22.04.1966
Neðri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Í þessu stóra máli, sem hér liggur fyrir, finnst mér, að ég geti ekki komizt hjá að segja nokkur orð, til þess að mín afstaða komi fram og það þurfi ekki að efast um síðar, hvernig hún hafi verið og af hvaða ástæðum ég hafi greitt atkv. gegn þessu máli. Hvort sem reynslan í framtiðinni kann að leiða það í ljós, að mín afstaða hafi verið rétt eða röng, þá er rétt, að ég geri grein fyrir henni.

Ég var að undrast það í þessu mikla stórmáli, sem hér liggur fyrir, ég held stærsta máli, a.m.k. finnst mér það, sem komið hefur fyrir Alþ. þau ár, sem ég hef haft hér sæti, hversu fáir af liðsmönnum hæstv. ríkisstj. láta til sín heyra hér um málið. Það er einkennilegt, að þeir skuli ekki stíga hér í stólinn og vitna með ráðh. sínum um þýðingu og nauðsyn þessa mikla máls.

Mér fannst, að hæstv. iðnmrh. hafi í byrjun þessara umræðna, við l. umr., verið með allt að því ósmekklegt orðaval í sambandi við okkur andstæðinga þessa máls, a.m.k. framsóknarmenn, þar sem hann var að tala um það, að formaður Framsfl. hefði lagt beizli við flokksmenn sína. Mér finnst leiðinlegt, að jafnmyndarlegur og prúður maður og hæstv. iðnmrh. er skuli nota slíkt orðaval um andstæðinga sína hér. Þetta á sjálfsagt að merkja það, að við séum allir hafðir í taumi hjá formanni okkar í Framsfl. Ég held, að samkv. sams konar hugsanagangi og þarna er um að ræða og þeirri samlíkingu, sem hæstv. iðnmrh. var með um okkur, að þá mætti samkv. slíkum hugsanagangi segja um hann, að hann hefði bæði mýlt og líka keflað sína liðsmenn, hvað þennan álverksmiðjusamn. snertir, því að fæstir þeirra sjást hér í þingsölum meðan verið er að ræða málið, og varla nokkur þeirra kemur upp orði. Sannleikurinn er auðvitað sá í þessu máli eins og öðrum stærri málum hér, að flokkaböndin eru alltaf sterk, og þau eru það í öllum flokkum. Þau eru það ekki frekar í einum flokki en öðrum, og ég verð að segja það, hvað mig snertir, að mér finnst, að ekki beri að lasta það. Til þess hafa menn valizt saman í flokka, að þeir hljóta, þegar á reynir, að standa saman um mál, ef meiri hlutinn í flokki þeirra hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að hann vilji koma því fram hér á hinu háa Alþ. Mér finnst, að ekki beri að lasta þetta, og mér finnst, að flokksforingjar ættu ekki að vera að hafa óvirðingarorð hvorki um forystumenn né óbreytta liðsmenn annarra flokka af þeim sökum, því að slíkt hrín ekki síður á þeim sjálfum og þeirra mönnum.

Íslenzka þjóðin hún hefur alla tíð síðan hún fór að rétta úr kútnum og sækja fram til nýrrar tækni og framfara, þá hefur hún verið framsækin og hún hefur verið nýjungagjörn og fús til framkvæmda. Þetta held ég, að sé talið vera nokkuð áberandi einkenni á þjóðinni í augum þeirra, sem hingað koma og kynna sér þjóðlíf okkar. Þetta er auðvitað gott og blessað, og það hefur sína kosti, en því geta líka fylgt vissar hættur. Það segir svo gamall málsháttur, að kapp sé bezt með forsjá, og að sá, sem hraðar sér, hann getur stundum misstigið sig. Eins og hverjum manni er það nauðsynlegt að þekkja stærð sína og takmarkanir, þá er eins og ekki síður þjóð nauðsynlegt að gera sér grein fyrir stöðu sinni og möguleikum eins og þeir eru á hverjum tíma.

Íslendingar eru smáþjóð. Þeir eru svo agnar lítil þjóð að höfðatölu, þegar miðað er við aðrar þjóðir, að útlendir menn, þeir skilja varla, að svo lítill hópur manna geti haldið uppi sjálfstæðu menningarríki. Við höfum alltaf verið smáþjóð, frá því fyrsta, að landið var numið. Það er talið af fróðum mönnum, að frá landnámstíð og til síðustu aldamóta, þá hafi aðeins 1 millj. manna náð hér fullorðinsaldri, náð tvítugsaldri eða meira, í rúmlega 1000 ára búsetu þjóðarinnar í landinu. Nú er hins vegar þjóðinni talsvert farið að fjölga, en samt er hún sennilega enn fámennari í samanburði við nágrannaþjóðir sinar en hún áður var, því að þær hafa líka vaxið.

Íslendingum, þeim hafa alla tíð gengið illa öll samskipti við aðrar þjóðir, og veldur þar fyrst og fremst smæð þjóðarinnar. Viðhorf annarra þjóða hafa löngum, og er svo enn, verið svipuð því sem viðhorf risans er til dvergsins eða hins fullorðna manns til barnsins, þegar þeir hafa lítið til okkar. Eina ástæðan til þess, að á okkur hefur verið hlustað og tillit til okkar tekið, er menningarsaga okkar, varðveizla tungu okkar og sagna frá fornum tímum. Þar hefur íslenzka þjóðin lagt heimsmenningunni til þátt, sem er virtur og metinn af þeim, er kunna skil á slíku. Reynsla þjóðarinnar af samskiptum við aðrar þjóðir fyrr á tímum og raunar í ýmsu tilliti allt fram á þennan dag er þannig, að mér finnst, að tortryggni og varfærni af hendi Íslendinga sé ekki aðeins eðlileg heldur einnig bráðnauðsynleg, a.m.k. að mínum dómi, og hentar vel að muna hið forna heilræði Hávamála: „Gáttir allar áður gangi fram um skoðast skyli, um skyggnast skyli“. Það ber okkur að gera, áður en gerðir verði samningar við önnur ríki eða fjársterka aðila í öðrum löndum.

Það sézt bezt á því, hversu smár aðili íslenzka þjóðin er, að fjöldi fyrirtækja og verksmiðja í öðrum löndum hefur fleira fólk í sinni þjónustu en alla verkfæra menn á Íslandi. Það þarf þess vegna engan að undra, þó að ekki geti allir orðið sammála um svo viðurhlutamikið mál eins og það er að leyfa erlendu auðfélagi að reisa og reka hér fyrirtæki, sem á íslenzkan mælikvarða er risavaxið að stærð. Tregða gegn slíku þarf ekki að þýða það, að hún sé sprottin af afturhaldssemi eða andstöðu gegn framförum eins og ég hef bæði heyrt og einnig séð haldið fram, og þeir menn eru stimplaðir afturhaldsseggir, sem ekki gerast talsmenn fyrir slíku fyrirtæki.

Þegar hér hefur verið stofnað til nýjunga í atvinnurekstri af innlendum aðilum, þá hefur það yfirleitt mætt skilningi og stuðningi bæði stjórnmálamanna og almennings. Það má minna á nokkur dæmi um slíkt. Það má nefna Eimskipafélag Íslands, en með því var ráðizt í það að færa siglingar að og frá landinu í innlendra manna hendur. En sú lífsnauðsynlega þjónusta, hún hafði um margar aldir verið í höndum útlendra manna, sem ekki ráku þá atvinnu með hagsmuni þjóðarinnar fyrir augum, heldur sína eigin hagsmuni. Ég hygg, að það muni hafa átt einn mesta þáttinn í efnahagslegri niðurlægingu þjóðarinnar, að hún þurfti að sætta sig við siglingar til landsins af hálfu útlendra manna eingöngu. Þá má nefna áhuga þann og samstöðu, sem verið hefur um flugmálin hér,

og eflingu þess atvinnurekstrar í höndum innlendra manna. Tvær stóriðjuverksmiðjur, Sementsverksmiðjan og Áburðarverksmiðjan, hafa risið hér upp með góðu samkomulagi stjórnmálaflokkanna og almennings. Þá má nefna þau orkuver, sem hér hafa veríð reist til þessa, og á síðasta þingi var samkomulag um heimild handa stjórn Landsvirkjunar til að reisa 210 þús. kw. orkuver í Þjórsá.

Ég hef nefnt þessi dæmi til að sýna fram á það, að hér er enginn öðrum fremri um áhuga fyrir framförum og aukinni tækni, og enginn ágreiningur svo að teljandi sé hefur verið hér um stofnun slíkra framkvæmda né heldur um rekstrarform þeirra, þegar þær hafa verið gerðar fyrir innlent fé eða fyrir lánsfé frá útlöndum og íslenzkir aðilar, einstaklingar, félög eða hið opinbera, hafa verið eigendur og stjórnendur slikra fyrirtækja. Framfaraáhuginn, hefur reynzt einlægur og jafn hjá þjóðinni og samkomulag yfirleitt hjá stjórnmálaflokkunum um það að láta erlenda aðila ekki ná hagsmunaaðstöðu hér í landinu fyrir fjármagn sitt. Þessi afstaða hefur yfirleitt byggzt á þeirri staðreynd, að þjóðin er svo fámenn og auðmagn hennar er svo lítið, að það sé ekki vogandi að hleypa hér inn útlendum atvinnurekendum með stórkapítal.

Stóriðja og stórrekstur útlendra manna hlýtur samkv. eðli sínu og tilgangi að stefna að sem mestum gróða án tillits til hagsmuna þjóðarinnar, og þess erfiðara er að verjast slíku, þar sem þjóðin er fámenn, eins og ég hef áður vikið að, og tiltölulega fátæk, og alltaf hlýtur við slík skilyrði að skapast aðstaða fyrir einhver innlend öfl til hagnaðar af því að styðja eigendur stórrekstrarins. Ef við Íslendingar eigum að geta haldið sjálfstæði okkar og menningararfi, þá verðum við að eiga vakandi og heita þjóðernistilfinningu. Þetta er okkur nauðsynlegra en öðrum vegna fámennis okkar. Þjóðerniskenndin er sterkasta vörnin gegn peningavaldi auðhringa, sem hér geta séð sér leik á borði vegna mikilla orkulinda landsins til að smeygja með samningum, eins og t.d. álbræðslusamningnum, fjötri á okkur efnahagslega.

Það hefur verið sagt í þessum umr., að 25 eða 45 ár séu ekki langur tími í lífi þjóðar, og þetta er satt, en á okkar dögum er reynslan sú og hefur verið sú á okkar tíð, sem nú erum uppi, að atburðirnir gerast ört, og hver áratugur, hvað þá meira, veldur miklu meiri breytingum núna í lífi þjóðarinnar og þjóðanna yfirleitt, ekki sízt hjá okkur hér, heldur en áður var.

Mér hefur skilizt það, að sumir spái því, að á næstu grösum séu nýjar orkulindir, sem muni gera rafmagn ódýrt. Þess vegna sé nú um að gera að flýta sér að ná samningum um álbræðslu hér, og með tilliti til þessara nýju væntanlega ódýru orkulinda, þá megi telja raforkuverð samningsins allgott. Þannig hefur mér skilizt, að röksemdafærsla ýmissa hafi verið. Ekki er að sjá, að þeir útlendu menn frá svissneska alúminíumfélaginu hafi þessa skoðun, því að þá væru þeir auðvitað ekki að byggja álbræðslu bæði í Noregi og hér, sem knúðar eru með raforku frá vatnsafli, og flytja til þeirra hráefni um hálfan hnöttinn. Þeir hefðu heldur, ef þeir tryðu á það, að ódýr orka frá kjarnorkurafstöðvum væri á næsta leiti, beðið og búið sig undir að taka á móti slíkri orku og byggja slíkar stöðvar, þar sem hráefnið er, og losna þannig við dýra raforku og hina mjög svo dýru efnisflutninga. Ég hygg þess vegna, og mér finnst líta út fyrir það, að þeir trúi ekki mjög mikið á spádómana um ódýrar kjarnorkuknúðar rafstöðvar á nálægum tímum.

Ég álít vera stórhættulegt fyrir okkar litlu þjóð að hleypa inn í landið útlendum atvinnurekendum með stórkapítal til fjárfestingar í landinu, því að það getur aldrei hjá því farið, að slík fyrirtæki hafi margvísleg áhrif á málefni þjóðarinnar, ef ekki beint, þá óbeint á ýmsa vegu, og þá þarf skemmri tíma en 25 ár, að ég nú ekki tali um 45 ár, til þess að slíkt peningavald sem atvinnurekandi og eigandi stóreigna geti ekki á ýmsan hátt sveigt smáþjóðina til afstöðu, sem er fyrirtæki þeirra heppileg. Hjá mannfleiri þjóðum, jafnvel þó að þær teldust smáþjóðir, er slík hætta miklu minni.

Íslendingar eru sem svarar 1 á móti 19 eða 20, þegar miðað er við fólksfjölda Noregs. Allir geta nú séð, hversu miklu hægara það er fyrir Norðmenn að hafa í landi sínu atvinnurekstur erlendra fésýslumanna, þar sem þeir eiga miklu fjölbreyttara atvinnulíf sjálfir heldur en við og eru okkur tvítugfalt fjölmennari. Enda er raunin sú, að þegar Svisslendingar, sem eru að byggja álverksmiðju í Noregi, vilja koma á fót álbræðslu einnig hér og kaupa af okkur til þess raforku, þá semja þeir við íslenzka ráðamenn um miklu hagstæðari kjör fyrir sig en þau, sem þeir urðu að ganga að í Noregi.

Íslenzka ríkisstj. hefur auðvitað viljað fá sem bezta samninga við Svisslendingana, en henni virðist vera það svo mikið áhugamál að koma hér á fót stóriðju á vegum útlendinga, að hún gerir sér að góðu samninga, sem eru verri fyrir íslenzku þjóðina en samningar við sama félagið eru um sams konar mál fyrir norsku þjóðina. Þessi mikli áhugi hæstv. ríkisstj. á því að fá hingað til landsins auðugt stóriðjufélag til að koma upp og reka hér stóriðju er að mínum dómi alleinkennilegur, ekki sízt, þegar á það er litið, hvernig ástatt er í atvinnumálum, þar sem allir atvinnuvegir eiga í vandræðum vegna skorts á vinnuafli og árlega er hér að starfi fjöldi útlendra manna.

Það væri nokkru öðru máli að gegna, ef atvinnuleysi væri eða svo háttaði til, að einhverjar atvinnugreinar mættu þjóðinni að skaðlausu dragast saman. En svo er ekki, a.m.k. fæ ég ekki séð, að svo sé. Og eitt af því, sem ég óttast við erlenda fjárfestingu hér á landi í svo stórum stíl sem verða mun afleiðing af samningnum við hið erlenda auðfélag um stofnun og rekstur álverksmiðjunnar hér, er það, að þegar svo sterkur auðhringur sem hér er um að ræða er farinn að starfa hér á landi, þá getur svo farið, sem skeð hefur í ýmsum löndum, svo sem á Kúbu og viðar, að eignir Íslendinga dragist smátt og smátt úr höndum þeirra sjálfra og í hendur hinna erlendu aðila. Það er eðli fésýslumanna yfirleitt að beita fjármagninu til þess að leggja undir sig lönd og landsgæði og efla vald fjármagnsins til áhrifa í hverju því þjóðfélagi, þar sem þeir eru með það starfandi. Smáþjóðin er í mikilli hættu fyrir slíku, og í raun og veru getur ekkert bjargað frá slíkri hættu annað en vakandi þjóðerniskennd og þjóðarstolt og sjálfstæðisvilji. Þetta þarf allt að fara saman og vera fyrir hendi. Svipa af því tagi þarf sífellt að hanga yfir höfði þeirra, sem eiga að annast samninga fyrir þjóðarinnar hönd við útlendingana og gæta hagsmuna íslenzku þjóðarinnar.

Mér finnst, að samningur sá, sem hér liggur fyrir og gerður hefur verið af hinni íslenzku ríkisstj. fyrir milligöngu hæstv. iðnmrh., sé ekki gerður af nógu mikilli aðgát um þetta. Mér finnst, að þeir íslenzku ráðamenn, sem þar áttu hlut að máli, hafi ekki verið nógu beinir í baki. Það er eins og þeir hafi beygt sig og teygt sig eftir hinu útlenda fjármagni, það sýnir raforkuverðið, sem þeir hafa sætt sig við. Þeir hafa ekki staðið eins beinir og stoltir gagnvart útlendu gulli og Egill Skallagrímsson, og var hann þó talinn manna fégráðugastur um sína daga. En þegar Egill var staddur í höll hins auðuga og volduga Aðalsteins Englandskonungs, og konungurinn vildi launa Agli vel dygga fylgd og reyna á fégræðgi hans um leið, þá renndi konungurinn digrum gullbaug á sverðsodd sinn og rétti að Agli og ætlaðist til þess, að Egill beygði sig eftir gullinu og tæki við því með berum höndum. En Egill hélt stolti sínu og fullri reisn. Hann dró sverð sitt úr slíðrum og dró til sín fingurgullið Aðalsteins konungs með sverðsoddi sínum. Þannig hélt hinn íslenzki höfðingi fullri reisn sinni og sjálfsvirðingu gagnvart erlendum valdsmanni og lét ekki ginnast til auðmýkjandi viðurtöku fjárins, þótt honum þættu góðir fjársjóðir þeirra tíma og hinn rauði málmur betri en allt annað.

Mér finnst sagan af Agli í höll Aðalsteins eitt af beztu gullkornunum í íslenzkum bókmenntum. Sú saga ætti að vera lesin og lærð í hverjum unglingaskóla þessa lands til að kenna hverri kynslóð að meta meira sjálfsvirðingu sína og þjóðarmetnað en gull, sem að þeim er rétt á sverðsoddi auðhyggjunnar af síngjörnum samningamönnum.

Þrátt fyrir það, þó að ég sé stjórnmálaandstæðingur þeirra hæstv. ráðh., sem mestu hafa ráðið af Íslendinga hálfu um gerð alúminíumsamningsins eða álsamningsins, þ.e.a.s. hæstv. forsrh. og hæstv. iðnmrh„ þá met ég báða þessa menn mikils og veit, að þeir vilja þjóð sinni vel. En mér finnst, að þeir hefðu ekki átt að vera svo bráðlátir til að gripa gullið, sem Swiss Aluminium rétti til þeirra á sverðsoddi sínum. Mér finnst þeir hafi teygt sig of langt til að ná því. Þeir hefðu að mínum dómi átt að rétta fram eftir slíku gulli sverðsodd íslenzkrar varfærni og þjóðarstolts, og þá gæti verið, að samningur sá, sem hér er nú verið að ræða, væri annaðhvort ekki fyrir hendi eða þá hagstæðari en raun ber vitni um.

Eitt af því, sem dregið hefur verið inn í umr. um álverksmiðjusamninginn, bæði hér á hinu háa Alþ. og einnig í blöðum, og átt hefur að sanna fánýti andstöðunnar gegn samningnum og einnig átt að koma afturhaldsstimpli á þá, sem andmælum beita og gagnrýni á álverksmiðjusamninginn, er það, að þeim hefði mjög skjátlazt, sem á sínum tíma beittu sér gegn samningi Hannesar Hafstein við Stóra norræna ritsímafélagið um lagningu sæsímans til Íslands og síðan símalagninguna um landið. Þeir menn, sem stóðu fyrir andstöðu við þann samning og gegn þeirri framkvæmd og beittu sér á móti Hannesi Hafstein í því máli, þeir gerðu það ekki af andstöðu við framfarir, ég fullyrði það, heldur af því, að þeir töldu aðra aðferð til að koma fjarskiptasamböndum á vera betri, ódýrari og meira í samræmi við nýjustu uppfinningar á því sviði. þeir töldu, að þráðlaust samband væri það, sem koma mundi. Eftir því ætti að bíða, og þess vegna vildu þeir fresta málinu. Þetta var höfuðástæðan fyrir þeirri andstöðu, sem uppi var þá gegn simamálinu, en engin afturhaldsmennska eða hræðsla við framfarir.

Það er ein stétt manna sérstaklega, sem hefur í seinni tíð, — og hefur það einnig komið fram í þessum umr. og sézt einnig um það rætt í blöðum, — verið stimpluð afturhaldssöm á þeim tíma, þegar simamálið var á dagskrá, en það er bændastéttin. Hún hefur verið sérstaklega tekin fyrir og stimpluð sem afturhaldsstétt á þeim tíma að minnsta kosti í þeim umr., sem fram hafa farið. Ég hef bæði heyrt rætt um það og séð um það ritað. Mig langar að fara um þetta nokkrum orðum.

Samkv. samtímaheimildum frá 1905, þegar þetta gerðist, þá komu nokkrir bændur hér til Reykjavíkur til þess að taka þátt í mótmælafundi gegn símasamningnum. Blaðið Fjallkonan birti fréttir af því, hvaðan þessir menn hefðu verið og hvað þeir hefðu verið margir. Hún sagði, að hátt á þriðja hundrað manns hafi komið til Reykjavíkur til þess að mótmæla símasamningnum. Og hún segir, að yfirgnæfandi meiri hl. þessara manna, sem komu, hafi verið úr Gullbringu- og Kjósarsýslu og Hafnarfirði, og svo eru hinir taldir upp og sagt, að úr Rangárvallasýslu hafi verið 34, úr Arnessýslu verið 20 menn, úr Borgarfjarðarsýslu 11 og af Mýrum 24.

Ég hef veitt því athygli, að oftast er það talið, að bændur í Árnes- og Rangárvallasýslum hafi verið höfuðandstæðingar símamálsins, beitt sér mest gegn því og í raun og veru verið einir, sem riðu til Reykjavíkur um sumarið 1905 til að andmæla símasamningnum. Sannleikurinn er sá, eins og sést á því, sem ég hef sagt um þá, sem mættu hér í Reykjavík til þess að andmæla símasamningnum, að þá var meginhluti þeirra úr nágrenni Reykjavíkur og Hafnarfirði og sunnan með sjó. En andófið gegn símasamningnum var fyrst og fremst byggt á því, að menn bjuggust við því, að þráðlausa sambandið væri það, sem koma mundi og verða bæði öruggast og ódýrast, og þess vegna vildu þeir bíða.

Þó að þessir atburðir, sem ég hef hér nefnt, gerðust fyrir mína daga, þá er ég nú orðinn það gamall samt, að ég kynntist ýmsum bændum á mínum yngri árum, sem voru í þessari suðurreið sumarið 1905 til þess að mótmæla símasamningnum, og ég get vel um það borið af persónulegum kynnum mínum af sumum þessara manna, að þeir voru meðal hinna ötulustu framfaramanna og leiðtoga í framfaramálum um sína daga í sínu héraði. Þess vegna þykir mér hart að hlusta á það og lesa um það í blöðunum hvað eftir annað, að þeir hafi verið afturhaldsmenn fyrir það eitt, að þeir, ásamt mörgum mönnum úr öðrum stéttum, vildu láta athuga aðrar leiðir jafnframt símalagningarsamningnum til að koma á fjarskiptasambandi um landið og við önnur lönd.

Það breytir engu í þessu máli, þó að aðrir, þ.e.a.s. þeir, sem símasamningnum voru fylgjandi, reyndust vera svo heppnir að hafa haft rétt fyrir sér. Báðir málspartarnir vildu landi sínu vel alveg eins og nú í þessu álverksmiðjumáli, og auðvitað eru allir nú í dag á einu máli um að óska þjóð sinni hins bezta í þessu máli og að álverksmiðjusamningurinn, ef hann nær samþykki hér á hinu háa Alþ., sem ekki þarf að efa, — þá vilja auðvitað allir, einnig þeir, sem eru honum andstæðir í því formi, sem hann er, óska þess, að þjóðinni megi reynast hann betur en hægt er nú að gera ráð fyrir.

Í samskiptum við útlendinga er mér varfærnin efst í huga, eins og ég tók fram þegar í upphafi máls míns. Frá þeim tíma, er ég var enn barn að aldri, er mér minnisstætt, hvernig Íslendingar glopruðu út úr höndunum á sér í hendur útlendra auðfélaga t.d. vatnsréttindunum í Þjórsá. Þá voru eigendur vatnsréttindanna í Þjórsá ginntir með útlendu gulli og fögrum framtíðarfyrirheitum um stórkostlegar framkvæmdir útlendinga hér á landi og gullstraumi inn í landið. Þeir voru ginntir á slíkum forsendum til þess að selja þessi miklu vatnsréttindi. Tímanna rás var okkur svo hliðholl í því, að við gátum aftur náð til okkar þessum eignum, en eins og kunnugt er beitti Hermann Jónasson sér fyrir því, að landið keypti vatnsréttindin aftur af þeim útlendu aðilum, sem höfðu náð þeim frá okkur, fyrir að vísu talsvert fé þá, en sem þó var einskis virði samanborið við það að eiga og ráða einir yfir þessum miklu auðæfum.

Þá mætti muna ásókn útlendinga í að ná til sín eignarréttinum á Gullfossi. Þeir höfðu náð honum hálfum og íslenzkir áhrifamenn sóttu fast að koma hinum helmingnum einnig í eigu útlendinga. Það var íslenzk alþýðukona með glóð ættjarðarástar og þjóðernistilfinningar í brjósti, sem bjargaði málinu þannig, að ekki varð skaði og skömm af fyrir okkur. En hvernig var litið á Sigríði Tómasdóttur í Brattholti þá af þeim, sem vildu selja útlendingum Gullfoss allan? Hún var talin sérvitur og fávís að vilja ekki peninga. Það verða margir af gullinu ginntir, en Sigríður í Brattholti vildi heldur hafa fallegasta foss landsins í eigu þjóðarinnar en nokkur þúsund kr. í handraða.

Þau ráð, sem voru runnin frá tilfinningum Sigríðar í Brattholti, þau reyndust þjóðinni drýgri til heiðurs og hamingju en köld ágirnd og auðhyggja hinna lærðu manna, sem stóðu í samningum við fulltrúa erlends peningavalds.

Einar Þveræingur vildi ekki láta Grímsey til útlends valdamanns, þótt í móti væri lofað vináttu og vildarkjörum. Einar hefur með þeim ráðum sínum skapað sér ódauðlegt nafn í Íslandssögunni. Þau Einar Þveræingur og Sigríður í Brattholti eru bæði fulltrúar hins heilbrigðasta og bezta í þjóðarsálinni. Fólk með slíkum hugsunarhætti eru fulltrúar auðhyggjunnar vanir að tala um sem sérvitringa og orð þess eru oft kölluð tilfinningavæl.

Geysir í Haukadal er talinn eitt furðulegasta og stórfenglegasta náttúrufyrirbrigði sinnar tegundar í heiminum. Útlend fésýsluhugsjón þóttist eygja gróðamöguleika í sambandi við Geysi, og hann var seldur útlendingum. Ég man, að mér þótti sárt og mörgum öðrum á mínum æskuárum að þurfa að þola það, að Íslendingar ættu ekkert í Geysi. En svo gerðist það, að íslenzkur maður, Sigurður Jónasson, gat náð Geysi í sína eign, og svo gaf hann landinu þennan heimsfræga hver. Slíkt verk verður aldrei fullþakkað, en sagan mun launa hverjum eftir verðleikum. Nafn Sigurðar Jónassonar lifir þar af þessu verki og fleirum honum til ævarandi heiðurs.

Mér þótti líka hart, þegar ég var ungur, að hin sögufrægu höfðingjasetur, Haukadalur og Bræðratunga í Biskupstungum, þau voru bæði komin í eigu útlendra manna, en sem betur fór voru eigendurnir veglyndir menn, sem létu íslenzku þjóðina fá þessar eignir aftur í sínar hendur.

Ég hef drepið á og rakið þessi dæmi til að sýna, hvað ég m.a. hef í huga, þegar ég tel, að smáþjóðin þurfi að fara varlega í öllum samskiptum við auðmagn erlendra manna. Smáþjóðin íslenzka er veik fyrir fépyngjum auðmanna, eins og þau dæmi, sem ég hefi drepið á, sanna, og flest viðskipti okkar við erlenda fulltrúa eða eigendur peninga hafa okkur þunglega gengið, og við þurfum í slíkum viðskiptum að búa vel um rétt þjóðarinnar til að njóta landsins og gæða þess. Við eigum, fólkið, sem býr í þessu landi, að eiga hér forgangsrétt, og við eigum, að tryggja þann rétt fyrir niðja okkar. Ég óttast, að þegar erlent auðfélag er komið með stóreignir og stóriðju hér inn í land okkar, þá seilist þetta félag eða einstakir menn, sem því eru áhangandi, eftir þeim landssvæðum og landsnytjum og landsgæðum, sem þeim sýnast gróðavænlegastar. Og hverjir eru þá, sem geta hamlað á móti? Það mun hafa hent ýmsar fátækar þjóðir að missa allt það bezta af sínum landsgæðum í hendur útlendra, auðugra manna, og síðan hafa slíkar þjóðir orðið eins konar hjú eða þrælar þeirra, sem fjármagnið eiga og í flestum tilfellum flytja gróðann af eignum sinum í burtu til sinnar fósturjarðar. Margar blóðugar uppreisnir hafa á síðustu áratugum átt sér stað af þessum sökum, þegar hið kúgaða fólk hefur með einhverjum hætti verið að reyna að hrista af sér okið.

Ég minntist áðan á það, að Þjórsá var á tímabili komin í eigu útlendinga, en fyrir framsýna forystu Hermanns Jónassonar náði ríkið vatnsréttindunum í sinar hendur. Það var gæfuverk fyrir þá, sem að því stóðu, og mætti gjarnan halda því á lofti meira en gert hefur verið.

Það er um eitt ár liðið nú, síðan hér var samþykkt á Alþ. að stofna til svokallaðrar Landsvirkjunar og veita henni heimild til að virkja 210 þús. mw. í Þjórsá. Ég var einn af þeim, sem samþ. þetta og tel, að þetta sé gott mál og geti reynzt þjóðinni gagnlegt. Þjóðina skortir mjög raforku, og því er mjög nauðsynlegt að taka dálítið brot af vatnsaflí landsins og breyta því í raforku, sem þjóðin getur notað til ljóss og hita og til að knýja stritandi vélar.

Ráðagerðirnar um fyrstu virkjun Þjórsár eru þannig, að þar sé hægt að byrja með 70 mw. aflstöð. Slík virkjun er ekki meira stórvirki en svo, eins og margbúið er að sanna hér í þessum umr., að hún er, miðað við núverandi aðstæður, hlutfallslega minna fyrirtæki en það var á sínum tíma að virkja Sogið. Ég tel, eins og málum þjóðarinnar er háttað í dag með verðbólgu og vinnuaflsskorti, þá hefði verið heppilegasta leiðin að virkja í byrjun aðeins fyrsta þrepið af því afli, sem Þjórsá við Búrfell getur gefið og leysa á þann hátt rafmagnsþörf þjóðarinnar, a.m.k. hér á Suðvesturlandi, en bæta þá ef til vill heldur við raforkuframleiðslu í öðrum landshlutum með viðbótarvirkjunum þar.

Þó að ég sé alls ekki mótfallinn stóriðjuframkvæmdum hér á landi, sem lytu yfirráðum innlendra manna, þegar þörf væri fyrir þær vegna atvinnuaukningar og aðstæður væru að öðru leyti fyrir hendi, þá tel ég, að á öðru riði meira nú, og þess vegna hefðum við ekki átt að virkja meira í byrjun en þau 70 mw., sem fyrsta virkjunarþrepið í Þjórsá við Búrfell gefur. Það hefði leyst raforkuþörfina í bili, og við hefðum getað aukið hæfilega á þann hátt þann visi að stóriðju, sem við höfum, en eins og allir vita, þá þurfum við að auka áburðarframleiðsluna mjög verulega og gera hana fjölbreyttari. Sementsframleiðsluna mun einnig þurfa að auka, og hér hygg ég að biði okkar mikið verkefni í þessu landi á næstu tímum að koma upp skipasmiðaiðnaði. En ég hygg, að slíkur iðnaður þarfnist nokkuð mikillar raforku.

Ég tel, að þessi iðnaður, sem ég hef nefnt, áburðarog sementsframleiðsla og skipasmíðar, gæti staðizt alla samkeppni við aðrar þjóðir eða framleiðendur meðal annarra þjóða, ef raforkuverð til slíkrar starfsemi væri jafnlágt og það er til álbræðslunnar. En það hefur komið í ljós, að verksmiðjan á að fá raforkuna fyrir um 28% lægra verð en Norðmenn selja sama félagi raforku á til álbræðslu.

Ég ætla ekki að segja annað um raforkuverð samningsins en það, að sé þetta verð, sem er 28% ódýrara en í Noregi, hagstætt fyrir okkur, þá get ég ekki annað skilið en alls konar iðnaður, sem notar raforku, hljóti að geta hér lifað og dafnað, ef hann fær að njóta sömu eða hliðstæðra kjara, og ég trúi ekki öðru en forsvarsmenn og eigendur íslenzkra iðnfyrirtækja risi fljótt upp og krefjist jafngóðra kjara fyrir sín fyrirtæki eins og óskabarnið í Straumsvík á að njóta eða fá.

Það vilja margir efast um, að þótt Þjórsárvirkjun við Búrfell gefi ódýrustu orku, sem hér er hægt að fá vegna hinna hagstæðu virkjunarskilyrða, sem þar eru fyrir hendi, að þrátt fyrir það sé hægt að selja orkuna svo ódýrt sem hér er gert ráð fyrir í álbræðslusamningnum. Eru ýmsar ástæður taldar mæla gegn þeim útreikningum, sem raforkuverðið er byggt á, og nefndar þó nokkuð hærri upphæðir á framleiðslueiningu. Um þetta þori ég leikmaðurinn ekki að dæma. Ég skal játa, að ég hef trú á því, að Þjórsá sé góð til virkjunar. Hún er vatnsmesta fljót landsins og hefur gífurlega stórt afrennslissvæði. Hún er að vísu að mestu mynduð af jökulvatni, en ég hygg, að ekki þurfi að óttast vatnsskort. Ýmsir telja þó, að ís og krapastíflur geti valdið truflunum á vatnsrennslinu. Þessa hættu hef ég aldrei verið mjög hræddur við. Ég tel að vísu, að slíkar truflanir séu alls staðar fyrir hendi hér á landi í öllum ám og Þjórsá sé þar engin undantekning. En ég held, að nútíma tækni muni geta minnkað þessar hættur alls staðar, hvar sem rennslisvirkjanir eru gerðar. Til þess að raforkuþörfinni verði fullnægt, þegar ístruflanir verða við virkjunarstaði, eru settar

upp svokallaðar vara- eða toppstöðvar, og er þá orkugjafinn venjulega olla. Engin virkjun er nú gerð án slíkrar fyrirhyggju. Ég get ekki annað en látið það koma hér fram, að mér þykir einkennileg sú ráðagerð, sem talað er um í sambandi við fyrirhugaðar toppstöðvar vegna Þjórsárvirkjunar við Búrfell, en það er sú hugmynd að virkja Háafoss í Fossá sem toppstöð. Er talið, að þar sé hægt að fá yfir 100 mw. virkjun, et ég hef tekið rétt eftir, vegna hinnar miklu fallhæðar,, þó að ekki sé vatnsmagn þarna mjög mikið. Ég hygg, að þegar frost og hríðar verða á fjöllum uppi, verði nú fremur lítið úr Fossá, ef ég þekki hana rétt. Þá held ég, að Háifoss sé ekki annað en klakadröngull eða svona eins og grýlukerti í laginu, og Fossá vitanlega botnfrýs. Þetta gerist auðvitað á sama tíma og helzt er hætta á ístruflunum í Þjórsá. Hvernig má það þá gerast, að Háafossvirkjun geti bjargað sem toppstöð? Það væri fróðlegt fyrir mig og aðra leikmenn á þessu sviði að fá skýringar á því. Mér virðist, að heilbrigð skynsemi geti varla skilið, hvernig Háafossvirkjun geti verkað sem toppstöð, þegar ístruflanir minnka orkuframleiðslu Þjórsárvirkjunar, þótt hitt sé auðskilið, að Háafossvirkjun getur gefið mikið afl, þegar vötn eru ófrosin með eðlilegu rennsli og að vel megi trúa því, að slík virkjun geti á sumardögum og við heppileg veðurfarsskilyrði gefið það afl, sem um hefur verið talað.

Reynsla okkar Íslendinga af kostnaðaráætlunum er yfirleitt sú, að þær standast helzt aldrei, og það munar oftast miklu. Ég trúi því öllum slíkum útreikningum varlega, og ég verð að segja það, að þetta skrautlega rósaverk um Háafoss í öllum þessum áætlanagerðum er mjög tortryggilegt í mínum augum, þótt ég vildi gjarnan, að því mætti treysta og trúa.

Þá vil ég segja það um staðsetningu álbræðslunnar, að ég tel, að ríkisstj. hefði átt, úr því að hún var svo ákveðin í að koma hér á fót stóriðju, að nota tækifærið og setja skilyrði um staðsetninguna þannig, að áhallinn í byggðajafnvæginu ykist ekki við álbræðsluna, heldur hefði með stofnun hennar verið eins og tekið dálítið í og hallinn jafnaður að nokkru.

Ég veit, að nokkrar tekjur, sem af álbræðslustarfseminni drjúpa til ríkisins eða þjóðarinnar, eiga skv. frv. um Atvinnujöfnunarsjóð að fara út um land til eflingar atvinnulífinu þar. Þetta er auðvitað betra en ekki neitt. En spá mín er nú samt sú, að þetta komi ekki að sama gagni og því, ef álbræðslan hefði verið staðsett utan þéttbýlisins hér, og svo eru þessar fyrirhuguðu tekjur til Atvinnujöfnunarsjóðs of litlar til að þær geti haft afgerandi áhrif til stöðvunar fólksflutninga frá þeim stöðum, sem koma til með að njóta þeirra.

Sá hluti álbræðslusamningsins, sem er að öllu leyti óaðgengilegastur, er í 46. og 47. gr. hans, þar sem því er slegið föstu, að íslenzkir dómstólar séu ekki þeir einu, sem um ágreiningsmálin fjalla, heldur sé hægt að skjóta þeim til dómstóls erlendis, ef ágreiningur verður. Hvenær skyldi auðhringurinn vilja láta íslenzka dómstóla dæma í málum sínum? Ég hygg, að það kunni að fara svo, að það verði seint, hann muni yfirleitt vilja skjóta þeim annað en til íslenzkra dómstóla. Mér finnst, að með þessu ákvæði sé eins og Ísland hafi misst hluta af sjálfstæði sínu meðan samningurinn gildir. Þetta er alvarlegasti hluti samningsins, þar sem að eigendur álbræðslunnar eru undanþegnir því að þurfa að hlíta íslenzku réttarfari og úrskurðum íslenzkra dómstóla. Ég skal fúslega játa það, að ég er ekki kunnugur hliðstæðum samningagerðum með öðrum þjóðum, og því spyr ég: Hvar eru dæmi um slíkt annars staðar milli ríkis og erlends fyrirtækis, hvar eru slík dæmi?

Ég hef frá því að ég var unglingur að aldri verið mjög eindreginn þjóðernissinni. Það kannske hljómar illa, en það verður að hafa það, ég segi það eins og það er. Ég hef verið eindreginn þjóðernissinni, og ég treysti útlendu gróðafélagi illa til að fara svo með aðstöðu þá, er það fær með samningnum, að það ekki seilist hér í okkar fámenna landi til eigna og áhrifa, eins og ég áður hef vikið hér að. Og ég tel stóriðju af því tagi, sem hér er um að ræða, ótímabæra vegna þess atvinnuástands, sem er í landinu, og muni hún beinlínis auka á þá hættulegu óðaverðbólgu, sem hér er nú fyrir. Ég tel, að tilraun með slíka stóriðju hefði þó verið hægt að þola, ef til vill með hagstæðari samningum, ef hún hefði verið látin með raunhæfum hætti leysa hluta af byggðajafnvægisvandanum með því að vera staðsett utan mesta þéttbýlisins við Faxaflóa.

Ég hef haldið því fram og er sama sinnis enn, að hver þjóð eigi að verja og varðveita efnahagslegt og pólitískt frelsi sitt og varðveita þannig fyrir alda og óborna frumburðarrétt hvers þegns. Ég tel, að slík þjóðernisstefna þurfi á engan hátt að koma í veg fyrir góð samskipti við aðrar þjóðir, nema síður sé. Engum er nauðsynlegra en smáþjóðinni að fara varlega með fjöregg sitt og koma fram af varfærni gagnvart erlendum ríkjum eða fésterkum aðilum.

Með þessum fáu orðum, þá hef ég nú viljað gera grein fyrir því, af hverju ég hef greitt atkv. á móti frv. um lagagildi samningsins og mun gera enn við þessa síðustu umr. hér í deildinni.