05.04.1966
Neðri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1576 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Tveir hæstv. ráðh. hafa hér rætt þetta mál á þeim grundvelli, að mjög gæti gefið tilefni til almennra umr. um þetta mál, en það er nú hvort tveggja, að nokkuð er liðið á nóttu og hér er um l. umr. málsins að ræða, og það mun því gefast tími síðar til þess að víkja nánar að ýmsu af því, sem fram hefur komið. Ég mun ekki ræða hér í löngu máli að þessu sinni um það, sem fram hefur komið hjá hæstv. ráðh. En nokkur atriði eru það þó, sem ég vildi víkja að nú.

Hæstv. iðnmrh. lagði aðaláherzlu á það í sinni ræðu í dag að verja það ákvæði samningsins, sem fjallar um gerðardóm, rísi ágreiningur á milli aðila upp.“ Það var mjög greinilegt á málflutningi hæstv. ráðh., að honum stóð nokkur beygur af þeim aths., sem fram hafa komið í sambandi við þetta ákvæði samningsins, og hann lagði sig því allmikið fram um það að réttlæta þetta ákvæði. Í því, sem ráðh. sagði, þá lét hann orð talla hér á þá lund, að það mátti nærri skilja orð hans þannig, að hann teldi, að þeir menn, sem starfað höfðu í þmn. og fylgzt með undirbúningi þessa máls hjá ríkisstj., að þeir bæru jafnvel nokkra ábyrgð á því, að þetta ákvæði samningsins væri eins og það nú er, þar sem ekki hefðu komið fram sérstakar aths. frá þeim varðandi þetta atriði eða neinar sérstakar bókanir gerðar af þeim í sambandi við þetta fyrirkomulag sérstaklega.

Hæstv. ráðh. hefur nú hér síðar í umr. að mínum dómi túlkað þessi ummæli á annan veg, en vel mátti skilja ummæli hans á hinn veginn, og ég hygg, að ýmsir hafi skilið þau þannig hér fyrr í umr. í dag. En ég vildi aðeins í sambandi við þetta segja það, að á því getur enginn vafi leikið, að við, sem í þmn. vorum, töldum okkur ekki skylt frekar en gerist og gengur í þmn., sem hafa mál til athugunar, að bóka sérstaklega í fundargerðir n. aths. okkar við öll atriði, sem við vorum á móti í þessari samningsgerð, en höfðum hins vegar þann almenna fyrirvara á, eins og hæstv. ráðh. hefur hér tekið fram í þessum umr. oftar en einu sinni, að það fór ekkert á milli mála, a.m.k. um afstöðu okkar Alþbm., að við vorum andvígir málinu sem heild, eins og það var fyrir lagt, og þar var þetta atriði að sjálfsögðu ekki undanskilið af okkar hálfu.

Ég vil aðeins benda á það til frekari skýringar þessu máli, að það ákvæði samningsins, sem fjallar um ýmiss konar fríðindi til hins erlenda aðila eins og tollaundanþágu og þess háttar, um það höfum við auðvitað ekki bókað neitt sérstaklega mótmæli okkar eða það atriði, sem fjallar um lagaskýringar samningsins, samningstíma og um uppbyggingu félagsins ISAL, og þannig mætti margt fíeira telja. En ég tel, sem sagt, að það sé ekki þörf á því að þrátta um þetta atriði, um það eigi ekki að vera neinn ágreiningur í sjálfu sér á milli okkar, sem í stjórnarandstöðunni erum og í þessari þmn. vorum, og hæstv. iðnmrh. Það var mjög greinilegt, að þessi n. var til þess að upplýsa ýmislegt varðandi gang málsins, en vitanlega var þarna um allmörg atriði að ræða, sem engan veginn voru rædd í neitt ítarlegu máli í n., heldur fyrst og fremst tilkynnt af hálfu ráðh., án þess að til þess væri ætlazt, að nm. gerðu þar ítarlega grein fyrir afstöðu sinni til hinna einstöku atriða hvers um sig. Því verður auðvitað að líta á þetta þannig, að um það sé ekkert að villast, að þetta ákvæði eins og önnur er þarna inn komið á ábyrgð ríkisstj., en það er ekki hægt að bendla stjórnarandstöðuna við þessi ákvæði á einn eða neinn hátt.

Þá vildi ég koma með örfáum orðum að röksemdum hæstv. iðnmrh. í sambandi við þetta gerðardómsákvæði, sem vissulega er mjög mikilvægt atriði í sambandi við þessa samningsgerð.

Hæstv. ráðh. taldi hér upp ýmis dæmi, sem áttu í rauninni að réttlæta það ákvæði, sem í þessum samningi felst, nefndi m.a., að Íslendingar hefðu samið um gerðardómsreglur í fjölmörgum tilfellum, t.d. í sambandi við olíusamninga við Sovétríkin, og ýmis fleiri tilfelli minntist hæstv. ráðh. á, og þannig virtist ráðh. vilja komast að þeirri niðurstöðu, að í rauninni væri þetta viðurkennd regla að ganga inn á gerðardómsfyrirkomulagið í mörgum tilfellum, og í þessu tilfelli væri það því ekki verra en í ýmsum öðrum.

Ég tel, að hér sé alveg greinilega verið að villa um fyrir mönnum í sambandi við þann ágreining, sem upp hefur rísið út af þessu ákvæði í samningnum.

Deilan er ekki um það út af fyrir sig, hvort sjálfstætt og fullvalda ríki getur gengið inn á gerðardómsákvæði í deilum við aðra aðila eða ekki. Við viðurkennum það allir, að það er þekkt fyrirkomulag á milli íslenzkra fyrirtækja og erlendra fyrirtækja, sem eiga viðskipti saman, eða á milli íslenzkra opinberra aðila og erlendra fyrirtækja, sem eiga viðskipti saman, að þau gera með sér samning um viðskiptin á þeim grundvelli, að rísi ágreiningur upp um það, hvernig skilja skuli samninginn, að þá skeri gerðardómur úr um þá deilu. Það viðurkenna allir, að þetta fyrirkomulag er alþekkt. Þar er nefnilega um það að ræða, að þar eigast við tveir aðilar, annar, sem á sína eðlilegu lögsögu á Íslandi, en hinn, sem á sína eðlilegu lögsögu í sínu landi, sem er annað land, og það er ofureðlilegt, að þessir aðilar komi málum sínum þannig fyrir, þegar þeir gera samning sín á milli, að þá geti þriðji aðili skorið úr um vafaatriði í framkvæmd þess samnings. Deilan hefur ekki staðið og stendur ekki um samningagerð sem þessa. Deilan stendur um það, hvort það sé eitthvað venjulegt, þegar tvö innlend, tvö íslenzk fyrirtæki eins og Íslenzka álfélagið h.f. annars vegar, sem er skráð skv. íslenzkum lögum sem íslenzkt félag og nýtur hér réttinda í sinni starfsemi sem íslenzkt væri, þegar það lendir í ágreiningi við innlenda aðila eins og t.d. bæjarfélagið í Hafnarfirði, sem er samningsaðili við það, eða við Landsvirkjun, sem er einnig samningsaðili við Íslenzka álfélagið h.f., þegar þessir innlendu aðilar eiga í ágreiningi, þá skuli það geta komið fyrir, að annar af þessum innlendu aðilum, sem svo er kallaður, að hann skuli geta farið með ágreiningsmálið undir erlendan gerðardóm og fengið úrskurðinn þar. Slíkt fyrirkomulag er að okkar dómi algerlega óvenjulegt. Það er enginn vafi á því, að við höfum ótal dæmi um það, að erlend stórfyrirtæki fjárfesta eða byggja upp fyrirtæki í ýmsum nágrannalöndum okkar. Við þekkjum erlend, t.d. amerísk stórfyrirtæki, sem eiga fyrirtæki í Danmörku, hafa byggt þau upp þar og reka þau þar. Þau fyrirtæki þeirra, sem eru á danskri grund, þau verða tvímælalaust þar í öllum greinum að lúta danskri lögsögu, þau hafa enga samninga um það, að þau geti farið meðsín mál út úr danskri lögsögu og lagt þau undir úrskurð annað hvort amerísks gerðardóms eða gerðardóms einhvers staðar utan Danmerkur. Út af fyrir sig þá var vel hægt að ímynda sér það, að tiltekin ágreiningsmál, sem kæmu upp á milli hins svissneska stórfyrirtækis og íslenzku ríkisstj. um þeirra viðskipti, sem ekki ættu beinlínis við um þann rekstur, sem fram fer hér í landinu sjálfu, heldur fjármálaleg viðskipti, sem ættu sér stað á milli þessara tveggja aðila, íslenzkra stjórnarvalda og hins svissneska stórfyrirtækis, að ágreiningur um tiltekin samningamál á milli þessara aðila yrði lagður undir úrskurð sérstaks gerðardóms, sem aðilar hefðu komið sér saman um, en á því er vitanlega alveg reginmunur og hinu, hvort fyrirtæki, sem er starfandi hér í landinu og er meira að segja skráð sem íslenzkt fyrirtæki og nýtur réttinda sem íslenzkt fyrirtæki í fjölmörgum greinum, hvort það getur farið með þau mál út úr landinu til úrskurðar á öðrum stað, þar sem það kann að eiga við aðra en íslenzka aðila. það er þetta atriði, sem við ýmsir höfum fundið að og teljum með öllu óvíðunandi. Og það er einmitt þetta atriði, sem kemur fram hjá framkvæmdastjóra Swiss Aluminium í viðtalinu við íslenzku blöðin, þegar forstjóri fyrirtækisins sagði, að í þeim mörgu samningum, sem hans fyrirtæki hefði gert um byggingu alúminverksmiðja í ýmsum löndum, þá hefðu þeir aldrei í sínum samningum samið um ákvæði af þessari gerð. Þetta var einsdæmi hjá þeim, og þetta er vitanlega kjarni þessarar deilu, og ég álit, að hæstv. ríkisstj. skjóti sér ekki undan þessum vanda með því að fitja upp á umr. um gersamlega óskyld efni.

Það verð ég einnig að segja, að mér fannst hæstv. forsrh. lítið bæta um þennan málflutning hjá hæstv. iðnmrh. með því að fara að tala um mannréttindadómstól Evrópu. Um það gegnir auðvitað allt öðru máli, og þar er ekki um neinn samjöfnuð að ræða. Sá grundvöllur, sem er á bak við reglurnar um mannréttindadómstólinn, hann er sá, að þar eru ýmis ríki að fallast á það grundvallarsjónarmið, að þau séu tilbúin að ganga inn á það, að málarekstur einstaklinga í þeirra ríkjum við ríkisvaldið sjálft, hann megi takast til sérstakrar endurskoðunar hjá þessum mannréttindadómstóli, og þeir, sem fallast á þetta sjónarmið, þeir eru í rauninni að fallast á það, að þeir séu óhræddir við að leyfa erlendum dómstóli eins og mannréttindadómstóllinn er að taka til sérstakrar athugunar þá málsmeðferð og þá dómsniðurstöðu, sem orðið hefur í heimalandinu á milli ríkisvaldsins annars vegar og einstaklinga þjóðfélagsins hins vegar. — Það má auðvitað um það deila, hvort það á að fallast á slíkt sjónarmið sem þetta, en það þykir mér með öllu fráleitt að ætla að nota þær ákvarðanir Íslendinga að hafa orðið aðilar að þeirri samþykkt sem réttlætingu á þessu sérstaka gerðardómsákvæði alúminsamninganna, sem hér hefur verið rætt um.

Ég skal svo ekki ræða að sinni frekar um þetta atriði. Mér sýnist alveg óumdeilanlega, að þetta deilumál standi enn þá þannig, að ríkisstj. hafi í rauninni engar frambærilegar varnir viðvíkjandi þessu deiluatriði. Það liggur fyrir, að hér er um — ja, líklega einsdæmi að ræða í alveg hliðstæðum tilfellum. Við þekkjum þar ekki neina hliðstæðu, a.m.k. ekki hér í löndum í kringum okkur, og okkar samningsaðili í þessu tilfelli, hið erlenda stórfyrirtæki. það þekkti þetta heldur ekki úr sinni samningagerð.

Hér eru svo ýmis önnur atriði, sem deilt hefur verið um í sambandi við þetta mál og ég vildi aðeins víkja að með örfáum orðum. Það hefur verið allmikið deilt um raforkusölusamninginn við hinn erlenda aðila. Ríkisstj. hefur lengst af reynt að halda því fram, að þessi raforkusölusamningur væri viðunandi, og hæstv. iðnmrh. hefur vitnað í útreikninga, sem áttu að sýna það, að hér væri jafnvel um að ræða, ef reiknað yrði yfir langan tíma, yfir tuttugu og fimm ára tímabil, þá væri hér jafnvel um hagnað að ræða, sem gæti orðið um 700 millj. kr. eða hartnær það. En ég — án þess að ég fari langt inn í þessar umr., — þá vil ég aðeins benda á, að því hefur auðvitað ekki verið hnekkt, að verðið á raforkunni, sem alúminhringurinn á að fá hér, er um 28% lægra en verðið, sem sami hringur hefur nýlega samið um í Noregi. Þessi staðreynd stendur eftir alveg óhrakin.

Það liggur líka fyrir, að þessi samanburðarútreikningur, sem hæstv. iðnmrh. hefur notað hér, fær ekki staðizt, og hann hefur þurft að leiðrétta hann í mikilvægum efnum, og hér hefur það ítarlega verið rakið, að það eru svo margar óþekktar stærðir í sambandi við þessa útreikninga, að þeir verða að teljast mjög léttvægir og tiltölulega lítils virði.

Samkvæmt þeim áætlunum, sem liggja fyrir frá stjórn Landsvirkjunar, þá er talið, að framleiðslukostnaðarverð á hverri kw-stund rafmagns sé um 10.40 aurar á kw-stund miðað við þær stofnkostnaðaráætlanir, sem gerðar hafa verið, en söluverðið á raforkunni er 10.75 aurar eða það er um söluverð að ræða, sem er 1/3 úr eyri á kw-stund yfir beinu framleiðslukostnaðarverði skv. áætlun Landsvirkjunarstjórnar. Á það hefur verið bent, að ef þessar stóru og miklu áætlanir færu fram úr áætluðu kostnaðarverði sem nemur 3.3%, þá er raforkuverðið skv. samningnum þegar orðið lægra en framleiðslukostnaðarverðið er, miðað við útreikninga stjórnar Landsvirkjunar, og nú er ekki um það deilt, að allmikið af heildarframkvæmdakostnaðinum er enn þá í óvissu, því að þar dugir ekki aðeins að taka fyrsta áfangann, það verður vitanlega að taka virkjunina alla eða miða við það, að henni sé lokið að fullu. Þegar við þetta er svo einnig bætt því, sem í rauninni er ekki hægt að neita, að mikil áhætta er tvímælalaust í sambandi við rekstur þessarar virkjunar við Búrfell vegna ísamyndunar í ánni, sem reynslan af síðustu dögum hefur nú sannað þannig, að það er í rauninni ekki hægt að deila um það, að þarna er um gífurlegt vandamál að ræða, sem enginn veit, hvað muni kosta okkur að leysa til fulls. Ég held því, að deilan um raforkuverðið standi þannig, að það geti enginn maður eftir það, sem sagt hefur verið og upplýst í þessu máli, gert annað en að viðurkenna það, að raforkusölusamningurinn sé vægast sagt mjög hæpinn, mjög hæpinn. Þar sé ekki um mikla hagnaðarvon að ræða.

Þá hefur verið hér nokkuð deilt um áætlaðar gjaldeyristekjur eða annan hagnað, sem Íslendingar hefðu af rekstri alúmínverksmiðjunnar sjálfrar. Í grg. þeirri, sem fylgir frv., er þess getið, að það megi reikna með því, að gjaldeyristekjur af rekstri verksmiðjunnar geti verið um 300–320 millj. kr. á ári. Ég hafði nokkuð vefengt þessa útreikninga og fannst þeir vera tortryggilegir og bað um frekari upplýsingar. Hæstv. iðnmrh. hefur nú gefið hér nokkrar upplýsingar um þetta atriði, og í hans upplýsingum kemur fram, að áætlað sé, að fyrir vinnulaun muni fást á ári í gjaldeyri fyrir Íslendinga um 120 millj. kr. og síðan muni fást vegna skrifstofukostnaðar og viðhalds um 58 millj. kr. og svo er sérstakur liður, sem nefndur er kostnaður í álsteypu 21 millj. og skattgreiðsla 52 millj. kr. og svo vegna raforkusölu um 50 millj. kr., sem talið er sem nettógjaldeyrishagnaður af raforkusölu á ári, og þannig kemur út talan 300. Ef þessar tölur reynast nú réttar, þá er augljóst mál, að þá er reiknað með því, að allt starfslið verksmiðjunnar, 450 manns, sem talað er um í grg. þeirri, sem fylgir með frv., að allt það starfslið eigi að vera Íslendingar, en þó er mikið talað um það í samningunum, að það verði að hafa ýmsa erlenda sérfræðinga og megi búast við því, að það þurfi að hafa þar menn vana þessum rekstri. Og þó að gengið sé út frá því, að allir þessir menn séu Íslendingar, sem ég verð nú vægast sagt að telja hæpið, þá þýðir þessi tala það, að víð það er þá miðað, að meðaltalslaun hvers þessara manna séu á ári 288 þús. kr., sem er allmiklu hærra en þekkist í nokkrum öðrum samningum, en hins vegar er gengið út frá því í samningunum, eftir því sem upplýst hefur verið, að launagreiðslur við þetta fyrirtæki eigi að vera sambærilegar við aðrar launagreiðslur í landinu. — Ég held því, að það sé enginn vafi á því, að þessi áætlunartala sé of há.

Síðan er reiknað með gjaldeyristekjum vegna skrifstofukostnaðar og viðhalds upp á 58 millj. kr. Það má vel vera, að þessi gjaldeyrir komi fyrir vinnulaun þess vinnuafls, sem við látum þá af hendi, og þá er þar greinilega um viðbótarvinnuafi að ræða við þá 450, sem áður hefur verið reiknað með, því að það þarf vitanlega vinnuafl í viðhaldsstörf fyrir fyrirtækið og til að annast öll skrifstofustörf fyrirtækisins, sem á að greiða með 58 millj. kr. og reiknað er síðan með sem nettógjaldeyristekjum fyrir Íslendinga.

Og síðan kemur liðurinn, sem metinn er um 50 millj. kr. nettó af sölu raforku til verksmiðjunnar. Nú, ég skal ekki vera að þræta um þennan lið. Ég lít á hann þannig, eins og ég hef sagt hér áður í umr., að það sé í rauninni rangt að taka inn í þennan útreikning nokkrar nettógjaldeyristekjur í sambandi við raforkusöluna, því að það er alveg vitað mál, að a.m.k. fyrstu árin á allur sá gjaldeyrir, sem kemur inn fyrir raforkusölu, að ganga í það að skila til baka þeim gjaldeyri, sem þjóðin hefur fengið að láni til þess að byggja orkuverið fyrir verksmiðjuna. En með því vitanlega að reikna þetta til mjög langs tíma og gera fallegar áætlanir, þá er vitanlega hægt að bæta þarna ofan á 50 millj. kr.

Hitt tel ég svo, að skipti ekki höfuðmáli, hvort hér er raunverulega um gjaldeyristekjur að ræða upp á 300 millj. kr. eða upp á 200 millj. kr., sem mér þykir miklu líklegra. Það skiptir engu höfuðmáli. Það, sem skiptir máli varðandi þennan lið, er að meta það rétt, að 300 millj. kr. gjaldeyrisávinningur, sem fæst með því að selja af hendi eða láta af hendi vinnuafl, sem nemur þá sennilega 500–600 manns, það er enginn ávinningur fyrir íslenzka þjóðarbúið, ekki á meðan þannig standa sakir, að við höfum nóg fyrir þetta vinnuafi að gera við okkar eigin framleiðslustörf og eigum gott með að hafa meira upp úr vinnuaflinu en sem nemur nettó-kaupi þess.

Þetta kemur líka mjög greinilega fram, þegar við berum þetta saman t.d. við heildargjaldeyrisöflunina, sem okkar sjávarútvegur stendur undir á hverju ári, en þar mun nú gjaldeyrisöflunin vera á hverju ári um það bíl 6 þúsund millj. kr., en hér er um að ræða 300 millj. kr. — þrjú hundruð milljónir króna. Aukningin í sjávarútveginum hefur verið hin síðari ár frá 800 millj. kr. og allt upp í 1000 millj. kr. á ári. Þannig er það, eins og ég hef sagt áður, að sá gjaldeyrisávinningur, sem hér er um að ræða, hann er lítill borinn saman við aukninguna, sem átt hefur sér stað frá ári til árs í íslenzkum sjávarútvegi hin síðari ár. Og ég held því líka fram, að með því að ráðstafa á hyggilegan hátt þessu vinnuafli fyrir íslenzka atvinnuvegi, þá hefði verið hægt að fá drýgri upphæð en þessar 300 millj. í gjaldeyrisbú þjóðarinnar á hverju ári, og af því dreg ég þá ályktun eins og áður: Hér er ekki um neinn ávinning að ræða fyrir íslenzkt efnahagslíf eins og málum er háttað í dag, hvorki vegna raforkusölunnar né heldur vegna reksturs verksmiðjunnar.

Eitt af deiluatriðunum, sem hér hefur nokkuð verið um rætt, það er vinnuaflsvandamálið. Það er viðurkennt af flestum, að í þeim efnum sé um nokkurt vandamál að ræða, en þó virðist ríkisstj. halda, að hún sleppi út úr umr. um þennan lið á þann hátt að benda á, að svo standi nú á hjá okkur, að á þeim framkvæmdatíma, sem hér um ræði, þ.e.a.s. á næsta tíu ára tímabili frá 1965—1975 — eins og það er nánar tilgreint hér í þeirri grg., sem fylgir með frv., — að á næsta tíu ára tímabili þá muni bætast við á vinnumarkaðinn hvorki meira né minna en 17 þúsund manns — sautján þúsund manns — og þegar menn hafi þetta í huga, þá sé nú hér ekki um mikið að ræða, og þannig sem sagt er meiningin að stiga yfir þetta vandamál og telja, að stækkandi árgangar séu að bætast inn á vinnumarkaðinn sem þessu nemi. En á það hefur verið bent, og ríkisstj. hefur ekki gert tilraun til þess að reyna að hnekkja því, að sú aukning, sem á sér stað á íslenzkum vinnumarkaði á þessu tímabili frá 1965 til 1975, hún er aðeins hliðstæð þeirri aukningu, sem átt hefur sér stað á næsta tíu ára tímabili þar á undan, þ.e.a.s. frá 1955–1965. Á öllu því tímabili þá komu inn á vinnumarkaðinn mjög álíka stórir árgangar eins og koma inn á vinnumarkaðinn á tímabilinu frá 1965—1975, en á þessu tímabili frá 1955 til 1965 þá hefur einmitt það verið að gerast á íslenzkum vinnumarkaði, að vinnuaflsvandamálið hefur orðið meira og meira með hverju árinu. Þrátt fyrir stækkandi árganga, sem hafa verið að koma inn á vinnumarkaðinn, þá hefur nú þróunin orðið þessi, að við höfum átt í vaxandi erfiðleikum með það að koma áfram þeim framkvæmdum, sem við höfum viljað vinna að og höfum þurft að vinna að, og í vaxandi erfiðleikum við að sinna þeim framleiðslustörfum, sem beinlínis hafa verið tengd við gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.

Það er því ekkert, sem bendir til þess, að neinar breytingar verði á nú á næstu árum í þessum efnum frá því, sem verið hefur. Eins og bent hefur verið á, þá byrjaði þessi breyting hjá þjóðinni árið 1940, að fjölgunin fór að verða mun meiri en hún hafði verið áður. Síðan hefur fólksfjölgunin verið mjög svipuð allan tímann, og þeir árgangar, sem komu inn á vinnumarkaðinn 1955, voru þá orðnir 15 ára. Þeir hafa sem sagt verið að koma fram síðan, og hér er því ekki um neinar teljandi breytingar að ræða frá því, sem veríð hefur á síðasta tíu ára tímabili. Ríkisstj. sleppur því ekki í rökræðum sínum um þennan lið út úr þessu á þennan hátt.

En þá kemur auðvitað að hinu, að miklar fjárfestingarframkvæmdir, einnig á vegum hins erlenda aðila, á næstu árum, þær munu gera það að verkum, að það verður ekki hægt að koma í framkvæmd öllum þeim málefnum Íslendinga, sem annars hefði verið hægt, og þá er komið að því eins og minnzt er á í ýmsum skjölum frá ríkisstj., að það mun reynast óhjákvæmilegt að skera niður talsvert af opinberum framkvæmdum á næstu árum.

Talsmenn Alþfl. hér í þessum umr. hafa hins vegar látið orð að því liggja, að þeir séu ekki með því að skera niður opinberar framkvæmdir, það verði eitthvað annað að víkja. En miklu þykir mér nú það líklegra þó, að það fari þannig, að það verði opinberu framkvæmdirnar, sem verði látnar víkja, en hins vegar þá muni ekki á neinn hátt eða aðeins að litlu leyti verða hreyft við framkvæmdum einstaklingsfyrirtækja, hver svo sem þau annars kunna að vera.

Þá þykir mér einnig í sambandi við þennan lið, að röksemdir af hálfu ríkisstj. séu heldur léttvægar í sambandi við það vandamál, sem við stöndum frammi fyrir, sem er misvægið í byggð landsins. Það getur vitanlega ekki farið öðru vísi en svo, að þegar þessar miklu framkvæmdir eiga að bætast ofan á það, sem fyrir er hér suðvestanlands, þá hljóta þessar framkvæmdir að virka í þá átt að draga í enn auknum mæli fólk utan af landsbyggðinni hingað til þessa svæðis, þó að ríkisstj. segi, að hún ætli að láta hluta af skattgreiðslu þessa fyrirtækis renna aftur til baka til dreifbýlisins til vissra framkvæmda þar. Það sjá allir, að það munar svo lítið um slíkar ráðstafanir á móti því, sem stórframkvæmdirnar hafa að segja í þessum málum, að það getur ekki farið á annan veg en þann, að það er verið að auka á þetta vandamál, en ekki að draga úr því.

Ég skal nú ekki ræða hér öllu meira um þau sérstöku deilumál, sem einkum hafa dregizt hér inn í þessar umr., en mig langar til þess að víkja hér nokkrum orðum sérstaklega að ræðu hæstv. forsrh., vegna þess að hann ræddi hér einnig um þetta mál á talsvert öðrum grundvelli en þeim að ræða beinlínis um þann hagnað, sem kynni nú að fást út úr raforkusölunni til hringsins eða út úr rekstri alúmínbræðslunnar sem slíkrar. Ég veitti því athygli, að hæstv. forsrh. sagði, að það væri vissulega þýðingarmikið, að slíkt stórmál sem þetta væri rætt þannig, að menn reyndu að virða fyrir sér þetta mál frá háum sjónathól og menn reyndu að svipast um nokkuð inn í framtíðina eða til lengri tíma. Og ég tók eftir því, að hæstv. forsrh. beinlínis sagði, að menn þyrftu að reyna að gera sér grein fyrir því, hvaða þýðingu þetta hefði fyrir Íslendinga um aldir. Það var það orðalag, sem hæstv. ráðh. notaði, og í sambandi við þessa uppsetningu hans á þessu máli þá brá hann sér svo í það að rekja nokkuð í stórum dráttum atvinnuþróunina á Íslandi á liðnum öldum. Hann kom þar að ýmsum mikilvægum þáttum, minntist á það, hvernig fólkið hefði á sínum tíma verið að flytjast úr sveitum landsins og í bæi og þorp og bæirnir hefðu vaxið upp með allri þeirri miklu þýðingu, sem það hefði haft fyrir þróun okkar þjóðarbúskapar, og hann minntist á það, þegar okkar eiginlegi sjávarútvegur, eins og við þekkjum hann nú í dag, var að verða til, þegar okkar stórskipaútgerð var að hefjast og hvaða þýðingu það hefði haft í þróun okkar atvinnumála. Hæstv. forsrh. stiklaði sem sagt á ýmsu stóru og kom svo auðvitað víða við í leiðinni. En mér varð hugsað til þess, hvað meinar hæstv. forsrh. með þessari uppstillingu? Hvað vakir fyrir honum í sambandi við þetta mál? Það er með öllu útilokað, að hæstv. ráðh. eigi við það í þessum efnum í sambandi við þann samning, sem hér liggur nú fyrir til umr., varðandi byggingu alúminverksmiðju í Straumsvík fyrir sunnan Hafnarfjörð, verksmiðju,sem hans sérfræðingar gera áætlun um, að geti lágt í þjóðarbúið á ári í kringum 300 milljónir í gjaldeyri, sem er engin risaupphæð á okkar mælikvarða, — að hann eigi aðeins við þessa verksmiðju eina, þegar hann talar um það, að það þurfi að virða þetta mál fyrir sér frá háum sjónarhól og athuga það, hvaða þýðingu það hafi, sem hér er verið að gera fyrir íslenzka þjóð um aldir. Ég efaðist ekki um það, þegar ég hlýddi á mál hæstv. forsrh., að það, sem raunverulega vakti fyrir honum með því að stilla málinu á þessa lund, það var það, að hann viðurkenndi það, þótt hann segði það ekki í alveg beinum orðum, hann var að viðurkenna það, að hér væri verið að marka nýja stefnu, eins og við Alþbm. höfum mjög lagt áherzlu á í sambandi við umr. um þetta mál. Hér er verið að fara inn á nýja braut í sambandi við uppbyggingu atvinnulífsins í landinu. Hér er ekki um það að ræða, að það sé aðeins verið að taka ákvörðun um byggingu einnar alúminverksmiðju, sem ekki hefur út af fyrir sig meiri áhrif í efnahagslífi Íslendinga en þó þetta, því að á það hef ég aldrei dregið neina dul í mínum umr. um þetta mál, að mér hefur aldrei dottið það til hugar að rekstur þessarar verksmiðju einnar gæti haft úrslitaáhrif í sambandi við þróun efnahagsmálanna á Íslandi. Mér er það alveg Ijóst, að sú fjárfesting, sem verður með þessari framkvæmd, getur haft mikil og örlagarík áhrif á þróun okkar efnahagsmála í sambandi við glímuna í okkar efnahagsmálum eins og þau standa nú í dag. Og mér er það líka alveg ljóst, að það getur ýmislegt mjög varhugavert flotið í kjölfar þessarar einu verksmiðju, sem getur komið okkur illa. En það er vitanlega hitt, sem ég fyrir mitt leyti hræðist hér langsamlega mest í sambandi við þessa ákvörðun, það er það, að það sé raunverulega verið að marka hér nýja stefnu, það sé hér verið að fara inn á nýja braut. Það eigi að halla sér að því að treysta á fjármagn erlendra auðfélaga í sambandi við uppbyggingu atvinnulífsins í landinu og það eigi að treysta á þann gróða, sem einstaka menn geta fengið af sinni þjónustustarfsemi í sambandi við hina erlendu aðila. Það er þetta, sem ég tel fyrst og fremst varhugavert og hættulegt við þetta mál. Og eins og ég hef bent á hér áður, þá tel ég, að svo margt hafi komið fram, sem sýni það, að það sé a.m.k. ætlun þeirra, sem fyrst og fremst ráða nú ferðinni í þessum málum, að taka hér upp nýja stefnu, en ekki aðeins að leysa þetta mál varðandi Búrfellsvirkjun. Og mér fannst, að þessi ummæli, sem ég hef hér vitnað til hjá hæstv. forsrh., sönnuðu það enn betur en áður, að fyrir honum er þetta líka stórt mál einmitt vegna þess, að hér er verið að fara inn á nýja braut. Hann líkir þessu við það, þegar þjóðin var að skipta yfir að verulegu leyti frá hinu fátæka gamla bændaþjóðfélagi og færa sig yfir í bæja- og þorpaþjóðfélag. Hann líkir því við það, þegar Íslendingar voru að hefja hér sína fyrstu þilskipa- og síðan togaraútgerð. Hér er því alveg greinilega í hans huga um það að ræða, að það er verið að leggja inn á nýja braut.

Jú, hæstv. forsrh. sagði, að við eigum ekki — eða e.t.v. mun hann nú hafa hagað orðum sínum þannig að segja, að það virtist vera svo, að sumir menn vildu setja allt traust á sjávarútveginn einan, og ég býst við því fyllilega, að hann hafi haft einmitt mig í huga í sambandi við það, því að ég hef lagt nokkuð þunga áherzlu einmitt á möguleika sjávarútvegsins og gildi hans í íslenzkum þjóðarbúskap. En ég skal þó taka það alveg skýrt fram, að því fer alls fjarri, að ég sé á þeirri skoðun, að við eigum að binda okkur við sjávarútveginn einan. Ég tel alveg sjálfsagt, að Íslendingar snúi sér að ýmsum öðrum starfsgreinum og það í allríkum mæli. Ég tel t.d. mjög gagnlegt, að Íslendingar þeir eigi eina eða fleiri myndarlega áburðarverksmiðju, að þeir eigi eina eða fleiri myndarlega sementsverksmiðju og að þeir geti byggt upp í sínu landi allmyndarlegan iðnað fyrir innanlandsmarkaðinn. Ég hef einnig bent á það hér áður í umr., að ég teldi, að það skipti okkur mjög miklu máli að tileinka okkur vinnu eins og skipabyggingar, af því að það getur nú ekki orðið öðru vísi en svo, að við hér úti á okkar eylandi hljótum að vera nokkuð tengdir við sjóinn á margan hátt, og það er því ofur eðlilegt, að við, sem þurfum að byggja jafnmikið á sjónum eins og við gerum, að við leggjum okkur meira eftir því að vinna að slíkum störfum eins og skipabyggingar eru, sem skipta okkur svona miklu máli, — meira en við höfum gert. Og margt og margt fleira mætti þar til nefna. En ég hef verið á þeirri skoðun og er á þeirri skoðun, að það sé nauðsynlegt, að forustumenn þjóðarinnar geri sér alveg hleypidómalaust grein fyrir því, hvað sjávarútvegurinn og þegar ég tala um sjávarútveg, þá á ég ekki aðeins við fiskveiðarnar einar heldur allar þær greinar, sem eru tengdar við þann rekstur að öðru leyti, þar með talin vitanlega öll fiskvinnsla — að þeir geri sér hleypidómalausa grein fyrir því, hvað þessi starfsgrein öll hefur reynzt okkur drjúg og örugg á undanförnum árum. Það er nefnilega allt of algengt, að menn tali um það, að sjávarútvegurinn sé eins og hæstv. forsrh. talaði allmikið um, að hann sé mjög sveiflugjarn og tala um hann aðeins sem veiðilíf eins og hæstv. ráðh. orðaði þetta. Það er rétt, við höfum að mínum dómi lagt allt of mikið í það, miðað við það, sem við þyrftum, að hafa okkar sjávarútveg sem veiðimennsku. Við höfum að mínum dómi veitt miklum mun meira en við hefðum þurft að gera til þess þó að hafa jafnmikið upp úr okkar sjávarútvegi eins og við höfum í dag, en það sakar vitanlega ekki að afla eins mikils eins og við gerum, þótt við bættum við okkur vinnslunni þar til viðbótar. Það er að vísu rétt, að íslenzkur sjávarútvegur eða ýmsar greinar hans hafa nokkuð sveiflazt til á undanförnum árum. Það er rétt, að við höfum lifað þau tímabil. að síldin, eins og við stundum hana, hafi brugðizt. En hitt er þó jafnrétt, og það er auðvelt fyrir menn að sannfæra sig um það, ef þeir vilja líta í talnadæmi þar um, sem liggja fyrir, að þegar litið er á íslenzkan sjávarútveg sem heild, þá hefur hann aldrei brugðizt íslenzku þjóðinni. T.d. þegar það mikla áfall kom fyrir, að síldveiðin brást með öllu fyrir Norðurlandi, þá gerðist það á sömu árunum, að þá jókst svo mikið okkar togaraafli og verðmæti hans, að það fyllti í skarðið og meira til. Og þannig hefur þetta verið, að jafnvel þó að vertið hafi brugðizt á einum stað, þá hefur hún skilað sér þeim mun betur á öðrum, og þegar sjávarútvegurinn er tekinn sem heild, þá hefur hann ekki reynzt okkur „óstabílli“ í þessum efnum en landbúnaður hjá landbúnaðarþjóðum eða iðnaður hjá iðnaðarþjóðum, sem hafa líka þurft að taka á sig markaðssveiflur og sölutregðu í ýmsum myndum. Þetta held ég, að við Íslendingar megum og sérstaklega forráðamenn landsins fyllilega hafa í huga, og það sé ekki leyfilegt að vera með neina vantrú á íslenzkum sjávarútvegi, þrátt fyrir ýmsar sveiflur í einstaka greinum á einstaka stað í hvert skipti.

Auk þessa hef ég svo viljað benda á það, að þegar stjórnarvöld landsins telja það eitt brýnasta verkefnið í atvinnumálum þjóðarinnar að leita eftir slíkum samningi, sem hér er nú verið að ræða, samningi við erlendan auðhring um það, að hann komi með sitt fjármagn til Íslands, byggi hér verksmiðju og taki okkar starfsfólk á vinnumannskaup. — Þegar stjórnarvöldin telja, að þetta sé brýnast í efnahagsmálum landsins að vinna að þessu að útvega vinnu handa nokkrum Íslendingum í þjónustu erlendra aðila, held ég, að það sé þörf á því að prédika nokkuð yfir stjórnarvöldum landsins um það, hvaða möguleikar felist raunverulega í íslenzkum sjávarútvegi, ef menn vilja nota þá, því að ég tel, að þeir möguleikar séu margfaldir ekki á við eina, heldur við margar, margar álbræðslur. Og ég held, að þau störf mundu líka láta okkur Íslendingum miklu betur en að vinna í þessari verksmiðju útlendinganna. Ég held, að það verði aldrei mikil framtíð í slíkri atvinnuuppbyggingu eins og þeirri, sem gerð er á þennan hátt á vegum útlendinga, sem er gerð á þeim grundvelli, að útlendingurinn tekur á nokkrum árum allt fjármagnið, sem hann hefur komið með til Íslands, með sér út úr landinu aftur. Hann færir hagnaðinn út árlega, og hann færir afskriftaféð út árlega, og þegar hans samningstími er búinn, er gildi verksmiðjunnar búið og ekkert stendur eftir nema það, sem ómerkilegt er. Hvar er þá komið raunverulegu atvinnuöryggi þjóðarinnar, ef hringurinn hverfur að þessu ráði, sem fyllilega má búast við? Sá er vitanlega munurinn, að hefðu Íslendingar talið rétt út af fyrir sig að ráðast sjálfir í byggingu þessarar alúmínbræðslu, hefðu þeir talið sig geta tekið að láni þær 2500 millj. kr. erlendis, sem talið er, að bræðslan muni kosta, hefðu Íslendingar fengið sitt út úr þeim rekstri — þeir hefðu auðvitað þurft að færa út úr landinu aftur afborganir af láninu og vexti af láninu, en sá hagnaður, sem kemur fram í rekstrinum, sem án efa er allmikill og sem er vitanlega keppikefli útlendinganna — sá hagnaður hefði orðið eftir í landinu, hefði verið eign einhvers í landinu, fyrirtækis eða einstaklings eða ríkisins, og það hefði verið hægt að nota þann hagnað eftir starfstíma verksmiðjunnar til þess að byggja annað hvort aðra verksmiðju eða önnur fyrirtæki. Það er sá mikli munur. Því er þetta mál þannig, eins og ég hef sagt hér áður í þessum umr., að í raun og veru er rekstur bræðslunnar í Straumsvík þannig fyrir íslenzkan þjóðarbúskap, að hún hefur nákvæmlega sams konar gildi og vinnan á Keflavíkurflugvelli hefur haft. Auðvitað hafa Íslendingar fengið gjaldeyri fyrir það vinnuafl, sem þeir hafa látið inn á Keflavíkurflugvöll. Það hafa fengizt tekjur fyrir þetta selda vinnuafi alveg eins og það mundi fást nokkur gjaldeyrir fyrir það vinnuafl, sem ynni í verksmiðjunni. En þann daginn, sem hernaðaryfirvöldin ákveða það að hverfa burt af vellinum og hætta þar við sína starfsemi, verður vitanlega íslenzkt atvinnulíf að taka við því fólki, sem þar hefur starfað, og það verður að byggja upp einhvern atvinnugrundvöll fyrir þetta fólk. Því er það, að ég álít, að það sé með öllu röng stefna að fara inn á þá braut að treysta á atvinnurekstur útlendinga í því formi, sem gert er ráð fyrir samkv. þessum samningi. Ég held, að það verði íslenzku atvinnulífi síður en svo til gagns, en hins vegar sé alveg augljóst, að við munum hafa margvíslegt tjón af því, og hætturnar eru tvímælalaust mjög miklar, sérstaklega ef það á að gera þetta að almennri stefnu.

Hæstv. forsrh. sagði, að það, sem máli skipti í þessum efnum, þegar þessi mál væru rædd á breiðum grundvelli, væri auðvitað, að menn gerðu sér fulla grein fyrir því, hverjar auðlindir landsins væru og hvernig síðan ætti að nýta þær. Ég fyrir mitt leyti tel, að dýrmætasta auðlind Íslands, eins og auðlindirnar verða metnar í dag, sé tvímælalaust fiskimiðin í kringum landið. Landið sjálft og beinir framleiðslumöguleikar þess eru vissulega dýrmætir, og það ber vitanlega að reyna að nýta þau gæði til fulls. Vatnsaflið í okkar fallvötnum er líka dýrmætt, en eins og bent hefur verið á af okkar fræðimönnum, sem bezt þekkja þar til, fer því víðs fjarri, að sú auðlind sé eins dýrmæt, þegar litið er á þetta til verulega langs tíma, og margir halda. Á það hefur verið bent af okkar fræðimönnum, að ef vöxturinn í orkunotkun okkar verður með sama hraða og hefur verið hjá iðnaðarþjóðum Vestur-Evrópu, ættum við að vera búnir að nota alla þá raforku, sem talið er hagkvæmt að virkja á Íslandi, á næsta 50 ára tímabili. Eftir 50 ár erum við búnir að virkja fyrir okkar eigin þarfir alla þá raforku, sem talið er hagstætt að virkja á Íslandi. Þessi auðlind er nú ekki meiri en þetta. Hún er eigi að síður mjög þýðingarmikil, og það er vitanlega sjálfsagt á þessu 50 ára tímabili að reyna að nýta hana eins og mögulegt er. Og það er alveg rétt, að það er engu spillt með því að nýta meira af henni með sérstakri ráðstöfun á fyrri hluta tímabilsins en annars hefði verið. En ég minnist þess líka, að það kom mjög greinilega fram hjá einum af okkar þekktustu vísindamönnum í orkufræði, Gunnari Böðvarssyni, á verkfræðingaráðstefnu, sem haldin var hér áríð 1962, að þar benti hann á í erindi, sem hann flutti á þeirri ráðstefnu, að menn skyldu gera sér alveg fulla grein fyrir því, að það væri misskilningur, að frumorka eins og vatnsorka, sem kæmi fram í rafmagni, skipti afgerandi máli í sambandi við hagþróun í einu landi, eins og nú væri komið. Hann benti á það, að slík orka hefur í hinum ýmsu löndum ekki haft afgerandi áhrif. Orkusnauð lönd eins og Danmörk og Holland hafa sýnt það, að þau hafa komizt mun lengra í samband við þróun sinna efnahagsmála en ýmis önnur lönd, sem hafa miklum mun meira af þessari orku og haft fyllilega yfir að ráða jafnmiklu fjármagni og þessar þjóðir. Og ráðstöfun á þessari orku á þann hátt, að hún sé seld algerlega sem hráefni á alveg niður undir framleiðslukostnaðarverði, skapar engin stórkostleg verðmæti, síður en svo. Ég vil þó ekkert gera lítið úr því, að þarna sé um verðmæti að ræða, en ég jafna þessu ekki saman við hinar auðlindirnar, sem ég nefndi áðan. Það er hið sama að segja um hveraorkuna í landinu. Hún er mjög mikils virði, og væri afar þýðingarmikið fyrir okkur Íslendinga að reyna að nýta hana betur en við gerum, það er rétt. En miklu meira er talið skipta, eins og nú er komið, hugvit og atorka þjóðanna. Það gæti því hreinlega verið miklum mun dýrara fyrir íslenzku þjóðina að haga málum sínum þannig, að hún drægist verulega aftur úr í byggingum skóla og í aukinni menntun og aukinni þjálfun sinna manna, vegna þess að hún hefði þurft að skapa pláss fyrir slíkan stórrekstur, eins og hér er um að ræða, fyrir útlendinga. Það gæti kostað þjóðina miklu meira, þegar dæmið væri gert upp að fullu.

Ég skal nú ekki lengja þessar umr. öllu meira með sérstöku tilliti til þess tíma, sem við erum nú stödd á. En ég vil aðeins segja það, að þær umr., sem hér hafa farið fram, hafa sannfært mig enn betur en áður um það, að sá samningur, sem ríkisstj. vill hér fá staðfestingu á, er rangur, hann er hættulegur og það er ætlun þeirra, sem mestu ráða og að þessum samningi standa, að það komi hér annað og meira á eftir. Þeir eru greinilega að fara hér inn á nýja braut í alvinnumálum þjóðarinnar, braut, sem við Alþb.menn erum mjög andvígir.