15.11.1965
Efri deild: 16. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Í umr. síðast var rætt m.a. um tvö atriði, sem spurzt var fyrir um, annað þeirra sérstaklega, um útreikning á tekjum af þeirri hækkun á eignarskatti, sem hér er gert ráð fyrir, og hins vegar var rætt aftur nokkuð um það, hversu óeðlilegt það væri að hafa þá aðferð til tekjuöflunar, sem hér er um að ræða, og það form, sem á þeirri tekjuöflun er, með því að ákveða í l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins álag á eignarskatt. Ég skal aðeins fara nokkrum orðum um þessi tvö atriði, en áður vildi ég sérstaklega taka undir það, sem hæstv. félmrh, sagði hér áðan um l. um hámark húsaleigu og hin illu áhrif þeirra, hvað snertir eitt atriði, en það er í sambandi við framtal til skatts.

Húsaleigusamningar eru yfirleitt miðaðir við hina lögbundnu leigu, og leigjendurnir eru síðan látnir greiða umfram eða undir borðið, sem kallað er, það sem umfram er, sem er oftast nær mun hærri upphæð en löglega leigan er.

Þetta veldur svo að sjálfsögðu því, að menn komast auðveldlega upp með að telja fram sem tekjur af húsnæðinu það, sem leigusamningurinn segir til um, því að það er hægt að framvísa þeim leigusamningi, ef tortryggni kemur fram um það, og skattayfirvöld eiga ekki auðvelt um vik að fullyrða, að það hafi verið svo og svo mikið greitt umfram, og leigutakinn hefur ekki heldur góða aðstöðu til þess, þegar hann hefur undirritað leigusamning á þennan hátt. Aðeins þetta eina atriði tel ég miklu varða um það, að það sé nauðsynlegt að breyta þessu og afnema þessi ákvæði vegna þeirra illu áhrifa, sem þetta hefur að þessu leyti, einnig fyrir leigjandann, hvað það snertir, að einmitt af þessum ástæðum verður hann miklu oftar en ella að greiða háar upphæðir fyrir fram til þess að komast inn í húsnæði.

Að öðru leyti skal ég ekki víkja að ákvæðunum um húsnæðismálastofnunina sérstaklega. Það hefur hæstv. félmrh. gert rækilega.

Varðandi það atriði, hvort eðlilegt sé að hafa þá tekjuöflun, sem hér er um að ræða, hefur áður verið frá því skýrt, að upphaflega var gengið út frá því, að fjárins yrði aflað með fasteignaskatti eða einhverjum svipuðum ráðstöfunum, þannig að það hefur ekki farið fram hjá neinum og um það var ekki sérstaklega deilt og hefur ekki verið, að það væri óeðlilegt að afla fjár til húsnæðismála með þessum hætti. Hitt kemur svo aftur til álita, annars vegar, hvort hér sé um að ræða fasteignaskatt, sem sumir hafa haldið að væri, og með því væri ríkið að taka aftur af sveitarfélögunum það, sem það hefur afhent þeim sem tekjustofn, fasteignagjöldin. Við nánari athugun hlýtur að sjálfsögðu öllum að vera ljóst, að hér er ekki á neinn hátt verið að fara inn á fasteignagjöld, sem eru allt annars eðlis. Hér er spurningin um eignarskatt, og það hefur aldrei staðið til að afhenda sveitarfélögunum eignarskatt eða þann stofn, sem liggur að ákvörðun hans. Það er viðurkennt af öllum, að fasteignamat er allt of lágt og í langflestum tilfellum er verð fasteigna vafalaust miklum mun hærra raunverulega heldur en hér er gert ráð fyrir með sexföldun matsins. Það kann auðvitað að vera, að einstaka eignir lendi undir þessari sexföldun, sem ekki sé eðlilegt, en það kemur alltaf fyrir við alla skattheimtu og er erfitt að sigla fram hjá því skeri. En ég hygg hins vegar, að það liggi ljóst fyrir. Það er ekki ætlunin hins vegar að breyta grundvelli matsins, heldur lagt ofan á matið, eins og það er í dag, og miðað við það, að sexföldun sé fjarri því að vera óhóflegt mat á fasteignum til skatts. Það er jafnframt ljóst, eins og ég sagði, að það hefur aldrei staðið til að afhenda eignarskattinn sem tekjustofn til sveitarfélaganna, og hér er því í rauninni ekki annað verið að gera heldur en nota þann eðlilega tekjustofn, sem ríkið hefur, til þess að afla fjár til þessara sératöku þarfa.

Það er unnið núna að nýju fasteignamati, sem vonir standa til og mun verða lögð áherzla á að verði tilbúið á árinu 1967, og þá að sjálfsögðu kemur til athugunar á því, hvaða aðferðir á að hafa varðandi það ákvæði, sem hér er um að ræða, og þessa tekjuöflun. En meðan ekki er til staðar slíkt fasteignamat, er óeðlilegt að breyta því, sem nú þegar hefur verið gert, að setja þessa fjáröflun í húsnæðismálalöggjöfina, sem enda getur ekki talizt óeðlilegt, vegna þess að hér er aðeins um að ræða að leggja álag á vissar eignir. Það er ekki almenn hækkun á fasteignamati til eignarskatts, vegna þess að undan þessu eru skildar allar bújarðir ásamt tilheyrandi íbúðar- og peningshúsum og öðrum mannvirkjum, þannig að hér er eingöngu um að ræða eignir í kauptúnum og kaupstöðum, sem verður að teljast mjög sanngjarnt með hliðsjón af því, að hér er verið að afla fjár til húsbygginga einmitt á þessum stöðum.

Ég tel því, að það sé ekki hægt að segja, að það sé með neinum óeðlilegum hætti lögformlega að hafa þá tilhögun á að ákveða þetta í húsnæðismálal., með hliðsjón af, hversu þessu öllu er háttað.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að upphæð skattsins og þeirri áætlun, sem um hana hefur verið gerð. Því miður er ákaflega erfitt og raunar ómögulegt að gera sér til hlítar grein fyrir því, hvaða áhrif þessi skattheimta hefur. S.l. ár, þegar var ákveðin þreföldun matsins, hafði verið gert ráð fyrir því, að eignarskattur gæti orðið 21–23 millj. kr., og þá hugsuðu menn sem svo: Þreföldun hans er þá sennilegt að gefi þessar 40 millj. — Nú er það náttúrlega víðs fjarri, að það gæfi það, þó að þessi grunnur væri fyrir hendi, og þetta stafar í senn af því, að hér er um allan eignarskattinn að ræða, en frá þarf að draga að sjálfsögðu allar fasteignir í sveitum og enn fremur það, sem er þó grundvallaratriði, að það er svo margt annað, sem kemur undir eignir, heldur en fasteignirnar, þannig að það kom í ljós, að þessi margföldun til fasteignamats hækkaði aðeins eignarskattinn í samtals 39 millj. kr., eins og hann er á lagður nú, miðað við grunntöluna 21–23.5 millj., þannig að hann hefur ekki náð nema helmingi af því, sem gert var ráð fyrir, að þessi margföldun ætti að gefa, miðað við þessar forsendur, þannig að reynslan af þessu sýnir, að hér kemur margt annað til greina. Ég skal aðeins geta þess til upplýsinga, að eignarskatturinn í heild var t.d. gjaldárið 1962 9.6 millj., gjaldárið 1963 reyndist hann 12.5 og gjaldárið 1964 17.8. Hækkun milli gjaldára hefur í fyrra tilfellinu eða milli áranna 1962 og 1963 verið 30.3% og milli gjaldára 1963 og 1964 42%. Þessi mikla hækkun síðara árið stafar fyrst og fremst af því, að þá kom fram mikið endurmat fastafjármuna, sem olli þessari miklu hækkun, og er þar af leiðandi ekki raunhæfur grundvöllur til að miða áætlaða árlega hækkun við. En gert var ráð fyrir, að hækkun eignarskattsins gæti orðið 18–32%. Ekki þorðu menn að fara hærra í því að áætla þetta milli gjaldáranna 1964 og 1965, og á því var byggð sú áætlun, sem gerð var í fyrra um það, að eignarskatturinn gæti orðið 21–23 millj. kr., miðað við óbreyttan grunn.

Samkv. þessu lítur málið þannig út, miðað við það, sem vitað er um eignarskattinn nú, að ef gengið hefði verið út frá 21 millj. kr. grunninum í eignarskattinum fyrir árið í ár, hefði sexföldun gefið 46.5 millj. Ef hins vegar hefði verið gengið út frá 23 millj. kr. grunninum, hefði eignarskatturinn numið 40.25 millj. Hvað kann að verða í þessu efni, er ákaflega erfitt um að segja. Ég hef beðið ríkisskattstjóra um að reyna að gera sér grein fyrir þessu, og þessar tölur eru byggðar á þeim upplýsingum, sem hann hefur gefið mér. En hann segir, sem eðlilegt er og skiljanlegt, að hér sé í rauninni gersamlega ómögulegt að fullyrða neitt, vegna þess að þetta getur tekið það miklum breytingum frá ári til árs. Skuldasöfnun að sjálfsögðu dregur úr þessum tekjum, þar sem hér er aðeins um nettóeign að ræða, sem skatturinn leggst á, og ef ætti að finna nákvæmlega út, t.d. á árinu í ár, hvað hefur komið af fasteignum og hvað af öðrum eignum, yrði að fara í gegnum öll framtöl til þess að átta sig á þessu til hlítar, þannig að þetta hlýtur alltaf að vera mikil áætlunartala.

Menn segja sem svo: Getur ekki verið að þetta sé of hátt, að fara í sexföldun matsins? — Það kann að vera, að þetta gefi eitthvað meira en þessar 40 millj., sem um er að ræða. En það kann líka vel að vera, að þetta rétt aðeins gefi þá upphæð. Og það er nokkurn veginn augljóst, að fimmföldun matsins hefði alls ekki gefið þær 40 millj., sem hér er um að ræða.

Mér er það fullkomlega ljóst, að þessar upplýsingar eru harla ónákvæmar. En þær eru eins nákvæmar og auðið er að gefa, miðað við allar aðstæður, um þennan gjaldstofn og hversu miklum breytingum hann gæti tekið frá ári til árs. Mér sýnist því, að öll rök bendi til þess, að til þess að ná umræddum 40 millj. sé nauðsynlegt að framkvæma þá sexföldun, sem hér er gert ráð fyrir á fasteignamatinu, þó að ég hins vegar, eins og ég áðan sagði, geti vel fallizt á, að það sé hugsanlegt, að þessi tekjustofn gefi nokkrum millj. meira. En það er aðeins hugsanlegt, en engin vissa.