05.04.1966
Neðri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þessum hv. þm., sem nú var að ljúka máli sínu, finnst eins og hann þurfi endilega alltaf að tala síðastur, eftir allar þær langlokur, sem hann er þó búinn að flytja í þinginu um þetta mál, og sennilega hefur hann notað tvöfaldan tíma á við mig eða meira. En ég ætla að segja honum það alveg skýrt og ákveðið, og það er bezt, að hann viti það, ef hann ekki vissi það áður, þó að ég sé búinn að segja það oft, að ég hef ekki gert minnstu tilraun til þess að koma ábyrgðinni af þessum samningi yfir á aðra, hvorki hann né nokkurn annan af stjórnarandstöðunni. Hitt er svo annað , mál, að hvorki hann, sem sá samningana og hefur séð þá í meira en hálft ár, né hans menn í þmn. sáu ástæðu til þess að gera neina sérstaka athugasemd út af gerðardómsákvæðinu. Ég hef aldrei sagt, að þeir ættu að bera ábyrgð á þessu ákvæði, en ég hef bent á það, að það, sem menn nú telja slíka firru, sáu þessir menn aldrei áður ástæðu til að gera athugasemd við eða telja á nokkurn hátt óeðlilega hluti í slíkum samningi. Þetta er enginn orðhengilsháttur hjá mér, þetta er efni málsins, og það, sem hv. þm. sagði hér í lokin um þetta, er ekki aðeins ósatt hjá honum, — þ.e. að í almennum fyrirvara um að lúta íslenzkum lögum eigi það að felast, sem hann vill vera láta, — heldur er þetta vísvitandi ósatt.