19.04.1966
Neðri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1683 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. hefur lokið enn einni langri ræðu um þetta mál, og að þessu sinni má segja, að höfuðinntak ræðunnar hafi verið að ávíta stuðningsmenn þess frv., sem er til umr., fyrir ofstæki og blindni í málflutningi. Ég verð að segja, að hann sér ekki bjálkann í eigin auga, því að ég hygg, að sjaldan hafi í allri meðferð þessa máls bryddað eins á ofstæki og blindni eins og gerði í þessari ræðu hv. þm. Að vísu er hann búinn að vera hér lengur en flestir aðrir, en menn hafa ekki þurft að sitja mörg ár á Alþ. til þess að venjast svo þessum lestri hans, að menn hætta að kippa sér upp við stóru orðin, en þegar þeim ásökunum er beint til annarra, að þeir beiti ofstæki og blindni, er e.t.v. rétt að athuga, hvort hans eigin málflutningur er til mikillar fyrirmyndar. Ég hygg, að þeir, sem styðja þetta frv., hafi ekki kallað andstæðinga þess leiguþý eða aumingja eða öðrum slíkum orðum. En þetta voru og þessu lík þau orð, sem hv. þm. valdi þeim alþm., sem styðja frv., sem hér er til umr. Ég held, að það sé því ástæða til að grípa þetta spjót á lofti og kasta því til baka og biðja hv. þm. um að athuga það, hvort ekki væri þá eins hægt að ásaka hann sjálfan fyrir ofstæki og blindni og hvort það muni vera þjóðinni hollara að fylgja þeim ráðum, sem hann veitir henni í ofstæki og blindni, heldur en þeim ráðleggingum, sem þeir hinir æstustu af stuðningsmönnum frv. færa fram.

Hv. þm. játaði það, að fram hefði komið hjá ráðh. og jafnvel fleiri meðmælendum frv. skilningur á því, hvers eðlis þetta mál er, að það er stórt og í því felst áhætta, að samfara því muni verða erfiðleikar. En þar fyrir taldi hann, að ofstækið og blindnin væru höfuðeinkenni þeirra, sem með frv. mæla. Ég vil nú spyrja, hvort það sé ekki oft svo, þegar stórar fylkingar deila um mál, að það megi finna bæði þá, sem tala af sanngirni og skilningi, og svo hina, sem sækja harðar í orustunni. Ég vil enn fremur spyrja, hvort það sé ekki nákvæmlega sömu sögu að segja í þessum efnum um andstöðuna gegn frv.. eins og stuðninginn við það. Ráðh. sjá hættu og erfiðleika í sambandi við þetta mál, og yfirlýsingar stjórnarflokkanna, a.m.k. annars, hafa sýnt það greinilega, að það skortir ekki skilning á því, hvílík áhætta felst í því að samþykkja þetta frv. og framkvæma það. En er þá ekki stjórnarandstaðan, a.m.k. einhver hluti hennar, sama markinu brennd, að hún getur séð einhverja kosti við þetta mál? Ég hygg, að það leyni sér ekki, þó að talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna haldi því ekki mjög á lofti, að þeir sjá margir hverjir, að í þessu máli er um að ræða mikla kosti fyrir þjóðina og það er til þó nokkuð mikils að vinna, og það, sem okkur ber skylda til að gera, er að meta kostina á móti göllunum og taka siðan okkar afstöðu. Það er t.d. athyglisvert um stærri stjórnarandstöðuflokkinn, að hann fordæmir þá samninga, sem gerðir hafa verið, og þylur upp fjölmarga galla á þeim, sem hann telur nægilega til þess að við ættum að hafna samningunum. En strax og um það er talað, að verksmiðjan, sem um er að ræða, yrði sett á Norðurland, eru engir af þessum göllum lengur fyrir hendi. Þá eru samningarnir ekki lengur óaðgengilegir að því er heyra verður. Þá er afstaða þeirra allt önnur. Þessi málflutningur sýnir það, að þessir menn sjá undir niðri, hvaða kostir eru fyrir hendi i þessu máli, og þeir meta þessa kosti. Það hefur orðið þeirra endanlega, pólitíska mat að snúast á móti málinu, en það fer ekki fram hjá okkur, sem fylgjum frv., að það hefur ekki verið þungi í málflutningi þessara manna. Þeir vita það, að fjöldinn allur í þeirra liði er á sömu skoðun og stjórnarflokkarnir i grundvallaratriðum. Nei, ásakanir um ofstæki og blindni eiga kannske alltaf einhvern rétt á sér í íslenzkum stjórnmálum, en ég hafna því, að þær eigi að nokkru leyti frekar við um stjórnarsinna en stjórnarandstæðinga í þessu máli, og mér þykir leitt, að svo gamall og gegn þm. skuli flytja slíkar ásakanir einmitt í þeirri ræðu, þegar hann notaði óvönduðust og stærst orð um andstæðinga sína.

Ég hélt, að reynslan mundi kenna flestum það, að hversu mikill sem skoðanamunur er á samkomum eins og Alþ. Íslendinga, sé ráðlegt að fara varlega í að sortera menn í þá, sem hafi íslenzka afstöðu og ekki íslenzka. (Gripið fram í.) Sá á að vægja, sem vitið og reynsluna hefur meiri, ef um slíkan árekstur er að ræða.

Hv. þm. lýsti því með mjög sterkum orðum, hvaða örlög biðu okkar, þegar svissneska álfélagið hefur byggt þessa verksmiðju hér á Íslandi. Það var að heyra, að þetta félag mundi að sjálfsögðu beita fjármagni sínu til þess að ryðjast inn í íslenzkt þjóðlíf, koma sér upp áhrifum í stjórnmálum. Það mundi kaupa upp blöðin okkar, það mundi stofna sinn eigin flokk, það mundi koma sínum eigin mönnum á þing, og væri þá kannske hægt að fara að tala um leiguþý, þó að það sé gert nú þegar. Í þessu sambandi langar mig til þess að benda á þá reynslu í þessum efnum, sem er okkur nærtækust, en það er reynsla Norðmanna. Þeir hafa hleypt erlendu fjármagni að vissu marki og eftir vissum reglum inn í sitt land síðan fyrir síðustu aldamót. Þetta erlenda fjármagn er allumfangsmikið í Noregi í dag, eins og ég mun koma að nokkru síðar, en hvar eru þau áhrif, sem þessi erlendu félög hafa haft í norskum stjórnmálum? Hafa þau stofnað sinn eigin flokk? Ef svo er, hef ég ekki heyrt um það. Hafa þau keypt upp norsku dagblöðin? Einhver dagblöð kunna að vera hlynntari þeim heldur en önnur, en ég hef aldrei heyrt nokkurn halda því fram í Noregi, að erlendu félögin, sem eiga verksmiðjur í landinu, hafi getað náð algeru valdi á dagblöðum. Það eru fá ár síðan norska verkamannastjórnin, sú, sem sat á undan þeirri, sem nú er við völd, gerði samninga um byggingu á stórri olíuhreinsunarstöð í Suður-Noregi. Samningarnir voru gerðir við einhvern anga af Esso-hringnum ameríska, mér er ekki nákvæmlega kunnugt um, hver hann er. Olíuhreinsunarstöðin, sem er hin stærsta á Norðurlöndum, var byggð eftir samningum, sem um það voru gerðir. Mundi hv. 3. þm. Reykv., eftir byggingu þessarar stöðvar, halda því fram hér eða annars staðar, að menn eins og Trygve Lie og Gerhardsen fyrrv. forsrh. séu Essoagentar? Vill hann halda því fram, að Verkamannaflokkurinn norski, sem ekki aðeins leyfði þetta fyrirtæki, heldur bókstaflega sóttist eftir því og gerði út sinn frægasta mann, Trygve Lie, til þess að ná þessu og öðrum fyrirtækjum til landsins, halda því fram, að þetta sé flokkur á valdi erlends auðmagns? Ég held, að slíkar kenningar væru taldar fáránlegar. Ég held, að hv. þm. flytji hér gamlar, pólitískar kenningar, sem ég skal ekki segja, hvort hafi einhvern tíma haft mikið til síns máls, en nú eru stórýktar, vegna þess að lýðræðinu hefur þrátt fyrir allt farið verulega fram, og jafnvel ríki með frumstæðum menningarþjóðum hafa það vald yfir sínu landi og því, sem þar gerist, að þau geta haft í fullu tré við erlend félög, þó að þeir hleypi þeim til atvinnurekstrar inn í landið. Eða eru leiðtogar Afríkuríkjanna upp til hópa þau fífl, að þeir skuli svo að segja á einni nóttu snúast frá því að vera frelsishetjur sinna þjóða yfir í það að verða leiguþý erlendra auðfélaga? Það, sem gerist þarna, er alls ekkert slíkt, heldur hitt, að það er mat þessara manna, að þegar þeir hafa náð fullum yfirráðum í sínu landi og orðið að sjálfstæðri þjóð, geti þeir haft vald á erlendum félögum innan síns lögsagnarumdæmis, og þeir gera það. Þeim er að sjálfsögðu ljóst, að þessu geta fylgt erfiðleikar og áhætta, en þeim er líka ljóst, að þjóðir þeirra geta haft af slíkum atvinnurekstri mikil not, og þeir semja um erlent fjármagn inn í lönd sín, þegar þeim virðist, að aðstæðurnar séu þannig, að þeir muni á því græða.

Hv. þm. sagði, að fulltrúar ríkisstj. eða jafnvel ráðh. sjálfir hefðu gengið með grasið í skónum eftir svissneska álhringnum til að biðja hann um að koma hingað til lands. Þetta er alls ekki rétt lýsing á því, sem gerzt hefur síðan stóriðjunefnd tók til starfa. Það, sem gerðist er, að stóriðjunefnd fékk í fyrsta lagi norska sérfræðinga, þ. á m. frá Norsk Hydro, til þess að athuga, hvaða iðngreinar væru líklegastar hér á landi. Og ég veit ekki, hvar við getum fengið menn, sem líklegri eru til að hafa betra vit á því, hvernig nota má fossaorku, heldur en beztu menn í Noregi, og það var þeirra ábending, að okkar möguleikar mundu langmestir í sambandi við álframleiðslu. Þá gerist það, að n., sem var í sambandi við þrjú erlend félög, eitt svissneskt, eitt franskt og eitt amerískt, um langt árabil, ræddi fram og aftur við þessi félög um möguleika á því, að þau tækju þátt í eða reistu álbræðslu á Íslandi. Það hafði komið í ljós eftir rannsóknum íslenzkra sérfræðinga, að við þyrftum 2.5 mill í rafmagnsverð til þess að virkjanir gætu staðizt. Þess vegna töluðu íslenzku fulltrúarnir ekki af neinni alvöru við neitt af þessum félögum, fyrr en þau gengu inn á þetta rafmagnsverð. Tvö þeirra hurfu frá og gengu ekki inn á það. Ameríska félagið fór vestur á Kyrrahafsströnd, þar sem það fær töluvert ódýrari raforku, og franska félagið fór til Grikklands, þar sem raforkan er að vísu dýrari, en ég geri ráð fyrir því, að skattahlunnindin, sem koma á móti, vegi upp það bil eða þá hugsanleg, pólitísk áhrif. Þannig gekk þetta mál, og það er fjarri því, að þær lýsingar séu sannar, sem gefnar hafa verið á íslenzkri undirgefni eða aumingjaskap. Það var að vísu dramatískt og hetjulegt, þegar Jón Þorláksson notaði Sigurð Jónasson eins og sendisvein til að kaupa farmiða með járnbrautinni, eins og hér hefur verið lýst, og lét Svíana vita, að nú væri Jón uppgefinn, og síðan gáfust Svíarnir upp og létu okkur fá það, sem við vildum. Ég þekki enga slíka dramatíska atburði úr aðdraganda að samningum um álmálið, en mér er kunnugt um það, að á vissu tímabili snemma í fyrrasumar hafði iðnmrh. nálega gefið upp von um, að þessir samningar tækjust. Hann sagði það þá á vissu stigi í einkasamtölum bæði við mig og fleiri. Málið leit þannig út. Ég sé ekki ástæðu til að rekja það nákvæmlega, hvað var að gerast, en þá var einn hnúturinn í samningunum og sá hnútur endaði á því, að Svisslendingar létu algerlega undan. Það var eitt af mörgum atriðum, þar sem samningamenn Íslands höfðu dregið ákveðna línu og stóðu við hana, og ég varð ekki var við það, að það dytti nokkrum manni í hug, að við ættum að fara að hörfa í stórum stíl, jafnvel þó að það væri komið á fremstu nöf með það, að samningum yrði hætt.

Hér hefur mikið verið rætt um samanburð við Noreg, og ég tel eðlilegt að ræða um þann samanburð, af því að við getum af engri þjóð lært meira um þessi mál heldur en einmitt Norðmönnum. Þeir byrjuðu á því strax um 1880 að bjóða til sín erlendum fyrirtækjum og settu fyrstu koncessionslöggjöf sína 1883. Þar með ákváðu þeir að setja með löggjöf vissan ramma og bjóða þannig þeim félögum að koma, sem vildu hlíta slíkum kjörum, og það komu allmörg félög til Noregs þá á næstu árum á eftir. Norðmenn gerðu líka tilraun til þess að koma sér upp álbræðslum sjálfir, en fyrstu tilraunirnar a.m.k. gengu mjög misjafnlega. Fyrsta norska álverksmiðjan, sem var byggð 1897, fór á hausinn, og þeir urðu að selja hana brezka álhringnum til að koma henni í gang aftur og halda henni gangandi. Önnur verksmiðja, sem var byggð árið 1900, átti við svo mikla erfiðleika að stríða, að þeir fengu einnig brezka álhringinn 1912 til að gerast þar meðeigandi, og 1912, þegar sett var upp eitt af stærstu fyrirtækjunum í þessari grein, var franskt félag eigandi að 70% þess. Þannig var reynslan lengi framan af. Norðmenn gerðu margar breytingar á þessari löggjöf, rammalöggjöf um erlent fjármagn, svo að segja ár eftir ár. Það fyrsta, sem þeir sáu, að þeir þurftu sérstaklega að gæta að, voru skógarnir.

Fyrsta stórtakmörkunin var sú, að útlendingar mættu ekki eiga skóg. Síðan komu takmarkanir um, að þeir mættu ekki eiga fjöll, og miklar takmarkanir voru snemma settar varðandi bæði fossaorkuna og námur. Það er á því sviði, sem gilt hafa þær reglur, að eftir visst árabil skuli norska ríkið eignast mannvirkin. Þá verðum við að minnast þess, að þarna voru útlend fyrirtæki að virkja fossa og þarna voru líka norsk fyrirtæki að virkja fossa, einkafyrirtæki. Báðir þessir aðilar voru hvað tossaorkuna snertir háðir þessu skilyrði, sem ekki gildir að jafnaði um iðnfyrirtæki. Árið 1917 var sett heildarlöggjöf á ný um þessi mál, og hún hefur gilt í stórum dráttum til þessa dags. 1962 var talið, að það væru í Noregi 98 erlend fyrirtæki í námugrefti og iðnaði og 29 erlend fyrirtæki í öðrum greinum, þ. á m. í viðkvæmum greinum að því er okkur finnst, eins og fiskvinnslu og verzlun. Í námugrefti og iðnaði höfðu þessi útlendu félög 9% af öllu vinnandi fólki í þeim greinum í sinni þjónustu og 13% af framleiðsluverðmæti.

Af hverju skyldu 98 erlend fyrirtæki hafa sett upp verksmiðjur í námugrefti eða iðnaði í Noregi? Svarið er ósköp einfalt. á þessum áratugum, sem liðnir eru, hafa Norðmenn lokkað þennan iðnað til sín með lágu raforkuverði. Raforkan í Noregi var þá ódýrari en hún er nú, og hún var ódýrari en hún var sunnar á sjálfu meginlandinu, þannig að mörg félög freistuðust til þess að reisa verksmiðjur til þess að njóta þessarar orku. Sú stefna ríkti þá í Noregi, að Norðmenn mundu sjálfir græða meira á verksmiðjum og iðnaði, sem notaði raforkuna, heldur en raforkuverunum sjálfum. Þeir sáu, að það er aldrei margt fólk, sem vinnur við raforkuverin, en verksmiðjurnar veita hundruðum og þúsundum atvinnu. Raforkuver borga sjaldan mikla skatta, en verksmiðjurnar geta borgað skatta o.s.frv.

Það er fyrst nú á allra síðustu árum, sem Norðmenn hafa breytt um stefnu og hækkað raforkuverðið, en sú stefna er enn í dag umdeild í Noregi. Eftir síðasta ófrið var öll þessi stefna varðandi erlent fjármagn endurskoðuð, og kom fram vilji Norðmanna til þess að fá erlent fjármagn inn í landið, ef það uppfyllti viss skilyrði. Þessi skilyrði hafa verið sett fram í norska þinginu, og þau eru í 8 atriðum. Fyrsta atriðið er að athuga tekjur af viðkomandi hugsanlegum iðnrekstri, hve margt fólk muni hafa af honum atvinnu og hvernig áhrif hann hafi á framleiðslu þjóðarinnar yfirleitt. Atriði nr. 2 er staðsetning og þar kemur byggðavandamálið til greina. Atriði nr. 3 er áhrif þessara útlendu fyrirtækja á innlendan peningamarkað. Þeir gera ráð fyrir því, að þeir verði sjálfir að skaffa fé í þessi mannvirki að einhverju leyti, að þessi erlendu fyrirtæki geti fengið hlutafé eða lán í Noregi, og þess vegna hafa þeir þetta sem þriðja atriðið á listanum. Fjórða atriðið er, hvort um sé að ræða nýja framleiðslugrein eða ekki. Fimmta atriðið er, hvort hægt verði með slíkum fyrirtækjum að flytja inn þekkingu á nýrri tækni, þekkingu á nýjum söluaðferðum eða rannsóknum. Í sjötta lagi er athugað, hvort fyrirtækið muni hjálpa til að tryggja verðlag í viðkomandi iðngrein, hvort það muni veita aðgang að hráefni eða útflutningsmarkaði, sem ella ekki fengist. Í 7. og 8. lið er athugað um ástand viðkomandi iðngreinar og hvort slík útlend fyrirtæki mundu skapa samkeppni við norsk fyrirtæki, sem til eru í landinu.

Ef við bærum þennan lista saman við þá ákvörðun, sem við tökum, ef frv., sem hér liggur fyrir, verður samþ., hygg ég, að svar mundi verða jákvætt við öllum þessum spurningum nema nr. 2 varðandi staðsetninguna. Um það mál hefur mikið verið rætt, og er því fróðlegt að athuga, hvernig því er háttað í Noregi.

Það er viðurkennd staðreynd, að raforkufrekur iðnaður í Noregi hefur verið notaður til þess eins og hægt er að hjálpa byggðum, sem hafa haft lítinn íðnað eða lágar tekjur. Hins vegar er það viðurkennt, að álverksmiðjurnar norsku, sem byggðar hafa verið, hafa fengið sitt fólk frá landbúnaði og fiskveiðum fyrst og fremst. En við skulum athuga, að þessar verksmiðjur eru þrátt fyrir allt svo að segja allar í Vestur- og Suður-Noregi. Ég hygg, að sú nyrzta sé skammt norðan við Þrándheim, eða á svipaðri breiddargráðu og Ísland er. Hins vegar er alvarlegasta byggðavandamál Noregs sjálfur Norður-Noregur, sem er þar fyrir norðan. Það er land, sem ég geri ráð fyrir — ég hef aldrei komið þar — að sé ekkert ólíkt Íslandi. Golfstraumurinn gerir það byggilegt. Það er fiskur úti fyrir, en heldur hrjóstrugt á landi og sjálfsagt virkjunarmöguleikar töluverðir. En þrátt fyrir allt hefur norskum yfirvöldum ekki tekizt að fá eina einustu af þessum stóru verksmiðjum, sem erlendir aðilar eða Norðmenn sjálfir hafa byggt á þessu sviði, inn á sjálft Norður-Noregs-svæðið. Og svo að vikið sé að hinni margumræddu Husnessverksmiðju, þá er hún að vísu á afskekktum stað hvað landsamgöngur snertir. Það er svona eins og að fara frá Þingeyri til Bíldudals að komast frá Bergen til Husness, ef farið er á bát yfir Arnarfjörð. En frá sjó liggur þessi verksmiðja mjög vel við, og mér er sagt, að staðarvalið þar hafi ekki verið einhliða á hendi norskra stjórnvalda, heldur hafi það verið samningsatriði og hvorugur aðilinn hafi verið fullkomlega ánægður með staðinn.

Þá er þess að geta, að þessi tegund af verksmiðjum er aðeins ein af mörgum, sem erlendir aðilar hafa reist í Noregi. Ef við lítum á allan iðnað, sem útlendir aðilar hafa komið á fót í Noregi og athugum, hvar hann er staðsettur, kemur í ljós eftir nýlegum tölum frá 1962, og er þá miðað við fjölda verkafólks, sem við hann vinnur, að 31.6% af þessum fyrirtækjum eru á þéttbýlis- og iðnaðarsvæðum, sem fyrir eru, þ.e.a.s. í Osló, Bergen og Akershus, Östfold og Vestfold. Stefnunni í Noregi er þó ekki fylgt harðar fram en þetta, að þeir hafa ekki getað fengið þennan erlenda iðnað til að fara til Norður-Noregs, þar sem Norðmenn þó þurfa langmest á slíkri hjálp að halda við sína byggðastefnu. Ef litið er á iðnað, sem erlendir aðilar hafa stofnað til í Noregi, eru 31.6% af þessum iðnaði á þéttbýlissvæði nákvæmlega eins og um er að ræða hér. Nú dettur engum manni í hug, að norsk yfirvöld vildu ekki gjarnan fá þessar verksmiðjur líka út á landsbyggðina til að halda fólki þar, en það hefur ekki reynzt kleift, svo að í 1/3 slíkra mála í Noregi hafa Norðmenn orðið að beygja sig fyrir öðrum, væntanlega efnahagslegum atriðum, sem hafa orðið að ráða staðarvali. Hér á Íslandi hefur eðlilega verið mikið rætt um staðsetningu, og get ég endurtekið það, sem ég hef sagt hér áður, að ef þess hefði verið nokkur kostur, hefði ég með ánægju greitt atkv. með því, að verksmiðjan væri reist t.d. á Norðurlandi. Líklega er það hafnleysan á Suðurlandi, sem er okkar mesta ógæfa í þessu eins og svo mörgu öðru, því að mér virðist, að ef góð höfn væri á Suðurlandsundirlendinu, væri ekkert áhorfsmál, að þessi verksmiðja hefði risið þar. Þorlákshöfn var mjög vandlega athuguð, en því miður reyndist kostnaður við að koma þar upp fullnægjandi höfn fyrir verksmiðjuna svo mikill, 500–600 millj., að það var frágangssök. Hins vegar koma menn auga á það í umr., að þeir sömu menn, sem telja, að illa sé samið, raforkuverð sé of lágt, þeir álíta, að verksmiðjan hefði átt að vera á Norðurlandi og allt væri í lagi, ef hún hefði bara verið þar. Þó liggur það fyrir, svo að ekki verður vefengt, að ef verksmiðjan hefði verið reist fyrir norðan, hefði hún orðið að fá frekari efnahagsleg hlunnindi, annaðhvort með enn lægra raforkuverði, lægri sköttum eða einhverju sambærilegu. Í þessum efnum er um mótsögn í málflutningi að ræða.

Hv. 5. þm. Austf. ræddi nokkuð um raforkuverðið í ræðu sinni í gær. En hann sleppti því, sem einn af sérfræðingunum benti álbræðslunefndinni sérstaklega á varðandi raforkuverð, að í þeim efnum verðum við að líta bæði á raforkuverðið og skattana, og það er summan af þessu tvennu, sem segir okkur, hvernig orkusalinn eða landið, sem selur orkuna, fer út úr þessum viðskiptum. Hv. þm. tók það sem dæmi, að Ghana hefði fengið hærra raforkuverð en við. Og það er einkennilegt, þegar rætt er um svona hluti, hvað þessir hörðustu vinstri menn í landinu, eins og sumir ritstjórar Þjóðviljans, tala af mikilli fyrirlitningu um þessar hörundsdökku þjóðir þarna suðurfrá, svo að það er jafnvel svo að heyra, þótt það sé ekki sagt berum orðum, að það eigi að vera sérstakt háðungaratriði, að jafnvel Ghana skuli fá hærra raforkuverð en við. En fá þeir meira út úr raforkunni en við? Þeir fá 2.6 mill fyrir hana frá álverksmiðjunum, sem þar hafa verið reistar. Við fáum 2.5. Í Ghana eru engir skattar lagðir á í 10 ár, það er umsamið fyrir fram. Hér á landi eru lagðir á skattar, sem umreiknaðir í rafmagnsverð nema 1.3 mill, þannig að ef á að bera saman Ísland og Ghana, fáum við út úr rafmagnsverði og sköttum 3.8 mill, en Ghana 2.6. Það er hátt rafmagnsverðið í Grikklandi, enda mun nú sitthvað hafa gengið á þar, áður en verksmiðjan komst í gang. Mér skilst, að hún hafi staðið tæplega ár fullbúin, áður en Grikkir gátu staðið við afhendingu á orkunni, en ég vildi gjarnan fá meiri upplýsingar um skatta og önnur atriði, sem þar koma við sögu, áður en ég felli dóm um það, hvort þeir fari betur út úr þeim skiptum en við. Frakkar eru engin fífl í viðskiptum, en einhver ástæða hlýtur að vera fyrir því, að þrautreynt fyrirtæki taldi gríska verksmiðju með rafmagnsverði á 4.0 mill hentugri fyrir sig en taka þátt í að byggja verksmiðju á Íslandi við 2.5 mill.

Við vitum það og getum ekki gengið fram hjá því, þegar talað er um rafmagnsverðið, að það er fáanleg raforka á töluvert lægra verði en hún verður seld á hér. Og eitt af þessum þrem fyrirtækjum, sem rætt var við um möguleika á þátttöku í byggingu álbræðslu á Íslandi, hætti við að tala við okkur og fór til Kyrrahafsstrandar Bandaríkjanna, en frá virkjun þar fæst raforka fyrir 2 mill.

Eins er það með skattahlunnindi. Þau eru veitt í mjög mörgum löndum nú á dögum og hafa auðvitað mikil áhrif á afkomumöguleika væntanlegra fyrirtækja. T.d. á Írlandi er löggjöf um það að veita útlendum fyrirtækjum, sem vilja byggja þar verksmiðjur, skattahlunnindi um langt árabil. Jafnvel í sjálfum Bandaríkjunum, eins og í Tennessee, er mér sagt, að Svisslendingarnir, sem við okkur sömdu, hafi fengið þó nokkur hlunnindi, sérstaklega varðandi frítt land, vegi og annað slíkt, svo að jafnvel þar er talið nauðsynlegt að gera eitthvað til þess að koma til móts við iðnað, sem menn óska eftir að fá. Í Venezúela er raforkuverð líka töluvert miklu lægra en hér, en þar er verið að byggja stórar álverksmiðjur.

Herra forseti. Ég vildi aðeins skjóta inn nokkrum orðum um þessi fáu atriði á þessu stigi málsins, en vil að lokum segja, að mér finnst lítið nýtt hafa komið fram í þeim umr., sem fara fram um málið. Mér finnst, að stjórnarandstöðunni gangi illa að tína til röksemdir, sem sannfært gætu nokkurn mann um það, að rétt væri að hafna þeim samningum, sem hér liggja fyrir, og mér sýnist, að það komi nú í ljós eftir langar umr. á þingi, eftir birtingu á samningunum í heild, eftir mikil blaðaskrif, að andstaðan gegn þessu máli fær ekki hljómgrunn hjá þjóðinni.