05.04.1966
Neðri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Stundum stærum við okkur af því, Íslendingar, að þing okkar sé elzta þjóðþing í heimi og nýlega var því hampað suður í Ísrael. Menn skyldu því ætla, að elzta þjóðþing veraldar hefði þingræðið öðrum þingum fremur í heiðri, gerði sér far um það að setja ekki á það blett eða hrukku og starfa á þann hátt, að fyllilega samrýmdist anda lýðræðisins. Ég verð að segja það, að stundum setur að mér hroll, þegar ég sé, að mál eru þannig flutt fyrir Alþ., að lýðræðið er aðeins örþunn, gegnsæ blæja yfir þeim, en meginreglur lýðræðis og þingræðis brotnar. Þetta er ekkert einsdæmi, en þó held ég, að það stórmál, sem nú er lagt hér fyrir Alþ., sé einmitt lagt fyrir á þann hátt, að ekki sé til sóma fyrir elzta þjóðþing veraldar.

Málið er lagt fyrir Alþ. fullafgreitt að kalla. Hér vita allir, að enginn er kostur þess að breyta neinu. Málið, sem við erum að ræða þessa dagana á Alþ., hefur verið undirritað af einum ráðh. í hæstv. ríkisstj. fyrir hönd ríkisstj., með fyrirvara segja menn. Jú, að vísu, með fyrirvara. En þetta er gert, áður en málið er lagt fram fyrir Alþ. Íslendinga til umr. Stuðningsmenn stjórnarinnar eru settir andspænis þessu: ef þið ætlið að breyta orði eða stafkrók í þessum samningi, vitið þið hvað það kostar. Þá þýðir það, að þið væruð að fella ykkar eigin ríkisstj. Hvað er verið að gera með þessu? Það er alveg hliðstæða við það, að það sé verið að setja þumalfingursskrúfur á stuðningsmenn stjórnarliðsins og það sé verið að herða á þessum skrúfum, til þess að öruggt sé, að enginn dirfist að fara fram á nokkra minnstu breytingu á þeim samningi, sem hér er til meðferðar. Ég fæ ekki betur séð heldur en þessi vinnubrögð beri vott um það, að hæstv. ríkisstj. hafi borið ugg í brjósti um, að liðinu væri ekki fulltreystandi til þess að afgreiða þennan samning nema því aðeins það væri svolítið hert á þumalfingursskrúfunum. Þetta hlýtur að hafa verið gert til þess að gera það öruggt, að liðinu yrði haldið saman. Stjórnin átti að hafa hér 32 menn, til stuðnings við þetta mál, af 60.

Það máttu því ekki bila þarna tveir menn. Þetta er enginn sterkur meiri hl., þetta er naumur meiri hl., svo naumur, að þó að allt hefði verið með felldu, hefði tæplega verið formandi í lýðræðislandi að afgreiða slíkt stórmál sem þetta með svo naumum meiri hl. En enginn veit, vegna þess hvernig málið er lagt fyrir Alþ., hvort þessi meiri hl. hefur verið fyrir hendi.

Undirskrift hæstv. iðnmrh. segir okkur það fullljóst og skýrt, að ákvörðunarvaldið í þessu máli er ekki lengur í höndum Alþ. Hæstv. ríkisstj. hefur tekið sér ákvörðunarvaldið í málinu og gengið frá samningunum með undirskrift. Málið er búið og gert. Það er okkur öllum ljóst. Einn af hv. stuðningsmönnum ríkisstj., — því miður er hann ekki staddur hér í dag, hefur boðað veikindaforföll, — sagði í gær, að svona ætti þetta meira að segja að vera samkv. hinni íslenzku stjórnarskrá. Nei, svona á þetta áreiðanlega ekki að vera samkv. íslenzku stjórnarskránni. Þeir samningar, sem lagðir eru á annað borð fyrir Alþ., eiga að vera hér til frjálsrar ákvörðunar og meðferðar í sölum Alþ., og þar á engin þvingun að eiga sér stað gagnvart þm. En undirskrift ráðh. getur af engum talizt annað heldur en tilraun til þvingunar á stjórnarliðið. Það mætti jafnvel segja það, að andstæðingum þessa máls væri miklu auðveldari eftirleikurinn að fara ólýðræðislegar og óþingræðislegar leiðir sem andsvar við þessum vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. Það er vitað, að Sjálfstfl. gengur ekki heill til skógar til fylgis við þetta mál, og það er full ástæða til þess að ætla, að í þingliðinu séu þar einnig menn, sem ekki væru fúsir til þess af frjálsum vilja að framfylgja þessum samningi og standa að því að samþykkja hann. Það gæti verið full skýring á þessum vinnubrögðum, þessum óþingræðislegu vinnubrögðum, sem hér hefur verið beitt. Þá er það og vitað, að fjöldi áberandi sjálfstæðismanna í þjóðfélaginu hafa tjáð sig andvíga þessum samningi og vitað er, að þjóðarstemningin leggst mjög þungt í fang þeim, gegn þeim mönnum, sem hafa gert þetta mál að sínu máli og reyna að knýja það fram, án þess að spyrja þjóðina neins þar um. Þó virðist mér sem geigurinn sé augljósastur í röðum Alþfl.-manna, þ.e.a.s. annars stjórnarflokksins. Alþfl. hefur gert samþykkt um þetta mál. miðstjórnarsamþykkt og þar dylst hræðslan ekki. hræðslan við málið, hræðslan við þjóðina gagnvart málinu. Í einu af málgögnum Alþfl. var fyrir nokkru birt miðstjórnarsamþykkt hans um þetta mál. Í inngangi að þessari samþykkt segir, með leyti hæstv. forseta:

„Miðstjórn Alþfl. ræddi um byggingu fyrirhugaðrar álbræðslu sunnan Hafnarfjarðar á fundum nýverið. Var eftirfarandi samþykkt gerð með öllum greiddum atkv. nema hvað þrír sátu hjá.“

Í miðstjórn Alþfl. var ekki rakið fylgi með þessu máli, þrír sátu hjá. Þó er upphafið á þessari ályktun orðað þannig, að það sé svona eins mjúklega farið að mönnum eins og hægt sé, til þess að nokkurt hald sé í samþykktinni. Þar er í upphafi talað um, að miðstjórn Alþfl. ítreki fyrri samþykkt sína um, að Íslendingum beri að hagnýta erlent fjármagn. Nú er öllum auðskiljanlegt, að það er hægt að hagnýta erlent fjármagn sem lánsfé og það hefur yfirleitt ekki þótt neitt athugavert af hendi íslenzkra manna, þótt erlent fjármagn væri hagnýtt sem lánsfé, en menn greinir mjög á um hitt, hvort það sé fyrir okkar örsmáa þjóðfélag örugg leið að hleypa ótakmörkuðu erlendu fjármagni inn í okkar atvinnulíf og leyfa útlendingum að reka hér stórfyrirtæki, stærri fyrirtæki en hér eru til í íslenzkum höndum. Alþfl. lýsir síðan í þessari ályktun stuðningi sínum við þetta mál, sem hér um ræðir, og færir fram nokkur rök frá sínu sjónarmiði fyrir þeim stuðningi. Þeir segjast vera með þessu að treysta stoðir íslenzkrar framleiðslu. Er það nú alveg víst, að stoðir íslenzkrar framleiðslu styrkist við það að fá slíkan keppinaut, sem hér um ræðir, um t.d. íslenzkt vinnuafl? Er það líklegt, að höfuðstoð íslenzks atvinnulífs, sjávarútvegurinn, telji sér mikinn styrk að því að fá slíkan keppinaut um íslenzkt vinnuafl? Ég er miklu hræddari um það, að forustumenn í sjávarútvegi Íslendinga telji frekar hitt, að það reyni á þessar stoðir og þær gætu jafnvel einhverjar brostið við þessa hörðu samkeppni hins sterka erlenda aðila, sem hingað væri leiddur með sérréttindum inn í íslenzkt þjóðfélag til þess að keppa við þá um það, sem er undirstaðan undir þeirra atvinnurekstri, vinnuaflið. Þeir segja í annan stað, að rök með þessu máli séu þau, að þetta veiti atvinnu. Það veitir svo mikla atvinnu, að hætt er við, að aðrir atvinnuvegir þurfi að draga saman segl, af því að þeir fá ekki vinnuafl. Þetta hefði verið mikils virði, ef hér hefði ríki atvinnuleysi og okkur hefði vantað verkefni fyrir íslenzkar hendur að vinna. Þá eru þetta rök með málinu, en eins og sakir standa nú, er það síður en svo rök fyrir þessu máli. Það eykur okkar vanda á þessu sviði, en dregur ekki úr honum, leysir ekki vandann, eykur okkar vanda. Þetta mál veitir okkur gjaldeyristekjur, segja menn, — ósköp er þetta nú billegt! Sérhver atvinnurekstur verður auðvitað að auka gjaldeyristekjur, en spurningin er bara sú, eykur þetta gjaldeyristekjur meir heldur en annar atvinnuvegur, t.d. sjávarútvegur eða fiskiðnaður, sem tæki til sín ámóta mikið af vinnuafli? Stenzt það samkeppni um gjaldeyrisframleiðsluna við okkar eigin atvinnuvegi? Það er spurningin og það dreg ég mjög í efa. Og ef svo er, ef það er rétt, eru þetta ekki rök með málinu. Þeir segja, Alþfl.-menn, í sinni ályktun, að þeir telji, að þetta muni stuðla að uppbyggingu eldri atvinnugreina eða efla aðrar nýjar. Ég held, að það stofni einmitt íslenzkum atvinnuvegum í háska, eins og ástandið er núna í okkar þjóðfélagi, sem ég skal koma nánar að síðar. Mér kæmi það alveg á óvart, ef Landssamband ísl. útvegsmanna eða Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna gerðu samþykktir um þetta mál og lýstu því yfir, að þeir teldu álbræðsluna við Straumsvík efla íslenzkan sjávarútveg eða íslenzkan fiskiðnað, öðru vísi hefur mér heyrzt hljóðið í þeim. En sjálfsagt geta þeir fulltrúar útgerðarmannasamtakanna, sem hér eiga sæti á Alþ., vitnað og undirstrikað þetta atriði í röksemdafærslu Alþfl., ef þeir eru sama sinnis, en annars hygg ég, að þeir þegi.

En svo fara að opnast augu Alþfl.-manna, þeirra miðstjórnarmannanna, sem ekki sátu hjá, og þeir segja: Miðstjórn Alþfl. er ljóst, að erfiðleikar geti fylgt

svo umfangsmiklum framkvæmdum, — þá fer þá að óra fyrir því, — sérstaklega á byggingartímanum, og þeir sjá ástæðu til þess að taka í því sambandi fram nokkur atriði. Jú, þá órar fyrir því, að einhverjir erfiðleikar verði nú í sambandi við þetta, sérstaklega á byggingartímanum. Já, skyldi það ekki. Alþfl. telur, að Íslenzka álfélaginu hf. beri að sjálfsögðu að hlýða íslenzkum lögum, — vissara var nú að taka það fram, — um skipti við stéttarfélög, en eigi ekki að ganga í samtök atvinnurekenda, iðnrekenda eða annarra sambærilegra aðila og hafa þannig áhrif á kjarabaráttu þjóðarinnar. — Þetta er sjónarmið, sem ég virði og það gleður mig, að þeir skulu þó hafa komið auga á það, að það væri dálítið athugavert við það, ef þessi aðili gengi í íslenzk vinnuveitendasamtök, það væri þá líklega orðin ástæða til að nema orðið „íslenzk“ í burtu úr heiti þeirra. En hæstv. ráðh. hefur nú vikið að þessu atriði og þeirri lagfæringu, sem á orðalagi samningsins hefur verið gerð á seinna stigi máls til þess að búa þar svona, eins og búið verður um að mínu áliti um það, að íslenzk lög, eins og þau eru nú og hafa verið í framkvæmd, verði framkvæmd gagnvart þessum erlenda aðila að því er snertir þetta atriði og innflutning erlends verkafólks. Ég játa það fyllilega, að þar hefur ekkert verið haldið illa á máli til þess að veita verkalýðsfélögunum rétt. En hvað þýðir fyrirvari Alþfl.? Hvaða gildi hefur hann og þær aðrar aths., sem hér eru gerðar og birtar í samþykktarformi? Hér kemur síðan: Er það skilyrði fyrir stuðningi Alþfl. við málið, að svo verði ekki, að þessi atvinnurekandi gangi ekki í Vinnuveitendasambandið. En er málinu borgið með því? Það hefur lengi verið hér annar erlendur aðili, sem hefur notað íslenzkt vinnuafl um margra, margra ára skeið. Það er setuliðið á Keflavíkurflugvelli. Það hefur auðvitað ekki gengið í Vinnuveitendasamband Íslands eða samtök iðnrekenda, en hvað hefur það gert? Hefur það ekki lagt neitt af mörkum til þess að hafa áhrif á íslenzka vinnumarkaðinn og kraftahlutföllin milli atvinnurekenda og verkalýðssamtaka? Og jú, vissulega, án þess að ganga í Vinnuveitendasambandið. Mér er ekki kunnugt um annað heldur en setuliðið á Keflavíkurflugvelli hafi öll þessi ár borgað kvartprósent af öllum vinnulaunum, sem þar hafa verið greidd, til Vinnuveitendasambands Íslands fyrir það að vera lögfræðilegur ráðgjafi þeirra og leiðbeinandi. Og þannig hefur sá aðili, án þess að vera í Vinnuveitendasambandinu, lagt fram stórfúlgur fjár til þess að styrkja annan aðilann á íslenzkum vinnumarkaði og hefði þó þar ekki átt nærri að koma. Skyldi það vera torvelt fyrir þennan erlenda aðila að fullnægja skilyrði Alþfl. um að ganga ekki í vinnuveitendasamtökin, en borga þeim fyrir að vera lögfræðilegir ráðgjafar sínir svo og svo mikla upphæð, hvort sem það yrði kvartprósent eða einhver önnur upphæð? Gatan er troðin og Alþfl. veit um þetta og veit þess vegna, að skilyrði hans er einskis virði. Það er sett fram til þess að sýnast, en ekki til að þýða neitt.

Eitt af því, sem Alþfl. slær svo varnagla um, er, að hann leggur áherzlu á, að verði erlent vinnuafl notað við byggingu orkuvers eða álbræðslu, gerist það samkv. gildandi I. eins og þeim er beitt í framkvæmd.

— Þetta er alveg í samræmi við orðalag samningsins, eins og hann er nú, eins og hæstv. ráðh. hefur réttilega skýrt frá, og þar þurfti Alþfl. engu við að bæta og hefur engu við það bætt, það er bara upptugga. En þetta er eitt af skilyrðunum, sem hann setur. Alþfl. leggur síðast en ekki sízt ríka áherzlu á, að ríkisstj. geri nauðsynlegar ráðstafanir til að draga úr þenslu vegna umræddra framkvæmda. Já, það er alveg prýðileg stjórnkænska þetta. Skapa fyrst þenslu og gera svo einhverjar ráðstafanir til að draga úr henni, þetta er vizka. En þetta er einmitt það, sem hæstv. ríkisstj. er að gera. Spana á sig þá þenslu, sem hún nú ræður ekkert við og margfalda hana og gera svo einhverjar kákráðstafanir til að draga úr henni. Og þetta er eitt af því, sem Alþfl. setur einna hæst. Og að lokum segir svo í þessari ályktun, með leyfi hæstv. forseta: Af þeim ástæðum og með þeim skilyrðum, sem hér hefur verið greint frá, styður Alþfl. byggingu orkuvers í Þjórsá og leyfi til byggingar álbræðslu við Straumsvík í landi Hafnarfjarðarkaupstaðar. — Með þessum skilyrðum. Og skyldi ekki íslenzkri alþýðu vera betur borgið eftir en áður. Eru þessi skilyrði ekki skráð í aðalsamninginn ofan við undirskrift hæstv. ráðh., til þess að það sé alveg tryggt, að þetta hafi eitthvert gildi? Ég hef ekki orðið var við þessi skilyrði Alþfl. ofan við undirskrift ráðh., það er hérna til hliðar í blaði norðan af Akureyri, — blaði Alþfl. norður á Akureyri.

Ég held, að svissneski alúmínhringurinn verði ákaflega lítið bundinn af þessum skilyrðum Alþfl., en þetta segir okkur annað, að Alþfl. samþykkir þetta mál með skilyrðum, hann gerir það ekki fortakslaust, og þetta er annar stjórnarflokkurinn. Saman hafa þeir bara 2 atkv. meiri hl. hér á Alþ. skv. höfðatölu, ég veit ekki hvort hæstv. stjórn hefur þann stuðning, þó að hún hafi allfast fylgt á eftir um það, að slíkt skyldi ekki bregðast. Alþfl. virðist alls ekki vera fortakslaust fylgjandi þeim samningi, sem gerður hefur verið. Hann er að minnsta kosti að myndast við að setja alls konar skilyrði fram, þó að ég telji, að þau séu á engan hátt bindandi fyrir hinn erlenda aðila og hafi þannig bókstaflega ekkert gildi, — ekki gildi á móts við þann ódýra pappír, sem þetta er prentað á.

Nú, einn af ritstjórum Alþfl. hefur gefið yfirlýsingu í sambandi við þetta mál. Það út af fyrir sig sýnir, að það hljóta að vera allmörg dæmi þess í röðum Alþfl.-manna, að þeim hugnist ekki að þessu máli, því að í þessu sama blaði, þar sem afstaða Alþfl. var skýrð með ályktun miðstjórnar, þar sem þrír úr miðstjórninni sátu þó hjá og var ekki ljúfur dansinn, tekur ritstjórinn að þessu blaði Alþfl. fram það, sem nú skal greina, með leyfi hæstv. forseta, það eru aðeins örfá orð:

„Ritstjóri Alþýðumannsins vill upplýsa óhikað og án kinnroða, að hann er andvigur slóriðju við Straumsvík syðra, málmbræðslu, á þeirri forsendu, að slík ráðstöfun stuðli að því, að enn aukist sogkraftur Stór-Reykjavíkur eftir vinnuafli frá t.d. Norðurlandi og Vestfjörðum. Einnig er undirritaður vantrúaður á það, að rannsóknir varðandi Dettifossvirkjun hafi verið framkvæmdar nógu ítarlega og er ég hins vegar ekkert hræddur við, — segir ritstjórinn, — að hleypa erlendu fjármagni inn í landið, svo fremi, að hagstæðir samningar náist.“ — Svo fremi, að hagstæðir samningar náist. En það er engu líkara en að hann telji ekki, að hagkvæmir samningar hafi náðst, því að hann lýsir því afdráttarlaust yfir, að hann sé andvígur stóriðju við Straumsvík syðra skv. þeim samningum, sem hann er þarna að ræða um. Hv. 5. þm. Vesturl., sem talaði hér í gær fyrir hönd Alþfl. og lýsti afstöðu hans, einmitt samkv. þessari miðstjórnarsamþykkt, talaði þannig um málið, að hann og hans flokkur hefði ýmislegt við það að athuga, en niðurstaðan varð samt sú, að þeir hefðu samþykkt samninginn og mundu greiða honum atkv. hér á hv. Alþ. Ýmislegt upplýsti þessi hv. þm. Hann sagði t.d.: „Við verðum að sækja eftir erlendu kapítali“ — og það er alveg gefinn hlutur, að hann er að skýra frá því, að íslenzku samningamennirnir hafi sótt eftir þessu. Þá er ekki von, að samningsaðstaðan hafi verið sterk. Ég hefði hins vegar haldið, að við hefðum öll tromp á hendinni til þess að láta erlenda auðhringi vita, að við þyrftum ekki mikið á þessu að halda, eins og ástatt væri í okkar þjóðfélagi. Við hefðum að vísu ódýra raforku, jafnódýra og Norðmenn að bjóða, en við værum að öðru leyti þannig staddir með okkar þjóðfélag í efnahags- og atvinnumálum, að okkur væri ekki mikil eftirsókn í þessu. Et slíku hefði verið haldið fram, hefðum við vitanlega haft allsterka samningsaðstöðu, en að liggja á hnjánum fyrir þeim og segja: Við verðum að ná í þetta, ná í þetta frá Norðmönnum með því að undirbjóða norskt rafmagnsverð. Það er heldur betur að búa sig í stakkinn til harðvítugra samninga við erlendan auðhring! Ég gæti hugsað, að hr. Meyer mundi hafa alveg hiklaust svarað því neitandi, ef hann hefði verið spurður á blaðamannafundi: Hafið þið nokkurn tíma átt við svoleiðis samningamenn, sem hafa legið frammi fyrir ykkur, biðjandi ykkur um að gera við sig samninga, sækjandi eftir því? — Við verðum að sækja eftir erlendu kapítali, sagði hv. þm. Nei, með slíkum vinnubrögðum er auðvitað engin viðspyrna í samningum. Okkar menn hafa þarna sótt á og það er skýringin á því, að við bjóðum rafmagn okkar fyrir 28% lægra verð en Norðmenn, þeir hafa boðið sama fyrirtæki og samið um við sama fyrirtæki og við vorum að semja við. Vantar ekki mikið á, að við bara viljum undirbjóða Norðmenn svo geipilega, að við séum með allt að þriðjungi lægra verð.

Ekki skildi ég nú röksemdafærslu hv. þm., þegar hann sagði, að við hefðum ekki hreinan skjöld í þessu máli, við hefðum verið að sækjast eftir því að koma upp vestur í Ameríku og víðar atvinnufyrirtækjum, þ.e.a.s. í fiskiðnaði, og ættum því ekki að standa á móti því, að útlendir aðilar kæmust hér inn. Ég sé ekki samhengi á milli þessa. En hann sagði annað, sem er að vísu smávægilegt, en ég tel ástæðu til að leiðrétta. Hann sagði, að við værum vestur í Ameríku að sækjast eftir ódýru vinnuafli svartra manna við þessa vinnslu okkar fiskafurða. Þetta er rangt. Vinnuafl svartra manna í Ameríku er skv. lágmarkskaupákvæðum í Bandaríkjunum hærra en kaup íslenzks verkafólks, ég veit ekki betur en að 11/2 dollar sé lágmark, sem ekki má fara niður fyrir undir neinum kringumstæðum. En samningar verkalýðshreyfingarinnar bandarísku eru svo í flestum tilfellum langt þar fyrir ofan. En þar er lögboðið lágmarkskaup og það er 11/2 dollar, eftir því sem ég hef heimildir fyrir. Hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, viðurkenndi það hins vegar, að þenslan mundi aukast og það þýðir heldur engum að neita því, þenslan er hér svo mikil, að hæstv. ríkisstj. hefur ekkert getað við hana ráðið, en samt ræðst hún í þessar aðgerðir, sem enginn getur lokað augunum fyrir og þeirra fylgismenn ekki heldur, að auka þensluna stórkostlega. Hv. þm. lýsti ástandinu, eins og það hafði verið hér um skeið á vinnumarkaðinum. Hann sagði, að við hefðum orðið að gera ráðstafanir til þess að fá erlent kvenfólk inn í landið, húsfreyjur út um sveitir. Við hefðum ekki getað mannað okkar skip á vertíð. Við hefðum orðið að fá menn hundruðum saman til að halda úti okkar fiskveiðiflota og til þess að vinna nauðsynleg störf í fiskiðnaðinum, og þegar átti að byggja hér hótel í Reykjavík með nokkrum hraða, varð að fá erlenda handverksmenn til að aðstoða við það. Þannig er ástandið á vinnumarkaðinum, en samt má bæta þarna hundruðum manna, þúsundum manna við og ríkisstjórn, sem segir mönnum það, að hún sé að berjast gegn verðbólgu og dýrtíð, hún beitir sér fyrir þessu eins og það skipti engu máli, hvort þenslan vex eða ekki. Við vitum það ósköp vel, að þenslan á vinnumarkaðinum er slík, að við höfum ekki getað haft þann hraða á um byggingu skóla, sem okkar þjóðfélag hefur þarfnazt. Það er til forsmánar, að bæði í höfuðborginni og víða annars staðar verður að tvísetja í skólahúsnæði. Það býður engin siðuð þjóð sínum ungmennum upp á slíkt nema Íslendingar og þeirra eina afsökun er, að þeir hafa ekki haft vinnuafl til að byggja nægilegt skólahúsnæði. Þeir vita ósköp vel, að þetta er ósiðmenningarlegt.

Hæstv. iðnmrh. er jafnframt heilbrmrh., hann veit ósköp vel, hvernig ástandið er með sjúkrahúsin. Þar erum við langt á ettir, svo langt á eftir, að óviðunandi er og einkanlega af því, að við höfum ekki haft vinnuafl til þess að hraða byggingaframkvæmdum svo, að við hefðum neitt í námunda við að svara þörfinni. Okkur vantar vinnuafl til hafnabygginga og vegagerðar, og skip okkar standa uppi ómönnuð. En þó að ástandið sé svona og þó að verðbólgan æði áfram svo vitfirrt, að ríkisstj. játar það við hvert tækifæri og veit ekki sitt rjúkandi ráð, eigum við að bæta við stórframkvæmdum uppi í Hvalfirði fyrir annan erlendan aðila, þeir skulu ekki sitja á hakanum. Það á að fara að byggja kísilgúrverksmiðju norður í landi. Það á að byggja stórskipahöfn með öllu, sem henni fylgir, við Hafnarfjörð. Það á að byggja stórvirkjun. raforkuver, stærra en við höfum nokkru sinni byggt. Það á auk þess að reisa varaaflstöðvar, mikil mannvirki, og það á að byggja stórt verksmiðjubákn, meira að segja stórt á erlendan mælikvarða, langtum stærstu mannvirki, sem nokkurn tíma hafa verið byggð á Íslandi og allt þetta samtímis í viðbót við allt, sem ofþyngir íslenzkum vinnumarkaði. Þetta er fyrirhyggja! Nei, þarna er farið eftir reglunni að auka fyrst þensluna og burðast svo við að gera eitthvað til að draga úr henni á eftir, svo vitleg vinnubrögð sem það eru. Það er einmitt vitneskja hæstv. ríkisstj. um það, að hún auki þensluna og raski öllu byggðajafnvægi enn þá meir en orðið er, sem er ástæðan til þess, að nú liggur hérna fyrir okkur frv. til l. um Atvinnujöfnunarsjóð. Ég held, að þetta frv. hefði átt að heita samvizkubitið. Þegar þeir vita, að þeir eru búnir að hella olíu á eld verðbólgu og þenslu, koma þeir fram með frv. um Atvinnujöfnunarsjóð. Nú, það eru taldar upp þar fjárupphæðir, sem áður hefur verið varið til atvinnuúrbóta víðs vegar um landið. Þarna eiga að koma til Skv. þessu frv. eignir Atvinnubótasjóðs, það er ekkert nýtt framlag. Framlag úr ríkissjóði á að vera 150 millj. á næstu l0 árum, þ.e.a.s. 15 millj. á ári. Lögfestar eru nú 10 millj. kr. Jú, þarna er svolítil hækkun, um 5 millj. á ári, en 1957 var einmitt varið 15 millj. úr ríkissjóði til atvinnujöfnunar. Núverandi hæstv. ríkisstj. hefur bara lækkað þessa upphæð, en er nú að koma henni að krónutölu upp í það sama, sem hún var 1957, en það eru miklu smærri krónur, það er miklu minna fé, það er miklu, miklu minna hægt að gera fyrir það en þá var hægt. Það er minni upphæð heldur en veitt var til þessara mála 1957. Og svo eiga að koma af mótvirði óafturkræfs framlags Bandaríkjastjórnar 1960, 55 millj. kr., sem eiga að greiðast sjóðnum á árunum 1966–1969. Og svo eftirstöðvar af Mótvirðissjóði, sem greiða átti til Framkvæmdabanka Íslands skv. 4. gr. nr. 17 frá 1953. Framkvæmdabankinn veitli fé út um landið og ég efast um, að þetta verði eins mikið fé og Framkvæmdabankinn hefur á undanförnum árum veitt með sinni starfsemi út um landið og þar með til atvinnujöfnunar.

En svo koma tekjurnar og það er skattgjald álbræðslu við Straumsvík, að frádregnum 25% skattgjaidsins, sem renna eiga 9 fyrstu árin til Hafnarfjarðarkaupstaðar og 4.1%, sem renna til iðnlánasjóðs. Að 9 árum liðnum skal hlutdeild Hafnarfjarðarkaupstaðar af skattgreiðslunni lækka í 20%, en hlutur Atvinnujöfnunarsjóðsins þá aukast að sama skapi.

Svolítið á að drjúpa á landsbyggðina frá álbræðslunni við Straumsvík. Á móti 2.500 millj. kr. fjárfestingu hér sunnan fjalla þá eiga að koma þarna af ágóðanum 25%. Og svo á svolitið að hygla Hafnarfjarðarkaupstað í leiðinni, enda veitir ekki af, eins og fjárhagur þess kaupstaðar er orðinn undir samstjórn hæstv. stjórnarflokka. Þeir þurfa að láta eitthvað drjúpa þangað.

En hvernig sem við lítum á þetta mál, hvort sem við lítum á það sem stórmál eða lítið mál, þá er það hjákátlegt að leggja það fram nú og það er alveg samkvæmt kenningunni, aukum fyrst og margtöldum verðbólgu og þenslu og höfum svo uppi svolitla tilburði til þess að draga úr afleiðingunum á eftir.

Ég álít, að í viðbót við allt annað, setji þetta mál eiginlega leiðinlegri blæ á þennan flöt málsins.

Ég hef nú dvalið við það, sem mér finnst athugavert við það að ráðast í þessa framkvæmd, gera þennan samning við erlendan stóraðila nú, með tilliti til þess, hvernig ástandið er á ísl. vinnumarkaði og það er ekkert hégómamál. Það er stórmál, að því er snertir íslenzkt atvinnulíf og efnahagslíf og hefur ekki haft í för með sér lítil vandkvæði fyrir hæstv. ríkisstjórn.

Í annan stað má líta á fólksflóttann frá Norður- og Vesturlandi á undanförnum árum. Það hefur verið allalvarlegt mál og er það. Þetta byrjar með því, þegar erlent herlið kemur hingað í landið og byrjað er að sópa fólki hingað á Suðvesturlandið til þjónustu við herliðið. Í sumum sveitum voru nálega allir lagtækir, vel verki farnir menn sogaðir hingað suður í þessa hernámsvinnu, og sum héruð stóðu mjög særð eftir og hafa mörg hver ekki náð sér síðan. Menn sjá alveg, að með þeim aðgerðum, sem hér á að ráðast í nú, þá mundi uppbyrjast sama aðstaðan hjá byggðarlögunum úti á landi. Hingað yrði sogað vinnuafl úr hinum fjarlægari landshlutum og vafaláust einhver þeirra leggjast í auðn. Og það er ekki hlutverk ríkisstjórnar að stuðla að slíku jafnvægisleysi í landinu. Það stuðlar engan veginn að því, að auðlindir Íslands og íslenzku þjóðarinnar nýtist betur að sópa fólkinu hér saman, í Faxaflóabyggðirnar.

Og svo að síðustu, verðbólgan, sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar viðurkenna, að mundi aukast við framkvæmd þess máls, sem hér er til umr.

Vinnuaflsskorturinn, fólksflóttinn, verðbólgan, öll þessi stóratriði mæla gegn því að ráðast í framkvæmd sem þessa, eins og nú háttar í okkar efnahags- og atvinnulífi. Aðalatvinnuvegir okkar eru í vanda. Þeir mundu verða í meiri vanda, eftir að þetta mál væri komið til framkvæmda. Og það, sem ég hef nú nefnt siðast, verðbólgan, er hún smáatriði? Er það hégómamál, hvort ríkisstjórn eykur verðbólguna með sínum aðgerðum eða ekki? A.m.k. leit ekki Ólafur Thors svo á. Eftir honum hefur staðið á prenti í Morgunblaðinu þetta: „Ef okkur tekst ekki að stöðva verðbólguna, er allt annað unnið fyrir gýg.“ Og sannleikurinn er sá, að hvort sem við lítum á okkar sjávarútveg eða okkar landbúnað eða iðnað, þá eru allir þessir höfuðatvinnuvegir okkar í vaxandi vanda með vaxandi verðbólgu.

Það hefur verið sagt, að rök stjórnarandstöðunnar gegn þessu máli séu ekki veigamikil, en ég tel, að því verði ekki neitað með rökum, að það að draga upp myndina at efnahags- og atvinnuástandi þjóðarinnar og skyggnast þar um og vara við því, að eldur verðbólgu sé kyntur eins og gert verður með þessu máli, það eru ekki veigalítil rök. Og það er ég alveg sannfærður um, að hæstv. forsrh. viðurkennir það, a.m.k. með sjálfum sér, ef hann gerir það ekki upphátt, að þetta eru veigamikil rök. Þetta mál ber að á þeim tíma, að við ættum ekki að líta á það sem neinn happafeng fyrir okkur að auka þenslu í efnahagslítinu eða auka þrýstinginn á vinnumarkaðnum. Og það getum við alls ekki gert án þess að valda okkar eðlilega atvinnulífi tjóni og grandi.

Ég fer ekkert í launkofa með það, að ég tel okkar dvergsmáa þjóðfélagi stafa nokkur hætta at því, að erlent fjármagn í svo stórum stíl sem hér er um að ræða, búi um sig í landinu og hafi hér atvinnurekstur með höndum, sem ber ægishjálm yfir allan annan atvinnurekstur okkar sökum stærðar. Ég óttast afleiðingar þess — ég neita því ekki — og ekki sízt ef þarna er um það að ræða, að eitt skuli reka annað og okkar forystumenn þjóðmála sækist eftir að fá þarna að halda áfram á þessari braut og það er ekki sýnt annað.

Þeir byrjuðu með kísilgúrsamningunum, og það var ekkert stærra fyrirtæki en svo, að við hefðum átt að geta ráðíð við það, Íslendingar, en svo er næsta skrefið þetta, margfalt, margfalt stærra og þeir hafa nefnt fleiri fyrirtæki, sem þeir mundu sækjast eftir að fá hingað í landið, byggð á erlendu fjármagni.

En þó maður líti á þetta mál eitt út af fyrir sig og horfi ekki til framtíðarinnar, þá tel ég, að Alþýðusamband Íslands hafi með sinni samþykkt um þetta mál haldið öfgalaust á málinu, — tók enga afstöðu til málsins, prinsipielt, til stóriðju, fyrr en þetta mál lá skýrt fyrir og rökstuddi þá í mörgum efnisliðum sína afstöðu. Í fyrsta lagi lýsti Alþýðusambandið yfir, að það teldi það ákvæði samningsins, sem ákveður raforkuverðið, mjög óaðgengilegt, enda er nú komið á daginn, að það er 28% lægra en raforkuverð Norðmanna til sama auðhrings.

Menn segja að vísu, að þetta sé okkur hagkvæmt, vegna þess að virkjunarskilyrðin í Þjórsá við Búrfell séu svo gífurlega hagkvæm, en um það fer tvennum sögum. Jú, allir viðurkenna, að virkjunin þar sé hagstæð og að við séum samkeppnisfærir um raforkuverð, en sumir af okkar færustu sérfræðingum í virkjunarmálum eru þeirrar skoðunar, að allmikil vandkvæði séu á því að geta nýtt á öllum tímum orkuna í Þjórsá, og þær ráðstafanir, sem gera þarf til þess að tryggja orkuna, þannig að hún falli ekki niður á vissum tímum að vetrinum, séu svo kostnaðarsamar, að það sé ekki auðgert að spá, hve hátt rafmagnsverð þurfi að vera til þess að standast allan þann kostnað.

Hæstv. iðnmrh. las hér upp tvær samþykktir, sem gerðar hafa verið í Landsvirkjunarstjórn 24. marz s. I. Í báðum þeim ályktunum er komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta sé allt saman mjög hagfellt. Í niðurlagi fyrri ályktunarinnar segir: „Skýrslur þær, sem stjórnin hefur fengið um lausn ísvandamálsins, benda eindregið til. að þær ráðstafanir, sem fyrirhugaðar hafa verið til að tryggja hagkvæman og öruggan rekstur, séu fullnægjandi, en kostnaður af þeim er innifalinn í áætlunum, sem gerðar hafa verið.“ Það er ekki mikið að því, skv. þeirra niðurstöðu og í hinni ályktuninni segir: „Stjórn Landsvirkjunarinnar er því reiðubúin til þess að samþykkja framangreindan samning um orkusölu, enda verði aðalsamningurinn, um byggingu álbræðslu, milli ríkisstjórnarinnar og Swiss Aluminium Ltd., staðfestur af Alþ.“ En einn nm., sá, sem ég held, að hati mesta reynslu allra íslenzkra verkfræðinga í þessum málum, Sigurður Thoroddsen, segir: „Ég greiddi atkvæði gegn báðum þessum till. og áskildi mér jafntramt rétt til að gera grein fyrir atkv. mínum síðar.“ Og síðan hefur hann látið frá sér grg. um þessi mál og ég fæ ekki betur séð en að hann bendi þar á mýmargt, sem ég sem leikmaður í þessum efnum get ekki litið fram hjá og get ekki leyft mér að stimpla sem marklaust hjal. Og það er sett fram af Sigurði Thoroddsen til aðvörunar. Það er hans álit, að við hötum hagað okkur gáleysislega með því að binda okkur við þetta raforkuverð, 10.75 aura kw-stundina, þegar það liggur fyrir örugglega, að verðið geti ekki orðið undir 10.4 aurum á kw-stund að framleiðslukostnaði, að svo miklu leyti sem við getum byggt á tilboðum, sem nú liggja fyrir. En þau tilboð eru bara um 2/3 hluta af mannvirkjunum og að 1/3 verðum við a.m.k. að byggja á áætlun. Og hann segir, að áætlun megi ekki skeika um meira en 3.3% til þess, að þetta verð sé orðið neðan við framleiðslukostnað. Það hefur nú komið fyrir á Íslandi nokkrum sinnum, að áætlunum hefur skeikað meira en um 3.3%. Það verð ég að segja. Má vera, að hér hafi verið mjög varlega áætlað allt saman, en hérna má þó a.m.k. ekki miklu skakka, það verða allir að játa.

Sigurður Thoroddsen varaði, fyrstur manna, svo að ég viti til, við ísvandamálunum í Þjórsá í sambandi við virkjun hennar. Í fyrstu var ekki á þetta hlustað, en svo var þó farið að spyrja erlenda sérfræðinga um þetta. Það var sent til tilraunastöðvar í Noregi, og það voru fengnir heimskunnir sérfræðingar til þess að athuga þessi mál, og þeir hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að hér sé ekki um hégómamál að ræða. Þeir hafa komizt að þeirri niðurstöðu, sem bendir til þess, að Sigurður Thoroddsen hafi haft mjög rétt fyrir sér, þegar hann aðvaraði, fyrstur manna, um þetta.

Hann segist telja virkjunarstaðinn og eins þá virkjunartilhögun, sem nú sé fyrirhuguð, varhugaverðan. Sigurður Thoroddsen segir það ofmælt, að sínum dómi, „að skýrslur þær, sem stjórnin hafi fengið um lausn ísvandamálsins, bendi eindregið til þess, að þær ráðstafanir, sem fyrirhugaðar séu, séu nú fullnægjandi til að tryggja öruggan rekstur,“ en það fullyrti Landsvirkjunarstjórnin í sinni samþykkt, sem vitnað var til áðan, „a.m.k. hafa þá ekki allar skýrslur, sem stjórnin hefur fengið, verið rétt túlkaðar og á ég þá við skýrslu ísasérfræðinganna, þeirra O. Deviks og E. Kanavins, auk þess, sem ég get hér bent á eftirfarandi til þess að finna þessum orðum mínum stað.“

Hann bendir síðan á, að þeir hafi alveg sérstaklega varað við svokölluðum þrepahlaupum í Þjórsá, sem er ísfyrirbæri, sem viðurkennt er af öllum sérfræðingum, að sé mjög torvelt að ráða við. Það er ekki Sigurður Thoroddsen, það eru erlendu sérfræðingarnir, sem segjast vara sérstaklega við þrepahlaupum í Þjórsá. Varðandi tilraunirnar í Þrándheimi um ísmyndunina í Þjórsá segir Sigurður Thoroddsen þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Í skýrslu tilraunastöðvarinnar í Þrándheimi segir, að árangur af rannsóknum hennar sé hönnun á stíflumannvirkjum, sem muni geta skolað í burtu krapi því af 0 gráðu heitum ís, sem við megi búast.“

Er þá ekki allur vandinn leystur? Í Þrándheimi tóru fram rannsóknir á því, hvernig væri hægt að ráða við krap við 0 gráðu hitastig. Er þetta ekki aðalvandinn, úr því að niðurstaðan af þessum tilraunum varð góð í Þrándheimi? Ekki telur verkfræðingurinn Sigurður Thoroddsen það. Hann segir: „Hingað til hefur það ekki þótt vera vandkvæðum bundið að ráða við 0 gráðu ískrapa. Eftir að hlána tekur, hafa öll vandræði horfið og rekstur vatnsaflsstöðva okkar alltaf komizt í eðlilegt horf. Þarna liggur ekki vandinn hjá okkur. Hér er um enga fullyrðingu að ræða hjá erlendu sérfræðingunum, enda tekur tilraunastöðin sinn fyrirvara og miðar við 0 gráðu heitan ís. Þessar tilraunir eiga því ekki að öllu skylt við veruleikann, því að það er undirkælda krapið, sem vandræðunum veldur hér hjá okkur, en það hefur ekki tekizt að líkja eftir því í líkanatilraunum. Og þannig er fjallað þarna úti í Noregi um annað vandamál og viðráðanlegra heldur en hér er um að ræða.“ Sigurður Thoroddsen telur líka, að útreikningar, sem gerðir hafa verið vegna þess, hversu orkan gangi til þurrðar í frostum, séu ekki sjálfum sér samkvæmir. Hann segir hér á einum stað í grg. sinni:

„Dr. Gunnar (Sigurðsson) hefur á ný reiknað út orkuskort við Búrfellsvirkjun fyrstu þrjú rekstrarárin. Reynist hann nú 35.3 gígawött á móti 6 gígawöttum áður.“

35.3 gígawött nú. Svona breytast nú tölurnar hjá sérfræðingunum við það að kynnast vandamálinu nánar. Sami maður reiknar út á mismunandi tíma, kemst fyrst að niðurstöðunni 6 gígawölt, nú 35.3 og svo segir hann, þ.e. dr. Gunnar Sigurðsson, að ef til skömmtunar þyrfti að koma á raforku, sýni reynslan það, að ekki hafi verið gert nægilega ráð fyrir truflunum. Hér er ekki um fullyrðingu að ræða af hendi dr. Gunnars um það, að ráðstafanir séu fullnægjandi. En þá segja menn, að það megi gera miðlunarvirki við Þórisvatn á einu ári og það mundi þá bæta úr þessu á næstu árum. Og þessu játar Sigurður Thoroddsen, en segir, að það muni þá jafnframt gera virkjunina dýrari og óhagstæðari fjárhagslega. Hann vísar til þess, að hann hafi áður sagt það, að vatn það, sem hleypt yrði úr Þórisvatni, og miðlun í því mundi að einhverju leyti tapast, þegar frosthörkur væru miklar, tapast á leiðinni frá Þórisvatni og niður að virkjunarstað og nú vitnar hann til reynslu, sem við höfum öðlazt núna á seinustu vikum norður í landi í Laxárvirkjuninni. Þar segir hann: „Á mánudaginn var,“ — þ.e.a.s. nú í fyrri viku líklega, þetta er dags. 24. marz. — „Á mánudaginn var,“ segir Sigurður Thoroddsen, „féll vinnsla nýju Laxárvirkjunarstöðvarinnar niður í þrjú megawött, en hún á að geta skilað 8 megawöttum. Orkan féll meira en um helming. Á fimmtudag er vinnslan komin upp í 5 megawött með skánandi veðri og þó hafði verið fullhleypt úr miðluninni við Mývatn allan tímann, en vatnið skilaði sér ekki niður til virkjunarinnar, heldur mynduðust stíflur uppi í Laxárdal og vatnið tapaðist þar.“ Síðan bætir hann við: „Hætt er við, að eitthvað líkt geti átt sér stað með miðlunarvatn úr Þórisvatni. Vegalengdin að Búrfellsvirkjun er um 43 km og hæðarmunur 330 m á móti 30 km vegalengd og 165 m hæðarmun milli Mývatns og Laxárvirkjunar.“ Þarna er íslenzkur verkfræðingur að benda á nýfengna reynslu okkar og dregur svo hliðstæðu af þessu og fullyrðir ekkert, en segir, að full hætta sé á, að svona geti farið, jafnvel um lokaúrræðið, sem þeir benda til, ef annað brygðist, þ.e.a.s. miðlunina úr Þórisvatni. Af þessu dregur svo verkfræðingurinn íslenzki, Sigurður Thoroddsen, þessa ályktun: „Það er því síður en svo að mínu áliti, að ráðstafanir þær, sem fyrirhugaðar eru, séu fullnægjandi eða skýrslur þær, sem stjórnin hefur fengið í hendur, bendi eindregið til þess, að þær séu fullnægjandi, enda eru þær á allan hátt veigaminni en gert er ráð fyrir, ef niðurstöður sérfræðinganna, O. Deviks og E. Kanavins, eru rétt metnar og skýrðar. Tel ég ábyrgðarhlut af Landsvirkjunarstjórn, ef hún léti sitja við hinar fyrirhuguðu öryggisráðstafanir einar saman.“ — Þetta eru alvarleg aðvörunarorð frá íslenzkum verkfræðingi með mikla reynslu á þessu sviði: „Tel ég ábyrgðarhlut af Landsvirkjunarstjórn, ef hún léti sitja við hinar fyrirhuguðu öryggisráðstafanir einar saman.“

Enn segir Sigurður Thoroddsen varðandi þessa fyrri till. Landsvirkjunarstjórnar: „Ekki verður það með rétti staðhæft, að Landsvirkjun fái hagkvæmt verð fyrir raforkuna, ef borið er saman við það, sem annað félag er látið greiða í Noregi. Þar skakkar nú um 28%. Ekki verður það með rétti fullyrt, að hagkvæmt sé fyrir Landsvirkjun að binda sig við fast verð, svo að segja 10.75 aura fyrir hverja kw-stund áratugum saman, það er ekki hyggilegt.“ — Ég held, að það sé rétt. Tæpt er að fullyrða, að þetta verð, 10.75 aura kw-tíminn, verði fyrir ofan meðalkostnaðarverð, ef rétt er, að það sé nú skv. áætlunum 10.4 aurar kw-stundin, þegar þess er gætt, að hækkun á stofnkostnaði um 3.3% mundi hér ríða baggamuninn, þegar þess er gætt, að 15% af virkjunarkostnaði er háð hækkun vinnulauna hér eða um 113 millj. kr. af l. áfanga virkjunarinnar, — þegar þess er gætt, að eflaust verður að verja allmiklu fé, meira fé en fyrirhugað er nú, í því skyni að tryggja öruggan rekstur virkjunarinnar, hvort heldur það verður með aðgerðum í Þjórsá og Tungnaá eða með uppsetningu fleiri varaaflsstöðva en nú er gert ráð fyrir, — þegar þess er gætt, að hið áætlaða magn af verki gelur auðveldlega breytzt um 2–3% til eða frá, án þess að ráðunautunum verði á nokkurn hátt um það kennt.

Hér segir Sigurður Thoroddsen enn um fyrri ályktun Landsvirkjunarstjórnarinnar:

„Ekki skal því neitað, að samningsuppkastið hefur lagazt mikið frá því, að ég sá það fyrst í enskri útgáfu á síðasta ári. En þeir annmarkar, sem enn eru á samningnum, eru svo miklir og ósamræmanlegir hagsmunum Landsvirkjunar og Íslendinga, að ég tel ekki fært að samþykkja hann.“

Samningurinn lagast mikið frá því í fyrra, en enn þá eru slíkir annmarkar á honum, svo miklir og ósamræmanlegir hagsmunum Landsvirkjunar og Íslendinga, að hann telur ekki rétt að samþykkja hann. Hann finnur og að smærra atriði hér, en ef það er smátt fyrir okkur Íslendinga, er það líka smátt fyrir erlenda fyrirtækið og hefði mátt leiðrétta það. Hann segir, að ISAL skuli nú heimilt skv. samningnum að ráðstafa slíku rafmagni til þess að sjá starfsmönnum sínum og fjölskyldum þeirra, sem búa á bræðslulóðinni, fyrirrafmagni til heimilisnota, svo og fyrirbráðabirgðahúsnæði og skyld mannvirki, meðan þau eru í byggingu, þ.e.a.s. félagið á að fá þetta rafmagn fyrir 10.75 aura kw-stundina. Hvað er verðið á þessu til Íslendinga? Hann segir, Sigurður Thoroddsen, að hér sé farið inn á verksvið rafveitna. Álfélagið fái rafmagnið fyrir starfsfólk sitt á 10.75 aura fyrir hverja kw-stund, en hinn almenni, íslenzki notandi verði að greiða vegna sinna heimilisþarfa á aðra krónu fyrir kwst. En þeir, sem eru með hús í byggingu, hvað verða þeir að borga fyrir kw-stundina, ef þeir eru íslenzkir? Þeir erlendu fá hana, meðan þeir eru að byggja, fyrir 10.75 aura. — Hann segir: „Ég hef í smiðum ásamt öðrum hús í Reykjavík og greiði 2.37 kr. fyrir hverja kwst. sem þar er notuð við byggingu mannvirkja. Þarna munar nokkru milli hins erlenda aðila og hins íslenzka. Ef þetta er ekki stórmál, er þetta a.m.k. óviðkunnanlegt. Þarna hefði erlendi aðilinn a.m.k. mátt sitja við sama borð og Íslendingar, án þess að það væri honum a.m.k. neitt stórkostlegt, fjárhagslegt atriði. En svona hallar nú á Íslendinga í samningnum og vafalaust í fleiru en þessu.“

Þegar Sigurður Thoroddsen hefur rökstutt mál sitt á þennan veg í grg. fyrir atkv. sínu, sem hann greiddi á móti samþykkt Landsvirkjunarstjórnar, segir hann: „Eins og þar var gefið í skyn, má búast við, að verðið verði undir vinnslukostnaði og hafa það aldrei þótt hagkvæm viðskipti að selja vöru undir kostnaðarverði. Að selja á föstu verði byggðu á áætlunum, sem e.t.v. standast ekki fyllilega, er áhætta, sem ég mundi ekki vilja taka á mig fyrir mína parta og get því ekki samþ., að Landsvirkjunarstjórn geri það. Að binda sig við þetta fasta verð næstu 15 árin eru því hörmuleg mistök að mínu viti, hörmuleg mistök.“ — En eru þá ekki allir bundnir við raforkuverð 15 ára tímabil, þetta er nú ekki langt tímabil. Það er nú eitthvað annað! Um það segir Sigurður í grg. sinni:

„Ekkert tillit er tekið til verðsveiflna á þessu tímabili. Ekki er tekið tillit til þess, að kaupgjald og kostnaður hækkar. Trúað er á hinn ameríska dollar og þó er vitað, að verðgildi hans rýrnar, en ekkert tillit er til þess tekið.“

Eftir 15 ár á að endurskoða verðið og síðan á að endurskoða það á 5 ára fresti. En hvernig er hér innanlands hjá okkur? Síðan 1957, fyrir 9 árum, hefur verð á Sogsrafmagni verið hækkað 5 sinnum — fimm sinnum — og nú er talað um hækkun á þessu ári í 6. sinnið á 9 árum. Það hefur þótt henta að hækka það á tæplega tveggja ára fresti, en hér skal beðið með hækkun á verði í 15 ár og síðan 5 ár í hvert skipti. Sigurður Thoroddsen segir í sínum aðvörunarorðum, að það sé fróðlegt að bera saman verð Landsvirkjunar til hins almenna, íslenzka notanda, sem hann telur vera 30 aura á kw-stundina, meðalverð samkv. áætlun. sem gerð var 6. febrúar 1966, þegar afgangsorku er sleppt, og 10.75 aura verðið, sem erlendi aðilinn hefur. Meðalorkan til Íslendinga er seld á 30 aura og í einstökum tilfellum, eins og hann hefur gert grein fyrir, er verðmunurinn miklu, miklu meiri milli hins erlenda aðila og Íslendinganna. Ég verð að segja það, að ég tel, að það sé ekki út í bláinn sagt, þegar ég og þeir, sem líkt hugsa og ég, segjum: Samningurinn er með eindæmum óhagstæður, það þarf ekki annað en líta á raforkuverðið til þess að sannfærast um það.

Um verðbólguna og vinnuaflsskortinn hef ég áður rætt og vanda atvinnuveganna, sem muni margfaldast og aukast við það, að þessi risaaðili kæmi inn á vinnumarkaðinn með öllum þeim sérréttindum, sem hann á að njóta og sem margtaldlega hefur verið gerð hér grein fyrir.

Það munu fáir fagna því, að við verðum enn að auka stórkostlega við það erlenda vinnuafl, sem við höfum orðið að flytja inn á undanförnum árum. En það er alveg auðséð að við yrðum að flytja inn erlent verkafólk hundruðum saman til þess að sinna þessum störfum eða til þess að koma í veg fyrir, að íslenzk atvinnufyrirtæki yrðu unnvörpum að draga saman seglin eða hætta rekstri. Og hvaðan mundi þetta erlenda verkafólk koma? Er nokkuð um það í samningunum, er nokkuð bundið við þjóðerni, hvaðan erlenda verkafólkið á að koma? Vitanlega er það erlendi aðilinn, sem verður að reyna að útvega sér það, ef hann lendir í því að fá ekki innlent vinnuafl. Það er hans samningslegi réttur. Það hefur farið svo í mörgum löndum Evrópu, að það hefur orðið hálfgerður úrkastslýður sunnan af Ítalíu, sem hefur komið, t.d. til Þýzkalands, og Þjóðverjar líta þetta ekki allt of hýru auga og eru þó stórveldi, en við dvergþjóð og innflutningur nokkurra hundraða manna er hér á borð við tugþúsunda þar. Ég tel, að það sé bara í sjálfu sér misráðið að ofbjóða svo íslenzkum vinnumarkaði um kröfur til vinnuafls, að við verðum að ráðast í slíkt. Hitt játa ég, að hæstv. ráðh. hefur gert grein fyrir því, að hann hefur haft sig allan við að reyna að reisa þarna skorður og hafa þarna gát og varúð á og heitir því, að hér skuli farið að ráðum íslenzkra verkalýðsfélaga og þeim praxís fylgt, sem um þessi mál hefur skapazt á undanförnum árum. Út af fyrir sig tel ég, að það sé ekki auðvelt að búa öllu betur um það atriði, og skal ekkert áfellast hann fyrir það. Ég veit, að hann hefur um þetta lagt sig í lima eins og um margt annað, en hann hefur vafalaust í mörgum öðrum atriðum átt allt undir þeim sérfræðingum, sem hann studdist við, og þeir virðast ekki hafa dugað honum allt of vel.

Eitt af því, sem A.S.Í. bendir á, er að hinn erlendi aðili hljóti sökum stærðar sinnar að verða eins og risi á íslenzka vinnumarkaðinum og hafa áhrif á þróun kjaramála hér á landi og efa ég ekki, að sú hætta er fyllilega fyrir hendi. Þá er það óviðkunnanlegt og óþolandi með öllu, að þessi erlendi aðili skuli lúta allt öðrum réttarreglum heldur en íslenzkir atvinnurekendur og njóti alls konar fríðinda. Það er verið að reyna að útskýra það fyrir okkur, að þeir eigi að borga með þessu eina framleiðslugjaldi svo mikið, að það sé kannske öllu þyngri byrði heldur en á íslenzkum atvinnurekendum skv. ísl. lögum. Því þá ekki að láta þá lúta íslenzku l. og sitja við sama borð og íslenzkir atvinnurekendur? Ég held, að allir hefðu unað því, að bezt sé, að útlendi aðilinn lyti sömu reglum og íslenzkir aðilar, en það virðist svo sem það sé ekkert um það að efast, að hér er um sérréttindi að ræða, sem erlendi aðilinn hefur áskilið sér og fengið fram. Ef hann er að borga meira þarna, hefði átt að vera auðvelt fyrir okkar samningamenn að fá hann til þess að lúta hinum íslenzku ákvæðum og sleppa billegar. Nei, það er alveg gefinn hlutur, að hér var hann að semja um sérréttindi sér til handa og það verður ávallt illa þolað af íslenzkum atvinnurekendum, einkanlega þegar þessi sérréttindi hans munu í samanburði við þá íslenzku vaxa með hverju árinu sem líður.

Af mörgum ræðumönnum hefur verið vikið að því, að verst af öllu sé þó að þola það, að hinn erlendi aðili skuli ekki eiga að lúta íslenzkum dómstólum og íslenzkri lögsögu og ég tek undir það. Ég tel það vera í raun og veru svartasta smánarblettinn á þessum samningi. Og ég er sannfærður um, að það verður það atriði, sem hæstv. ríkisstj. verður mest legið á hálsi fyrir af íslenzku þjóðinni á næstu árum. Hún mun verða þyngst dæmd fyrir það að hafa látið sér sæma að undirrita það, að íslenzkir aðilar skuli þurfa að sækja sinn rétt undir erlendan gerðardóm. Það er alveg furðulegt, að Hafnarfjarðarkaupstaður og íslenzka hlutafélagið ISAL skuli ekki eiga að láta íslenzka dómstóla útkljá deilumál, sem kynnu að risa á milli þeirra, heldur fara með það undir erlenda gerðardóma.

Þetta atriði hefur auðvitað mjög borið á góma í umr., og hæstv. iðnmrh. varði löngum tíma í sinni ræðu í dag til þess að reyna að afsaka þetta, en það verð ég að segja, að ekki sannfærðist ég af þeim orðum og þó lagði hann sig mjög fram um að vera sannfærandi. Ég verð líka að segja það, að mig furðar á því, að menn hafa farið með rangt mál í sambandi við þetta, menn hafa farið með blekkingar. Því hefur verið haldið fram, að hin svonefnda SlDkonvention hafi verið undirrituð, sumir segja af 33 þjóðum, aðrir segja af 35. Hvort skyldi nú vera réttara? Ekki ber tölunum saman hjá þessum herrum sjálfum um það. En hvað þýðir það? Hafa 35 þjóðir eða 33 þar með undirgengizt þessa alþjóðlegu samþykkt? Nei, það vita a.m.k. báðir þessir hæstv. ráðh. mætavel og þó reyna þeir að nota orðin „að undirrita samþykktina“ til þess að láta fólki skiljast það, að þarna sé um fullgildingu að ræða. Íslenzka ríkisútvarpið, hvaðan sem það hafði sína frétt, var látið hagræða þessum orðum ráðh. og segja, að 35 þjóðir væru búnar að fullgilda hana, sem eru ósannindi. Ráðh. notuðu orðið „að undirrita,“ og það að undirrita alþjóðasamþykkt, þessa alþjóðasamþykkt Alþjóðabankans, bindur enga þjóð. Íslendingar hafa ekki gefið henni neitt gildi hjá sér, Svisslendingar ekki heldur, fyrr en þeir hafa fullgilt hana og ár er liðið frá fullgildingunni, þá fyrst hefur hún réttargildi. En skv. nýfengnum upplýsingum frá Alþjóðabankanum eru það einar 4 þjóðir, sem hafa fullgilt þessa samþykkt. Það þýðir ekkert að hampa því, að það séu 33 eða 35 þjóðir og þar á meðal allar Norðurlandaþjóðir, sem hafa undirritað hana. Það eru 4 þjóðir, — dagsetningar og allt saman, hvenær það gerðist, er fram tekið í bréfi frá Alþjóðabankanum núna í marzlokin, — það eru Mið-Afríkulýðveldið, það er Fílabeinsströndin, það er Nígería og það er Mauritanía og engar þjóðir fleiri skv. upplýsingum Alþjóðabankans sjálfs. Og það er nánast sagt furðulegt, að menn skuli vera að reyna að villa um fyrir fólki, hvað þetta sé nú breiður og virðulegur grundvöllur, það séu 33 eða 35 þjóðir búnar að undirrita þessa alþjóðasamþykkt og þá sé nú ekki skömm að því fyrir Ísland. En þetta eru allt ríki, sem eru efnahagslega vanþróuð, og það er verið að setja Ísland á bekk með þeim, enda talað um, að réttargrundvöllurinn undir þessum samningi eigi að vera íslenzk lög og þær réttarreglur, sem tíðkuðust hjá siðuðum þjóðum, — íslenzku l. dugðu sem sagt ekki. Ég er alveg sannfærður um það, að það verður þetta atriði, sem íslenzku þjóðinni fellur þyngst fyrir brjóst, að hennar samningamenn skulu hafa látið henda sig að láta ekki deilumál, sem risa út af þessum samningum, hvort sem væri milli íslenzka ríkisins og svissneska auðhringsins eða og þó alveg sérstaklega að sjálfsögðu milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og íslenzka hlutafélagsins, — tveggja íslenzkra aðila, — láta þau ekki ganga sinn réttargang skv. íslenzkum lögum, til íslenzks undirréttar og íslenzks hæstaréttar.

Ég held, að ef hæstv. ríkisstj. vill heldur hafa það, sem sannara reynist í þessu máli, eigi hún ekki að draga fjöður yfir það, að það eru ein 4 ríki, sem hafa fullgilt þessa „konvention“, en ekki 33 eða 35. Og henni væri miklu sæmra að láta íslenzka ríkisútvarpið leiðrétta þetta, því að hvort sem það er að þeirra undirlagi eða ekki, hefur íslenzka ríkisútvarpið með fréttaflutningi sínum gert sig sekt um að halda því fram, að 35 þjóðir væru búnar að fullgilda þessa samþykkt og það var gert í þeim tilgangi, að íslenzka þjóðin sætti sig frekar við þetta og tekið fram, að þar á meðal væru Norðurlandaþjóðimar, og þá var nú Íslendingum ekki nein skömm að því að vera með í hópnum.

Hæstv. ráðh. hélt því fram í ræðu sinni í dag, að í samningnum væri vel fyrir því séð, að öll ábyrgð lenti á auðhringnum Swiss Aluminíum varðandi eitrunarhættu út frá verksmiðjunni, álbræðslunni. Ég held því miður, að það sé alveg augljóst mál, að auðhringnum var sleppt við að koma upp hreinsunarútbúnaði, og það hefur hann hvergi sloppið við nema hér á landi, eftir því sem forstjórinn herra Meyer upplýsti. Alls staðar, þar sem þeir hafa byggt slíkar verksmiðjur, hafa þeir orðið að setja upp hreinsunartæki vegna eitrunarlofts frá verksmiðjunum. Ég minnist þess, að ég kom fyrir nokkrum árum í fjörð í Noregi, þar sem alúmínbræðsla var. Mig minnir helzt, að hæstv. forsrh. væri þar í för líka, og ég tók eftir því, að uppi á fjallsbrún kom reykur upp með reglulegu millibili eins og úr púströri, og ég spurði: Hverju sætir þetta, hvað er þetta? Jú, sögðu þeir, pústið frá verksmiðjunni er leitt upp alla fjallshlíðina frá verksmiðjunni og alla leið upp í brúnina þarna, til þess að eiturgufurnar séu sem fjarlægastar byggðu bóli. Auk þess að leiða reykinn þannig frá verksmiðjusvæðinu langar leiðir, hafa þeir vatalaust orðið að hafa margbrotin hreinsunartæki, sem drógu úr þessari eitrunarhættu. — Það er ekki langt til Hafnarfjarðar frá Straumsvík. Það er talað um, að þeir eigi að bæta tjón af öðru heldur en landbúnaði. Er ekki full hætta á því, að t.d. skreiðarverkun hér í þessu nágrenni á Hafnarfjarðarog Reykjavíkursvæðinu gæti mengazt af þessu? Hefur það verið rannsakað, þegar hér er sleppt öllum varúðarútbúnaði, að því er þetta snertir? Ég skal ekkert fullyrða um þetta. En mér stendur frekar stuggur af því, að þessum öryggisákvæðum skyldi vera sleppt. Við erum hér á hinu mesta matvælaframleiðslusvæði íslenzku þjóðarinnar, og það var full ástæða til þess að gæta allrar þeirrar varúðar og heimta allar þær varúðarráðstafanir, sem annars staðar höfðu verið heimtaðar af slíkum samningsaðila sem Swiss Aluminium og allra helzt, þegar engin dæmi fundust þess, að þessum varúðaraðgerðum hefði verið sleppt.

Ég enda því mitt mál með því að segja, að það er skoðun mín, það er skoðun alþýðusamtakanna í landinu og styðst við rök, sem við höfum borið fram og gert grein fyrir, að samningurinn sé óhagkvæmur og viss atriði hans, eins og t.d. að sniðganga íslenzka dómstóla, tel ég íslenzku þjóðinni ósæmilegt og samningurinn að því leyti og ýmsu öðru þjóðinni ósæmandi sem sjálfstæðri þjóð. Ég tel, að eins og vafasamt er um þingmeirihl. hæstv. ríkisstj., beri henni — og allra helzt, þegar litið er til þess, hvernig þjóðin hefur brugðizt við þessu máli — að láta þetta mál fara undir þjóðaratkvgr. Ef hæstv. ríkisstj. vill láta stjórnast af lýðræðislegum vinnubrögðum, á hún ekki að taka á sig ábyrgðina af þessari samningagerð, heldur láta samninginn ganga undir dóm þjóðarinnar, áður heldur en samþykki er lagt á hann hér á Alþ., með svona hæpnum hætti. Það getur ekki farið framhjá hæstv. ríkisstj., að reyndir og ráðsettir, gætnir fulltrúar bændastéttarinnar á Búnaðarþingi gerðu samþykkt og vöruðu við, — að forustumenn í útgerð, margir hverjir stuðningsmenn Sjálfstfl., gerðu samþykkt, þar sem þeir vöruðu við. Iðnaðarmenn hafa líka látið til sín heyra, ýmsir. Alþýðusamband Norðurlands gerði einróma samþykkt og varaði við. Það hafa mörg verkalýðsfélög gert, þ. á m. verkamannafélagið Dagsbrún í Reykjavík. Og í einu sýslufélagi, Þingeyjarsýslu, hafa flestir forustumenn allra flokka í sveitarstjórnarmálum og forustumenn í félagsmálum í Þingeyjarsýslu og við Eyjafjörð gert ítarlegar samþykktir um þetta mál og varað stjórnvöldin sem ætluðu að knýja þetta mál fram, varað þau við af fyllsta alvöruþunga. Bendir þetta ekki nægilega skýrt til þess, að það sé mjög vafasamt, að þjóðin vilji fallast á afgreiðslu þessa máls? Ætti ekki hæstv. ríkisstj. að vera það kærkomið að firra sig ábyrgð og leggja þetta undir dóm þjóðarinnar, beygja sig undir það? Samningurinn stenzt, ef þjóðin vill sætta sig við hann. Hann á ekki rétt á sér, ef meiri hl. þjóðarinnar er andvígur honum. Það er enginn siðferðilegur grundvöllur fyrir því, að svona hæpinn þingmeirihl. afgreiði þetta mál. ef það skyldi vera staðreynd, að meiri hl. þjóðarinnar væri gegn honum.

Ég get upplýst það hér, að það hafa ekkert verið lágværar raddir, sem hafa borizt A.S.Í., munnlega og bréflega, um það, að nú bæri verkalýðssamtökunum á Íslandi að tryggja framgang og vilja meiri hl. þjóðarinnar með því eð beita valdi í þessu máli til þess að tryggja lýðræðið, ef hæstv. ríkisstj. féllist ekki á að vísa þessu máli til þjóðaratkvgr. Alþýðusambandið hefur þó fram til þessa kosið hina leiðina að vara við, vara við með ítarlegum rökstuðningi, en það virðist ekki ætla að duga. Og það má því vel vera, að það færi bezt á því, ef synjað verður um að leggja málið undir þjóðaratkv., að hv. stjórnarflokkar fái að sitja einir að því að afgreiða þetta mál og e.t.v. væri það þá ekki annað en skylda stjórnarandstöðunnar að fara og túlka málið víðs vegar um land fyrir þjóðinni, svo að henni væri í einstökum atriðum kunnugt, hvernig það blasir við. En á þessu stigi máls liggur ekkert fyrir annað en það, að fjölmenn og fjölmörg samtök hafa varað við, og það eru menn úr öllum flokkum, sem hafa látið til sín heyra sem einstaklingar og sem þáttakendur í félagsheildum og hafa á allan hátt með lýðræðislegu sniði tjái sinn vilja og látið það berast til ríkisstj. Íslands, en enn þá er ekkert, sem bendir til þess, að hún vilji aðra málsmeðferð en þá að fá staðfestingu á þeirri undirskrift, sem hæstv. ráðh. veitti samningnum, áður en umr. hófust um þetta mál á Alþ. Íslendinga. Ég ber það ekkert saman, hvað það hefði verið viðkunnanlegra, þegar búið var að komast nokkurn veginn að niðurstöðu um gerð samningsins, að ráðh. hefði sagt við hinn erlenda aðila: Við verðum fyrst að leggja þetta mál fyrir löggjafarsamkomuna, við verðum að ganga úr skugga um það, að þessi samningur fái þingræðislega afgreiðslu, komist í gegnum þingið. Það tekur ekki langan tíma, þegar við höfum fengið vitneskju um það, að við fáum samninginn samþ. af Alþ. Íslendinga, þá verður hann undirskrifaður. Hitt er, ég vil segja, lítt geðsleg aðferð að undirskrifa fyrst og ætla svo Alþ. Íslendinga að standa frammi fyrir gerðum hlut. Og lýðræðislegt er það ekki og þingræðislegt er það því síður.