05.04.1966
Neðri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi fara fram á það við hæstv. forseta, að hann athugi hvort hæstv. landbrh. er ekki hér í húsinu. Ég hefði gjarnan viljað ræða lítið eitt við hann um þetta mál, eða viss atriði í því. — Já, þökk fyrir.

Í þeim umr., sem þegar hafa farið fram um þetta mál. hefur verið fjallað um nokkur stór atriði í þeim samningi, sem hér er lagður fyrir Alþ. M.a. hefur verið á það bent, að hæstv. ríkisstj. hefur samið um það við Svisslendinga, að selja þeim raforku fyrir langt um lægra verð en þeir greiða Norðmönnum fyrir orku til rekstrar fyrirtækja af sömu tegund og það er, sem fyrirhugað er að koma á fót hér á landi. Einnig hefur verið andmælt kröftuglega þeirri árás ríkisstjórnarinnar á innlenda dómstóla, sem felst í þessum samningi. Fleira hefur þegar verið nefnt, sem sýnir, að það er ósæmilegt af Alþ. að staðfesta þennan samning.

Ja, hvernig skyldi vera með hæstv. landbrh.? (Forseti: Það er verið að athuga, hvort hæstv. landbrh. sé í húsinu, og gera ráðstafanir til þess að gera honum aðvart, ef hann er staddur hér.)

Ég hefði nú einnig viljað bera fram þá ósk við hæstv. forseta, að hann hlutaðist til um, að meiri hl. af þm. stjórnarflokkanna væri hér staddur í þingsalnum, þegar verið er að ræða um þetta mikla mál. Mér finnst það sanngirniskrafa, að þeir séu það. (Forseti: Ég hef fengið þær upplýsingar, að hæstv. landbrh. er ekki eins og stendur staddur hér í húsinu.)

Já, það var slæmt, en ætli það sé ekki eitthvað fleira af þm. stjórnarflokkanna hér en þeir, sem eru hér inni í þingsalnum? (Forseti: Það er sjálfsagt að verða við tilmælum hv. þm. og ég mun kalla þm. til deildarinnar.) Ég þakka fyrir, herra forseti.

Víst væri ástæða til að ræða margt, sem hér er fjallað um, en ég ætla þó aðeins að fara nokkrum orðum um eitt atriði í samningi ríkisstjórnarinnar við Svisslendinga, sem ég held, að ekki hafi enn verið rætt um af þeim hv. þm., sem hafa andmælt frv. og samningnum. Það eru ákvæðin um undanþágur fyrirtækisins frá greiðslu aðflutningsgjalda af innfluttum varningi.

— Það virðist ekki bera nægan árangur að hringja bjöllunni, e.t.v. vildi hæstv. forseti biðja verðina að smala mönnum á fundinn, þeim, sem eru hér í húsinu. (Forseti: Ég leyfi mér að vekja athygli hv. þm. á því, að öllum þm., sem hér eru sladdir í húsinu, er kunnugt um það, að fundur stendur hér yfir. Ja, ég geri einnig ráð fyrir því, að þeir, sem hingað hafa komið, sjái hver stendur í ræðustólnum.) Það getur samt verið full ástæða til að benda þeim á þessa ósk mína.

Í 14. gr. samningsins segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Eftirtalið skal undanþegið aðflutnings- og útflutningsgjöldum, nema öðru vísi sé ákveðið í mgr. 14.02:

a) innflutningur af hálfu ISALs eða fyrir þess hönd eða verktaka, sem SAL ræður til sín, á öllum efnum, vélum, ökutækjum, eldsneyti, smurningsefnum, búnaði og vistum, þar á meðal auka- og varahlutir til notkunar, neyzlu eða ísetningar við byggingu bræðslunnar.

b) innflutningur af hálfu ISALs eða fyrir þess hönd til neyzlu, notkunar og vinnslu af hálfu ISALs á hráefnum, eldsneyti og smurningsefnum, vélum, búnaði, vistum, sérstökum prömmum, farartækjum og umbúðum, auka- og varahlutum, sem ISAL þarf á að halda til rekstrar bræðslunnar.“

Þannig segir í 14. gr.

Skv. ákvæðum í 31.gr. samningsins á einnig að fella niður söluskatt af vörum, sem ISAL flytur inn, en þar segir svo í undirliðnum ii: „Söluskatturinn eða aðrir skattar af framangreindu tagi skulu ekki lagðir á vörur þær, sem taldar eru í mgr. 14.01 í samningi þessum,“ — það var mgr., sem ég var að lesa áðan, — „og ISAL flytur inn, sem eru notaðar, nýttar, unnar eða ísettar á bræðslulóðinni við byggingu bræðslunnar af hálfu ISALs eða einhvers verktaka ISALs eða af hálfu ISALs í rekstri bræðslunnar.“

Í 18. gr. samningsins eru síðan fyrirmæli um efni, framleiðsluvörur og þjónustu, eins og segir í fyrirsögn þeirrar greinar.

Þar segir svo:

„Við byggingu og rekstur bræðslunnar skal ISAL veita forréttindi:

a) efnum og framleiðsluvörum af íslenzkri gerð eða uppruna að því tilskildu, að þær séu samkeppnisfærar um verð og gæði við efni og framleiðsluvörur af erlendum uppruna, og b) þjónustu frá íslenzkum þjónustufyrirtækjum,“ o.s.frv. „að því tilskildu, að þau séu samkeppnisfær um verð og gæði við samsvarandi erlend fyrirtæki.“

Þarna segir, að ISAL skuli veita forréttindi efnum og framleiðsluvörum af íslenzkri gerð eða uppruna að því tilskildu, að þær séu samkeppnisfærar um verð og gæði við efni og framleiðsluvörur af erlendum uppruna.

Ég vil benda hæstv. forseta á, að ég er reiðubúinn til að fresta framhaldinu af minni stuttu ræðu, ef hann vildi veita kaffihlé núna, ef þá væri von um, að fleiri mættu á fundinum að því loknu. (Forseti: Ég verð að tjá hv. þm., að þingverðir hafa haft samband við alla þá þm., sem hér eru staddir í húsinu, og þeim eru því kunnar óskir hans um, að þeir mæti hér og hlusti á hans ræðu.) Mundi þá hæstv. forseti vilja fresta minni ræðu, ég á ekki mikið eftir af henni, en ég vildi láta fleiri heyra hana heldur en þá, sem hér eru staddir, einkum af þm. stjórnarflokkanna. Þeir eru 21, sem eiga sæti hér í d., en það eru ekki nema 6, sem eru hér innan veggja núna, — sá 7. hér í dyrunum að vísu — og mér þykir það nokkuð slæm mæting. Ég er sem sagt reiðubúinn til að bíða, þangað til fleiri koma. (Forseti: Ég sé nú ekki ástæðu til að fresta fundi af þessari ástæðu, en mun leitast við að kalla þm. hingað með því að hringja bjöllunni eins og venja er til.) Þökk fyrir, herra forseti. (Forseti: Fundi verður ekki frestað.) Það hefur svolítið lagazt, þó eru þeir nokkuð fáir enn þá.

Þrátt fyrir þessi ákvæði, sem ég var hér að lesa upp um forréttindi fyrir íslenzka framleiðendur, er ekki hægt að búast við, að félagið hafi nokkur viðskipti við íslenzka framleiðendur, vegna þess að það getur fengið vörur erlendis frá með heildsöluverði án lolla og söluskatts. Eða hvaða innlent iðnaðarfyrirtæki getur keppt við toll-og söluskausfrjálsan innflutning á erlendum iðnaðarvörum? Og ekki virðast neinar líkur til. að félagið kaupi íslenzkar landbúnaðarvörur, úr því að það getur keypt slíkar vörur tollfrjálsar og söluskattsfrjálsar frá útlöndum. Samkv. tollskránni eru þessi aðflutningsgjöld af innfluttum landbúnaðarvörum: Af kjöti 50%, af mjólk 50%, en af smjöri, osti og eggjum 70%. Veruleg aðflutningsgjöld leggjast á ýmsar aðrar innfluttar neyzluvörur og með þessu ákvæði eru slórar fjárhæðir færðar þeim útlendu. Enginn vafi sýnist á því, að ISAL mundi nota þá heimild, sem þeim er veitt í 18. gr. til að flytja inn frá útlöndum allar þær vörur, sem þeir telja sig þurfa að nota. Í 18. gr. samningsins segir svo um innflutningsheimildir fyrirtækisins:

„Með fyrirvara um ákvæði mgr. 18.01 mun ríkisstj. ekki setja neinar takmarkanir eða fyrirmæli varðandi: a) kaup og innflutning á neinum efnum, framleiðsluvörum né þjónustu af öðrum uppruna en íslenzkum, til notkunar við byggingu og rekstur bræðslunnar.“

Sem sagt, þeir eiga að hafa frjálsan innflutning á þessu öllu. Það er ástæða til að vekja sérstaka athygli á ákvæðum 14. gr. um undanþágur frá aðflutningsgjöldum, sem ég las áðan. Þar er ekki aðeins veitt undanþága frá tollum af öllum efnum, vélum, ökutækjum, eldsneyti, smurningsefnum, auka- og varahlutum, farartækjum og umbúðum og þess háttar, heldur einnig af vistum til neyzlu við byggingu bræðslunnar og vistum, sem ISAL þarf á að halda til rekstrar bræðslunnar. Hvernig stendur á þessu? Ekki étur bræðslan mat. Hér hlýtur að vera átt við vistir, sem neytt verður af verkamönnum við byggingu og rekstur bræðslunnar. Þetta bendir ótvírætt til þess, að fyrirtækið ætli að setja upp mötuneyti fyrir það verkafólk, sem vinnur við byggingu og rekstur bræðslunnar. Ef félagið selur verkamönnum fæði frá mötuneytinu fyrir sama verð og algengt er annars staðar hér á landi, getur það stungið í sinn sjóð öllum tollum og söluskatti af innfluttum matvörum til mötuneytisins. Þarna yrði um álitlegar fjárhæðir að ræða, sem mætti skoða sem uppbót til Svisslendinga á viðskiptin eða sem afslátt á framleiðslugjaldi og raforkuverði og eins og ég gat um áður, eru ákvæði í samningnum um, að engar takmarkanir megi leggja á innflutning á vörum til þessa fyrirtækis. Það er talið, að mörg hundruð manna muni vinna hjá þessu fyrirtæki. Niðurfelling tolla og söluskatts af neyzluvörum þessa verkafólks er mikið fé, vafalaust mjög mikið fé yfir allan límann. Líka gæti ISAL notað tolla- og skattfrelsið að einhverju leyti til þess að reikna sínum verkamönnum fæðið ódýrara en annars staðar gerist og styrkt sig þannig mjög í samkeppninni um vinnuaflið við innlenda atvinnurekendur, ef það teldi sig þurfa þess. Eða hvernig gætu innlend atvinnufyrirtæki veitt sínu verkafólki hliðstæð fríðindi þeim, sem útlendingarnir geta veitt vegna tolla- og söluskattsfrelsisins, sem þeir njóta? Ætlar ríkisstj. e.t.v. að beita sér fyrir því, að íslenzk fyrirtæki, t.d. fiskvinnslustöðvar eða önnur framleiðslufyrirtæki, fái sams konar undanþágur frá tollum og sköttum á innfluttum matvörum, til þess að þau geti boðið verkafólki sínu jafnódýrt fæði og ISAL getur gert? Ef það verður ekki gert, hvernig eiga innlendu fyrirtækin þá að standast samkeppni við ISAL um vinnuafl? Ég fæ ekki skilið ákvæði samningsins öðru vísi en þannig, að ISAL verði frjálst að flytja inn allar matvörur. Það er talað um vistir alveg án tillits til, hvort nóg af þeim er framleitt hér á landi eða ekki, því að vitanlega geta ekki innlendir framleiðendur keppt við þá útlendu, ef leyfilegt er að flytja útlendu vörurnar inn án allra tolla og söluskatts. Eitt af því, sem ISAL fær eftir mínum skilningi á samningnum leyfi til að flytja inn tollfrjálst og söluskattsfrjálst, eru landbúnaðarvörur frá öðrum löndum, allan tímann, sem fyrirtækið starfar, handa öllum þeim fjölda manna, er hjá því vinnur. Nú er slæmt, að hæstv. landbrh. er ekki viðstaddur, því að ég ætlaði að bera fram spurningu til hans. Ég verð þá líklega að kveðja mér hljóðs aftur síðar við þessa umr., ef hann verður hér við, því að ég óska að fá þeirri spurningu svarað, áður en þessari umr. lýkur. En ég vildi spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort hann hefði gert sér þetta ljóst og hefur hann samþykkt þetta eða ætlar hann að samþykkja það? Og ég vil spyrja enn fremur, þó að þeir séu nú fáir hér viðstaddir því miður, þm. stjórnarflokkanna, er öðrum hv. þm. stjórnarflokkanna, sem eru fulltrúar fyrir menn í landbúnaðarhéruðum, kunnugt um þetta ákvæði í samningunum? Hafa þeir þegar fallizt á þetta eða ætla þeir að samþykkja það? Ég á dálítið bágt með að trúa því þrátt fyrir allt. En úr þessu mun fást skorið, áður en langt um líður.