. febrúar. Þetta er því miður blekking, og því miður — mér leiðist að segja það — af jafn skýrum manni eins og þessum hv. þm. getur það ekki verið annað en vísvitandi blekking, og það er öllu verra. Því að grein mín, sem birtist í Morgunblaðinu 24. febrúar, er með töflu, sem vitnað er í, og beint fyrir neðan töfluna er aths. og hún er með breyttu letri, þar sem stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Tafla og tölur um kostnaðarverð raforku til almennra nota með eða án álbræðslu eru byggðar á áætlunum, eins og þær voru í skýrslu ríkisstj. til Alþ. um álbræðsluna frá 5. maí 1965. Eftir að tilboð í Búrfellsvirkjun hafa nú borizt og áætlanir gerðar, sem byggjast að verulegu leyti á föstum tilboðum, og miðað við nokkurn flutning virkjunarframkvæmda frá siðara stigi á fyrra stig, kemur í ljós, að virkjun með álbræðslu er enn þá hagkvæmari en fyrri áætlanir sýndu. Sé munurinn á rekstrargjöldunum frá ári til árs lagður á 6% vöxtu, safnast í sjóð, ef virkjað er með álbræðslu, sem væri orðinn árið 1976 392 millj. samkv. nýjustu niðurstöðum í stað 319 millj. samkv. eldri áætlunum og árið 1985 862 millj. kr. í stað 630 millj. samkv. eldri áætlunum.“

Þetta var þess vegna engin uppgötvun mín, þetta útvarpsumræðukvöld, að hagurinn væri það mikið betri, eftir að tilboð lágu fyrir, að í stað þess, að samansafnað fé væri 630 millj. kr., væri það nú eftir að tilboð lægi fyrir 862 millj. kr., en það mátti ekki minna vera heldur en gefa hlustendum það í skyn, að ég hefði verið að segja eitthvað allt annað í febrúar og nú væri ég kominn með einhverja nýja tölu og þannig væri ekkert að marka þær tölur, sem ráðh. væri að fara með. Þetta er nú það fyrsta, sem ég hef að athuga við þessa ræðu hv. þm., sem er nú orðin Nd.-ræða.

Annað er það, að hann sagði, að það þyrfti að leiðrétta töfluna, vegna þess að fyrstu 6 árin væri flutt frá skattgjaldinu 71/2 dollar yfir á raforkugjaldið, sem færi þá upp í 3 mill í staðinn fyrir 21/2 mill. Það er rétt, að þessa leiðréttingu má gera og hún skal gerð. Hitt er svo annað mál, að með skattgreiðslufyrirkomulaginu, eins og það er, mundi náttúrlega álbræðslan á fyrstu árum sínum með fullum afköstum undir venjulegum hætti verða miklu minni heldur en hún verður með 121/2 dollara, þó að það sé búið að lækka það niður í það. En látum það vera, þessi leiðrétting er rétt og fær staðizt. Þetta segir hv. þm., að muni 200 millj. kr., það munar því nú ekki fyllilega, en látum það vera. Eftir því, sem ég hef látið reikna það út nákvæmlega, sýnist mér, að það séu 170 millj. Þá verður hið samansafnaða fé ekki 862 millj., heldur 690 eða tæpar 700 millj. kr., og við skulum þá standa saman á þeirri upphæð, sem er nú ekkert smáræði út af fyrir sig.

Þá segir í þessari ræðu:

„Í öðru lagi eru útreikningarnir villandi vegna þess, að orka Búrfells verður fullnotuð 1976, ef bræðsla verður byggð, og enginn veit, hvað sú orka, sem við bætist eftir það, kostar, því að engar viðhlítandi áætlanir hafa verið um það gerðar og enginn veit, hvar næst verður virkjað.“

Villandi og villandi, — það er rétt, að það eru ekki endanlegar áætlanir, sem um þetta hafa verið birtar. En í þmn. var raunar gerð grein fyrir og í málsskjölunum er gerð grein fyrir því, að til þess að fá samanburð einmitt fram til ársins 1985 með Búrfellsvirkjun án álbræðslu og með álbræðslu, þyrfti að bæta við virkjunina og væri þannig í áætlunum Landsvirkjunarinnar gert ráð fyrir að virkja Háafoss með 126 megawatta orku, og þá mundu virkjanirnar báðar vera sambærilegar til 1985, og þá er tekinn inn í kostnaðarliðina með álbræðslu allur kostnaðurinn af Háafossvirkjuninni. Þessi virkjun er náttúrlega ekki endanlega ákveðin, kostnaður af henni getur eitthvað breytzt, en þetta er hins vegar ekki út í bláinn.

Lúðvík Jósefsson sagði í sinni ræðu hér eða vék að því dálítið, að það væri einkennilegt, að þessi virkjun, sem nú væri farið að tala um, Háafossvirkjun, væri bara hvorki meira né minna en ódýrari, hagkvæmari heldur en sjálf Búrfellsvirkjunin, og hvernig það mætti eiginlega vera. Út af því hef ég fengið þessar upplýsingar, sem ég vil láta fram koma, frá framkvæmdastjóra Landsvirkjunar um Háafossvirkjunina. Þegar á það er bent, að Fossaárstöðin sé áætluð hlutfallslega ódýrari en Búrfellsstöðin, er það væntanlega gert til þess að gera þá leið eða þá upphæð tortryggilega, sem reiknað er með fyrir Fossá, það eru þessar 975 millj. En um þetta segir framkvæmdastjórinn:

„Fallhæðin við Fossá er rúmlega tvöfalt meiri en við Búrfell. Það þýðir, að á hverja afleiningu í Fossárstöð þarf helmingi minna vatn en í Búrfellsstöð. Það leiðir svo aftur af sér, að vatnsvegir, þ.e.a.s. skurðir, jarðgöng og pipur, eru hlutfallslega miklu þrengri í Fossárstöð.

Í öðru lagi, vegna meiri fallhæðar er snúningshraði véla í Fossárstöð meiri en í Búrfellsstöð, sem hvort tveggja gerir vélarnar hlutfallslega mun ódýrari.

Í þriðja lagi, vegna færri véla er spennistöðin við Fossárstöð einfaldari en við Búrfellsstöð, og ekki þarf heldur að reikna með orkuveitu til Straumsvíkur frá spennistöð við Geitháls og ýmsum kostnaði þar og við Írafoss, sem fylgir fyrstu virkjunum, en ekki næstu.

Þetta eru skýringar framkvstj. á því, að virkjunin á hverja kwst. er ódýrari í þessari stöð, sem er þá virkjuð í raun og veru sem toppstöð, því að á þessu tímabili er orka, töluvert mikil orka, eftir í Búrfellsvirkjun, þó að aflið sé fullnotað. Og það er m.a. vegna þess, hver mismunur er á notkun aflsins á hverjum tíma, en þegar kemur toppstöð eins og þessi, Fossárstöð, notast ekki aðeins orka og afl hennar, heldur orka og afl hennar plús sú töluvert mikla orka, sem þá er enn eftir í Búrfellsvirkjun. Ég held þess vegna, að þetta sé ekki svo mikið út í bláinn, sem sagt hefur verið, þó að vissulega megi eitthvað deila um það, hvort þessi áætlun upp á 975 millj. standist fyllilega, þegar til kemur, eða ekki.

Þá sagði hv. 6. þm. Sunnl., að í þriðja lagi væru áætlanirnar um reksturskostnað virkjunarinnar vægast sagt ónákvæmar, m.a. vegna óvissunnar um ísmyndunina og þær truflanir, er af henni leiða. Jú, lærða menn getur greint á, og Helgi Bergs verkfræðingur getur auðvitað deilt við dr. Gunnar Sigurðsson verkfræðing um það, hvort þær ráðstafanir, sem hann, Gunnar Sigurðsson og aðrir, Eiríkur Briem og amerískir verkfræðingar, telja nægjanlegar í sambandi við ísmyndanirnar, séu það. Ég skal ekkert blanda mér inn í deilur um það. Þeir telja hins vegar, verkfræðingar Landsvirkjunarinnar, að þeir hafi reiknað með viðhlítandi ráðstöfunum. Dr. Gunnar Sigurðsson hefur reiknað út líkurnar fyrir ísmyndunum eftir nýjum formúlum, sem dr. Devik hafði gert við rannsóknir sínar hér í Þjórsá. Þetta er gamall maður, um áttrætt held ég, en hafði á yngri árum gert ákveðna formúlu, sem viðurkennd hafði verið, um ísmyndanir undir vissum kringumstæðum. Hann taldi, að þær mundu verða meiri, ísmyndanirnar hér, og breytti þess vegna formúlu sinni, svo að hún er töluvert strangari nú, og eftir þessari nýju formúlu Deviks eru líkurnar fyrir ísmyndunum reiknaðar. Og niðurstöður reikninganna, sem ástæða er til þess að ætla, að séu um of varkárir, segir dr. Gunnar Sigurðsson, eru þær, að orkuskorturinn verði frá 9–15 gígawattstundir á ári fyrstu 3 árin eða rúml. 1% af heildarframleiðslu Landsvirkjunar. En þá er reiknað með, að virkjunin verði stækkuð samfara miðlun í Þórisvatni. Hliðstæðir reikningar gerðir í nóvember 1964 og byggðir á upprunalegum líkingum dr. Deviks og rennsli þjórsár við Urriðafoss samkv. mælingum raforkumálaskrifstofunnar staðfærðum til Búrfells í hlutfalli við stærð afrennslissvæðanna sýndu orkuskort frá 1–3 gígawattstundum á ári fyrstu 3 árin. Að öllum líkindum mun raunverulegur orkuskortur liggja einhvers staðar þarna á milli. Enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir ýtarlega athugun á mörgum mismunandi leiðum til þess að mæta ísvandamálinu við Búrfell, er niðurstaðan sú hjá sérfræðingum Landsvirkjunar, innlendum og erlendum, að ekki sé rétt að ráðast í uppistöðulón fyrir ofan Búrfell, fyrr en slíkt lón verður eðlilegur þáttur í síðari virkjunum og hagkvæmara sé að reikna með varastöðvum í samvinnu við Búrfellsvirkjun, vissum ráðstöfunum til þess að minnka kæliflöt árinnar ofan Búrfells og miðlun í Þórisvatni. Sú miðlun er þá ætluð fyrir útskolun á ísi og til aukningar á rennsli á lágrennslistímum. Fyrst í stað er reiknað með einni 20 megawatta eldsneytisstöð til viðbótar þeim, sem fyrir eru, og áðurnefndum ráðstöfunum varðandi kæliflötinn. En þegar virkjunin fer yfir 105 megawött, er reiknað með miðlun í Þórisvatni og annarri 20 megawatta eldsneytisstöð til viðbótar, eins og áður segir. Samtals áætlast þessar ráðstafanir að kosta um 230 millj. kr., og eru þær ásamt áætluðum olíukostnaði taldar með í kostnaðarog rekstraráætlunum. Varastöðvarnar eru fyrst og fremst til þess að mæta vatnsskorti af völdum íss, en gegna auk þess því hlutverki að vera til vara við bilanir eða truflanir á línum, vélum og virkjum. Sparast á þann hátt kostnaður, sem annars yrði að ráðast í til þess að mæta slíku. — Athuganir norsku ísafræðinganna gefa ekki tilefni til, að vikið sé frá framangreindri leið.“

Þetta var um ísvandamálið. Svo reiknar þessi hv. þm. út, þegar búið er að breyta töflunni eins og ég áðan greindi, að þetta sé nú ekki mikið, þetta sé svona frá 10–18 millj. á ári, sem Búrfellsleiðin sé þarna hagkvæmari með álbræðslu heldur en án hennar. Það eru engar 10 millj. og ekkert þar á milli. Talan sú, sem draga á frá, er 862 millj. kr. og þegar ég leiðrétti 200 millj., sem þessi hv. þm. taldi, að þessu munaði með 6% vöxtum til 25 ára, niður í 170 millj., sem mun vera réttari reikningur, er þetta yfir 19 millj. kr. á ári. Það segir að vísu þessi hv. þm., að sé bara smápeningur. Þá vantar ekki peninga í Framsfl.! En það er nú gaman samt sem áður að líta á það, að allur reksturskostnaður Búrfellsvirkjunar, eftir að hún er fullvirkjuð, er 18 millj. kr. á ári. Það er þá ekki dónalegt að hafa þann hag af því að hafa álbræðsluna í stað þess að vera án hennar, að allur reksturskostnaðurinn borgast af því hagræði einu árlega.

Svo kem ég að niðurstöðunni og hún var nú sú, að þetta væri nú enginn sparnaður, því að það væri verið að fá lánað hjá framtíðinni. Það finnst mér furðulegasta staðhæfingin hjá hv. þm., jafn greinargóðum og glöggum eins og hann er. Og hann spyr: Af hverju reiknar ekki ráðh. fram yfir 1985 og af hverju ekki fram til 1995 og til 2014? Það er vegna þess, að þá þurfum við að fara að byggja dýrari virkjanir og þá fer þetta að koma okkur í koll, segir þessi hv. þm. Þá þurfum við að fara að borga afborganimar af lánunum hjá framtíðinni. Jæja, það er einmitt á þessum tíma eða árið 1991, þegar búið er að borga að öllu leyti eða afskrifa Búrfellsvirkjunina, að þá er raforkugjaldið, sem álbræðslan greiðir til virkjunarinnar, um 110–112 millj. kr. og þegar dreginn er frá sá hluti, sem vegna hennar er af rekstrarkostnaði, mun það vera um 100 millj. kr. Þá eigum við bara þessar 100 millj. kr. á hverju ári til þess að mæta þessum aukna kostnaði. Það er ekki alveg ónýtt til að mæta því, sem virkjanir kunna að verða dýrari þá. Ég segi, að þetta er ekki að fá lánað hjá framtíðinni, þetta er til að búa í haginn fyrir framtíðina. Og ef þessar 100 millj. kr. árlega eru lagðar á 6% vexti frá 1991 og þangað til 2014, til enda samningsins, eru það 5000 millj. kr., sem okkur skilast þannig. — Eins og ég sagði áðan, ég hefði ekki farið að rekja þessa ræðu hér á þessum vettvangi, ef hv. 1. þm. Austf. hefði ekki gefið sérstakt tilefni til þess.

Út af þeim ýmsu umr. og efasemdum, sem hafa komið fram um raforkuverðið, bæði fyrr og síðar í þessum umr. og dálítið hér í gær, finnst mér rétt að gera þinginu grein fyrir tveim ályktunum, sem Landsvirkjunarstjórn hefur látið frá sér fara 24. marz s.l., í sambandi við raforkumálin, áður en ég hverf frá þeim. Það er í fyrsta lagi:

„Stjórn Landsvirkjunar hefur fengið í hendur áætlanir um byggingu og rekstur 70 megawatta og 105 megawatta Búrfellsvirkjunar. Á grundvelli þeirra og áætlana um smávirkjanir er ljóst, að Búrfellsvirkjun sé hagkvæmasti næsti áfangi í þróun ratorkuframleiðslu fyrir orkuveitusvæði Landsvirkjunar. Fram komin tilboð í byggingarmannvirki og vélar til orkuversins staðfesta, að kostnaðaráætlanir Landsvirkjunar og sérfræðinga hennar hafa verið raunhæfar og ekki sé ástæða til að ætla, að kostnaðurinn fari fram úr áætlun. Skýrslur þær, sem stjórnin hefur fengið um lausn ísvandamálsins, benda eindregið til þess, að þær ráðstafanir, sem fyrirhugaðar hafa verið til þess að tryggja hagkvæman og öruggan rekstur, séu fullnægjandi, en kostnaður af þeim er innifalinn í þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið.“

Þetta var samþ. í Landsvirkjunarstjórninni með 6 atkv., Sigurður Thoroddsen greiðir atkv. á móti. Önnur ályktun var svohljóðandi:

„Stjórn Landsvirkjunar hefur fengið í hendur uppkast að fyrirhuguðum samningi við Íslenzka álfélagið h.f. um orkusölu. Samkv. áætlunum, sem gerðar hafa verið um stofnkostnað og rekstur Búrfellsvirkjunar, er fyrirhugað raforkuverð í samningi þessum hagkvæmt fyrir Landsvirkjun, enda er það fyrir ofan meðalkostnaðarverð á raforku frá Búrfellsvirkjun að meðtöldum varastöðvunum, þótt miðað sé við 25 ára afskriftir mannvirkisins.“ — Nú vita allir, að það þarf ekki að afskrifa svona vatnsaflsmannvirki á 25 árum, stundum eru þau afskrifuð á 40 árum, en oftast ganga þau í 100 ár, þegar einu sinni er búið að koma þeim í gang eða kannske lengur. — „Enn fremur gerir þessi raforkusamningur það kleift að ráðast í Búrfellsvirkjun á miklu hagkvæmari hátt fyrir neytendur á orkuveitusvæði Landsvirkjunar en ella. Sýna rekstraráætlanir, að afkoma Landsvirkjunar fram til ársins 1985 muni verða um 700 millj. kr. betri, ef slíkur samningur er gerður. Er augljóst, að án slíks samnings muni orkuverð á orkuveitusvæði Landsvirkjunar verða 25–40% hærra um allmörg ár en ella væri nauðsynlegt. Stjórn Landsvirkjunar er því reiðubúin til þess að samþykkja framangreinda samninga um orkusölu, enda verði aðalsamningurinn um byggingu álbræðslu milli ríkisstj. og Swiss Aluminium staðfestur af Alþ.“

Þessi ályktun var samþ. með 5 atkv., en á móti Sigurður Thoroddsen og Þorsteinn Sigurðsson.

Það eru ýmis fleiri atriði, sem mætti í þessu sambandi tala um. Það er hvað eftir annað talað um það af hv. 1. þm. Austf., að þetta sé allt villandi, af því að það sé reiknað með föstu verðlagi, en allt hlaupi upp úr öllu valdi. Nú er gerð grein fyrir því á bls. 226 í þskj., að verulegur hluti af þessum kostnaði er þegar orðinn fastur með þeim tilboðum, sem um er að ræða. Það er gerð kostnaðaráætlun á bls. 226, sem sýnir, að stofnkostnaður við 105 megawatta Búrfellsvirkjun er áætlaður 1217,5 millj. kr. Svo kemur nánar á næstu síðu, að um 15% af heildarstofnkostnaði verða háð launum samkv. kjarasamningum. 15% af 1217 millj. eru um 182 millj., sem eru háðar breytingum á launum. Og þetta er þriggja ára tímabil, sem þessi virkjun á að byggjast á og við skulum áætla, að launin hækki um 50% á þessum þremur árum. Þá eru þar 92 millj. kr., en í kostnaðaráætluninni á bls. 226 er liður, sem heitir ófyrirséð 137 millj. kr. Það eru þá enn eftir nærri 50 millj. kr. til annarra ófyrirsjáanlegra atvika, og svo er hv. 1. þm. Austf. stöðugt að tala um, að það sé ekkert að marka áætlanirnar, vegna þess að verðlagið hlaupi upp og verði svo og svo breytilegt og þó liggur þetta fyrir í málsskjölunum og er margsinnis búið að benda mönnum á það.

Hv. 5. þm. Austf. sagði, að í öðru dæminu með eða án álbræðslu væri reiknað með, að öll afgangsorka væri notuð, en í hinu ekki. Þetta er ekki fyllilega rétt. Í báðum tilfellum er um afgangsorku að ræða. En án álbræðslu fæst meiri afgangsorka, sem ekki er reiknað með að nýtist neitt. En það er líka töluverð afgangsorka með álbræðslu, og taldi ég rétt að fá nánari skýringar á þessu. Ástæðan til þess, að í hvorugu dæminu er reiknað með tekjum af afgangsorku, er sú, að rétt þótti að áætla tekjur varlega, en um sölumöguleika á afgangsorku ríkir mikil óvissa. Það er rétt, að afgangsorkan er minni með álbræðslu, en þó nægjanleg til að taka við t.d. tvöföldun Áburðarverksmiðjunnar. Hvað húshitun viðvíkur, er í útreikningunum bæði með og án álbræðslu gert ráð fyrir, að hún fjórfaldist á næstu 20 árum frá því, sem nú er. Þrátt fyrir þetta hefur Búrfell með álbræðslu og tvöföldun Áburðarverksmiðjunnar engu að síður afgangsorku aflögu, t.d. árið 1980 álíka mikla og öll sú húshitun er, sem reiknað er með á því ári í núverandi áætlun. Þó að það sé að vísu rétt, að afgangsorkan sé meiri án álbræðslu, þá er vandséð, hvaða markaður væri fyrir hana umfram þann markað, sem Búrfell með álbræðslu getur annað. Þetta var í sjálfu sér mjög eðlileg aths., en þessar skýringar gefa auðvitað verulegar upplýsingar í sambandi við þennan lið í tveimur mismunandi áætlunum.

Þá vefengdu báðir þessir fyrirsvarsmenn stjórnarandstöðunnar áætlanir um gjaldeyristekjur af álbræðslu. Hv. I. þm. Austf. sagði, að það væri nú bara alveg fyrir ofan sinn skilning, sem haldið væri fram um það. Nú er það að vísu svo, að þó að eitthvað sé fyrir ofan skilning einhvers, hv. 1. þm. Austf. eða annars, þá hrindir það ekki út af fyrir sig réttmæti málsins. Hitt get ég vel skilið, að bæði þetta atriði og ýmis önnur hafa menn kannske ekki haft mjög langan tíma til þess að kynna sér og mér er það líka alveg ljóst, að þegar hv. l. þm. Austf. hefur aðstöðu til að kynna sér þetta betur, skilur hann þetta engu síður en hver annar. En dæminu verður ekki hrundið aðeins með slíkri staðhæfingu. Aftur á móti vék Lúðvík Jósefsson að þessu máli þannig, að hann vildi reikna út, að það gæti ekki staðizt, að gjaldeyristekjurnar væru svona miklar, hreinar gjaldeyristekjur, 300–320 millj. króna, taldi réttilega vinnuliðinn og taldi réttilega skattaliðinn, taldi hins vegar (ekki réttilega) engan hluta af raforkuliðnum, því að það verður að telja víssan hluta af honum. Til frekari skýringar á þessu máli hef ég fengið þessar upplýsingar: Áætlaðar gjaldeyristekjur af 60 þús. tonna álbræðslu, þ.e.a.s. hreinar gjaldeyristekjur: vinnuaflskostnaður við framleiðsluna 120 millj. króna, skrifstofukostnaður, viðhald o.fl. 58 millj. kr., kostnaður í álsteypunni sjálfri 21 millj. kr., skattar 52 millj. kr., raforka 112 millj. kr., en þetta gerir 363 millj. kr. Svo segir: Áætlað er, að 2/3 af heildarreksturskostnaði Búrfellsvirkjunar sé erlendur kostnaður og af því séu 55% vegna álbræðslu eða 63 millj. kr. og þegar 63 millj. kr. eru þarna frádregnar, verður útkoman 300 millj. kr. hreinar gjaldeyristekjur. Við þetta er svo bætt, að afkastageta verksmiðjunnar yrði sennilega í reynd nokkru meiri en 60 þús. tonn, það er byggt á því, að með aukinni tækni og eins og stefnan er, takist mönnum að nýta betur aflið, sem þeir fá, og má því gera ráð fyrir, að gjaldeyristekjur myndu, þegar fram í sækir, verða um 20 millj. kr. meiri en að ofan getur. Þetta eru frekari skýringar á þessu dæmi. Ég geri nú ekkí ráð fyrir, að mönnum finnist þær fullnægjandi, en þær ættu þó að vera til nokkurs skilningsauka. Það hafa verið reiknaðar töluvert hærri gjaldeyristekjur hjá Norðmönnum af 60 þús. tonna bræðslu, og það ætti nú að styðja það að vísu, að hér væri ekki reiknað óvarlega. Að vísu getum við sagt, ja, þeir njóta bara svo mikið betri kjara, hafa lægri raforku, — það hafa þeir, — en þeir hafa ekki lægri skatta, eins og ég hef bent á, a.m.k. engan veginn fyrstu árin, en það er ýmislegt annað, sem kemur til greina, sem ekki er áætlað hérna, margvísleg þjónustustarfsemi, sem ætla má, að fram komi, sem mér er kunnugt um, að Norðmenn gera grein fyrir í áætlunum sínum, og sérstaklega verður að hafa í huga, þegar tölur eru teknar til samanburðar frá þeim, sem nefndar hafa verið, eitthvað á 5. hundrað millj. kr. Held ég, að þeir hafi t.d. mjög miklar gjaldeyristekjur af flutningum til og frá álbræðslunum þar, annast þá að verulegu leyti. Nú höfum við ekki gert ráð fyrir einni krónu í flutninga hjá okkur í sambandi við þessa álbræðslu, en þar er einn af þeim mörgu framtíðarmöguleikum, sem ég held, að felist í þessu fyrirtæki, það er að okkar skipafélög taki að sér flutninga. Og þetta eru engir smáræðis flutningar, ef flytja á hráefnið hinum megin af hnettinum frá Ástralíu og hingað, og gætum við því jafnvel eignazt stór skip í þessu augnamiði. En þetta getur enginn reiknað að svo komnu og í samningunum er okkur ekki tryggt annað en samkeppnisaðstaða í þessu. Ef við getum keppt við aðra, þá skulum við ganga fyrir.

Hv. 1. þm. Austf. sagði, að skv. samningunum hefði hið erlenda fyrirtæki skýlausan rétt til erlends vinnuafls, og það væri afar slæmt. Þetta er ekki rétt. Það er ekki samkv. samningunum, það er skv. íslenzkum lögum, því að samningsákvæðin veita þeim rétt með tilvísun til íslenzkra laga og eins og þau hafa verið framkvæmd í gr. 17.01. Þetta sést bara, ef menn vilja lesa samninginn, og þetta er eitt af þeim ákvæðum, sem m.a. kom inn vegna góðra ábendinga í þingmannanefndinni, ekki sízt frá Birni Jónssyni, um það að ganga betur frá þessum ákvæðum. Hann benti mér á, að í lögum okkar er það félmr., sem veitir heimild til að flytja inn erlent vinnuafl, að fengnum till. verkalýðsfélaga. Að fengnum till. þýðir ekki annað en það, að það þarf þá fyrst að fá till., það þarf ekki að fara eftir þeim. En það hefur alltaf verið farið eftir þeim og þess vegna fékk ég sett inn í greinina þetta ákvæði: „í samræmi við ákvæði íslenzkra laga, eins og þeim hefur verið framfylgt,“ svo að frá þessu verður ekki vikið, og þetta er alveg tryggt. Samningurinn tryggir okkur með öðrum orðum umfram íslenzk lög.

Hv. 1. þm. Austf. talaði einnig um, að þeir greiddu ekki skatt af arði af hlutafé. Nei, það er rétt, og þetta átti að vera sérstaða, en þetta er nú í samræmi við tvísköttunarsamninga, sem við höfum verið að gera við aðrar þjóðir og erum í vaxandi mæli að gera, við erum t.d. búnir að gera þá bæði við Norðmenn og Svía.

Svo kem ég að einu smáatriði, sem er kannske ekki svo mjög alvarlegt. Það var að vísu mikill óður til sjávarútvegsins, sem hv. 5. þm. Austf. flutti, og fallegur, og get ég tekið undir hann í einu og öllu. Hann vék m.a. að loðnuveiðunum og sagði, að hafi maður bara loðnuveiðar svolítinn tíma, þá fáí maður meiri gjaldeyri í þjóðarbúið heldur en af heilli álbræðslu. En hann bætti við, „ef réttilega er á haldið.“ Það er alveg eins og hv. þm. hafi bara kippt loðnunni hérna upp að landinu, haldið sem sagt réttilega á. En dettur honum í hug, að nokkur hætti loðnuveiði, þó að álbræðsla verði byggð, ef loðnan gengur? Það held ég ekki. Auk þess er nú ekki, því miður, gert ráð fyrir, að erlendur gjaldeyrir af þessari miklu loðnu, sem nú í ár er yfir ein milljón tunnur, verði meiri brúttó en um 130 millj. kr. Í fyrra var veiði 500 þús. tunnur, árið þar áður 80 þús. og þar áður engin nema bara í beitu. Við sjáum af þessu, að það hafa nú verið aðeins 2 ár, sem loðna hefur veiðzt, að nokkru ráði, helmingi meira í ár heldur en í fyrra, en þar áður sáralítið. Það eru líklega um 130 millj. kr., sem við fáum með vissu í gjaldeyri af þessari veiði, en brúttógjaldeyririnn af álbræðslu er reiknað með að sé 1.300 millj. kr. eða tíu sinnum meiri. En það er gott að geta haldið vel á loðnuveiðum og síldargöngum, enda er kannske ekki alveg fráleitt, að hv. þm. hafi einhver áhrif á síldargöngurnar, ef marka má, hvað þær hafa haldið sér á undanförnum árum í námunda við heimkynni hans!

Það var svolítið rætt um skattana í hlutfalli við mannafla, sem við fyrirtækin vinna, og sagði hv. 5. þm. Austf. að þeir væru nú miklu meiri af sjávarútvegi. Já, þeir eru sjálfsagt í vissum tilfellum og í takmarkaðan tíma miklu meiri, sérstaklega varðandi síldarbræðslu, sem rekin er vissan tíma ársins, en ef síldarbræðslur okkar allar eru teknar í heild og yfir allt árið, þá lítur náttúrlega dæmið allt öðru vísi út. En af því við höfum byrjað umr. um þetta, sem ég segi nú, að skipti ekki afskaplega miklu, þá vil ég segja þetta, að til samanburðar við skatt á álbræðslu hefur verið aflað upplýsinga um beina skatta 33 stærstu fyrirtækjanna í Reykjavík á árinu 1964, — og það var á þessum og öðrum útreikningum, sem grg. er byggð, — og námu þeir samtals um 14 þús. kr. á hvern starfsmann fyrirtækjanna. Sömuleiðis hefur verið gerð tilraun til að áætla heildarskatta á atvinnurekstur hér á landi, bæði beina skatta, söluskatt og tolla. og áætlað er, að þeir hafi numið samtals um 1.200 millj. kr. Áætlað er, að fjöldi starfandi fólks annars en við landbúnað og í þjónustu opinberra aðila hafi numið um 50 þús. manns, og heildarskattar á allan atvinnurekstur virðast skv. þessu hafa numið að meðaltali um 24 þús. kr. á hvern starfandi mann. Til samanburðar koma skattar að upphæð 116 þús. kr. á hvern starfsmann í 60 þús. tonna álbræðslu. Það má segja, að svona samanburður sé kannske ekki mikils virði og meira til gamans, en úr því að um það var byrjað að ræða, þá vildi ég samt láta þetta koma fram.

Það hafa ýmsir fleiri þm. tekið til máls í þessum umr., og væri kannske rétt að víkja lítillega að því. Hv. 3. þm. Reykv. talaði hér í gær. Þó að við eigum oft samleið um margt, þá er eins og við séum sinn á hvorum pólnum, þegar verið er að tala um þessi mál. sem hér um ræðir, atvinnurekstur og fjármagn, ég tala nú ekki um kapítalisma, hvað þá erlendan kapítalisma, svo að við nálgumst ekki hvor annan. þó að við förum að rökræða eitthvað frekar um það.

Ég sé, að Þjóðviljinn hefur tekið því fegins hendi og birtir með miklum fögnuði í morgun, — ég held í tvöfaldri fimmdálka fyrirsögn, — að gróðinn af álbræðslunni verði 460 millj. kr. Ja, þeir mega vera þakklátir hv. 3. þm. Reykv., þeir í Swiss Aluminium, ef þetta reynast orð að sönnu. Hann spurði, hvort við hefðum kynnt okkur, hver væri líklegur gróði af svona fyrirtæki, og því er til að svara, að við höfum auðvitað mjög nákvæmar áætlanir frá þeim, bæði frumáætlanir og endurskoðaðar áætlanir og aftur endurskoðaðar áætlanir, um þeirra rekstur, og bárum þær undir erlend endurskoðunarfyrirtæki, af því að við töldum okkur ekki sjálfa hafa aðstöðu til þess að meta þær. Þeir töldu áætlanirnar mjög eðlilegar. Það er náttúrlega allt annað uppi á teningnum um áætlaðan gróða í þeim, en ég get ekki vitnað sérstaklega til þess, eins og menn skilja. En ég get auðvitað leiðrétt hv. 3. þm. Reykv., miðað við hans eigin útreikninga, því að hann byggði á því, að amerískar álbræðslur hefðu 24–26% hagnað af sínu kapítali. En gert er ráð fyrir, að kapítalið í ÍSAL verði 800 millj. kr. eða þriðji parturinn af fjármagninu, og fjórði parturinn af 800 millj. er nú ekki nema 200 millj. kr. gróði í staðinn fyrir þessar 460. Hann spurði, hv. 3. þm., hvernig ætti að útvega fé í höfnina. Ég get gefið upplýsingar um það, að það hefur alltaf verið gert ráð fyrir því, að ríkisstj. hefði forgöngu um það f.h. Hafnarfjarðarkaupstaðar, að útvega lánsfé í höfnina, og viðræður hafa farið fram um það á erlendum vettvangi, og ég tel, að við höfum ástæðu til þess að ætla, að okkur muni takast að sjá um það. Það verða ekki Svisslendingarnir sérstaklega, sem lána í hana, en þeir eiga, eins og fram kemur í málsskjölunum, að borga lánið á 25 árum með 6% vöxtum.

Það er eitt atriði enn, sem hv. 3. þm. Reykv. spurði um, áhrif force majeure á skuldbindingar aðila. Ég hafði nú lítinn tíma, af því að við sátum hérna fram eftir öllu kvöldi, og tel því eðlilegast og kannske heppilegast að fresta svari við þessari spurningu, þangað til í síðari umr. málsins. Þarna eru, eins og hv. 3. þm. benti á, mjög flókin lögfræðileg samningsatriði, og það gagnar held ég engum okkar að segja neitt um það, nema að fyrirfram athuguðu máli og geri ég ekki ráð fyrir, að það sé neitt við það að athuga, þótt ég fresti að svara því nánar.

Hann spurði: Getur ISAL flutt inn erlent verkafólk fyrir lægra kaup, verkfallsbrjóta? Nei, það getur það ekki, það getur ekki flutt inn verkafólk, nema með samþykki verkalýðsfélaganna hérna, og ég geri ekki ráð fyrir því, að þau fari að samþykkja það, að þeir flytji inn verkfallsbrjóta.

Hann spurði: Eru einhverjir hagsmunir tengdir við það, að við göngum í Efnahagsbandalagið? Nei, það eru engir hagsmunir við það bundnir, og það er einmitt vegna skattafyrirkomulagsins. Það mætti segja, að það væru hagsmunir við það bundnir, ef greiddir væru venjulegir skattar. Ef við losnuðum við tolla af útflutningi o.s.frv., þá batnaði afkoma fyrirtækisins, og þá mundi það fá meira í sinn hlut. Svo ég held einmitt, að skattafyrirkomulagið verki þarna alls ekki örvandi heldur frekar sem hemill í þessu sambandi á það, að við förum í Efnahagsbandalagið.

Hv. 3. þm. Vestf. talaði hér í gær og okkur hefur komið saman um það að láta liggja á milli hluta að svara þeirri ræðu, þangað til á síðara stigi málsins, en hann komi sínum fyrirspurnum, sem hann beindi til mín í gærkvöldi, á framfæri við nefndina til þess að fá upplýsingar um þá ýmsu útreikninga, sem hann fór með.

Aðeins einu atriði úr ræðu hans vil ég víkja að, til þess að það valdi ekki misskilningi, og það eru ákvæðin um mengunina. Það kom greinilega fram, að það virtist svo sem hv. þm. fyndist ekki, að nægjanlega vel væri um þá hluti búið, en ég tel, að það sé mjög vel um þá hluti búið hjá okkur. Í fyrsta lagi vil ég segja það, að þetta flúor-gas eða útblásturinn og það hættulegasta, sem í honum er, mun vera flúor, er ekki hættulegt mönnum og þess vegna þarf ekki að gera neinar sérstakar ráðstafanir í sambandi við það í sjálfri álbræðslunni. Það getur orðið hættulegt gróðri og skepnum, sem bíta eða nærast á gróðrinum, eflir að svo og svo mikið flúormagn hefur safnazt í gróðurinn. Þess vegna er það ekkert álitamál, að þar sem álbræðslur eru reistar í dölum eða í landbúnaðarhéruðum, er ekki um annað að ræða en setja strax í upphafi hreinsunartæki í þær, en þau eru dýr. En gróður er nú ekki mikill þarna á Reykjanesinu. Þó verður að hafa það í huga, að iðnmrh. bað Rannsóknastofnun iðnaðarins að kanna málið og það var misskilningur hjá hv. þm., að það hefði bara verið farið eftir upplýsingum frá Swiss Aluminium, því það kemur fram í fskj., sem að þessu lýtur, að það voru bæði höfð dæmi af slíkum málum í Noregi og Bandaríkjunum og framkvæmdastjóri Rannsóknastofnunar iðnaðarins, Pétur Sigurjónsson, hann tókst á hendur alveg sérstaka ferð til Noregs til þess að kynna sér þessi mál þar eftir beiðni minni. Það er ekki talið sennilegt, að það verði nein hætta af þessu, en það skapast fljótt möguleikar til þess að kanna það, hvað þetta úrfall verður mikið frá 30 þús. tonna verksmiðjunni. Og áður en kemur að því að stækka, vil ég benda á þessi ákvæði, sem hér eru: „lSAL mun gera allar eðlilegar ráðsfafanir til þess að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði.“ — Og um reglur um öryggi og heilbrigði og hreinlæti segir í greininni næst á eftir, „að ISAL skuli byggja og útbúa og reka bræðsluna og halda henni við í samræmi við núgildandi og síðari lög og reglur á Íslandi varðandi öryggi í atvinnurekstri, heilbrigði og hreinlæti; og skal í þessum efnum vera háð eftirliti opinberra stofnana, sem ábyrgð bera á framkvæmd á slíkum reglum.“ Ég held þess vegna, að við höfum alveg nægjanlega sterk samningsákvæði. Ég fullyrði það hér, að kæmi það í ljós, að hér yrði um að ræða einhvern skaða af völdum útblástursins á fyrsta stigi bræðslunnar, þá er ekki aðeins ISAL ábyrgt, eins og greinin segir nánar um, heldur mundum við þá hafa aðstöðu til þess að skylda þá til, eftir samningnum, að setja upp hreinsunartæki, bæði í hluta verksmiðjunnar, sem kominn er, og þann, sem framundan er. Þessu hef ég margsinnis haldið fram og þetta hefur verið minn skilningur á grundvelli þessarar greinar. Við töldum, að þetta væri engum vafa undirorpið, þegar greinarnar voru komnar í þetta horf, sem þær nú eru.

Ég hef náttúrlega ekki svarað öllu og sumt hef ég leitt hjá mér af skiljanlegum ástæðum, sem mér hefur ekki þótt ástæða til að svara. Það er auðvitað ýmislegt, sem fram hefur komið, sem snertir ekki beinlínis samningagerðina, eins og hjá hv. þm. Norðurl. Gísla Guðmundssyni í gær, en það var algerlega bundið við staðsetninguna, og þar hafa menn sínar mismunandi skoðanir. Ég hafði þá skoðun, alveg eins og hann, að ég taldi það langæskilegast, ef viðráðanlegt hefði verið, að staðsetja þessa álbræðslu fyrir norðan. Menn vita, að niðurstaða mín og annarra varð önnur og það geta menn ásakað mig fyrir, en ég tei, að við höfum fært fram nægjanlega sterk rök fyrir því, að um annað hafi ekki verið að ræða að svo stöddu.

Ég skal þá ljúka máli mínu, herra forseti. Ég hef með rósemi getað hlýtt á aðfinnslur andstæðinga þessa máls með einni undantekningu, sem ég gerði sérstaklega grein fyrir, varðandi gerðardómsákvæðin. Þar hafa ásakanirnar, að mínu viti, farið langt út fyrir velsæmi og grundvallast engan veginn á réttu mati eða þekkingu, né heldur fá þær staðizt miðað við fyrri afstöðu þm., sem allir hafa vitað um langan tíma um þessi ákvæði, en engum andmælum hreyft nema minni háttar aths. í þmn., þótt þeim væri gefið fyllsta ráðrúm til þess. Mig undrar ekki, þótt menn teldu, að sitt hvað mætti betur fara í samningagerðinni. Fáum er ljósara en mér, að málið er margbrotið og fjölþætt. Það er því ekki undrunarefni, þótt deilur rísi, en öldurnar mun lægja. Í mínum huga treysti ég því, að við séum að fjalla um og afgreiða mikið framlíðarmál. Ég bið þess, að framkvæmd þess megi verða íslenzku þjóðinni til farsældar og blessunar.