05.04.1966
Neðri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég er hræddur um, að þetta atriði, sem hæstv. landbrh. var að ræða um, verði vafaatriði — ekki aðeins fyrir gerðardóminn, — og því viðbúið, að farið verði að deila um, hvernig skilja beri l. og hvort enskan eða íslenzkan sé rétthærri. Ég skal nú ekki láta það mál til mín taka. Ég ætlaði nú ekki að taka hér til máls aftur, en af því að hæstv. forsrh. fór að halda hér heilmikinn sögufyrirlestur, gat ég ekki setið á mér að segja nokkur orð til hans.

Fyrst ætla ég rétt að minnast á það, að hann — það er kannske viðkunnanlegra, að hann viti það, því að það er alltaf leiðinlegra að tala við menn, án þess að þeir séu viðstaddir, — hann minntist á, hvort mín afstaða til Atlantshafsbandalagsins hefði breytzt. Ég skal segja honum það til huggunar, ef hann er hræddur um, að við værum komnir á einhverja líka skoðun í því máli, að ég álít það jafnbölvað eins og það hefur alltaf verið. Hitt er aftur á móti alveg hreint greinilegt, að það getur lengi vont versnað, og það þarf hann að gera sér ljóst. Ég sagði það hér nýlega í ræðu, að ég áliti, að það gæti annað enn þá verra komið. Það er náttúrlega mjög hryggilegt, að það skuli vera til. En það, að maður áliti eitt slæmt og annað verra, þýðir ekki, að maður sé með öðru hvoru af þessu tvennu illu. Það, sem ég var að lýsa, var, að það kynni að koma upp, þegar Atlantshafsbandalagið leysist upp, — sem er alveg greinilegt að verður m.a. þegar Norðurlönd, Danmörk og Noregur, fara út úr því, eins og Frakkland o.fl. — sú hætta, að Bandaríkin ásamt Kanada og Bretlandi reyni að innlima okkur í nýtt hernaðarbandalag. Það er vert að reyna að vekja athygli á þeirri hættu nú þegar. Satt að segja þætti mér vænt um, að hæstv. forsrh. vildi taka nokkra afstöðu til þess, fyrst hann er að gera þetta að umtalsefni, hvort hann væri inni á því, að Ísland ætti að ganga í nýtt hernaðarbandalag. Ég vil aðeins mínna hann á í þessu sambandi, að ég verð víst ekki grunaður um að hafa verið með enska hernáminu hér 1940–1941. En þann dag, sem Þjóðviljinn var bannaður og við fluttir nokkrir burtu af landinu, var leiðarmn, sem var eftir mig, í Þjóðviljanum um það, að það mundi nú vofa yfir, að Bandaríkin mundu hertaka Ísland, og ég undirstrikaði í þeim leiðara, að ég áliti það enn þá verra og hættulegra hlutskipti fyrir Ísland en brezka hernámið, og var ég sannarlega ekki að taka afstöðu með því. Maður verður alltaf að gera sér ljóst og reyna að meta hlutlægt það, sem er að gerast á hverjum tíma, og það mat, sem ég hef fyrst og fremst lagt á þá hörmulegu þróun, sem hefur getzt í utanríkispólitík Íslands á síðustu 25 árum, er það, að ég álít, að Ísland ætti að halda sig að Evrópu og sérstaklega að halda sig að Norðurlöndum og láta ekki slíta sig frá Norðurálfu og frá Norðurlöndum. Við það hef ég alltaf miðað. Ég hef álitið, að við ættum að halda við hlutleysi og þess vegna harmaði ég það, þegar við misstum það 1949, og ég álít, að þegar Atlantshafsbandalagið leysist upp, eigum við að reyna að ná því hlutleysi aftur.

Eins álít ég, að það algera atvinnulega sjálfsforræði, sem við Íslendingar höfum nú haft í 20 ár, því eigum við ekki að farga né heldur að byrja að skerða það, eins og verið er að gera með þeim samningi, sem hérna liggur fyrir. Við höfum haft algert atvinnulegt sjálfsforræði, ráðið einir yfir öllu okkar atvinnulífi og það er það sem við erum að byrja að skerða með þeim samningi, sem hérna liggur fyrir.

Annars skildist mér, að þessi langi og að mörgu leyti skemmtilegi upplestur og fyrirlestur hæstv. forsrh. væri nú fyrst og fremst hugsaður til þess að telja kjark í hans eigið lið, enda tók ég eftir því, að margir af hans þm., sem vafalaust hafa verið alldaufir orðnir í dálkinn, hresstust mjög mikið undir þeim fyrirlestri, því að það var margs konar skemmtilegur upplestur í honum. Það hafa alltaf verið til — og það er það, sem hæstv. forsrh. var að nota sér í þeim upplestri, — það hafa alltaf verið til menn, sem af ýmsum ástæðum hafa óttazt vissar tæknilegar framfarir og hafa hatt rangt fyrir sér. Og hæstv. forsrh. var að reyna að gefa í skyn með þessum upplestri og sínum röksemdafærslum, að þess vegna hefðu allir þeir, sem væru með tæknilegum framförum, hvers kyns, sem þær væru, alltaf rétt fyrir sér. Þetta var raunverulega rauði þráðurinn, ef ég má nefna rautt í sambandi við hæstv. forsrh., í hans langa og að mörgu leyti skörulega erindi.

Af því að hann var nú að útnefna mig til þingkennara hér svo hátíðlega í sinni ræðu, verð ég að reyna að standa undir því heiti og reyna að taka hann þá ofurlítið í tíma til þess að reyna svona hlutlægt að skilgreina, hvað það er, sem ég álít, — þegar hann tekur eftir mætum mönnum þennan fyrirlestur, — hvað það er, sem við raunverulega þurfum að kunna að skilgreina í allri okkar framfarabaráttu, það, sem af er þessari öld. Ég álít, að það séu þrír þættir, sem að mínu áliti og yfirleitt að áliti sósíalista ættu að vera samofnir, en sem ekki eru það alltaf í þeirri framfarabaráttu, sem hér hefur verið háð. Það sé í fyrsta lagi sjálfstæðisbaráttan sjálf, baráttan fyrir pólitísku sjálfstæði. Það sé í öðru lagi barátta fyrir tæknilegum framförum. Og það sé í þriðja lagi baráttan fyrir félagslegu réttlæti og það, að þessir þrír þættir, sem mörgum okkar, eins og t.d. mér, finnst alveg eðlilegt og sjálfsagt, að séu samofnir í eitt, og maður standi með þeim öllum, — það hefur ekki verið eðlilegt, að það væri eitt og hið sama fyrir mörgum þeim, sem staðið hafa framarlega í vissum þáttum íslenzkrar framfarabaráttu á undanförnum 70–80 árum.

Okkar bændastétt, sem ber höfuðþungann í okkar pólitísku sjálfstæðisbaráttu, er að mjög miklu leyti andvíg tæknilegum framförum eða hrædd við þær, og margir ágætismenn í bændastéttinni um aldamótin, sem eru þeir róttækustu í okkar sjálfstæðisbaráttu, eru oft smeykir við hinar tæknilegu framfarir, jafnvel afturhaldssamir í þeim og sumir hverjir líka jafnvel andvígir félagslegu réttlæti. Við höfum upplifað þá hluti í okkar baráttu, t.d. um aldamótin, að embættismenn, sem við kölluðum jafnvel hálf dansklundaða og voru andvígir okkur svo að segja í okkar pólitísku sjálfstæðisbaráttu, voru jafnvel róttækari í félagslegri réttlætisbaráttu en margir okkar róttækustu bændur í sjálfstæðisbaráttunni.

Sem sagt, þessa hluti þurfum við að kunna að aðgreina, og við þurfum að setja okkur í spor þeirra manna, sem þá heyja þessa baráttu, ekki sízt þegar um svo mæta menn er að ræða eins og þann, sem hæstv. forsrh. las upp eftir, til þess að dæma þessa menn ekki rangt. Við þurfum að skilja þeirra þjóðfélagslegu aðstöðu, þeirra ótta og um leið, hvað þeir eru róttækir í þeirri sjálfstæðisbaráttu, sem þeir eru að heyja. Við þekkjum sjálfir mál eða stefnu, eins og vallýskuna, þar sem áhugi er fyrir tæknilegum framförum og að ýmsu leyti áhugi fyrir félagslegu réttlæti. — Við skulum muna það, að Eimreiðin, tímarit Valtýs, byrjar með kvæði Þorsteins Erlingssonar, kvæði sósíalismans, Brautin. — Það fer saman í valtýskunni, en um leið kemur viss afsláttur eða við skulum segja samkomulag í hinni pólitísku sjálfstæðisbaráttu. Hins vegar gæta þeir sín ekki á því, þegar aðstaðan breytist erlendis og vinstri menn komast til valda í Danmörku, að taka þá upp um leið harðvítugri baráttu í þeim þætti þeirrar baráttu, sem sneri að sjálfstæðinu.

Fyrir íslenzkum sósíalistum hefur frá upphafi vega, alveg frá tíma Þorsteins Erlingssonar, verið sjálfsagt að vera með öllu þessu þrennu, okkar sjálfstæðisbaráttu, okkar tæknilegu framförum og hinu félagslega réttlæti. Það hefur þess vegna verið oft svo, það, sem af er þessari öld, að um leið og verkalýðurinn og atvinnurekendastéttin hafa háð sína harðvítugu stéttabaráttu hér á Íslandi, barizt um félagslegt réttlæti, barizt líka oft í sambandi við sjálfstæðisbaráttuna, staðið sitt hvoru megin, — að þessar tvær stéttir hafa getað unnið saman, þegar um tæknilegar framfarir var að ræða. En þó verðum við að aðgæta það, að líka, þegar um tæknilegar framfarir var að ræða, var það ekki sama, hvers kyns þær tæknilegu framfarir voru. Þær gátu unnið saman, verkalýðsstéttin og atvinnurekendastéttin, þegar um tæknilegar framfarir var að ræða, sem Íslendingar sjálfir réðu yfir. Ég skal í því sambandi, fyrst hæstv. forsrh. var að fara svona langt í að minna á það, sem gerzt hefur fyrr í sögunni, minna á eitt slíkt mál.

Í ársbyrjun 1927, í febrúar, var lagt stjfrv. fyrir Alþ. frá þáv. ríkisstj. Jóns Þorlákssonar og Magnúsar Guðmundssonar um sérleyfi til handa Titan, því erlenda félagi, til þess að fá að leggja járnbraut frá Þjórsá til Reykjavíkur og til þess að fá að virkja Urriðafoss, 160 þús. hestöfl. og til þess að koma upp verksmiðju til saltpétursvinnslu eða annarrar áburðarvinnslu í Skildinganesi. Og um afstöðuna til þessa skiptust menn. Í þessu sérleyfi var — ég skal ekki vera að rekja það neitt nákvæmlega með hvers konar kjörum — það var kveðið á um verð náttúrlega og hestöfl og margt annað slíkt eins og eðlilegt er og eins og nú er gert líka og það átti að vera til 70 ára. Það var ríkisstj. sjálf, sem lagði þetta fyrir, stjórn gamla Íhaldsflokksins, og þetta frv. var svo að lokum allt samþ. í þinginu. En í deilunni um þetta mál tók m.a. einn þm. til máls, sem þó tilheyrði þá ríkisstj. Það var Ólafur Thors, og hann talaði svo, með leyfi hæstv. forseta. Ég skal lesa upp það, sem hann segir, part af hans ræðu. Hann minnist í ræðunni á innflutning erlendra verkamanna og segir, að þessi hlið málsins sé aukaatriði, og svo heldur hann áfram:

„Hættan felst í öðru, og það er tvímælalaus skylda löggjafarvaldsins að vera á verði gegn henni. Ég tek það fram og legg áherzlu á, að ég ræði hér um stefnur í þessu máli og þá sérstaklega með hliðsjón af þeim ummælum, er hv. 1. þm. Rang. (þ.e. Klemenz Jónsson) hafði og að framan getur, og þá hika ég ekki við að láta í ljós þá skoðun, að verði þeirri stefnu fylgt að veita sérhvert það sérleyfi til virkjunar, sem um er sótt, ef aðeins sæmilega tryggilegt þykir, að sérleyfið verði hagnýtt, hefði hitt orðið miklu farsælla að neita með öllu allri virkjun á íslenzkum fossum. Ég er þess nefnilega fullviss, að ef erlent fjármagn tekur til starfa hér á landi í svo ríkum mæli, mundi sjálfstæði voru stafa af því veruleg hætta, enda bendir reynsla annarra smáþjóða til þess. Við Íslendingar höfum nokkra reynslu í þessum efnum, þó að hún sé að vísu eigi alveg hliðstæð, þar sem er fiskiveiðalöggjöf vor og landhelgislöggjöf. Vér höfum þráfaldlega rekið oss á það, að í hvert skipti, sem oss þykir æskilegt að gera einhverjar breytingar á þessum l., hafa útlendingar risið upp og mótmælt aðeins vegna þess, að þeir eiga hér nokkurra hagsmuna að gæta á þeim sviðum. Það er nú ljóst, að þeim mun viðtækari, sem starfsemi þeirra verður hér í landi, þeim mun oftar munu þeir þykjast þurfa að hafa afskipti af löggjöf vorri og þeim mun tíðara mun það verða, að sjálfsákvörðunarréttur vor mun hindraður sakir hagsmuna útlendinga. M.a. í þessu liggur stórvægileg hætta, sem ég þó að þessu sinni ekki skal víkja frekar að.

Hv. I. þm. Rang. gat um, að virkjunum fylgir mikil atvinna fyrir íslenzka verkamenn, en ég vil leyfa mér að benda á, að hér á landi er eins konar stóriðja, þar sem er íslenzka togaraútgerðin, og ef ætti að tíunda, hver ágalli fylgir henni, má benda á, að hún hefur orðið til þess að draga fólkið úr sveitunum, en ég álít hins vegar, að sú stóriðja hafi verið okkur á allan hátt nauðsynleg og sé alls góðs makleg, m.a. vegna þess, að ég hef ekki séð aðrar leiðir fyrir ríkissjóð til þess að fá fé til sinna þarfa en að sækja það í hennar vasa. Þess ber og að geta, að stóriðja þessi er öll í eigu íslenzkra manna, og allur arðurinn af henni hefur því fallið Íslendingum.

Hér er nú verið að ræða um að stofna til nýrrar stóriðju, stóriðju, sem öll verður í eigu erlendra manna og arðurinn af henni fellur því að mestu erlendum mönnum. En ágalla hefur hún þá sömu og sú stóriðja, sem fyrir er í landinu, nefnilega að draga vinnulýðinn frá landbúnaðinum, og vil ég sérstaklega beina athygli hv. þdm. að þessari hlið málsins, með því að ég tel þá alla einhuga um að efla ræktun landsins. Ég vil enn fremur benda á, að erlendur atvinnurekstur mun ávallt verða stopull fyrir þjóðfélagið. Erlendir menn hugsa fyrst og fremst, um sinn hag, en þeir, sem grónir eru upp með þjóðinni, munu að vonum taka miklu meira tillit til hagsmuna hennar heldur en útlendingar.“

Hér lýkur lestri úr því, sem Ólafur Thors segir 1927 um þetta sérleyfi til handa útlendingum þá. Og það fór svo, að þótt þetta væri samþ., greiddu m.a. atkv. á móti þessu sérleyfi Ólafur Thors, Héðinn Valdimarsson, Tryggvi Þórhallsson og Benedikt Sveinsson. Það hefur verið barizt áður hér um stóriðju, þegar útlendingar hafa viljað ná hér tökum á okkur, og mun verða barizt áfram og mun verða barizt lengi. Og ég vil minna hv. þdm. á, að þegar þetta gerist, er þó hugsunarhátturinn þannig hér í þinginu, að jafnvel þótt stjórn þáv. Íhaldsflokks leggi þetta frv. fram og Ólafur Thors skoði sig þá vafalaust með fremstu mönnum þess flokks, eins og hann þegar var orðinn. greiðir hann samt sem áður atkv. á móti þessu máli. Við skulum alvarlega aðgæta, hvert við erum að lenda með því, hve harðvitug handjárnin eru orðin á flokkunum nú á tímum, og meina ég þetta ekki bara til Sjálfstfl. eins.

Svo að ég hverfi aftur að öðru dæmi, þar sem hins vegar gerist allt svo öfugt, þar sem við stöndum allt svo saman um framfarir, einmitt það mál, sem hæstv. forsrh. kom inn á, Sogsvirkjunina. Ég man eftir því rétt eftir að ég varð I. varamaður Kommúnistaflokksins í bæjarstjórn 1934, — þegar hæstv. forsrh., held ég, var líka kosinn í fyrsta skipti í bæjarstjórn Reykjavíkur, — lenti ég af tilviljun í því einmitt á fundi, sem var haldinn hér á bæjarskrifstofunum, — ekki úti í kaupþingssalnum, — að verða að greiða atkv. um það, hvort — ég held áreiðanlega Jóni Þorlákssyni hafi verið gefin heimild til annaðhvort að fara sjálfur eða vera sendur út til Svíþjóðar til þess að reyna að afla lána, og ég stóð með því. Ég man, að það var nokkuð mikið verið að ráðast á þetta þá, og það lenti þannig, að ég stóð þarna einn fyrir utan sjálfstæðisbæjarfulltrúana að þessu.

Það er rétt að koma líka inn á það, sem hv. I. þm. Austf. minntist á. Hann sagði nú áðan í sinni ræðu af mikilli hæversku, að á þessum tímum hafi of lítið verið tekið af lánum. Sannleikurinn var, að það var sett lánabann á okkur. Við vorum það fátækir, við áttum það erfitt, að brezki bankinn, sem hafði tökin á okkur, Hambros Bank, setti bókstaflega bann á, þegar vinstri stjórn tók við völdum þá, og vinstri stjórnin sem þá var stjórn Alþfl. og Framsfl., fékk ekki að taka lán í Bretlandi og fékk ekki að ganga í ríkisábyrgð. Þetta var eins erfitt ástand út á við og hægt var að hugsa sér, og það var veríð að brjótast í því, ef ég man rétt, að fá lán í Svíþjóð án ríkisábyrgðar til Sogsvirkjunarinnar. Það var um það, sem þá var verið að deila. En hins vegar var sem sé brotizt í því þá í þeim erfiðleikum, sem þá voru og næstum því í banni Hambrosbanka, sem þá hafði álíka aðstöðu gagnvart Íslandi og Alþjóðabankinn hefur núna, að útvega lán handa Íslendingum sjálfum til að gera sína eigin Sogsvirkjun, hvað sem þau voldugu bankavöld erlendis segðu. Og það tókst. Það tókst, þannig að við hefðum mátt muna það líka núna, að það er ekki ofverkið okkar að leggja í það, sem við álitum nauðsynlegt að leggja þarna í, og ég ætla ekki að fara hér út í. — Svo aftur nýsköpunin. Þar lendum við aftur í því að vinna saman að tæknilegum framförum.

Þessa hluti vildi ég aðeins rifja upp, til þess að við gerðum okkur ljóst, að það er ekki alveg nýtt, að við séum að deila um svona mál. Þegar svona mál koma fyrir, verðum við að athuga þau í hvert skipti og meta og ekki að slá því föstu, að allt, sem heitir tæknileg framför, í verksmiðju eða eitthvað slíkt nýtt, sé absalút gott. Við verðum að meta það í hvert skipti. Við verðum þá að kunna að láta þetta þrennt fara saman, sem verið hafa meginþættir í okkar framfarabaráttu á þessari öld: Baráttuna fyrir okkar pólitíska, efnahagslega sjálfstæði, baráttuna fyrir tæknilegum framförum okkar Íslendinga og baráttuna fyrir félagslegu réttlæti. Sterkt auðvald er hemill á félagslegu réttlæti, og það er hættulegt að fá sterkt auðvald í okkar landi, ef við ætlum að knýja fram sem mest félagslegt réttlæti. Að fá sterkt útlent auðvald í okkar land er ekki aðeins hættulegt gagnvart félagslegu réttlæti, það er líka hættulegt gagnvart efnahagslegu og pólitísku sjálfstæði. Og það er raunverulega ekki aðeins hættulegt fyrir alþýðu manna, fyrir verkalýð, það er líka hættulegt fyrir a.m.k. stóran hluta af íslenzkri borgarastétt.

Það er máske engin tilviljun, að við, ég og hæstv. forsrh., lukum okkar ræðum í dag svo að segja báðir með sömu hugsunum. Hann sagði: „Við fáum vald á þeim ekki síður en þeir á okkur, og við getum þá tekið eignarnámi, ef þjóðinni býður svo við að horfa.“ Og mér þótti vænt um að heyra þetta hjá hæstv. forsrh. Ég lauk minni ræðu með því að segja, að það gæti farið svo, að við yrðum að hefja baráttu fyrir því að þjóðnýta þessa verksmiðju, þannig að það er sama hugsunin hjá okkur báðum um þrautalendinguna, ef það skyldi nú sýna sig, að við eða þeir, sem ráða ferðinni nú, hefðu farið of geyst eða treyst um of á ýmis þau atriði í sambandi við þetta, sem síðan brugðust.

En það, sem fyrir mér vakir, og það, sem veldur mér áhyggjum í þessu sambandi, er þetta: Er öruggt, að við, þótt við tveir hefðum þessa sömu hugsun, hæstv. forsrh. og ég, er öruggt, að við gætum eða þeir, sem tækju við af okkur eftir 10–20 ár, gætu þá ráðið við hlutina, þó að okkur finnist báðum, að við gætum ráðið við þetta í dag? Ég býst við, að það sé alveg rétt hugsað hjá hæstv. forsrh. Með þeim hugsunarhætti, sem nú ríkir á Alþ. hjá öllum flokkum, mundum við, ef við t.d. á næstu 4–5 árum sæjum, að við hefðum misreiknað okkur, mundum við geta breytt þessu. En getum við breytt þessu eftir 10–20 ár? Hæstv. forsrh. hefur auðsjáanlega brotið heilann um þetta, því að hann kemur með þær röksemdir, að það sé nú ekki svona hættulegt vald þessa fyrirtækis, eins og ég vildi vera láta. Hann segir: Það eru mörg fyrirtæki hér, sem hafa fleiri aðila í sinni þjónustu: Samband ísl. samvinnufélaga hefur 1300 manns, Loftleiðir hafa yfir 500, Eimskip 700, Flugfélagið hefur 300, en vald þessara fyrirtækja liggur ekki í fjölda þeirra starfsmanna, vegna þess að með því atvinnuástandi, sem nú er, geta þessi fyrirtæki ekki haft það vald, sem þau hefðu haft á atvinnuleysistímum í sambandi við það að hafa svona marga starfsmenn og veita svona mikla vinnu. Vald þess fyrirtækis, sem nú á að koma inn í landið, allt svo Swiss Aluminium, liggur í auði þeirra og þar með auði, sem er óháður íslenzka ríkinu, óháður íslenzkum ríkisbönkum. Þrjú af þeim fyrirtækjum, sem hæstv. forsrh. talaði um, Samband ísl. samvinnufélaga, Eimskipafélag Íslands og Flugfélag Íslands, öll þessi þrjú fyrirtæki eru mjög háð íslenzkum ríkisbönkum, öll þessi fyrirtæki verða að sækja mjög mikið til þeirra, þannig að ríkisstj. getur á hverjum tíma, ef þessi fyrirtæki ætluðu að reisa sig, þannig að mönnum fyndist það mikið, haft mjög mikinn hemil á þeim. Loftleiðir eru máske það af þessum fyrirtækjum, sem er efnahagslega óháðast ríkinu. Loftleiðir munu, þegar þær hafa greitt hæst í skatt hér, hafa borgað, ég held á árinu 1964, um 29 millj. kr. í tekjuskatt, útsvar og allt annað slíkt, allt svo verið meira en hálfdrættingur á við það fyrirtæki, sem hér er verið að ræða um að veita sérleyfi til 45 ára. Öll þessi fyrirtæki hafa hins vegar ekki að neinu leyti svipaða aðstöðu og þetta fyrirtæki kemur til með að hafa. Allt svo, hvort sem gróði þessa fyrirtækis, Swiss Aluminium, hér á Íslandi er 200 millj., eins og hæstv. iðnmrh. gizkaði á, eða 460 millj., sem ég var að gizka á eða einhvers staðar þarna á milli (Gripið fram í.) — já, já, formúlan, hún er ekkert vitlaus, — þá er það svoleiðis langsamlega fram yfir allt, sem nokkur íslenzk fyrirtæki hafa haft, að það er allt svo um fyrirtæki af allt annarri gráðu að ræða en það, sem við höfum verið að tala um. Við erum sem sé ekki bara að fara inn á nýja stefnu með þessu. Við erum að fá alveg nýja aðila, við erum að fá einhvers konar risa til viðureignar í samanburði við þá svona tiltölulega jafnréttháu aðila frá sjónarmiði t.d. ríkisins, sem við höfum fengizt við fram að þessu. Valdið, sem það fyrirtæki hefur, þessi svissneski auðhringur, er þess vegna allt, allt annars eðlis heldur en allra þeirra fyrirtækja sem við höfum haft hérna á Íslandi. Og þegar þetta fyrirtæki færi svo, m.a. vegna þess, að það les vafalaust það, sem við segjum hér, bæði hæstv. forsrh. og ég, og ekki sízt með mikilli athygli, hvað hann segir, þegar það jafnvel heyrir minnzt á það strax og þetta ber á góma, að jafnvel hæstv. forsrh. dettur í hug eignarnám, er gefið, að svona fyrirtæki byrjar að setja sig í varnarstellingar frá upphafi vega og byrjar að skapa sér sinn varnarvegg í íslenzkum stjórnmálum, í íslenzkum blöðum og í íslenzkum flokkum.

Þegar við erum að ræða um þetta fyrirtæki, erum við að deila um, hvort við eigum að fá erlenda stóriðju inn í landið eða íslenzka stóriðju. Við getum vel og höfum vel efni á að koma okkur upp íslenzkri stóriðju, meira að segja þó að hún væri eins stórfelld og það, sem þetta alúminíumfyrirtæki vill fara fram á. Við erum nógu ríkir til þess, Íslendingar, þannig að deilan stendur ekki um, hvort menn vilji núna tæknilegar framfarir, hvort menn vilji það stórkostlegar framfarir meira að segja, að við reislum alúminíumverksmiðju eða einhverja verksmiðju, sem vinnur úr útlendu hráefni. Deilan stendur um, hvort það ætti að vera íslenzkt eða útlent, hvort það ætti að vera íslenzkt vald, sem þarna er um að ræða, kannske sambland af ríkisrekstri eða einstaklingsrekstri, eða hvernig sem við vildum hafa það, en í öllu falli íslenzkt, eða hvort það á að vera útlent með alls konar sérréttindum. Það er um þetta, sem væri barizt. Við hefðum ekki verið í neinum vandræðum með það, Íslendingar, ef við hefðum mátt leggjast á eitt, t.d. núna, allir flokkar hér í þinginu að byggja upp svona fyrirtæki. Þess vegna vil ég líka alvarlega vara hæstv. ríkisstj. við, m.a. vegna þess, að ég heyrði hjá hæstv. forsrh. og hef heyrt áður hjá hæstv. iðnmrh., að við ráðum við hlutina, ef það skyldi sýna sig, að við hefðum reiknað rangt núna eða breytt rangt núna. Þjóðin getur breytzt, og hún getur breytzt til hins verra undir það slæmu áhrifavaldi, að okkar kynslóð núna liti á það sem hnignun. Það væri eins og að komast í eins konar álög, ef það væri búið af auðvaldi þessa fyrirtækis um áraraðir að iðka hér slíkan áróður, að það væri búið að gera Íslendinga að slíkum umskiptingum, að þeim þætti sjálfsagt að fá sem mest af útlendu auðmagni beint inn í landið. Svissneski auðhringurinn gerbreytir kraftahlutföllunum hér á Íslandi, ekki aðeins á milli atvinnurekendastéttarinnar og verkalýðsstéttarinnar, heldur líka kraftahlutföllunum innan borgarastéttarinnar sjálfrar, kraftahlutföllunum á milli t.d. sjávarútvegsins annars vegar eða þeirra, sem honum stjórna, og þess hins vegar, sem erlendis mundi nú vera kallað fjármálaauðvald.

Það eru nú þegar menn í landinu, sem eru miklu, miklu ógætnari í þessum efnum en hæstv. ríkisstj. Í hennar aðalflokki, í Sjálfstfl., eru menn, sem nú þegar líta á það sem bjargræði, sem hjálpræði, að fá sem mest af erlendu auðmagni inn í landið og munu auðsjáanlega berjast fyrir því sem einhvers konar hugsjón. Ég efast ekkert um, að þeir trúi því, að slíkt auðmagn sé þjóðinni til slíkrar blessunar, að það sé bara um að gera að fá það, hvaðan sem það kemur. Og ég vil minna hæstv. forsrh. á, að þegar þessi verksmiðja verður búin að starfa í 10 ár, ef hún kemst á, er hann orðinn maður yfir sjötugt. Þá eru e.t.v. teknir við menn í Sjálfstfl., sem eru af þeirri kynslóð, sem ekki hefur sams konar uppeldi og erfð í sínu blóði og okkar kynslóð hefur haft, — sem ekki hefur lifað á Íslandi undir dönsku flaggi, sem ekki hefur þá tilfinningu fyrir okkar sjálfstæði, sem okkar kynslóð hefur haft, menn sem fyrst og fremst hugsa svo að segja alþjóðlega hvað það snertir, að auðmagn sé hlutur, sem sé góður, hvaðan sem auðmagnið kemur, og það sé hégómi að vera svona hræddur við slíkt. Og það geta þá verið slíkir menn, sem ekki hafa þessa erfð í sínu blóði, sem séu teknir við og hafi það voldugan bakhjari hér, þar sem þessi auðhringur er og máske þá fleiri, sem væru komnir í hans kjölfar, að þær hugsanir, sem við núna látum í ljós, finni ekki lengur hljómgrunn hjá meiri hl. þjóðarinnar, þegar svo væri komið. Það er þess vegna, sem ég álít, að við eigum ekki að fara inn á þessa braut. Við eigum að stöðva þetta núna. Það er ekkert, sem rekur okkur til þess.

Sagt var áðan, að ég mundi ekki hafa lesið alla 14. gr. samningsins. Ég hef einmitt gert það. Í upphafi hennar eru ákveðnar undanþágur frá aðflutningsgjöldum á innfluttum vörum ýmiss konar, þ. á m. vistum, sem ISAL telur sig þurfa að nota við byggingu og rekstur bræðslunnar. Og það er ekkert síðar í þessari 14. gr., sem afturkallar þessi ákvæði, enda hefði það ekki haft þýðingu að setja þetta þarna inn, ef það væri svo tekið aftur með öðrum ákvæðum síðar í gr., enda virtist mér nú hæstv. landbrh. viðurkenna, að það ætti að undanþiggja vistir, sem bræðslan notaði, undanþiggja þær aðflutningsgjöldum. Og auðvitað var alveg þýðingarlaust fyrir hið útlenda fyrirtæki að fá þetta tekið inn, undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda, m.a. af vistum, ef það hafði enga möguleika til að flytja inn útlendar matvörur, og ég allt, að þessi möguleiki sé þeim gefinn í 18. gr. Því miður held ég, að þessi skilningur minn á samningnum sé réttur, ég segi, því miður, því að þetta er mjög slæmt fyrir okkur Íslendinga, og eins og ég sagði áður, eitt af því, sem gerir það að verkum, að við eigum að hafna þessum samningi.